Liverpool 2 – 0 Watford

Liverpool tók á móti Watford í hádegisleik (eða brunch?) og fór með til þess að gera öruggan en þó tíðindalítinn 2-0 sigur af hólmi.

Mörkin

1-0 Jota (22. mín)
2-0 Fabinho (víti) (89. mín)

Gangur leiksins

Þessi leikur bar þess fljótt merki að menn voru: a) að koma úr landsleikjahléi, b) leikurinn hófst á frekar ókristilegum tíma, og c) að mögulega eru menn með augun á næstu leikjum í meistaradeild sem og gegn City í deild og bikar.. Megnið af mannskapnum var ekki vaknaður almennilega, sem betur fer átti það að mestu við um leikmenn Watford sömuleiðis. Curtis Jones var t.d. ekki almennilega búinn að stilla miðið, og gleymdi a.m.k. í tvígang að deila með tveimur þegar hann reiknaði út heppilega hæð á langskotin sín. Thiago var hins vegar búinn að reima skóna akkúrat passlega á sig, og átti a.m.k. eina sendingu sem hefði auðveldlega getað endað með marki ef afgreiðslan hefði verið í lagi.

Eftir um 20 mínútna leik fengu svo hinir gulklæddu stórhættulegt færi þegar Kucka slapp í gegn, það var nú smá rangstöðulykt af þessu en ekki nægilega til að aðstoðardómarinn lyfti flaggi sínu og ekki var þetta skoðað í VARsjánni. Enda var það líka bara óþarfi, því Alisson át skotið, boltinn fór aftur í leik til okkar manna, og 34 sekúndum síðar var Jota búinn að skora gullfallegt skallamark eftir sendingu frá Joe Alexander-Gomez. Já, gæðin í fyrirgjöfinni voru slík að scouserinn Trent hefði verið fullsæmdur af. 1-0 og það auðvitað tók aðeins stressið úr mannskapnum, en þó ekki nægilega til að mark númer tvö kæmi í kjölfarið. Besta færið féll líklega í skaut Diogo Jota þegar hann var skyndilega einn með boltann rétt við markteigshornið, en Foster varði vel frá honum.

Síðari hálfleikur var svipaður. Morgunþynnkan var áfram alls ráðandi, Salah hefur oft verið betri og náði t.d. ekki skoti á markið allan leikinn. Honum var skipt út af fyrir Mané um miðjan síðari hálfleik, en áður hafði Fabinho komið inná í stað Curtis Jones. Sú skipting var sjálfsagt eitthvað taktísk enda Jones ekki að finna sig neitt sérstaklega vel (svosem eins og megnið af liðinu), en það spilaði líka inn í að Curtis varð fyrir einhverju smá hnjaski. Svipað gerðist með Matip reyndar, hann lenti í samstuði við varnarmann Watford í fyrri hálfleik og spilaði með væna kúlu á höfðinu (og höfuðband) allan seinni hálfleikinn, en kláraði samt leikinn.

Okkar menn voru klárlega með tögl og hagldir í leiknum, en náðu ekki að nýta stöðuyfirburðina til að skora næsta mark, fyrr en leikurinn var nánast búinn. Í hornspyrnu sem Hendo tók ákvað einn varnarmanna Watford að svissa yfir í fjölbragðaglímu, og ruddi Jota í jörðina með aðferðum sem hefðu sjálfsagt fengið mikið lof í téðri glímuíþrótt. Stuart Attwell tók ekki eftir neinu í upphafi, en VARsjáin skoðaði þetta, sendi Attwell í skjáinn og hann þurfti ekki margar endursýningar til að dæma víti. Þarna var Salah kominn af velli, og Milner var klár á hliðarlínunni að koma inná í staðinn fyrir Thiago, en Fabinho steig á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi með föstu skoti ofarlega í hægra markmannshornið, óverjandi fyrir Foster.

Með þessu voru úrslitin ráðin, og okkar menn sigldu þessu örugglega í höfn. Mikilvægur 2-0 sigur staðreynd.

