Liverpool 3 – 3 Benfica

Það hefur lengi verið sagt að bestu Formúlu 1 bílarnir séu þeir sem koma fyrstir í mark, en hrynja í sundur um leið og þeir eru komnir á sinn stað. Þ.e. þeir duga til að vinna, en ekki meter lengra en það. Hugsanlega er Liverpool á svipuðum stað í augnablikinu: vinnur það sem þarf að vinna, tapar ekki ef það má ekki tapa, nær þeim úrslitum sem þarf. Mögulega sjáum við í lok leiktíðar þegar uppskeran verður ljós hvort þessi samlíking eigi við um liðið okkar, en það er a.m.k. klárt að Liverpool spilar í undanúrslitum í öllum bikarkeppnum á þessari leiktíð, eftir 3-3 jafntefli gegn Benfica á Anfield í kvöld.

Mörkin

1-0 Konaté (21. mín)
1-1 Ramos (32. mín)
2-1 Bobby (55. mín)
3-1 Bobby (65. mín)
3-2 Yaremchuk (73. mín)
3-3 Nunez (82. mín)

Gangur leiksins

Með jafn róterað lið og raun bar vitni mátti alveg búast við því að okkar menn væru aðeins ryðgaðir, en það var nú samt mesta furða. Þó fannst manni ljóst að bæði Milner og Firmino hafi alveg verið í betra leikformi. Það var á 21. mínútu sem fyrsta markið kom, en þá stökk Ibrahim Konate hæst allra eftir hornspyrnu frá Tsimikas og skallaði örugglega í netið. Benfica héldu að þeir hefðu jafnað örfáum mínútum síðar, en flaggið fór réttilega upp. Hins vegar náðu þeir að jafna rúmlega 10 mínútum eftir markið, aftur var tæpt hvort um rangstöðu væri að ræða, en niðurstaðan varð sú að svo hefði ekki verið. Okkar menn fengu annars nokkur góð færi í hálfleiknum, í tvö skipti var Bobby mjög nálægt því að renna boltanum á samherja sína í dauðafærum, en í annað skiptið fór boltinn aðeins of nálægt markmanninum svo Jota náði ekki að pota honum inn, og í hitt skiptið náði varnarmaður Benfica að teygja sig í boltann sem annars hefði fallið mjög smekklega fyrir fætur Diaz. 1-1 í hálfleik var líklega ekkert mjög ósanngjarnt, en 2-1 hefði alveg verið réttlætanlegt sömuleiðis.

Ef Bobby hefði verið í betra leikformi þá hefði hann sjálfsagt afgreitt þessar mögulegu stoðsendingar betur, en í seinni hálfleik sýndi hann að hann kann alveg að afgreiða boltann á réttan stað. Hann þurfti bara aðeins að hrökkva í gírinn. Eftir 10 mínútna leik í seinni skoraði hann kómískt mark eftir að 3-4 leikmenn höfðu kiksað við að reyna að hreinsa eða gefa fyrir, þannig var fyrirgjöfin frá Jota líklega kiks en Bobby okkar Firmino gerði engin mistök og renndi boltanum í autt markið. Öðrum 10 mínútum síðar bætti hann svo við öðru marki, þá eftir aukaspyrnu frá Tsimikas sem átti þar með sína aðra stoðsendingu í leiknum. Þarna voru Salah, Thiago og Fabinho komnir inná fyrir Hendo, Milner og Jota, sjálfsagt skipting sem var plönuð fyrir leik, og nokkru síðar fékk svo Mané að koma inn. Staðan orðin 3-1, eða 6-2 samtals og einvígið búið.

