Tryggja stelpurnar sig upp í efstu deild í dag?

Liverpool varð í dag fyrsta kvennaliðið til að hafa unnið bæði efstu deild og næstefstu deild! Eftir að hafa unnið Bristol 2-4 varð þetta ljóst. Það voru þær Niamh Fahey, Jasmine Matthews, Katie Stengel og Missy Bo Kearns sem skoruðu mörkin.

Hvað segið þið, verður þetta fimma í vor?


Það er komið að þriðja síðasta leiknum hjá stelpunum okkar á leiktíðinni, en þær heimsækja aðalkeppinautana í Bristol. Eitt stig í dag og þá er sætið í efstu deild tryggt. Það væri nú heldur betur gaman að byrja mánuðinn á slíku.

Leikurinn fer fram á heimavelli Bristol, og svona stilla okkar konur upp:

Laws

Roberts – Fahey – Matthews

Hinds – Holland – Furness – Campbell

Kiernan – Stengel – Lawley

Bekkur: Clarke, Wardlaw, Moore, Silcock, Kearns, Humphrey, Bailey, Hodson, Daniels

Þetta myndi líklega vera sterkasta liðið sem hægt er að stilla upp í augnablikinu, þó það megi færa rök fyrir því að Missy Bo gæti átt tilkall í aðra hvora miðjustöðuna. Hins vegar hafa bæði Ceri Holland og Rachel Furness verið að spila vel og halda henni út úr byrjunarliðinu í augnablikinu. Furness og Laws munu hafa tekið þátt í 50 leikjum fyrir félagið með þessum leik.

Leikurinn verður sýndur á The FA Player – skárra væri það nú, enda toppslagurinn í deildinni. Að sjálfsögðu uppfærum við færsluna síðar í dag með úrslitum og stöðu, og vonum að þá getum við flutt skemmtileg tíðindi af stelpunum okkar!

4 Comments

  1. Geggjaður sigur, vel gert.
    Nú er að styðja við liðið og sjá til þess að þær keppi við þær bestu.

    4
    • Já akkúrat, maður vill að liðið verði ekki í fallbaráttu í efstu deild á næsta ári, klárt mál að það þarf að halda áfram að styrkja liðið. Ég held að það þurfi ekkert að hreinsa út úr liðinu, langflestir leikmenn munu hafa hlutverk á næsta ári, en klárt mál að nokkrir sterkir leikmenn til viðbótar við hópinn séu nauðsynlegir.

      4
  2. Erum við ekki bara að tala um tvo opna strætóa í vor, meðfram troðfullum götum Liverpool-borgar? Annan með stelpunum sem unnu fyrstu deildina og hinn með strákunum sem unnu úrvalsdeildina? Það væri nú aldeilis skemmtilegt!

    5

Liverpool 2 – 0 Watford

Upphitun: Benfica í 8-liða úrslitum