Frammistaða leikmanna

Hér er vert að nefna leikmennina sem komu að fyrsta markinu: Joe Gomez sinnti hægri bakvarðarstöðunni sérdeilis vel, þá bæði varnarlega og sóknarlega eins og sést á stoðsendingunni. Diogo Jota sýndi enn og aftur hvað hann er hættulegur í fremstu víglínu. Hann er núna í 2. sæti í keppninni um gullskóinn með 14 mörk, og vantar 6 mörk til að ná Mo Salah. Þá var Thiago mjög öflugur í fyrri hálfleik, en slakaði aðeins á í þeim seinni. Þríeykið Salah, Mané og Firmino fundu sig ekkert svakalega vel, og þá er nú gott að Jota sé á skotskónum og að hafa Díaz á hliðarlínunni.

Tölfræði og umræða

Þetta var sigur númer 160 í deild af 250 leikjum hjá Jürgen Klopp, geri aðrir betur. Þá er liðið núna búið að vinna 10 leiki í röð í deildinni, eða alla leiki síðan liðið gerði 2-2 jafntefli við Chelsea í byrjun árs.

Ekki gátum við stólað á Burnley með að hirða stig af City, okkar menn verða því bara að gjöra svo vel að vinna City um næstu helgi (og helst líka um þarnæstu helgi). En bíðum samt aðeins með að skoða þann leik.

Framundan

Nú fljúga okkar menn til Portúgal og leika þar fyrri leikinn í 8 liða úrslitum meistaradeildarinnar. Sá leikur fer fram á þriðjudagskvöldið, og er að sjálfsögðu mikilvægasti leikur liðsins akkúrat í augnablikinu. Leikurinn í dag var auðvitað jafn mikilvægur og allir hinir 37 í deildinni, mögulega tóku okkar menn þennan leik ekki nógu alvarlega þrátt fyrir það. Þeir tóku hann þó nógu alvarlega til að vinna, en maður vonar að í næstu leikjum sýni liðið af hverju það á ennþá möguleika á þrem bikurum til viðbótar á leiktíðinni. Það á nefnilega talsvert inni frá frammistöðunni í dag!

25 Comments

 1. Skelfilega var þetta leiðinlegur og lélegur leikur sem er kannski skiljanlegt í hádegi eftir landsleikjahlé.
  Salah var sennilegast að spila sinn versta leik í Liverpool treyju og við megum alls ekki við því að hafa hann ekki í toppformi út tímabilið, en ef hann heldur svona áfram þá þarf bara að spila Diaz meira og skella Salah á bekkinn, en vonandi rífur hann sig í gang.
  En toppsætið er okkar í smástund.

  11
 2. Smá ryð í mannskapnum en aldrei var sigurinn í hættu.
  Gaman að sjá Woy væla yfir vítinu í viðtalinu eftir leikinn, alltaf víti og hefði átt að vera rautt líka.

  Top of the league!

  YNWA

  10
 3. Fyrir mér er það frábært að vinna leik þar sem spilamennskan er ekki góð. Við höfum oft átt erfitt með “litlu” liðin og eftir svona hlé er þetta stundum lotterí. Ég fagna því sigrinum. Salah var lélegur í dag og hefur ekki verið upp á sitt allra besta … ég veit ekki hvort samningaviðræðurnar, hans óskir og vonir og Egyptaland-Senegal tvöföldu vonbrigðin eru að fara með hann, en þetta er svo krítískur mánuður að við megum ekki við honum í formi minna en 100% — en það er enginn maður stærri en klúbburinn.

  Áfram gakk og YNWA – apríl er byrjaður!

  12
 4. Skítt með það hvernig 3 stig koma í hús bara ef þau koma. Ánægður með þessa athugasemd frá Klopp…… “The Premier League is the most important competition”

  7
 5. Góður leikur hjá Gomez fannst mér.
  Tempoið kanski ekki alveg eins og maður er vanur en Liverpool stjórnaði leiknum frá A-Ö.
  Hefði viljað sjá Diaz koma inná.
  Thiago var mjög góður líka.
  Jota gerir það sem hann gerir og það er að halda áfram að skora mörk.
  Hef séð betri dag hjá Salah.

