Brighton 0 – 2 Liverpool

Okkar menn áttu ágæta heimsókn á suðurströndina og tóku með sér 3 stig, sem eru vel þegin í toppbaráttunni.

Mörkin

0-1 Luis Díaz (19. mín)
0-2 Salah (víti) (61. mín)

Gangur leiksins

Liverpool byrjaði leikinn sirka tíu mínútum eftir að Mike Dean flautaði leikinn á, en á þessum fyrstu mínútum voru Brighton meira með boltann og voru ívið hættulegri ef eitthvað er. En svo hrukku okkar menn í gírinn, og uppskáru á 19. mínútu. Það kom sending úr vörninni inn fyrir vörn Brighton, sending sem Trent hefði verið fullsæmdur af en kom frá Matip í þetta skiptið. Díaz átti fullkomlega tímasett hlaup, og náði boltanum sekúndubroti á undan Sánchez og skallaði boltann í netið. Þetta var þó ekki sársaukalaust með öllu fyrir Suður-Ameríkumanninn, því Sánchez fór með fót í kassann á Díaz og hönd í andlitið á honum. Þetta var einfaldlega brot sem hefði átt að þýða rautt spjald, jafnvel hörðustu antí-púlarar sögðu að þetta væri 100% rautt. En Mike Dean var ekki einusinni kallaður að skjánum, og markvörður Brighton slapp því spjaldalaus út úr hamaganginum. Það er auðvitað sturlað, en mögulega var Mike Dean bara að gera Liverpool greiða með þessu enda hefur liðinu gengið afleitlega að skora mörk í opnum leik eftir að andstæðingurinn missir mann af velli á þessari leiktíð. Sem betur fer var þetta ekki alvarlegt, Díaz stóð upp og gat haldið leik áfram.

Okkar menn héldu yfirhöndinni það sem eftir var hálfleiks, og fengu a.m.k. tvö virkilega góð færi til að auka forystuna, en í annað skiptið ákvað Mané að skjóta laust beint á markvörðinn með Salah hægra megin við sig og Díaz vinstra megin, og í hitt skiptið slapp Salah í gegn úr hraðaupphlaupi eftir horn frá Brighton, og hefði líka getað gefið boltann en ákvað að fara sjálfur og átti ekki gott skot (og mögulega var brotið á honum í leiðinni en dómarar dæma auðvitað aldrei neitt á slíkt hjá Salah).

0-1 í hálfleik, fullkomlega sanngjarnt, 0-2 hefði ekki verið neitt út úr kortinu heldur.

Góðvinur okkar Adam Lallana kom svo inná fyrir heimamenn í hálfleik, en var svo kominn útaf aftur eftir 6 mínútur á mjög Lallana-legan máta, því hann meiddist við það að setja annan fótinn framfyrir hinn.

Salah hélt áfram að eiga dapran dag fyrir framan markið: hann skaut framhjá eftir virkilega góðan undirbúning Díaz, og átti svo skot í þverslá á öðrum tímapunkti. Téður Díaz átti svo gott hlaup upp að endalínu á 60. mínútu, boltinn barst út í teig þar sem Keita reyndi skot sem fór í útrétta hönd varnarmanns, og Mike Dean gat ekki annað en gefið Liverpool sína fyrstu vítaspyrnu á ferlinum. Salah steig upp, og þrátt fyrir að hafa verið í brasi fyrir framan mark andstæðinganna í undanförnum leikjum, þá skoraði hann af öryggi með skoti á mitt markið.

Skömmu seinna meiddist Salah eitthvað og var skipt útaf ásamt Keita, inná komu Thiago og Jota. Mané færði sig því til hægri í stöðuna hans Salah. Þannig kláraðist leikurinn, fyrir utan að Milner kom inná fyrir Hendo þegar einhverjar mínútur voru eftir. Brighton gerðu sitt besta til að pota inn einu, og Alisson þurfti að taka á honum stóra sínum a.m.k. einu sinni frá Welbeck, en hann klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Það var frekar að okkar menn hefðu átt að bæta við marki, t.d. komst Díaz einn í gegn en náði ekki skoti á markið. Mögulega var hann að reyna að gefa hann en líklega var hann líka bara orðinn drulluþreyttur eftir að hafa djöflast allan leikinn.

0-2 sigur staðreynd, sanngjarnt og bráðnauðsynlegt í baráttunni við olíufélagið.

Frammistaða leikmanna

Tilnefningin “maður leiksins” fer á Luis Díaz, bæði skoraði hann fyrra markið og átti upphlaupið sem vítaspyrnan kom upp úr, en svo var hann bara síógnandi allan leikinn. Fullt af öðrum leikmönnum var að leika virkilega vel: Matip átti stoðsendinguna í fyrra markinu, og steig varla feilspor í dag. Robbo var samur við sig. Miðjan mjög öflug. Alisson kom sterkur inn þegar til hans var leitað. Einna helst að Trent hefði átt í vandræðum með að finna lappirnar á samherjum svona fyrri partinn a.m.k., og eins átti Keita furðusendingar í upphafi, sérstaklega eina sem fór beint í lappirnar á andstæðingi og sem bjó til hættulegt upphlaup. En enginn okkar manna átti neitt sem var nálægt því að vera slæmur dagur. Versta daginn átti Atwell í VAR herberginu, sturlað að láta Dean ekki a.m.k. skoða úthlaupið hjá Sánchez.

