City 2 – 3 Liverpool – úrslitin í FA bikarnum tryggð!!!

Þetta var óþarflega tæpt í lokin, en Liverpool er komið í úrslit FA bikarsins eftir 2-3 sigur á City á Anfield South í dag.

Mörkin

0-1 Konate (9. mín)
0-2 Mané (17. mín)
0-3 Mané (45. mín)
1-3 Grealish (47. mín)
2-3 Silva (90+1 mín)

Gangur leiksins

Það var aðeins einbeittara Liverpool lið sem byrjaði leikinn í dag heldur en fyrir viku síðan á Etihad. Leikurinn var í járnum fyrstu mínúturnar, en okkar menn þó heldur beittari. Það bar árangur á 9. mínútu þegar okkar menn fengu horn, Andy tók “útswing”-spyrnu, og þriðja leikinn í röð sem Konate spilar var hann réttur maður á réttum stað og stangaði boltann í netið. Fyllilega sanngjarnt mark, vissulega var Grealish búinn að fá afar ákjósanlegt færi fyrr í leiknum fyrir City en Virgil einfaldlega blokkeraði skot hans úr ákjósanlegu færi.

Svo kom mark númer 2. City menn voru að dúlla sér með boltann í vörninni og senda til baka á Steffen sem er nánast á marklínunni. Hann nær einhvernveginn að missa boltann sirka meter frá sér, en Mané hafði líklega fengið hugboð um að slíkt gæti gerst og var mættur. Hann gerði sem betur fer engin mistök, hirti boltann og afgreiddi í netið með snyrtilegri tæklingu. Liverpool með tveggja marka forystu og heldur betur lifnað yfir mannskapnum. Það sem eftir lifði hálfleiks hefði svo Bernandinho átt að fá a.m.k. tvö gul spjöld en fékk auðvitað ekkert. Hins vegar fékk Fabinho spjald, líklega fyrir að reyna að forðast að tækla leikmann City. Michael Oliver hefur alveg verið betri á flautunni, a.m.k. þegar kemur að samræmi í spjaldagjöfum.

En hálfleikurinn var þó ekki úti, og rétt fyrir hlé bætti Mané þriðja markinu við. Frábær sending frá Trent yfir á vinstri kantinn, þar voru Robbo og Díaz að spila saman, boltinn barst svo til Thiago sem tók skemmtilegan þríhyrning með Trent við vítateigsbogann, gaf svo á Mané sem var á auðum sjó rétt innan vítateigs hægra megin, og Mané tók hann viðstöðulaust með utanfótarsnuddu, alveg neðst í hornið nær og Steffen átti ekki nokkurn einasta séns á að verja. Virkilega vel gert hjá öllum sem komu að markinu!

Það voru engar breytingar gerðar í hálfleik, og það tók City menn ekki nema rúma mínútu að brjóta ísinn og skora sitt fyrsta mark. Boltinn barst upp hægri kantinn hjá þeim, Jesus komst upp að markteigshorni, gaf á Grealish sem var óvaldaður hinu megin í teignum og skoraði örugglega út við stöng. Lítið við þessu að gera, svona getur einfaldlega alltaf gerst þegar spilað er við City. Með muninn kominn aftur niður í tveggja marka forystu, og City komnir með blóð á tennurnar, þá varð leikurinn talsvert meira spennandi fyrir vikið. Það var allnokkuð um færi á báða bóga, t.d. varði Alisson frábærlega þegar Jesus var sloppinn í gegn, og skömmu síðar var Salah sloppinn í gegn hinu megin en vippaði boltanum í utanvert hliðarnetið úr mjög góðu færi.

Fyrsta skiptingin kom ekki fyrr en á 73. mínútu þegar Keita var kallaður af velli og Hendo kom inná. Þegar örfáar mínútur voru til leiksloka komu Jota og Firmino inná fyrir Mané og Diaz, og svo örskömmu síðar kom Jones inná fyrir Thiago.

City menn náðu svo að klóra í bakkann með einu marki til viðbótar þegar það var nýbúið að tilkynna 4 mínútna langan uppbótartíma, og jú það fór smá fiðringur um mann, en samt er maður kominn á þann stað að treysta liðinu bara til að klára það sem þarf að klára. Og það gerði liðið svo sannarlega, reyndar var það svo að bæði Salah og Firmino fengu færi til að bæta við, á meðan Sterling fékk líklega besta færi City manna til að jafna en Alisson varði örugglega.