Eða reyndar, þá var þetta nú ekki alveg búið. Því varnarlína Liverpool var jafn há og vanalega, en með 3 af 4 frekar reynslulitla í sínum stöðum var hún örlítið brothætt á köflum, og það nýttu Benfica menn sér. Þeir sumsé bættu við 2 mörkum á síðustu 20 mínútunum, og staðan orðin 3-3 með 8 mínútur plús uppbótartíma eftir. Það greindist vottur af taugaóstyrkheitum hjá bæði leikmönnum og áhorfendum, og jújú Benfica náðu að pota boltanum í netið í uppbótartíma, en voru rangstæðir. Það voru því 2 mörk dæmd (réttilega) af þeim vegna rangstöðu, en ég gæti hafa misst töluna enda skoruðu þeir líka 3 mörk sem öll fóru í VAR tékk, og í tveim tilfellum lyfti aðstoðardómarinn flaggi sínu en svo kom í ljós að sóknarmennirnir voru réttstæðir.

Hvað um það, leikurinn endaði 3-3, og því 6-4 samtals, og Liverpool tryggði sér þar með einvígi gegn Unai Emery, Moreno og fleiri hjá Villareal í undanúrslitum meistaradeildarinnar leiktíðina 2022.

Frammistaða leikmanna

Eins og áður sagði voru Milner og Bobby ögn ryðgaðir í byrjun, en Bobby kom sterkur inn með tvö mörk í seinni hálfleik og slapp því ágætlega frá þessu. Varnarlínan var eins og áður sagði aðeins óstyrk, en Klopp tók það á sig í viðtölum eftir leik og sagðist bara hafa ákveðið sig að spila með þessa uppstillingu nýlega, þeir fengu víst bara 20 mínútur á æfingu til að undirbúa sig. Svo kannski er ekkert skrýtið að liðið hafi lekið 3 mörkum í dag. Titilinn maður leiksins hlýtur Kostas Tsimikas fyrir góða frammistöðu í sóknarleiknum, og hann verður tæpast sakaður um að hafa átt sök á mörkunum.

Umræðan eftir leik

I’m so glad that Jurgen is a Red.
I’m so glad he delivered what he said.
Jurgen said to me, you know. We’ll win the Premier League, you know. He said so.
I’m in love with him and I feel fine.

Já, þetta glumdi nokkrum sinnum á Anfield í kvöld, sungið við bítlalagið “I feel fine”, og verður sjálfsagt sungið nokkrum sinnum á næstu leikjum.

Klopp var annars að komast í undanúrslit í CL í fjórða sinn, og hefur komist í úrslit í öll hin skiptin (538 gefur 80% líkur á að svo verði líka í ár). Það er þó vert að taka fram að Unai Emery er ansi lunkinn við að ná í úrslit í tveggja leikja einvígum, sem sést best á árangri hans í Evrópudeildinni, og svo að lið Villareal er búið að slá Juventus og Bayern München úr leik í Meistaradeildinni. Þetta lið er því sýnd veiði en ekki gefin, jafnvel þó svo að okkar menn teljist líklega sigurstranglegri fyrirfram. En það er svo sannarlega ekkert gefið í þeim efnum.

Næst á dagskrá

Næst er að mæta City mönnum í annað sinn á einni viku, þeir komust áfram eftir skrautlegt 0-0 jafntefli í Madrid í kvöld, þar sem brast á með slagsmálum og hvers konar leiðindum (hverjum hefði dottið í hug að slíkt gæti gerst hjá Atletico Madrid????). Þeir eiga eftir að fljúga heim, gætu hafa lent í einhverjum meiðslum í kvöld, og líklega voru þeir að spila fleiri fastamönnum heldur en Klopp þurfti að gera. Við getum því e.t.v. leyft okkur að vona að okkar menn mæti með ferskari lappir á laugardaginn (Trent, Robbo og VVD fengu allir frí, og Fab, Mané, Salah og Thiago spiluðu aðeins hálftíma, en Hendo og Jota spiluðu klukkutíma). Munum samt að okkar menn eru ekkert endilega að spila sinn besta leik eftir pásu, það er eins og leikjaálagið upp að vissu marki geri þeim bara gott. Vonum að það taki sig ekki upp einhver spileríisþynnka fyrir leikinn gegn City á laugardaginn, ég veit ekki um ykkur en ég væri mjög til í að okkar menn færu í úrslitaleikinn og hirði þar FA bikarinn (ásamt svo hinum dollunum sem eru í boði). Er það ekki bara díll?

