Liverpool – Inter 0-1 (2-1)

0-1 Martinez, 61 min

Klopp gerði 4 breytingar frá því í sigurleiknum gegn West Ham. Inn í vörnina kom Matip í stað Konate, Thiago og Jones komu inn á miðjuna í stað Henderson og Keita og Jota tók sæti Diaz.

Leikurinn byrjaði afskaplega rólega, eða amk heimamenn. Gestirnir voru duglegir, pressuðu hátt en við létum boltann bara ganga, vörðumst og reyndum að róa tempóið.

Það var gert 5 mínútna hlé á leiknum eftir að áhorfandi (?) lenti í vandræðum og þurfti á læknisaðstoð að halda. Læknar Liverpool og Inter stukku til þegar leikurinn var stöðvaður. Vonum að þetta hafi ekki verið alvarlegt og viðkomandi hafi náð að jafna sig.

Nokkrum mínútum síðar (30 mín) átti Matip skalla í slánna eftir hornspyrnu frá Trent. Fyrirgjöfin var það föst að Matip þurfti lítið sem ekkert að gera, skallinn var fastur en small í slánni – Handanovic stóð frosinn á línunni og hefði aldrei átt séns.

Það var 2 mínútum síðar sem að Liverpool átti aftur skalla að marki, í þetta sinn var það VVD á nærstöng sem skallaði en varnarmaður Inter náði að setja höfuðið fyrir og bjarga.

Ég er ekki frá því að Sanchez hafi átt að fjúka svo útaf á lokamínútum fyrri hálfleiks eftir skelfilega tæklingu á Thiago. Allt of seinn, upp í hné með sólinn uppi. Mönnum fannst þetta vera gult spjald, ég ætla að leyfa mér að vera ósammála.

0-0 í hálfleik, lítið um opin færi í þessar 45 (50) mínútur.

Síðari hálfleikur

Síðari hálfleikur byrjaði rólega, okkar menn voru þó mun ákveðnari og samhæfðari í pressunni og virkuðu mjög hættulegir. Það var svo á 51 mínútu sem að Salah fékk besta færi kvöldsins þegar markvörður gestanna kom hlaupandi út á móti Jota í 50/50 bolta, náði að komast í boltann en hann barst til Salah í miðjum teignum en skot hans fór í stöngina úr dauðafæri.

Inter komst betur inn í leikinn og skoruðu að lokum fyrsta mark leiksins á 60 mínútu. Það var Martinez með stórkostlegt mark fyrir utan teig – það kom eftir markspyrnu frá okkur, VVD sendi á Matip sem kom með slaka sendingu á TAA (sem mér fannst reyndar helvíti staður) sem gestirnir komust inn í, boltinn barst til Martinez sem lét vaða, 0-1, game on.

Það var ekki nema mínútu síðar sem að aftur dró til tíðinda. Sanchez fékk að fjúka útaf eftir að hafa farið of seint í Fabinho og fengið sitt seinna gula spjald. Ekki hægt að kvarta yfir þessu (þó Inter hafi vissulega reynt) en hrikalegt fyrir gestina að missa mann útaf mínútu eftir að hafa skorað og minnkað muninn í 2-1. Klopp gerði breytingu strax í kjölfarið, útaf kom Jones og Thiago og inn komu Henderson og Keita.

Á 75 mínútu fékk Salah svo annað færi. Í þetta skiptið skaut hann í hina stöngina eftir frábæra sendingu frá Mané yfir varnarlínuna. Ekki hans kvöld virtist vera, hefur reyndar verið óvenju kaldur upp við mark andstæðinganna upp á síðkastið.

Eftir þetta gerðist ekki mikið í raun fyrr en á 91 mínútu þegar að Liverpool komst í skyndisókn, boltinn barst til TAA sem sendi út í miðjan vítateig á Diaz sem hafði nægan tíma, tók móttöku og ætlaði svo að setja hann innanfótar í hægra hornið en Vidal náði að kasta sér fyrir skotið á síðustu stundu, sem endaði svo í horni.

Leikurinn fjaraði svo út, slakur leikur af okkar hálfu og 0-1 tap á heimavelli aldrei jákvætt. Það má samt ekki gleyma því að við áttum mun fleiri færi og hefðum líklega átt að skora amk 3 mörk í kvöld. Gestirnir áttu í raun ekki mörg færi, ef eitthvað. Meira að segja markið kom nánast upp úr engu. Það er samt alveg ljóst að við þurfum að sýna betri spilamennsku í næstu umferð ef við ætlum alla leið í þessari keppni.

