Man City 2-2 Liverpool

Í dag fór fram ansi stór leikur í Úrvalsdeildinni og hefði hann getað farið langt með að kannski tryggja öðru liðinu titilinn ef ákveðin úrslit hefðu litið dagsins ljós en svo fór ekki þar sem liðin skildu jöfn og er enn aðeins eitt stig á milli liðana og sjö deildarleikir eftir.

Klopp stillti upp sterku liði í dag og var ekkert að því. Þetta var eflaust það sem maður hefði líklega viljað og kallað á fyrirfram en þegar leikurinn hófst þá var bara eins og þessir leikmenn höfðu aldrei spilað saman áður!

Man City byrjaði af miklu meiri krafti sem varð einhvern vegin til þess að leikmenn Liverpool virkuðu bara stressaðir. Gátu að því virtist ómögulega sent boltann sín á milli, töpuðu honum á mjög vondum stöðum og þetta var bara afar lélegt.

Það tók Man City alveg heilar fimm mínútur til að nýta sér þetta þegar Kevin De Bruyne skoraði fyrsta mark leiksins. Jú, jú pínu heppnis stimpill á því en skot hans átti viðkomu í Joel Matip og breytti mikið um stefnu en rétt áður átti Man City ansi gott færi sem Alisson hafði varið frábærlega.

Liverpool rankaði bara ekkert við sér eftir þetta opnunarmark og ef eitthvað þá varð þetta bara allt verra og verra! Það kom samt pínu eins og þruma úr heiðskýru lofti þegar Diogo Jota jafnaði metin á 13. mínútu með góðu marki eftir stoðsendingu Trent eftir fallegt uppspil.

Þá vonaðist maður eftir því að það kæmi smá hugur í Liverpool en svo var ekki raunin, City bara tóku völdin frekar og Liverpool varð bara meira óstöðugt. Það munaði á einum tímapunkti minnstu að Ederson í marki Man City myndi missa boltann yfir marklínuna en rétt náði að bjarga og á 36. mínútu sofnaði varnarlína heldur betur þegar Gabriel Jesus átti gott hlaup inn fyrir vörn Liverpool og skoraði nokkuð laglega – auðvitað spilar hann varla fyrir Man City en kemur inn í liðið í dag og skoraði fyrsta markið sitt síðan sautján hundruð og súrkál.

Jota komst í ágætis stöðu en náði ekki að leysa nægilega vel úr því þegar hann slapp í gegn og náði hvorki skoti né að leggja hann á Salah sem var við hliðina á honum og staðan því 2-1 í hálfleik en réttilega hefði Man City átt að fara inn í hálfleikinn með stærri forystu en sem betur fer var það á einhvern ótrúlegan hátt ekki.

Það var svo töluvert annað lið Liverpool sem mætti inn í seinni hálfleikinn og það tók Sadio Mane 47 sekúndur eða eitthvað þar um bil að skora jöfnunarmarkið eftir að flautað var á seinni hálfleikinn. Frábært mark eftir góða sendingu Mo Salah.

Liverpool var töluvert betra lið í seinni hálfleik og var leikurinn miklu jafnari og virtust menn fara aðeins að girða sig í brók eftir afleitan fyrri hálfleik. Bæði lið fengu sína sénsa án þess þó að vera kannski einhver dauðafæri þannig séð. Sterling skoraði mark fyrir Man City sem var réttilega dæmt af vegna rangstæðu og undir restina voru bæði Thiago og Fabinho kannski heppnir að fjúka ekki út af en sluppu blessunarlega við það.

Leikurinn endaði svo 2-2 sem í raun eru bara ágætis úrslit svona miðað við hvernig leikurinn þróaðist. Það er enn bara stig á milli liðana og sjö leikir eftir, það er enn bullandi séns en klárt mál að Man City á töluvert þægilegra leikjaprógram eftir á pappír.

Það er pínu erfitt að velja mann leiksins því flest allir voru afleitir í fyrri hálfleik. Jota skoraði gott mark en gerði annars ekki mikið, Salah lagði upp en gerði ekki mikið meira, Mane skoraði en var afleitur í fyrri hálfleik en fínn í seinni. Fabinho hlýtur að hafa verið með einhvern hausverk eftir höfuðhöggið sem hann fékk gegn Benfica því hann hefur svo sannarlega átt marga mun betri leiki en þennan! Van Dijk og Matip voru heilt yfir nokkuð slakir miðað við hvernig þeir eiga að vera og Trent átti mjög erfitt í fyrri hálfleik en mun skárri seinni. Ætli maður leiksins sé ekki bara Alisson sem varði vel heilt yfir í markinu og átti sinn þátt í að sjá til þess að Man City hafi ekki skorað fleiri mörk.

