Upphitun: Benfica í 8-liða úrslitum

Eftir langt landsleikjafrí náðu okkar menn að kreista fram sigur gegn Watford um helgina en ferðast nú til Portúgal til að mæta Benfica áður en við spilum stærsta leik síðustu ára í ensku úrvaldsdeildinni um næstu helgi gegn Manchester City. Það er þó þannig að þegar liðið er að berjast á öllum vígstöðum eru allir leikir gríðarlega mikilvægir og mikilvægt að vanmeta ekki Benfica enda komnir í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Liðin mættust síðast í Evrópudeildinni árið 2010 þar sem Liverpool komst áfram eftir að hafa tapað útileiknum en klárað dæmið á heimavelli með 4-1 sigri. Fjórum árum áður mættust liðin síðast í Meistaradeildinni en þá unnu Benfica báða leikina, okkar menn féllu úr leik í sextán liða úrslitum sem þáverandi Evrópumeistarar. Liðin hafa þó mæst einu sinni síðan því þegar Liverpool var að undirbúa sig fyrir úrslitaleik Meistaradeildar árið 2019 ákvað Julian Ward, sem mun taka við starfi Michael Edwards í sumar, að hringja í félaga sinn hjá Benfica og fékk þá til að koma til Marbella og taka þar æfingaleik. Benfica mættu og fengu upplýsingar um hvernig Liverpool bjóst við að Tottenham myndi spila í úrslitaleiknum og Benfica liðið spilaði eftir því leikplani. Liverpool vann þann leik 2-0 líkt og í úrslitaleiknum og var mikið rætt um að þessi æfingaleikur hefði skilað miklu í undirbúningi liðsins.

Í Benfica liðinu er einn mest spennandi ungi sóknarmaðurinn um þessar mundir Úrúgvæinn Darwin Nunez. Hann er á sínu öðru ári hjá Benfica og hefur gjörsamlega sprungið út í ár og er orðaður við mörg lið á Englandi sem og Barcelona þar sem Luiz Suarez mælti með honum áður en hann var látinn fara. Nunez er virkilega snöggur og góður að finna sér svæði inni í teignum og hefur skorað 27 mörk í 34 leikjum fyrir Benfica í vetur. Miðvarðarparið er svo menn á seinni hluta ferilsins sem við þekkjum vel. Þar eru tveir fyrrum leikmenn úr ensku úrvalsdeildinni, þeir Nicolas Otamendi og Jan Vertonghen, mikil reynsla þar á ferð en var farið að hægjast á þeim báðum þegar þeir yfirgáfu deildina og vonandi hægt að nýta það á morgun. Annar áhugaverður leikmaður sem margir kannast við í Benfica er Adel Taarabt en í ár hefur hann fundið nýtt líf sem djúpur miðjumaður og komið öllum á óvart en er tæpur fyrir morgundaginn og ólíklegt að við fáum að sjá það.

Benfica situr í þriðja sæti í portúgölsku deildinni og ólíklegt að það breytist þar sem þeir eru níu stigum á eftir Sporting í öðru sæti og níu stigum á undan Braga í því fjórða. Fæstir bjuggust við að sjá Benfica á þessu stigi keppninnar, þeir drógust í riðil með Bayern, Barcelona og Dynamo Kiev og náðu þar átta stigum, stigi meira en Barcelona. Í sextán liða úrslitum fengu þeir svo Ajax, gerðu 2-2 jafntefli í fyrri leiknum í Portúgal og unnu svo 1-0 á útivelli með marki frá Nunez eftir að hafa legið undir mikilli pressu frá Ajax.

Okkar menn

Stóra spurningin fyrir þennan leik hjá okkar mönnum átti að vera hvort Trent yrði heill en hann virðist hafa náð sér á methraða og var á bekknum gegn Watford og mun því klárlega spila á morgun. Eina spurningin í mínum huga er hvort Klopp vilji byrja með Gomez og gefa Trent síðasta hálftímann eða öfugt. Aðrir eru heilir fyrir utan Naby Keita sem var frá gegn Watford en gæti þó náð leiknum á morgun.

Með mikið af leikjum framundan verður áhugavert að sjá hvernig Klopp nýtir fimm skiptingar í þessum leik. Geri ráð fyrir að við sjáum besta mögulega byrjunarlið en ef við náum forystu snemma gæti ég vel séð nokkrar skiptingar á lykilmönnum stuttu eftir leikhlé.

Eins og ég sagði áðan þá gæti alveg verið að Gomez fái byrjunarliðssæti í hægri bakverði ef menn eru stressaðir með Trent fyrir City leikinn og Gomez sýndi það í síðustu tveimur leikjum að hann getur vel fyllt upp í þá stöðu en býst við að Trent byrji frekar. Luis Diaz ætti að þekkja það vel að spila gegn Benfica og geri ráð fyrir að hann fái möguleikan á því og Mané hvíldi gegn Watford eftir að hafa fagnað sæti á HM og kemur líklega aftur inn í liðið. Salah hefur síðan verið aðeins of mikið í höfðinu á sér undanfarið og ekkert sem lagar það betur en eitt mark eða svo og það væri gríðarlega gott að ná að trekkja hann almennilega í gang fyrir næstu helgi.

Spá

Hef fulla trú á því að við séum mun betri en Benfica en í átta liða úrslitum Meistaradeildar eru allir leikir erfiðir. Spái 3-0 sigri þar sem Diaz, Salah og Van Dijk skora.

5 Comments

 1. Topp upphitun

  Ótrúlegt að allir leikmenn Liverpool séu til taks á þessum tímapunkti. Ég var ósáttur með FSG eftir sumarið en þetta gæti ekki litið betur út.

  Ég held þetta geti orðið erfiður leikur og endað 1-1. Margir eflaust búnir að vinna einvígið fyrirfram.

  Áfram Liverpool og Áfram Klopp!!

  6
 2. Takk fyrir upphitunina Hannes.

  Þessir 2 leikir gegn Benfica verða að mínu mati þeir auðveldustu það sem eftir er leiktíðar. Ef að Otamendi og Vertonghen spila sem miðvarðapar í kvöld þá gæti Liverpool grínlaust klárað rimmuna bara í kvöld. Ég hef engar áhyggjur af þessum leik og hlakka bara til að horfa á hann. Menn munu ekki klára sig, stutt í mikilvægasta leik tímabilsins til þessa.

  YNWA

  1
 3. Frábær upphitun. Aðeins off topic – veit einhver um poolarapöbb í Þórshöfn í Færeyjum þar sem hægt er að horfa á leiki?

Tryggja stelpurnar sig upp í efstu deild í dag?

Gullkastið – Risa mánuður, Risa vika, RISA leikur