Bestu menn Liverpool

Leikur sem átti ekki að tapast, hvorki á pappír né eftir þessar 90 mínútur. Liverpool fór aldrei úr fyrsta gír en átti samt sem áður að skora 3-4 mörk í kvöld, vörðust vel og gáfu Inter í raun ekkert færi.

Það var ekki mikið um stjörnuframmistöður í kvöld. Mér fannst Jones vera sprækur þær rúmu 60 mínútur sem hann spilaði. Virgil var góður, sérstaklega í fyrri hálfleik – manni fannst eftir s.a. 55 mínútur eins og Martinez væri við það að henda inn handklæðinu og gefast upp, VVD át hann í hvert sinn.

Ég ætla samt að velja Trent sem mann leiksins í kvöld. Hann var öflugur bæði sóknarlega sem og varnarlega. Ef færanýtingin hefði verið til staðar þá hefði hann verið með 2-3 stoðsendingar í kvöld.

Umræðan

 • xG. Tölfræði er bara það, tölfræði. Expected goals segir samt allt sem segja þarf um þennan leik, Lverpool (1.87), Inter (0.26).
 • Salah. Þreyta eftir maraþon framlengingar á AFCON eða bara óstuð? Salah hefur a.m.k. oft verið heitari fyrir framan markið. Hefur verið að klikka einn gegn einum leik eftir leik og átti að skora a.m.k. 2 mörk í kvöld, rétt eins og gegn West Ham um síðustu helgi. Ekki mikið svigrúm að gefa honum pásu eftir langt tímabil og erfitt Afríkumót þar sem Egyptaland virtist fara í framlengingu í hverjum leik – fyrir utan það auðvitað að Salah tekur það ekki í mát að vera skipt útaf, hvað þá byrja á bekknum.
 • 8. Skítt með það hvernig liðið spilaði. Liverpool er komið í 8 liða úrslit, því ber að fagna!

Næstu verkefni

Það eru 2 verkefni næstu vikuna eða svo. Við heimsækjum Brighton n.k. laugardag og Arsenal á Emirates miðvikudaginn í næstu viku. Virkilega jákvætt að vera komnir með flesta (alla) til baka úr meiðslum, við komum til með að þurfa á öllum hópnum að halda næstu vikurnar.

Þar til næst

YNWA

24 Comments

 1. Sæl og blessuð.

  Sveskjur og laxerolía? Hvað dugir gegn svona harðlífi? Salah í ægilegu óstuði!

  Súrsætt en þarna nýttust auðvitað mörkin sem þeir skoruðu af harðfylgi suður í Langbarðalandi.

  Game on.

  4
 2. Fannst Liverpool vera passívir fannst þæginlegt að vera 2-0 yfir í fyrri viðureign.
  Salah óheppinn 2 sinnum í stöng.
  Markið hjá Inter óverjandi.
  Eigum að gera betur 1 fleiri á Anfield í meistaradeild marki undir…
  Komnir áfram og gegn ítalíu meisturum og maður er sáttur við það.
  Áfram gakk!
  YNWA

  8
 3. Eftir 12 sigurleiki þá var fínt að tapið kom núna og við áfram, Inter voru rosalega seigir í þessum leik og börðust hetjulega.
  Við vorum samt virkilega óheppnir í kvöld með 3 skot í tréverkið og svo bjargað á línu frá Diaz.
  Núna þurfum við að byrja nýja sigurgöngu og byrjum strax í næsta leik.

  6
 4. Sælir félagar
  Það var fátt sem gladdi augað í þessum leik. Hugmyndasnautt og karakterlaust spilt il hliðar og til baka allan leikinn. Skelfilegt að spila svona á Anfield fyrir framan fullan völl af Liverpoolstuðningmönnum. Enginn stóð undir því að vera maður leiksins enginn fær einkunn fyrir ofan 6 og tap á heimavelli staðreynd. Þó liðið sé komið áfram í meistaradeildinni er svona frammistaða ekki boðleg.

  Það sem veldur manni áhyygjum er þó ekki nákvæmlega úrslit þessa leiks. Heldur er það hvernig liðið hefur leikið núna í síðustu leikjum. Liðið virðist andlaust hægfara og áshugalítið. Eftir heppnissigur á Wesr Ham og svo þessi frammistaða í kvöld veldur manni verulegum áhyggjum. Heimavöllurinn og stuðningur stuðningsmanna liðsins á Anfield skiptir ekki máli. Liðið lufsast um völlinn í einhverjum hlutlausum gír og mun fara að tapa leikjum ef ekki verður breyting á

  Það er nú þannig

  YNWA

  13
 5. Liðið er komið áfram í 8.liða úrslit og það var klárlega markmið dagsins.

