Upphitun: Útileikur gegn Brighton

Í hádeginu á morgun mætir Liverpool Brighton á Amex vellinum í skugga nýrra Covid smita. Klopp staðfesti á blaðamannafundi í morgun að einhverjir leikmenn myndu líklega ekki spila gegn Brighton eftir að þeir skiluðu jákvæðum niðurstöðum en ekki hefur verið staðfest hvaða leikmenn það eru sem um ræðir. Hinsvegar voru þrír leikmenn hvergi sjáanlegir á æfingu liðsins í gær og voru það Konate, Van Dijk og Thiago og ljóst að ef þeir eru allir frá er það ansi stórt högg.

Brighton menn hafa verið á afleitu skriði undanfarið eftir að hafa byrjað tímabilið vel. Þeir unnu Wolves tólfta febrúar en hafa síðan þá tapað fjórum leikjum gegn Aston Villa, Newcastle, Burnley og Manchester United og aðeins skorað eitt mark.

Brighton skorar ekki mikið, þeir hafa í raun skorað fæst mörk þeirra liða sem eru ekki í fallsætunum og hafa því reitt sig á góðan varnarleik. Undanfarið hefur þó Adam Webster verið frá vegna meiðsla og lítur vörnin alls ekki jafnvel út án hans. Líklega munum við sjá þriggja manna varnarlínu með Dunk, Duffy og Veltman með þá Lamptey og Cucurella sem vængbakverði. Allt eru það leikmenn sem hafa verið stór hluti af þessum góða varnarleik Brighton en virðast ekki ná að smella jafnvel saman án Webster og Dan Burn sem fór til Newcastle í janúar.

Fyrri leikur liðanna í vetur er ekki sá skemmitlegasti til að rifja upp þar sem það er einn af fáum leikjum vetrarins þar sem við misstum stig. Henderson og Mane komu okkur snemma í 2-0 og það var útlit fyrir auðveldan dag hjá okkar mönnum áður en Brighton náðu að koma tilbaka með stórbrotnu marki frá Mwepu og Trossard jafnaði svo metin og þar við sat.

Okkar menn

Liverpool kemur inn í þennan leik eftir tap gegn Inter þó að við höfum unnið einvígið. Tapið var það fyrsta síðan gegn Leicester milli jóla og nýárs og vonandi að það dragi ekki úr því mikla skriði sem liðið hefur verið á. Mest athygli fyrir þennan leik mun þó vera hvort og hverjir það eru sem missi af leiknum vegna smita. Verði það þeir þrír sem áður voru nefndir er ljóst að það verður mikil pressa á Joe Gomez sem mun þá fá leik við hlið Matip í vörninni en hann hefur ekki náð að koma sér aftur í stand eftir meiðslin síðasta vetur þar sem samkeppnin um miðvarðarstöðurnar hefur verið grimm.

Klopp ræddi einnig samningstöðu Mo Salah á blaðamannafundinum og var hljóðið í honum kannski ekki jafn gott og það hefur verið undanfarið. Yfirleitt hefur hann sagt að það sé bara verið að vinna í málunum og þetta sé í farveg en nú setti hann pressuna alfarið yfir á Salah með að tilkynna að klúbburinn væri búinn að gera það sem klúbburinn gæti gert og nú væri þetta í höndunum á Salah sem eru ekki góðar fréttir því það er rétt rúmlega mánuður síðan að Salah sagði að hann væri ekki að biðja um neitt óraunhæft, hann vildi vera áfram en þetta væri í höndum Liverpool að klára þetta.

Gleðilegri fréttir eru þó að Joel Matip var valinn leikmaður mánaðarins í ensku úrvalsdeildinni í febrúar þar sem við spiluðum fjóra leiki og héldum hreinu í þremur og hann skoraði mark gegn Leeds. Klopp var einnig tilnefndur sem stjóri mánaðarins en Eddie Howe tók þau verðlaun.

Ef slúðrið reynist rétt eru oftustu fimm ansi sjálfvaldnir. Eini sem á einhverja samkeppni þar er Andy Robertson en sé ekki Tsimikas fá þennan leik þar sem Robertson fær líklega hvíld gegn Nottingham Forest um næstu helgi. Fyrir þessar fréttir var ég að íhuga hvort Fabinho fengi hvíld og Henderson tæki leik í sexunni en án Van Dijk þykir mér það ólíklegt. Diogo Jota gæti byrjað fyrir annaðhvort Diaz eða Mane en þar sem hann virðist vera í smá markaþurrð tippa ég á að hinir tveir byrji leikinn og hann verði á bekknum ásamt Firmino sem er að snúa aftur úr meiðslum.

Spá

Þrátt fyrir fjarverurnar tel ég að við munum eiga góðan dag gegn lánlausum Brighton mönnum. Spái 3-0 sigri þar sem Salah reimar á sig markaskónna og setur þrennu.