16 Comments

 1. Firmino og Tsimikas voru frábærir í leiknum.
  Benfica voru góðir.
  Liverpool áfram er það eina sem skiptir máli !

  YNWA

  12
  • Betri spyrnumaður en Robbo. Lagði upp tvö úr föstum leikatriðum. Já, takk!

   5
 2. Einmitt Svavar! Annað skiptir engu máli. Ég sagði á sunnudaginn við vinkonu mína, sem er smá fótboltanörd eins og ég, að ég byggist nú ekki við neinni sérstakri flugeldasýningu í þessum seinni leik í CL en líklegra væri en hitt að Liverpool myndi sigla þessu heim. Sem þeir og gerðu, og meira að segja smá flugeldasýning þegar best lék á.

  Mér skilst að okkar lið af öllum liðum heimsfótboltans sé það lið sem spilar flesta alvöru keppnisleiki þetta sísonið. Í ljósi þess er frammistaðan með ólíkindum góð. Ekkert að því að spara orkuna smá þegar ekki er ástæða til annars. Seif allan tímann þótt rangstöðutaktíkin hafi aðeins klikkað. Viðureignin vannst í Lisbon.

  Flottur og skemmtilegur leikur og liðið okkar heldur áfram að standa undir væntingum.

  6
 3. Frábær leikur og virkikega gaman að vera á leiknum og verð að taka það fram hvað stuðningsmenn Benfica voru rosalegir, þeir kaffærðu kop og restina á Anfield með hávaða, reyndar einfaldur og leiðinlegur söngur en háværir voru þeir og þeir héldu áfram lengi eftir að völlurinn varð tómur af Liverpool stuðningsmönnum.
  En frábært að fara áfram í keppninni og núna er það Villareal næst.

  4
 4. Er kannski búið að spilla okkur Liverpool stuðningsmönnum ? Erum komnir í undanúrslit í CL en ekki allir sáttir og aðeins komin 7 komment við leikskýrsluna.

  Er að spyrja fyrir vin??

  7
  • Hugsaði þetta lika en kommentin fara oft á upphitunina ef skýrslan kemur ekki strax. En þetta er engu að síður rétt. Klopp hefur komið með nýjan hugsunarhátt inn. Hann hefur breytt okkur úr efasemdarfólki yfir í fólk sem hefur mikla trú á liðinu okkar. Það er engin tilviljun að eini tapleikurinn mátti tapast og þessi leikur í gær snérist um að lenda ekki í klípu. Jafnteflið 3-3 með lið sem innihélt sjö breytingar frá sittý-leiknum segir allt. Samt var margt frábært í þessum leik en það skein í gegn að við þurftum ekkert að vinna hann.

   Það að við séum búin að vinna deildarbikarinn, komin í undanúrslit í FA og CL og einu stigi frá toppnum er gjörsamlega truflað. Ofan á allt það saman er klúbburinn okkar rekinn á heilbrigðan hátt þ.e.a.s. að hann er sjálfbær. Hann skapar eðlilegar tekjur eins og með sölu til stuðningsmanna og auglýsingar en ekki olíupeningum sem eru færðir til og frá með bókhaldssvikum eða einhverju nálægu.

   I am so glad that Jurgen is a Red…
   https://www.youtube.com/watch?v=1qxDPyq7u9c