  Þetta var heilt yfir solid frammistaða í kvöld. Liðið passaði sig á því að gefa ekki mörg færi á sig og það tókst .
  Inter náði að skora stórkostlegt mark þar sem leikmaður Inter myndi ekki geta leikið þetta eftir ef hann fengi 100 tilraunir aukalega.
  Við fengum fullt af færum til að skora:
  Matip skalli í slá.
  Van Dijk með skalla sem stefndi í markið en þeir bjarga á síðustu stundu.
  Salah með dauðafæri þar sem markvörðurinn liggur og varnarmenn raða sér á línuna.
  Salah með dauðafæri þar sem hann setur boltan í stöngina.
  Diaz er að setja boltan í markið þegar Vidal bjargar með ótrúlegum hætti.

  Ef við værum á okkar leik hefði þessi leikur farið 3-1 eða 4-1 en þetta var ekki okkar dagur fyrir framan markið.
  Inter liðið er sterkt lið en menn hafa verið að tala þá niður og eins og þetta sé eitthvað lið úr bestu deildinni( er að venjast þessu nafni).

  Bestu leikmenn liðsins í kvöld: Það stóð eiginlega engin upp úr fannst mér. Van Dijk áttu nokkur flott varnartilþrif og átti geggjað stungu á Andy svo að ég vel hann sem mann leiksins.

  YNWA – 8.liða úrslit staðreynd og verður spennandi að sjá hvaða lið við mætum.

  5
 6. Vá hvað þetta var góður leikur fyrir framhaldið af tímabilinu. xG var 2.5 á móti 0.4. Ekkert nema óheppni að við unnum ekki, en við unnum samt. Liðið þurfti aðeins að fá smá snupru og hún kom núna.

  Auk þess legg ég til að Sigkarl hætti að kvarta 😉 Hann rakkar niður leikmenn liðsins eftir flesta leiki og gleðst ekki yfir neinu nema þegar rúllað er yfir einhverja minni spámenn. Það að kalla lið LFC karakterlaust er smekklaust. Það að segja að liðið “lufsist um í hlutlausum gír” er jafn vitlaust og það er mósögn. Það er ekki til hlutlaus gír og liðið vann stöðugt allan leikinn á móti liði sem hafði engu að tapa að fara í kamakazi árásir framávið..

  Liðið leggur upp í leiki með plan. Og planið er að ná þeim árangri sem þarf að ná í leiknum miðað við í hvaða keppni leikurinn er. Ekki bara hlaupa eins menn séu með njálg, eða mála einhver meistaraverk í hvert sinn sem hlaupið er á grasi. Í þessum leik hafði Inter engu að tapa og spiluðu þannig. Verkefni LFC var að komast áfram, gefa fá góð færi (sbr 0.4 xG) og reyna að skapa nóg til að skora 1 mark og kannski 2 (sbr. 2.5 í xG fyrir LFC). Leikplanið gekk upp 100%

  Úff getur ekki einhver sem hefur vit á því hvernig er að reka fótboltalið komið með kennslustund hérna?

  35
  • Andri mér sýnist að þú sért allveg með þetta kemur þú ekki bara með kennsluna ?

   YNWA.

   3
   • haha. Nei, ég hlusta bara á heilagan Klopp og endurtek með mínum orðum það sem hann segir. Og mér finnst fínt að Sigkarl sé að röfla þetta auðvitað–finnst bara óþarfi að ráðast á leikmenn fyrir að vera með lélegan karakter eða leti. Það geta allir átt vondan dag, en LFC verður ekki réttilega sakað undir stjórn Klopp fyrir að reyna ekki.

    8
 7. Djöfull var þessi dómari hrikalega vondur!

  Hann ætlaði ekki að gefa neitt spjald á Sanchez fyrir þennan viðbjóð þegar hann skrællaði hnéð á Thiago með tökkunum. Gula spjaldið kom ekki fyrr en eftir VAR skoðun og hefði átt að vera beint rautt. Sama með fáránlega árás á Salah seint í leiknum, tók ekki eftir því hvaða varnarmaður það var. Ekkert dæmt. Þvílík skita. Þessi dómaradjöfull er bara alveg stórhættulegur!