2-3 sigur var staðreynd, og Liverpool er því komið í úrslitaleik FA bikarsins í fyrsta skipti á stjóraferli Klopp, og í fyrsta skiptið síðan 2012.

Frammistaða leikmanna

Var einhver leikmaður að spila illa? Nei ég bara held ekki. Sumir voru meira áberandi en aðrir, en allir uppfylltu það sem til var ætlast af þeim. Það er erfitt að líta framhjá framgöngu Sadio Mané þegar “maður leiksins” er valinn, en Thiago og Díaz gera alveg tilkall sömuleiðis. Manni finnst Salah vera ennþá í einhverri lægð á meðan hann skorar ekki, en auðvitað er honum haldið í strangri gæslu. Menn vita alveg hvers hann er megnugur. Það er því ekkert endilega ástæða til að hafa áhyggjur – ennþá….

Umræðan eftir leik

Ef Liverpool vinnur Villareal í undanúrslitum CL (og þetta er stórt ef!), þá mun Liverpool spila alla leiki sem í boði er að spila á tímabilinu. Klopp sagði sjálfur eftir leikinn að þetta væri alveg vitað fyrirfram, og þó þetta þýddi meira leikjaálag þá vilja leikmenn þetta.

Möguleikinn á því að vinna fjarkann er því enn fyrir hendi, þó svo Klopp geri auðvitað alltaf lítið úr því. Gleymum ekki að til að vinna fjarkann þarf Liverpool núna að:

  1. Vinna alla leikina í deildinni og stóla á að City misstígi sig í a.m.k. einum af sínum leikjum
  2. Vinna annaðhvort Chelsea eða Crystal Palace í úrslitum bikarsins (það kemur í ljós á morgun hvort liðið það verður)
  3. Vinna Villareal í undanúrslitum CL, og vinna svo annaðhvort City eða Real í úrslitaleiknum í París í lok maí

Hljómar þetta auðvelt? Nei ég hélt ekki. En er þetta mögulegt? Alveg klárlega, með þetta lið þá er allt mögulegt, og liðið er jú enn inni í myndinni í öllum þessum þrem keppnum.

Þetta eru semsagt 11 leikir, og helst þarf Liverpool að vinna þá alla. Það má færa rök fyrir að hugsanlega megi tapa öðrum Villareal leiknum, en þá aðeins ef hinn leikurinn vinnst með meiri mun.

Annars er ljóst að Liverpool spilar í úrslitum FA bikars OG deildarbikars sama árið í þriðja skiptið (2000-2001, og 2011-2012), en ekkert lið hefur jafnoft spilað báða úrslitaleikina sama árið.

Þá er Klopp núna búinn að vinna Guardiola lið 10 sinnum, eða oftar en nokkur annar stjóri.

Hvað er framundan?

Næst er það leikur á þriðjudaginn gegn öðru liði sem einnig vann sinn leik í dag 3-2, þetta lið heitir Manchester United og rétt að rifja upp að fyrri leikur liðanna fór 0-5 fyrir Liverpool. Leikurinn þar á eftir er svo á móti Everton. Báðir leikirnir á Anfield, og báðir leikirnir eru gegn liðum sem beinlínis ELSKA að þvælast fyrir Liverpool og skemma fyrir draumum okkar um bikara. Gleymum því samt ekki hvað við eigum ótrúlega flott lið, sem er að gefa okkur alla þessa leiki, og gleymum ekki að vera þakklát fyrir Jürgen okkar Norbert Klopp.

Eða eins og segir í kvæðinu:

“I’m so glad that Jürgen is a red”!!!

30 Comments

  1. Like á þetta komment ef Thiago er þinn maður leiksins… vá þvílík frammistaða

    6
  2. Þetta lið er eitthvað allt annað en bara fótboltalið! Þetta eru tímar sem munum trúlega aldrei upplifa aftur! Þetta er bara rugl!

    Ég hef sagt það og segi aftur, ef Thiago spilar allan apríl þá getum við unnið alla fjóra á þessu tímabili. Djíííss. Þetta er stórkostlegt!

