Upphitun: Nágrannaslagur á Anfield

„I never had a month so exciting like this with such important and exciting matches every three days. So it will be amazing“ – Thiago Alcantara um apríl 2022.

Þetta sagði miðju meistarinn okkar fyrir nokkrum vikum og ekki er hægt að andmæla því. Svo hrikalegur hefur mánuðurinn verið að maður nær varla að verða almennilega stressaður fyrir leiki gegn erkifjendum eins og United og Everton. En blánefjarnir eru næstir á dagskrá hjá okkar mönnum (eftir að við unnum stærstu fjendurnar 4-0). Hver einasti leikur er risaleikur þessa daga.

Everton í dag

Þekkt vandamál er hversu erfitt er að dæma um hversu miklum árangri er hægt að ætlast til að fótboltalið nái ár hvert. Klúbbar eru til í öllum stærðum og gerðum, frá Real Madrid og að Reyni Fáskrúðsfirði. Auðvitað ætlast enginn til að þessi lið nái sama árangri, en eftir því sem liðin sem valin eru af slíku handahófi eru nær hvor öðru, bæði bókstaflega og í töflunni, því erfiðara verður þetta. Ýmis módel hafa verið sett up til að reyna að sjá fyrir árangur, launakostnaður er ekki slæmt módel, en það sem algengast er að nota er hversu mikill peningur hefur verið settur í að kaupa leikmenn í liðið. Ef þú tekur peninginn sem hefur verið settur í að kaupa leikmenn í liðið, tala nú ekki um ef þú nærð að gera ráð fyrir verðbólgu á fótboltamarkaðanum, setur þetta upp í töflu og þá töflu við hliðina á raunverulegu töflunni, ættirðu að fá nokkuð góða mynd af því hvaða lið eru að standa sig vel, hvaða lið eru á pari og hvaða lið eru Everton.

Líkt og hefur verið gert með Liverpool á tíunda og fyrsta áratugnum og United (sem við unnum 4-0 í vikunni) síðastliðinn áratug, væri hæglega hægt að skrifa frábæra bók um rekstur Everton síðan Farhad Moshiri keypti stóran hlut í félaginu 2016. Vinnutitill: Hvernig á ekki að reka fótboltafélag.

Við getum byrjað á því augljósa: Hvað eiga David Unsworth, Ronald Koeman, Sam Allardyce, Marco Silva, Duncan Ferguson, Carlo Ancelotti, Rafa Benitez og Frank Lampard, fótboltalega, sameiginlegt? Ekkert nema að hafa þjálfað Everton og leikmannahópurinn þeirra ber þess merki að menn hafa verið að kaupa hver í sína átt á þessum árum. Fyrir meira en hálfan milljarð punda, fyrir verðbólgu!!!

Þeir hafa eytt í leikmenn töluvert meira en Liverpool á þessum tíma, hvort sem við tökum tillit til sölu eða ekki. Hverju hafa þessar fjárfestingar skilað liðinu? Engu. Þegar þetta er skrifað eru fínustu líkur á að Everton verði í fallsæti þegar leikar liðanna hefjast á morgun. Hópurinn er smekkfullur af rándýrum leikmönnum sem passa engan veginn saman, fiskisagan segir að stór hluti hópsins sé ekki með fallklásúlu í samningnum og ef þeir hrynja niður um deild er ekkert öruggt að þeir nái að selja dýru leikmennina frá sér.

Algjört hliðaskref: Getur einhver sérfærðingur í samningatækni útskýrt afhverju það er ekki ekki fallklásúla í öllum samningum í efstu deild?

Þannig að Everton er að berjast fyrir lífi sínu. Um daginn las ég einhverstaðar þessa gullnu setningu: Manchester United (minntist ég á að við unnum þá 4-0?) eru bara ríkari útgáfa af Everton. Mér finnst þetta ósanngjarnt gagnvart Everton. Blánefjarnir eru að berjast með kjafti og klómi nú í lok tímabils. Lélegir? Já. Baráttuglaðir? Hrikalega.

Þeir hafa ekki sótt nema eitt stig á útivelli síðan í desember, en eru í séns á að bjarga sér ef: A) Burnley ná ekki að klára tímabilið með trompi og B) Þeir ná að halda sínu striki á heimavelli. Frank Lampard er stemningskall og hefur klárlega náð stuðningsmannahópnum á sitt band, það er svo spurning fyrir sumarið og næstu ár hvort hann á eitthvað erindi hjá stórum klúbb eins og Everton.

Tímabilið sem Liverpool vann Meistaradeildina fór liðið á Goodison í mars og tapaði tveim stigum. Það reyndust vera síðustu töpuðu stig þess tímabils og síðan þá hafa margir Everton menn montað sig af að hafa kostað Liverpool titilinn það ár. Þeir myndu elska að geta stolið stigum af okkar mönnum og fagnað aftur að hafa kostað okkar menn titilinn.

“Ekki gleyma, hér er jafntefli sigur, hér er jafntefli sigur” -Frank við sjálfan sig fyrir leik

Þess vegna er maður ekki beint rólegur fyrir þennan leik. Það, og að síðustu ár hafa Everton menn gert það að list að tækla okkar menn útúr tímabilum. Maður vonar auðvitað að allir komi heilir heim eftir þennan leik, það væri sigur útaf fyrir sig.