  3 mikilvæg stig í hús

  YNWA

  9
 6. Sælir félagar

  Þrjú stig í hús og liðið á toppi töflunnar núna og þar sem það endar í vor. Liðið sem heild ryðgað en þetta er góður leikur til að spila sig í formið aftur. Salah á erfitt þessa dagana en Mané bætti litlu við það. Gomes góður og Thiago magnaður og minn maður leiksins. Jota að gera það sem hann gerir yfirleitt að skora mark upp úr engu en samt – sending Gomes var frábær. Vörnin með Alisson sem aftasta mann er þannig að sóknarmenn andstæðinganna míga niður í “dauðafærunum”. Liðið okkar er magnað og býður oftast uppá taumlausa skemmtun.

  Það er nú þannig

  YNWA

  14
 7. Mér sýnist Jota ætla verða einn af mikilvægustu mönnunum á home-rönninu í vor. Hvorki Mané né Salah eru nálægt því sem þeir geta best. En þvílíkur unaður að sjá Thiago í sínu besta formi, eins og í fyrri hálfleik. Og takk fyrir vörsluna, Alisson! Við gleymum því hvað markvarðarmálin hafa breyst mikið síðan við höfðum Mignolet (og hann sem ekki verður nefndur).

  9
 8. Sigur er sigur, 3 stig eru 3 stig. 30 stig í síðustu 10 deildarleikjum. Getur samt verið að liðið eigi eitthvað inni og miðað við hvernig sumir lýsa liðinu jafnvel heilmikið. Sjálfum finnst mér ekki skipta neinu máli hvernig liðið spilar svo fremi að 3 stig komi í hús og menn sleppi við meiðsli. En liðið okkar er bara rosalegt. Sjá td bekkinn í dag. Hver einasti gaur sem var á bekknum í dag væri í byrjunarliði flestallra liða í deildinni fyrir utan efstu tvö.

  5
 9. Það kannski segir sína sögu að liðið í 3ja sæti var að tapa 1-4 gegn Brentford á heimavelli, og okkur er drullusama.

  4
 10. On and on and on takk fyrir frábæran leik LIverpool það er ekki auðvelt að spila við lið í fallbaráttu og þess vegna var þessi leikur eins og hann var barátta WOT var til sóma en okkar lið var með þetta allan tíman undir stjórn, hreint lak og yfir litlu að kvarta nema bara að Burnley tapaði sínum leik, en svo gleðst maður aftur þegar úrslit Chelsea og ManU litu dagsins ljós.

  YNWA.

  6
 11. Ljómandi gott að vinna enda mesti skildusigur sem liðið átti eftir á þessu tímabili. Leikur sem maður verður búinn að gleyma í næstu viku en stigi telja.
  Salah er aðeins farinn að verða áhyggjuefni, hann hefur lítið getað núna eftir áramótin og var verulega dapur í dag. Eitt mark í opnum leik frá því hann kom frá Afríku.
  Já og vonandi var þetta síðasta heimsókn Roy Hodgson á Anfield, mun aldrei skilja hvernig nokkrum manni datt í hug að ráða hann til Liverpool á sínum tíma.

  15
 12. Ég bjóst ekki við neinni flugeldasýningu þó að ég hafi spáð stærri sigri. Eins og einhver benti á þá telja þessir sigrar oft mest í lokin. City átti svipað lélegan leik gegn Palace fyrir stuttu síðan og mistókst að skora, þessi 3 stig eru nefnilega ekkert sjálfsögð sama á hvaða velli við spilum og hverjir mótherjarnir eru.

  Ég hef engar áhyggjur af Salah. Hann var slappur í dag, en hann er svangur, hann vill vinna allt sem í boði er. Hann skorar tvö gegn Benfica á þriðjudaginn og þar með kemur sjálfum sér og fleirum í gang fyrir komandi átök.

  Ég hef aldrei verið hrifinn af Gomez í hægri bakverði, og alls ekki á þessu tímabili. En í dag var hann frábær, stoðsending og hreint lak ásamt því að mér fannst hann alltaf skila varnarvinnunni vel. Hann halaði inn einhver rokkstig frá mér í dag. Thiago var örugglega bestur af þeim sem byrjuðu leikinn, allsstaðar á vellinum, dreifði spilinu eins og herforingi og óheppinn að gefa ekki stoðsendingu.