    17
    • Var einmitt að hugsa það sama og þú. Við erum að upplifa mjög sérstaka tíma. Ég fer ekkert í grafgötur með að fyrri hálfleikur í dag er besti leikur liðsins undir stjórn Klopp. Þessi geggjaða pressa þar sem Keita var fremstur í flokki og Thiago með sínar frábæru krossendingar um þveran og endilangan völinn. Þvílíkur listamaður með boltan. Þarna sáum við hvers vegna Klopp heldur svo mikla tryggð við Keita. Unun að horfa á leik Diaz og Mane bæði með og án bolta. Það gekk nánast allt upp hjá liðinu okkar og það er mjög sjaldan sem ég hef séð City jafn vandræðalega í leik sínum og í þessum hálfleik. Við hægðum á leik okkar í seinni hálfleik en stjórnuðum algerlega leiknum. Það er ekki heldur auðvelt. City getur gert mörk upp úr engu. Því höfum við kynnst í leikjum okkar við þá á sl árum. Smá athyglisbrestur hjá okkar mönnum og allt í einu eru þeir búnir að að gera 2 mörk. Þetta Liverpool lið fer í sögubækurnar sem besta lið Liverpool allra tíma allveg óháð því hvort þeir vinni alla titla sem eru í boði í ár.

      6
      • Nei, lið fara ekki í sögubækurnar ef þau vinna ekki titla. En Jeremias Stoneyson ef 2021/2022 liðið vinnur þessa fernu, þá er þetta besta lið sögunnar. Punktur.

        1
  3. Frábært að vinna þennan leik og fyrri hálfleikur frábær. Miðjan í dag er miðjan sem maður hefur vonast eftir undanfarin tvö tímabil og stóð frábærlega undir hype-inu. Thiago og Keita frábærir og það losnaði óþarflega mikið um þetta þegar þeir fóru af velli. Mane var samt maður leiksins, líklega hans besti leikur í vetur og klárlega í þessari stöðu.

    Michael Oliver var með fáránlega línu í þessum leik og ekkert samræmi í dómum sem hallaði mjög á okkar menn, það er fyrir löngu orðið rannsóknarefni hversu mikið Fernandinho sleppur við spjöld en þetta var komið úr öllu hófi í dag.

    Svekkjandi að Liverpool hafi ekki kálað þessum leik endanlega og sloppið við að missa þetta í stress í lokin, finnst þetta gerast of oft hjá okkar mönnum, kála ekki “unnum” leik en hefur vissulega skránað undanfarið. Tvö – þrju gefur ekki rétta mynd af þessum leik að mínu mati, Liverpool var mun betra en það.

    Sakna ennþá Mo Salah samt og finnst að hann eigi ekki að byrja á þriðjudaginn, ekki endilega til að hvíla hann heldur vegna þess að þeir sem eru að keppa við hann um stöðu í sókninni eru að spila miklu betur en hann þessa dagana.

    12
    • Ekki sammála varðandi Salah. Vissulega orðið langt síðan hann skoraði, og hefði getað gert betur í færunum sínum í dag, en vinnslan og pressan hjá honum í dag var fyrsta flokks. Ekki að sjá að hann sé sestur í “síðasta-feita-samnings” ruggustólinn ennþá. Mörkin hans koma aftur, en hann spilaði mjög vel í dag.

      4
  4. Sæl og blessuð.

    Þetta var magnaður sigur. Keita, Thiago og Mané bestir. Salah enn að spila undir getu. Ekki gott að fá á sig þessi mörk í lokin.

    En þvílíkt gaman að vinna city og auðvitað getur pep nagað sig í handarbökin að tefla varamarkmanninum fram í þessari viðureign. Hann hefur ekki viljað sýnast minni maður en Klopp – þegar Kelleher spilaði gegn chelsea í úrslitaleiknum fyrri!

    En þessi Steffan er enginn Kelleher.

    8
  5. Frábær leikur og betra liðið vann, en þetta með dómara á Englandi sem eru að dæma leiki með okkur er samt orðið rannsóknaefni og bara ótrúlegt að það sé ekki farið að skoða þetta af alvöru hvort einhver spilling sé í gangi því það hefur í gegnum árin verið ótrúlegt á að horfa hvað sumir dómarar dæma ítrekað gegn okkur.

    4
  6. Sala þarf að fara í ævingarbúðir, eitthvað mikið að.

    3
    • Yndislegt alveg hreint.
      Við vorum mikið betri og sigurinn sanngjarn.

      Á sama tíma tapaði “besti þjálfari” deildarinnar í síðasta mánuði, fjórða leiknum af síðustu fimm.
      Go figure.

      4
  7. “I’m so glad that Jürgen is a red”!!! Svo sannarlega! Þetta eru tímar sem við eigum aldrei eftir að lifa aftur. Klopp er einfaldlega kominn á goðsagnakenndan stað með liðið. Þvílíkt ævintýri.