   16
 5. Hef sagt þetta áður, spilamennskan og frammistaðan undanfarnar vikur og mánuði hefur valdið mér áhyggjum. Vissulega hefur liðið náð flestum þeim úrslitum sem til hefur þurft en það kemur að því að það klikkar, mér finnst liðið eiga svo miklu meira inni en það er eitthvað sem er ekki að smella, síðasti leikur sem maður sat og horfði og hugsaði með sér, vá hvað þetta lið er gott, er líklegast Everton leikurinn, það er svo langt síðan að liðið hefur spilað virkilega góðan leik.
  Að þessu sögðu, ef einhver hefði boðið mér í haust að vera búinn að vinna einn bikar, komnir í undanúrslit í tveimur öðrum keppnum, enda væntanlega ekki neðar en í 2. sæti og þal fyrir ofan Chelsea, þá tæki ég því allan daginn.
  Því miður óttast ég að það fari að síga niður brekkuna það sem eftir er, allt of margir lykil leikmenn eiga það til að hverfa í stórleikjum þar sem allt er í húfi, sem þýðir að Fa cup dettur út um helgina, tapleikurinn í deildinni er handan við hornið og þó að við klárum Villareal þá eru öll teikn á lofti um að Shitty nái loks í þann stóra. Þar fyrir utan er heppnin ekki beint með okkur, knöttinn vantar enn millimetra til að vera inni og Company, eða einhver álíka Shitty maður, mun setja 30 metra sleggju í vinkilinn í steindauðu 0-0 jafntefli. Og það er svekkjandi og pirrandi að fá ekkert meira útúr tímabilinu.
  Ps.
  Algerlega sturlað að hlusta á Kop syngja nýja sönginn um Klopp, þeir sungu hátt og ætluðu aldrei að hætta, geggjað.

 6. Sæl og blessuð og takk fyrir skínandi góða skýrslu.

  Þetta var fullkomin frammistaða! Mörkin þrjú sem við fengum á okkur verða tekin fyrir á töflufundum og þessi 20 mín. varnarlína hefur lært lexíuna. Ekki spurning. Yfirvegað og meiðslalaust eins og við viljum hafa það.

  Ég játa að þegar kortér var eftir af leiknum skipti ég yfir á AM – MC enda voru farin að berast tíðindi í gegnum miðla að sú rimma væri öllu svæsnari. Það fór heldur ekki á milli mála. Þeir fölbláu lögðust í grasið hver á eftir öðrum, Foden með sárabindi um höfuð, De Bruyne með klaka við læri og Walker haltrandi. Þetta AM lið er eins og glæpagengi úr bíómyndum! Svo fóru þeir að slást í blálokin og allt ætlaði um koll að keyra! MC ljónheppnir að fá ekki á sig mark eða dæmt á sig víti. Þótt ekki hefði farið í framlengingu eins og við feðgar vonuðumst til – þá var ,,meiðslatíminn” heilar 15 mínútur sem samsvarar jú einum hálfleik í framlengingu.

  Þetta fór eins og við spáðum – eftir að hafa rúllað upp ,,dauðariðlinum” svo nefnda (þar sem btw AM var meðal andstæðinga) þá var kærkomið að fá portúgölsku prúðmennin en leyfa City að slást við fautana hans Simeone.

  Held þeir verði nett dasaðir á laugardaginn þegar við mætum þeim og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn.

  7
 7. Sælir félagar

  Takk fyrir skýrsluna Daníel hún er góð og ég hefi engu við hana að bæta. Það sem skiptir máli er að komast áfram. Tvö af þeim liðum sem ég hélt að yrðu í undanúrslitum eru dottin út. Þ. e. R.Madrid og Bæjararnir. Og svei mér þá – er ekki betra að spila úrslitaleikinn við City en Atletico það skítalið. Við þurfum bara að vinna M. City á laugardaginn svo menn hafi trú á því að þeir geti það.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
  • My name is Hjalti and I approve Daníel’s report.

   Ég hef eina athugasemd við athugasemd Sigkarls. Ef mig misminnir ekki komst R.Madrid áfram í undanúrslitin.

   En að aðalleiknum, þá voru okkar menn greinilega að taka því full rólega, en ekki óþarflega rólega. Það hefði verið óþarfi að leggja allt í sölurnar í þessum leik.

   3
 8. Gátum stillt upp “B” liði og komumst áfram, enn inn í þeim keppnum sem eftir eru og ein dolla komin í hús. Gæti ekki verið mikið betra. Takk Klopp

  6
 9. Vantar 2 miða á Liverpool-City á laugardaginn…er einhver hér sem veit um góða leið eða örugga síðu að kaupa miða ??

Liðið heima gegn Benfica

Upphitun: Stórslagur á Anfield syðri (Wembley)