Durham heimsækir stelpurnar okkar

UPPFÆRT: Leik lokið með öruggum 3-0 sigri Liverpool. Fyrrum Grindvíkingurinn Rachel Furness skoraði 2 mörk og Katie Stengel skoraði eitt. Öll mörkin komu eftir föst leikatriði, ýmist hornspyrnur eða hin eitruðu innköst frá Meg Campbell. Þar fyrir utan skoraði Leanne Kiernan eitt mark sem var dæmt af vegna rangstöðu, þá átti Yana Daniels skot í þverslá og Niamh Fahey átti skot í stöng. Durham sluppu einusinni í gegn en skutu yfir markið, að öðru leyti var ógnin lítil.

Þetta fer að líta ansi vel út á toppnum – hefur auðvitað litið mjög vel út alveg síðan Liverpool hirti toppsætið – en núna eru stelpurnar okkar með 11 stiga forystu á toppnum, Bristol geta náð í 12 stig ef þær vinna alla sína leiki en verða þá að stóla á að Liverpool tapi öllum sínum leikjum. Með öðrum orðum: jafntefli um næstu helgi tryggir Liverpool sigurinn í deildinni og sæti í efstu deild í haust. Nú jafnvel þó svo að leikurinn um næstu helgi tapist (sem ég hef litlar áhyggjur af), þá eru allar líkur á að Liverpool sé á leiðinni upp í efstu deild. Fögnum því!


Það er komið að næsta kafla hjá stelpunum okkar í baráttunni við að komast aftur upp í efstu deild, en í dag kl. 11 að íslenskum tíma (12 að breskum tíma þar sem klukkurnar voru færðar í nótt hjá þeim) hefst leikur Liverpool og Durham á Prenton Park. Þar mætast þau lið sem maður hélt e.t.v. að myndu bítast um toppsætið, en núna eru það aðeins tvö lið sem eiga tölfræðilega möguleika á efsta sætinu: Liverpool og Bristol.

Í gær léku Bristol einmitt gegn Sheffield, og vinkonur okkar hjá Sheffield gerðu okkur þann greiða að vinna þann leik 1-0 (þegar ég segi vinkonur þá er ég að sjálfsögðu að tala um Sophie Bradley-Auckland, Jess Clarke, Courtney Sweetman-Kirk, Fran Kitching og fleiri fyrrum leikmenn Liverpool). Það er því ennþá 8 stiga munur á Liverpool og Bristol þegar 4 umferðir eru eftir.

Gleymum líka ekki að Liverpool á ansi þétt leikjaprógram framundan: Durham, Bristol, næstsíðasti leikurinn verður gegn téðu Sheffield liði, og svo verður endað á leik gegn Lewes en þær gerðu einmitt jafntefli við Durham í síðustu umferð. Semsagt eintóm bananahýði.

Nóg um það, einbeitum okkur að einum leik í einu. Liðið sem mætir Durham á eftir lítur svona út:

Laws

Roberts – Fahey – Matthews

Daniels – Furness – Holland – Campbell

Kiernan – Stengel – Lawley

Bekkur: Clarke, Silcock, Parry, Wardlaw, Hinds, Kearns, Bailey, Humphrey, Hodson

Ég veit ekki hvenær það gerðist síðast að Taylor Hinds var ekki í vinstri vængbakverðinum, enda búin að vera einn besti leikmaður liðsins á leiktíðinni. Mögulega er þetta taktískt breyting hjá Matt Beard, kemur í ljós.

Planið virðist vera að sýna frá leiknum á öllum helstu streymisveitum Liverpool, þar á meðal YouTube, þó það sé ekki kominn upp tengill fyrir útsendinguna ennþá. (BREYTT: leikurinn er a.m.k. sýndur á The FA Player)

Annars uppfærum við færsluna síðar í dag með úrslitum og stöðunni í deildinni.

5 Comments

Gullkastið – Lúxus leikjaálag

Gullkastið – Þá hefst fjörið fyrst að byrja