Umræðan eftir leik

  • Liverpool er núna búið að skora 2000 mörk í úrvalsdeildinni, og er annað liðið sem nær þeim áfanga.
  • Keita spilaði sinn 100. leik fyrir liðið, með hann á vellinum er liðið að ná í 2.63 stig að meðaltali í leik.
  • Salah er þriðji leikmaður Liverpool í úrvalsdeildinni til að skora 50 útivallarmörk.
  • Þá er Salah núna búinn að skora 20+ mörk í fjórum af þeim 5 leiktíðum sem hann hefur spilað fyrir félagið.
  • Liverpool hefur núna leikið jafnmarga leiki og City, er þremur stigum á eftir þeim, og með þrjú mörk í plús á City

Það er ekki ennþá ljóst hvers eðlis meiðslin sem Salah varð fyrir eru, en hann sagði Klopp víst sjálfur að þetta væri ekkert stórvægilegt. Sem betur fer eigum við Díaz, Mané, Jota og Firmino til að taka við keflinu í einhvern smá tíma ef þess þarf.

Hin Liverpool liðin: U18 gerði 5-5 jafntefli við United, og U23 vann Spurs 7-1. Kvennaliðið spilar svo við Charlton á morgun.

Hvað er framundan?

Næsti leikur er gegn Arsenal á miðvikudaginn, en í millitíðinni munu City heimsækja Crystal Palace. Það má reikna með að báðir þessara leikja verði hörku viðureignir, gleymum ekki að Palace unnu City á Etihad fyrr í vetur. Gleymum líka ekki að þó svo Liverpool hafi unnið Arsenal í fyrri viðureign liðanna í vetur, þá hafa þeir verið á talsverðri siglingu upp á síðkastið og sitja núna í fjórða sætinu (a.m.k. þangað til í kvöld), og eiga þrjá leiki inni á smáliðin fyrir neðan sig.

Við fögnum árangri okkar manna að venju, gleymum ekki að gleðjast þegar vel gengur og að þakka fyrir að eiga svona frábært lið!

24 Comments

  1. Góður leikur og okkar menn með þetta 100%
    Diaz algjörlega frábær og er maður leiksins hjá mér.
    Hvernig Sanchez hékk inná eftir þetta ljóta brot á Diaz skil ég ekki.
    Salah skoraði 20 markið.
    Alisson var frábær í þeim færum sem Brighton fengu.
    Sáttur við Liverpool ekki sáttur við að atvikið á Diaz hafi ekki verið skoðað betur.

    8
  2. Mike Dean hefur aldrei áður sleppt gullnu tækifæri til að lyfta rauða spjaldinu.

    7
  3. Sæl og blessuð

    Ef maður á að svekkja sig yfir einhverju þá er það helst það að við skyldum tapa 2-0 forystu niður í jafntefli í haust gegn þessu lánlausa Brighton liði. Jú, svo vildi ég sjá meiri yfirvegun hjá kjarabaráttu-Salah í leiknum. Óklínískur fyrir allan peningin (pun intended). Mané var að sama skapi ekki afgerandi og væri það nú alveg upplagt að fara að koma sér aftur í stuð.

    Fannst miðverðirnir eins og furstar í sínum ríkjum. Keita út um allan völl, viljugur og fundvís á samherja. Hendó svolítið á tuðinu og ekki alveg með á nótum. Bakverðirnir ekki eins afgerandi og við eigum að venjast. Fabinho flottur að stöðva ómarkviss tilbrigði þeirra á miðjunni.

    Allison geggjaður þegar á reyndi. Spilar eins og þriðji miðvörður þegar á þarf að halda og varði vel frá hinum lánlausa Wellbeck.

    En auðvitað er Diazinn maðurinn.

    11
  4. Er ekki Díaz bara að fara að enda sem fjórði markahæsti í deildinni á eftir Salah, Mané og Jota?

    6
  5. Flottur sigur í dag.
    Brighton byrjaði betur og voru líklegir til að skora.
    Við skorum og þeir áttu að fá rautt.
    Eftir þetta vorum við einfaldlega betri og gáfum fá færi á okkur.
    Eftir vítið þá var þetta nánast búið.

    Bestur: Diaz var bestur í dag en mér fannst líka Fabinho, miðverðirnir og Andy góðir.
    Salah hefur átt betri daga, Trent var að missa aðeins menn bakvið sig og feilsendingar á miðsvæðinu voru pirrandi.

    YNWA – Arsenal næst á dagskrá

    4
  6. Flottur sigur, ljóst að við ætlum ekki að rétta City titillinn án baráttu. Vonandi getur Diaz haldið áfram að skora en mikið var ljótt að sjá Lallana sparkaðan úr leik.
    YNWA

    6
  7. Enn heldur þetta áfram með skandala-dómgæslu í markteignum. Þetta er þriðja árásin sem ekkert er dæmt á, af því að sóknarmaðurinn annaðhvort skorar mark í leiðinni eða er búinn að missa boltann frá sér. Þá má bara ráðast á þá með frjálsri aðferð!