  Jones fór vitlausum megin framúr og lausreymdi sig í krummafót. Hann greinilega vill sanna sig, hann vill skora mörk og valda usla en ákvarðanataka hans í dag var alls ekki nógu og góð. Ég held með honum en hann var ásamt Salah okkar slakasti maður.

  Allison var klettur eins og alltaf, mér finnst við ekki tala nógu og mikið um hann, það er ekkert sjálfsagt að hafa mann eins og hann á milli stanganna eftir að hafa vanist allskonar trúðum þar og sætt okkur við þá. Markvarslan hans átti stóran þátt í fyrra markinu, hann bjargaði því að við lentum undir og við komumst yfir beint í kjölfarið, alger vendipunktur í leiknum í dag.

  Nú bíð ég bara eftir Evrópu-upphitun a-la Einar Matthías sem ég þarf að öllum líkindum að lesa í 4-5 pörtum. YNWA

  7
  • virðist vera fullreynt með Jones í bili.

   Hefur ekki stigið upp úr meðalmennskunni í allan vetur.

   5
   • 100% sammála því, Elliot hefur tekið framúr honum í þessari keppni um sætið í goggunarröðinni. En ég get ekki annað en haldið með honum og vonað að hann sýni eitthvað annað á næsta tímabili, ég er hræddur um að hann fái ekki margar mínútur í viðbót á þessu.

    Jones er scouser og ég held í vonina.

    2
 13. ef við undaskiljum vítaspyrnur þá er Salah einungis búinn að skora einu markið meira en Jota í deildinni.
  Salah 15 mörk. 155 mín milli marka. Jota 14 mörk, 132 mín á milli marka.

  9
 14. Thiago átti sendingar í leiknum sem myndu sóma sér vel á listasafni. Iðnaður hjá öðrum.

  5
 15. Búskapur er basl á stundum en þetta hafðist. Salah alveg úti á túni í þessum leik og á erfitt þessa dagana. Thiago flottur sem og Alisson.

  Kómedía ársins var í gær í boði Bruno Fernandez sem vældi í dómaranum um vítaspyrnu eftir að rangstæður Elanga tæklaði Rashford í dauðafæri.

  Benfica næst…..

  4
 16. Sælir félagar

  Ég vil koma Salah til varnar. Hann var að vísu hundlélegur í þessum leik en ég horfi til bjartari tíma. Hann hefur átt erfitt vegna slæmra úrslita landsleikja og svo samningamála og þetta hefur greinilega tekið frá honum einbeitinguna. Nú horfir til betri tíma. Samningmálin komin á skrið og hann er hættur (að öllum líkindum) í landsliði Egypta. Þetta mun létta af honum þungu fargi og þá kemur framlag hans aftur. Hæfileikar Salah eru með fádæmum og hann á eftir að skila sínu eins og fyrr í vetur.

  Það er nú þannig

  YNWA

  7
   • Ég er þér líka sammála Sigkarl og hvað höfum við horft upp á marga í okkar framlínu fara í smá niðursveiflur og jafnvel ekki smá niðursveiflur Firmino er búinn að vera frekar slakur allt síðasta ár og nokkuð vel inná þetta ár líka en mér finnst hann vera koma til svo því sé haldið til haga, nánast allir nema Salah hafa tekið niðursveiflur og nú á hann smá niður og er það ekkert nema eðlilegt hann er manneskja eins og við öll og því allt gott bara klára samninginn og þá lofa ég ykkur að hann fer aftur á toppinn.

    YNWA.

    2
 17. Frændur vorir á bláa árbakkanum eru komnir í erfið mál. Enn eitt tapið hjá Lampard. Og enn eitt rauða spjaldið. Burnley-Everton gæti orðið áhugaverð fallrimma á miðvikudaginn. Með ólíkindum hvað þetta gamla stórveldi hefur haldið illa á spilunum undanfarin misseri.

  1
  • Og ef horft er á leikjaprógrammið eftir Burnley hjá bláum þá er það frekar svart en bjart.
   Ég verð á LIverpool vs Everton 24.apríl og ekki væri leiðinlegt að sjá þá vera falla niður í bottom 3.

   YNWA.

   3

Liðið gegn Watford

Tryggja stelpurnar sig upp í efstu deild í dag?