Sjáum hvað setur, næsti leikur er seinni leikurinn gegn Benfica í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og svo er það aftur leikur gegn Man City í undanúrslitum FA bikarsins.

21 Comments

 1. Fín úrslit og við kunnum ekki að tapa. Vinnum þá í bikarnum!

  8
 2. Að mínu mati var Liverpool heppið að sleppa með jafntefli. City var betra í dag.

  Miðjan var óvenju slöpp hjá okkur og vörnin sömuleiðis utan við sig, einkum í fyrri hálfleik. Thiago, og kannski Fabinho líka, alveg á mörkum þess að fá rautt. Framlínan skilaði sínu samt með sóma. Dáist alltaf að því hvað Jota er markheppinn og sömuleiðis glæsileg stoðsending frá Salah + fumlaus afgreiðsla hjá Mané. Salah var líka lúmskt iðinn í varnarvinnunni.

  Í baksýnisspeglinum góða sé ég að það hefði trúlega verið betra að hafa Keïta í byrjunarliðinu í stað Hendó.

  On we trot!

  (ákvað að stinga þessu aftur inn, í nýja færslu)

  12
 3. Óska eftir standard í umfjöllun. Pottþétt besti leikur tímabiþsins í deildinni og menn láta eins og við höfum ekki gert neitt af viti. Frábær fótboltaleikur!!!

  12
  • óskar semsagt eftir að sá sem skrifar sé á sama máli og þú. Biður þannig um standard.

   6
  • Ég sá bara ekkert frábært í fyrri hálfleik – skárra í síðari en ekkert frábært! Að tala um að 2-2 jafntefli við City sé bestu leikur tímabilsins……. tjaaaa…….. þú hefur þá misst af 0-5 leiknum á móti MU svo einn leikur af mörgum sé nefndur til sögunnar!

   11
 4. Sælir félagar

  Ég er staddur í London og ætlaði að horfa á leikinn á næsta bar eða svo. Ég þvældist um London centrum og hver einasti pöbb sem sýndi “LEIKINN” var svo fullur af fólki að ekki var nokkur leið að horfa á hann þar. Á sumum börum þurfti meira að segja að sýna staðfesta pöntun til að komast inn. Það af leiðir misti ég af leiknum og er sumpart feginn. Ég hefði örugglega fengið raðáföll fyrir hjartað ef ég hefði séð hann í beinni. Mér sýnist á því sem ég hefi séð og heyrt að niðurstaðan hafi verið ásættanleg og þá er það bar svo.

  Það er nú þannig

  YNWA

  9
  • Hörku leikur, ég dreif mig inn á pöbb hér í London næstum klukkutíma fyrir leik og þá var allt frátekið. Fann stól við barinn, þannig að það rétt slapp til. Við lærum af þessu og mætum tímanlega næst ?
   Í pöbbnum sem ég var á, voru svipað margir Púlarar og City menn en stemmingin í okkar mönnum töluvert betri.

   3
 5. Liverpool var stálheppið að far með stig heim í dag en ég held samt að dómari leiksins hafi verið stressaðir en leikmenn ( hvernig stóð á því að við fengum t.d. ekki horn þegar Salah skaut og varnarmaður bjargar líklega marki með því að fá boltann í lærið er hreint með ólíkindum svo svakalega augljóst. Þið lásuð það fyrst hér að ef Liverpool vinnur TOT leikinn verða þeir meistarar þar sem ManC missir stig á móti West Ham. Og eitt að lokum ég væri allveg til í að fá eitt stk meiddan Kevin de B eftir AM leikinn hann er allt of mikilvægur fyrir þetta Shity lið þó ég vilji honum persónulega ekkert illt.

  YNWA.

  6
 6. Sæl og blessuð

  Þetta fór ekki illa. Spennan er ennþá í hámarki og allt getur gerst. Mér kom á óvart hvað City var þrátt fyrir öll ummæli – óklínískt. Þeir fengu miklu hættulegri færi en við og nýttu þau ekki betur en raun ber vitni.

  Vonandi verður vippan hjá Mahrez rifjuð upp í lok tímabils!

  Fjörið heldur áfram og mér líst vel á attitúdið hjá okkar mönnum. Gæti verið að stoðsendingin hans Salah hafi verið ísbrjóturinn og nú dúndrar hann inn mörkum gegn MU næstu heldi.

  4
 7. Eins og ég sé þennan leik, þá var það því miður að LFC leifði manc að líta vel út. Það var eins og einhver doði hefði verið yfir liðinu, en engu að síður þá var þó uppskeran jafntefli, heppnis jafntefli m.v. spilamennsku.