    Óþolandi.

    Van Dijk auðvitað frægasta atriðið og ekkert dæmt á Pickford. Svo árásin aftanfrá á Salah í leik um daginn, ekkert dæmt af því boltinn var kominn sentimetra frá stórutánni á honum. Og nú þetta, Sanchez reynir að höggva hausinn af Díaz og enginn gerir neitt, hvorki Mike Dean á vellinum né Stuart Atwell á varsjánni. Guð minn góður, hvað þetta er léleg dómgæsla!

    14
  8. Bara allt svo frábært við þennan leik að ég ætla bara sleppa öllu bezzerwizzer hjali í dag nenni ekki búa til eitthvað fyrir Andra að lesa :-). Vona bara að dómari leiksins eigi góðan dag (einhvertíman í framtíðinni)

    YNWA.

    3
    • Ég geri þetta þá bara fyrir þig. Hef áhyggjur af Salah. Hann virðist hafa tapað ákveðinni yfirvegun síðustu leiki og bíður ekki eins lengi eftir að færið komi.

      Annars var bæði leti og karakterleysi að sjá innan vallar og utan í dag. Dómarinn og var dómarinn þeas.

      2
  9. Sælir félagar. Mín skoðun vegur ekki þungt á heimsins vegasalti, en ég vill selja Salah og fá einhvern sem á eftir að sanna sig. Kannski er hann til í akademíunni, hver veit? Ef Liverpool fc. látur eftir kröfur hans þá fer launakostnaðurinn á flug og enda eins og liðin sem hafa fullt af stjörnum en eru bara meðallið, nefni engin nöfn. Hvað leikinn varðar þá finnst mér liðið ekki síns getu sína í undanförnum leikjum, en gera það sem þarf. Kannski er þetta taktík Klopp til að koma aðakeppinautnum á óvart í leik tímabilsins sem er í vændum. Vona það allavega. YNWA.

    7
    • Held að flestir hafi séð það á síðasta tímabili hverjir eru mikilvægastir í þessu liði, ekki að ég ætli að fara tala niður Salah eða gera lítið úr því sem hann hefur gert fyrir okkur- sem er stórkostlegt.

      3
  10. Takk fyrir þetta og fínar umræður. Finnst samt algjör óþarfi að gera grín af því þegar menn meiðast eins og Lallana greyið.
    Langar aðeins að leggja orð í belg varðandi Salah. Ekki leikur neinn vafi á því að Salah er frábær leikmaður enda komast engir í lið Liverpool nema frábærir leikmenn. Leiðist svolítið þetta mikilvægist tal enda fótbolti liðsíþrótt og Liverpool hefur einmitt skapað sér rosalega gott orð fyrir að vera mikið lið sem verst saman og sækir saman. Salah er eitt púslið í púsluspilinu en að mínu mati langt í frá að vera eitthvað lang mikilvægastur. Ætla menn að setja hann fram fyrir VvD, Hendo og Allison svo tekið sé dæmi. Síðan vill nú þannig til að maður kemur í manns stað. Stundum er verið að telja einhverja þvælu um að Liverpool hefði ekki fengið þessi eða hin stig ef Salah hefði ekki verið með. Nú aðrir koma inná í hans stað og hefðu alveg getað skorað mörkin. Þar fyrir utan skorar Salah mörg mörk úr vítum enda fær Liverpool mikið af vítaspyrnum. Tökum dæmi þegar Afríkukeppnin var um daginn. Einhverja 7 leiki spilaði Liverpool án Salah, vann 6 og gerði eitt jafntefli, markatalan 17-2 (Salah spilaði að vísu í 30 mín í síðasta leiknum af þessum sjö). Skoruðu ekki einhverjir þessi mörk eða duttu þau bara af himnum ofan? Þó Salah sé frábær leikmaður þá er hann ekki leikmaður sem vinnur leiki upp á sitt einsdæmi.

    11
    • Bæta við með vítin hjá Salah. Núna í vetur og sl vetur:
      2020-21 31 mark ( 7 úr vítum)
      2021-22 28 mörk (6 úr vítum)
      Nálægt því að vera fimmta hvert mark úr víti.

      2
    • Hvað varðar Salak þá gleyma menn því að mörg mörk gætum við hafa skorað hefði hann bara gefið boltan í stað þess að dundra á markið.

      1
  11. Er eitthvað vitað hvað nýi samningurinn sem LFC er að bjóða Salah hljóðar upp á? Held að hann sé með um 240 núna.

  12. Sælir félagar

    Frtábær leikur og frábær sigur, allir að spila vel og allt í sóma. Þar sem ég var búinn að lofa að vera bara jákvæður eftir þennan leik ef hann Unnist þá segi ég ekkert um frammistöðu einstakra leikmann í þetta skiptið.
    Það er nú þannig

    YNWA

    3

Liðið gegn Brighton

Kvennaliðið heimsækir Charlton