    Ég trúi!

    10
  8. Þvílíka tímabilið! Þvílíka liðið! Maður getur ekki annað en notið á meðan er. Rétt eins og Einar segir að þetta er miðjan. Var svo sáttur að sjá Keita í stað Hendo. Geggjuð frammistaða og 3-2 gefur ranga mynd. Fernadinho átti að fjúka af velli með 2 gul í fyrri. Sammála að Salah ætti að fara á bekkinn. Vill sjá Diaz, Mane og Jota í næsta leik. Thiago maður leiksins klárt mál. Jesús hvað hann er svalur!

    4
  9. Ég er svo glaður að ég er byrjaður að borða páskaeggið mitt 🙂 til hamingju og gleðilega eld rauða páska! Er síðan að fara til Liverpool á sumardaginn fyrsta og verð á Liverpool vs Everton á sunnudaginn 24 og verð ég að segja það að mig langaði strax að lengja í ferðinni þegar ég sá að Það er heimaleikur í CL á móti Villarreal 27 en það kemur bara í ljós hvað gerist maður veit ekki fyrr en ævinn er öll.

    YNWA.

    9
  10. Finnst aðeins vanta umræðu um, það sem mér fannst vera sofandahátttur Konaté í fyrra marki City og reyndar líka því síðara. Grealish er algerlega frír aftan við hann og sömuleiðis virðist hann ekki sjá þann sem skoraði seinna markið. Finnst hann óttalega seinn.

    1
    • Ég held að allir – Klopp þar meðtalinn – átti sig á því að Konate er fjarri því að vera eitthvað fullkominn knattspyrnumaður. En hann hefur aldurinn með sér: er 22ja ára (verður 23ja í lok maí). Hann er nú þegar búinn að gera nokkur mistök í leik með Liverpool (sbr. útileikurinn gegn Benfica), og á eftir að gera þau nokkur í framtíðinni. En það eru allt atriði sem er hægt að vinna með. Hann er stór og sterkur, og er farinn að koma með ansi góða ógnun í hornspyrnum sem kemur sér afar vel. Og svo er hann einn sá fljótasti í deildinni. Sýnum honum þolinmæði, eins og Klopp hefur svo oft sýnt leikmönnum sem hann veit að hafa það sem þarf.

      20
  11. Fannst skrýtið hvað city kom til baka í seinni hálfleik, ekki útaf því að þeir eru ekki geggjað lið, heldur af því að Liverpool hefðu átt að vera mun ferskara liðið á vellinum.
    En ótrúlega sterk frammistaða í þessum leik og draumurinn um alla 4 titlana lifir áfram.
    Ég hef áhyggjur af Salah og ég vildi helst að það væri hægt að senda hann í viku frí í sólina og láta hann koma aðeins ferskari til baka því að það er eitthvað mikið að plaga kallinn þessar vikurnar.
    Maður leiksins í dag var þó Thiago, mikið rosalega er gott að sjá hann í þessu formi.

    3
    • Margur verður af aurum api.
      Það sem er að plaga Salah er gráðugur umboðsmaður. Við vitum að ef hann væri ekki með einn slíkan á kantinum sínum og örugglega í stöðugu sambandi að þá væri hann fyrir löngu búinn að semja um hærri laun og væri ekki að spá í þessum málum. Ég styð LFC heilshugar að það eigi ekki að sprengja launaþök þrátt fyrir að þetta sé Salah. Ef hann vill láta þessa nöðru eitra fyrir sér og eyðileggja ferilinn þá verður bara þannig að vera. Fer hann í flokk með Can, Gini, Countinho, Suarez og örugglega fleiri. Veit ekki hvort allir séu ennþá að spila en þeir eru örugglega með fín laun.

      4
      • Mér finnst ekki gott að lesa fréttir af því að Salah muni fá 400 þúsund í vikulaun í nýjum samningi. Hvað er næsthæsti maður með mikið, 150 þúsund? Og af hverju ætti þá Trent ekki alveg eins að fá stjarnfræðileg laun? Vona að þetta sé ekki rétt tala, því hún skilur eftir óbragð í munni.

        2
  12. Er mikill Henderson maður. Enn miðjan með Thiago- Fab- Keit hefur verið frábær. Loksins er maður farin að sjá Keita spila á sínu B leveli. Hann á helling inni enn er að ná mjög vel saman með Thiago.

    4

Byrjunarliðið klárt: Konate og Keita byrja

Miðar á Villareal leikinn