Okkar menn – Allt eða ekkert

Það er lok apríl og Liverpool á ennþá raunhæfan séns á öllum titlum sem eru í boði. Einn leikur í enskan bikar, þrír leikir í Evrópubikar og sex leikir í deildinni, ef eitthvað lið væri svo fallegt að taka stig af hinu bláklædda liðinu sem við þolum ekki. Hver einasti leikur er risavaxinn þessa daga.

Það vinnur með okkar mönnum að við vitum að þeir kunna að vera undir svona pressu. En ekkert má útaf bregða. Eini leikmaðurinn sem er með spurningamerki yfir sér er Firmino, en hópurinn er nógu breiður til þess að hann þarf ekki að spila.

Ég held að Klopp stilli þessu upp með það í huga að leikmenn þurfa að geta barist. Andy, Trent (þetta er eini leikurinn sem mér finnst mögulegt að Gomez byrji en spái samt Trent), Van Dijk og Konate standa aftastir. Fabinho, Hendo og Keita á miðjunni. Mané fær að pústa aðeins svo Jota verður upp á topp með Diaz og Salah á köntunum. Svona semsagt:

 

Spá og spurning dagsins

Í því stuði sem Liverpool er skora þeir fimm framhjá Pickford, Jota með þrennu, Hendo fyrirliðamark og í þetta sinn skorar Hollendingurinn fljúgandi úr föstu leikatriði.

Að lokum er spurt: Hvaða núverandi leikmaður Liverpool hefur skorað oftast gegn Everton?

11 Comments

 1. Hlakka til og vona að Origi fái að spila einn leik á Anfield í viðbót og skori magnað mark á lokamínútunum..

  3
 2. Er bara Origi búinn að skora oftast fyrir Liverpool á móti Everton? Held það séu kominn allavega 5 mörk sem hann hefur skorað á móti þeim.
  Talandi um frábæran sigur á þriðjudaginn þá ef menn hafa tíma þá skemmti ég mér konunglega yfir þessu videoi í vikunni 🙂
  https://www.youtube.com/watch?v=K_1FEA2P25I&t=187s

  2
  • Þetta vídeó var hressandi. Bestur var litli leikþátturinn um Maguire og Fernandes.

   3
  • Verð samt að segja að það fór um mig hvað þau töluðu rosalega illa um Harry Maguire. Vissulega er hann ekki góður, en þetta hlýtur að hafa mikil áhrif á hann. Svo ekki sé minnst á morðhótun! Ég er ekki hissa að hann skyldi sitja á bekknum í dag. Margir myndu sennilega gefast upp undir svona pressu.

   1
 3. Ég veit ekki alveg hvort það sé sanngjarnt að bera saman Real Madrid og Reyni Fáskrúðsfirði. Mögulega Reyni Árskógsströnd eða Sandgerði annars vegar eða Leikni Fáskrúðsfirði eða Reykjavík hinsvegar.

  Maður óttast að heimskulegar tæklingar blánefja hafi áhrif út fyrir leikinn, en vonar ekki. Svo ef gengur illa væri gott fyrir Origi að koma inn á og tryggja þrjú stig og að hann haldi markakóngstitlinum fram á næsta tímabil.

  4
 4. Maður hefur mestar áhyggjur af að bláa liðið slasi okkar menn minni áhyggjur af að við náum ekki að vinna

  3
  • það er aðal ástæða þess að ég vil Everton niður.

   Það má alltaf búast við fólskubrotum og við megum teljast heppnir ef við sleppum með liðið óskaddað frá þessum leikjum.

   4
 5. Spennandi leikur og þar sem Everton er að berjast fyrir lífi sínu má búast við því að þeir selji sig dýrt. Ekki er ólíklegt að einhver gul spjöld fari á loft. Er þorandi að hafa VvD í þessum leik, ég bara spyr? Ef ég væri Klopp þá myndi ég láta Comez, Origi og Milner byrja þennan leik og hvíla fram í seinni Hendó, TAA og Salah.

  2
 6. Er stolltur af Liverpool og hvernig þeir hafa spilað og skemmt okkur.
  Það eina sem ég bið um eru 3 stig og að Everton falli er ég að biðja um of mikið ?

  3
 7. Sælir félagar

  Ég vil þakka Ingimar fyrir upphitunina og þar að auki fer ég bara fram á tvennt; að við vinnum þennan leik og að leikmenn Liverpool sleppi ómeiddi frá glórulausum tæklingum og ruddabrotum Everton manna. Það er ljóst að mikill hluti stuðningmanna Liverpool hefur áhyggjur af grófum og tilhæfulausum brotum bláliða og ekki að ástæðulausu. Þetta fer nottla mikið eftir dómgæslunni og hún hefur nú ekki verið að vernda menn eins og Mo Salah og Mané fram að þessu. Það er eins og enskir dómarar gefi veiðileyfi á þessa tvo leikmenn svona yfirleitt. En vonum hið bezta og sigur á minn disk.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2

Roman Abramovich tíminn á enda

Bikarlyfting hjá stelpunum! (og Sheffield mæta í heimsókn)