13 Comments

  1. Matip valinn leikmaður febrúar mánaðarins en þeir kusu Howe sem þjálfara .þeir unnu 3 leiki og 1 jafntefli.
    Liverpool vann 7 leiki og Klopp ekki valinn meira ruglið en fínt að leyfa Newcastle að vera með samt lol

    9
    • Gleymdi að afsaka þráðar ránið en varð bara koma þessu frá mér 🙂
      Annars að leiknum á morgun það þarf að hefna fyrir jafnteflið í nóvember og já ætla bara vera með sömu spá og Hannes og segja 3-0 fyrir Liverpool.

      Vona að Diaz byrji það er gaman að fylgjast með þessum kappa.

      5
  2. Ég verð að viðurkenna að það fer aðeins í mig þegar talað er um að Liverpool hafi “tapað” síðasta leik.

    Liverpool vann viðureignina – punktur. Það var það eina sem skiptir máli – bæði fyrir leikmenn og áhorfendur á Anfield. Enda var fagnað samkvæmt því. Sá ekki einn óánægðan áhorfanda eftir leikinn, verandi á Anfield, og Kop lét sko heldur betur í sér heyra eftir leikinn.

    Síðasti leikur vannst því í raun og veru enda hefði verið galið að blása til sóknar á móti sterku liði Ítalíumeistara Inter Milan eftir að vera tvö núll yfir í hálfleik (eða í síðari leiknum hvernig sem menn vilja hafa það).

    Þetta er svona pínu eins og að segja að man city væri komið í lægð af því að þeir gerðu jafntefli á heimavelli í síðasta leik eftir að hafa verið 5-0 yfir í einvíginu.

    Annars bara hress og spennandi leikur á morgun á erfiðum útivelli 😉

    Áfram Liverpool!

    9
    • En við töpuðum leiknum og ekkert meira um það að segja nema þá helst að við áttum aldrei að tapa þessum leik miðað við færin sem okkar menn fengu.

      1
  3. Sælir félagar

    Algerlega sammála RH með stjóra mán. Algert og heimskulegt rugl. Hvað leikinn varðar fer ég bara fram á sigur hvernig sem hann vinnst. Ef rétt er að helmingurinn af varnarmönnum LFC sé með covid verður þetta erfitt. En sigur, hvernig sem hann næst er það eina sem er í boði. Leikurinn verður einfaldlega að vinnast.

    Það er nú þannig

    YNWA

    PS. hvar get ég horft á leikinn á Selfossi á morgun? Verð þar og þarf að taka leikinn þar

    5
    • Ef í harðbakkann slær geturðu alltaf horft á netinu, Sigkarl.

      lfcglobe(punktur)co(punktur)uk

      Finnur fréttina sem fjallar um streams: og velur einhvern af nr. 1, 3 eða 4.

      5
      • Stundum þarf að slökkva á chattinu sem fylgir, það er sumsstaðar með óþolandi hljóðfítus.

        4
  4. Pressa á Salah i leiknum á morgunn ef Klopp lætur hann spila eftir kjánalega broskalla frá umbanum eftir umæli Klopp….

    6
  5. Hvaða tilfinningu hafið þið fyrir stóra Salah-samningsmálinu? Er hann í alvörunni að fara frá Liverpool til að láta sér leiðast hjá öðru liði en græða meiri pening? Ætli kaupin á Diaz hafi komið allri framherjalínunni í uppnám? Þetta verður einhver framhaldssaga…

    2
    • Kominn tími að lækka launagrægðina hjá umbum og þeirra leikmönnum….það er varla farið i gegnum c19 og þá er hafið stríð í heiminum held að menn ættu að þakka fyrir það sem þeir hafa og ættu að gera allt til að halda i það, þetta broskalla svar gerir stöðu Salah vondan leik…

      4
      • Ég er reyndar algjörlega sammála þér með peningagræðgina. Í raun og veru þarf að stokka þetta kerfi upp. Að handfylli af piltum sé með 50 milljónir á viku eða eitthvað þaðan af vitlausara er alveg út í hött. Skil ekki í öðru en að það væri vel hægt að halda úti fótboltanum með aaaaðeins lægri launum.

        4
  6. Brighton er andstæðingur sem hentar okkur afar illa. Við höfum oft náð góðum úrslitum en höfum þurftu að hafa fyrir því. Þeir eru oftar en ekki mjög góðir gegn svokölluðum sterkum liðum en þeir hafa aðeins tapað 4 leikjum af 26 gegn liðum sem voru í efstu 9 sætunum á síðustu leiktíð(og þessari ).

    Það sem gerir þá hættulega er að þeir eru mjög góðir að halda bolta og geta oft spilað vel úr hápressu sem skapar þeim færi en það var stóra vandamálið þeira á síðustu leiktíð að nýta þau færi.

    Ég spái hörkuleik þar sem það verður engin flugeldasýning. Gomez/Matip verða líklega í miðverðinum sem mun gefa Brighton meira sjálfstraust í á sækja( s.s vantar Van Dijk) og tel ég að sóknarlíkan okkar þarf að skora að lámarki tvö mörk ef við ætlum okkur að sigra.

    Ég spái 2-1 sigri fyrir okkar stráka en það verður mjög tæpt(heilin segir 1-1 en langar ekki að tippa á þau úrslit).

    YNWA

    3

Fréttir af andstæðingum: Chelsea fryst!

Liðið gegn Brighton