  YNWA

  4
 8. Standard-kröfurnar eru miklar á liðið okkar og sannarlega mættust tvö bestu lið Englands þarna. Þetta var já frábær fótboltaleikur, en það er engin lygi að Liverpool var stálheppið að vera ekki meira undir í hálfleik. Okkar menn voru ekki að spila eins og þeir eiga best. En það segir kannski meira um standardinn í liðinu, að það er ekki að eiga sinn besta dag en nær samt þessum úrslitum!

  Þrátt fyrir “auðveldara” leikjaprógramm framundan hjá City í deildinni … þá eru 21 stig í pottinum. Þetta er ekki lengur í höndum okkar manna, við þurfum á stigatapi hjá City að halda. Mér fannst þjálfararnir báðir helvíti góðir eftir leik … og þetta var hjartastopp á nokkrum stöðum.

  Áfram veginn og YNWA.

  p.s. Við tölum svolítið um heppni okkar manna … en má ekki alveg segja að fyrra mark ManCity hafi verið heppni? 😉

  9
 9. Það eru blendnar tilfinningar eftir þennan leik. Já það var gott að tapa ekki eftir að hafa verið líklega næst besta liðið á vellinum en á móti kemur þá var þetta líklega okkar besta tækifæri til að vinna deildina í ár og við klúðruðum því.
  Man City eru heimsklassa lið en við erum það líka en við sýndum það ekki á löngum köflum og það pirrar mig.

  Nú þurfum við að klára síðustu 7 leikina okkar með 21 stigi og vona að Man City tapar stigum á leiðinni en maður er með þessa 2019 tilfinningu um að þeir munu klára þetta.

  Þá er það bara að keyra á meistaradeildina og mæta til leiks gegn þeim í FA Cup og gera þetta að geggjuðu tímabili.

  4
 10. Þetta var stórmeistarajafntefli hjá tveimur bestu liðum heimsins í dag. Ég efast að um að RM, PSG og Bayern ættu roð í þessa deild með okkur og þeim ljósbláu. Við erum að etja kappi við lið sem svindlar á reikningshaldinu sínu og það mun vonandi koma í ljós. Þá getum við bætt við nokkrum titlum í skápinn okkar!

  Annars er það sem stendur hvað mest upp úr þessum leik er atvikið þegar Salah er að fara að skora en boltinn fer í mjöðmina á varnarmanni chitty og þaðan í horn. Allir sjá það og meira að segja frænka mín sem er hálfblind og með eyrnabólgur líka. Dómarateymið var með VAR-herbergi en kalla ekki eftir leiðréttingu á þessu atviki. Hvernig má það vera?

  9
  • VAR má ekki leiðrétta ákvörðun með hornspyrnur.

   Það sem pirraði mig hvað mest í dómgæslunni við þegar línuvörðurinn veifaði strax á Mane þegar hann fékk boltan í fyrri hálfleik og stakk boltanum inn á Trent, sem var sloppinn í gegn með Salah.
   Þetta hefur verið mjög tæp rangstæða(ef hann var þá rangur) en afhverju að flagga strax þegar þetta er svona tæpt?

   Annars vorum við stálheppnir að Thiago fékk ekki seinna gula og svo var þetta appelsínu gult spjald á Fabinho en sumir hefðu hent í rautt.

   2
   • allveg rétt með var en það eru tveir línuverðir og eftirlitsdómari á vellinum með beint samband í eyrað á dómaranum þannig ekki trúi ég því að þeir hafi allir verið í tauga kasti og ekki séð þetta þetta er bara léleg dómgæstla og ekkert annað eins og marki fyrir utan mig hafa 1000 sinnu bent á !

    YNWA.

    4
  • Bara árétta að eyrnabólgan á ekki að hafa nein áhrif á þetta hjá frænku þinni, sjónin aðallega vesenið í að meta svona atvik. 🙂

   3
 11. Nú verður Salah að herða sig og byrja að skora aftur, eða hann missir af gullskónum. Munar bara þremur á honum (20) og Son (17) eftir leiki helgarinnar.

  2
 12. Taugatrekkt Liverpool-lið átti líklega ekki skilið að vinna þennan leik. Betri í seinni hálfleik en frekar lélegir í þeim fyrri, sem er afar ólíkt þeim. Taugarnar voru þandar og ég held að við getum vel við unað að hafa náð þessu stigi. Hefðum við unnið þá myndum við örugglega vinna rest. Það er engin deild annars staðar með tvö lið sem eru svona yfirburða góð. Að hafa ekki tapað þessum leik, svona langt frá okkar besta, segir hversu langt liðir er komið. Þetta verður stál í stál fram á síðustu mínútu.

  1

Man City – Liverpool

Gullkastið – Status Quo