  Afsakiði orðbragðið…

  12
 8. Höfum það á hreinu hér að Liverpool voru svo sem ekkert frábærir í kvöld að því sögðu áttum við 2 stangarskot 1 sláarskot og þeir björguðu nánast á línu . Á góðum dagi hefðum við skorað 2-3 mörk en inn vildi boltinn ekki. inter átti þetta draumamark og svo ekki mikið meir. Ég er aldrei sáttur að tapa en ef að ég hefði þurft að velja einn tapleik þá var það þessi og komast áfram í 8 liða úrslit. Síðan er maður að horfa á þessa sauði á BT sport það er tvær konur og united mann tala um að seinna spjaldið á sanches hafi átt að vera aðvörun en ekki gult til að skemma ekki leikinn á hvaða sveppum er þetta lið ?

  7
 9. Stönginn inn Stönginn út! LFC komið í 8 liða úrslit Salah verður á skotskónum í næsta og setur 3 stk.

  YNWA.

  6
 10. Ég verð að vera ósammála gagnrýninni á Salah. Væru menn að væna hann um óstuð ef stangarskotin tvö hefðu ratað rétta leið? Hefði hann þá ekki verið maður leiksins?

  13
 11. Hörmulegt.
  Lélegasti leikur liðsins síðan Leicester í desember.
  Erfitt að pikka út hver var slakastur, fáir sem komust klakklaust út úr þessu.
  Með þessu áframhaldi er þetta lið ekki að fara að gera neitt meira. Tek undir með mörgum, mér finnst liðið á vondum stað.

  7
 12. Vá hvursu fullkomið er að eiga akkúrat stöngin út leik núna. Hefðum ekki getað valið betri leik til að tapa 1:0. Varð spennandi leikur eftir að Inter komst yfir en ég var einhvern veginn ekkert rosa stressaður samt! Frábært að halda áframa í öllum keppnum:)
  YNWA

  8
 13. Trent klárlega maður leiksins, þetta var auðvita óþarfa mikil spenna, Inter ljón heppnir og grófri. Liverpool miklu betri. Dómarinn alls ekki starfi sínu vaxinn. Í guðanna sveita bænum hættið að rakka liðið okkar niður.

  7
 14. Sælir félagar. Í allri neikvæðninni sem umlýkur heiminn þá ætla ég að vera jákvæður með þessi úrslit. Þetta er einmitt leikurinn sem við máttum tapa og það 1-0. Nú taka þeir sig saman í andlitinu og vinna næstu leiki sannfærandi. Já, rífa sig upp á punghárunum og tapa ekki leik næstu 2 mánuði. Það er spá mín og ég lagðist glaður á koddann í gærkvöldi. Einhver gimvísindamaður sagði að með hverjum sigurleik stittist í tapið og þetta var besti leikurinn til að tapa með minnsta mun. Ég gæti ekki verið glaðari.

  18
 15. Við hefðum tekið þennan leik öðruvísi ef staðan hefði t.d. verið 0-0 eftir fyrri leikinn. Það vita allir sem hafa fylgst með okkar sturlaða liði. Við gerðum það sem þurfti þótt það sé ekkert gaman að tapa heima að þá skiptir það engu máli í stóra samhenginu því við erum áfram.
  Eg tippa á að við fáum hið leiðinlega lið Atletico Madrid aftur en í þetta skiptið munum við slá þá út!

  Við eigum að njóta hvers augnabliks með þetta frábæra lið okkar, það geri ég a.m.k.

  YNWA!

  4
 16. Það er svo merkilegt á hvaða stað Liverpool er akkúrat núna. Svolítið síðan að liðið átti einhvern brilliant leik þar sem það lék andstæðingana upp úr skónum. Lykilmenn að eiga off dag – jafnvel einhverja leiki í röð. 1-0 er hið nýja 5-0.

  En samt er liðið búið að vinna einn bikar og ennþá í góðum séns á þremur til viðbótar.

  Kannski helst þetta svona áfram. Liðið spilar bara nákvæmlega eins vel eins og þarf til að klára dæmið. Það gerði það á móti Chelsea, það gerði það í gær.

  Kannski kemur svo virkilega off leikur og liðið skíttapar. Þá munu allir segja “merkin voru greinileg að liðið væri á þessari leið”.

  En kannski kemur þessi off leikur bara alls ekki?

  6
  • Sæll Daníel

   Það er ef til vill rétt að liðið spilar bara þannig að það dugi fyrir þeim úrslitum sem það þarf að fá. Það er mér þó til efs. Það hlýtur að vera afar erfitt að segja þegar menn ganga inn á völlinn “núna eigið þið að tapa með einu marki”. og vera svo bara með það. Var þá uppleggið í WH leiknum að gefa á sér 2 – 4 færi en vinna svo leikinn með einu marki. Ég trúi því ekki og er viss um að þú trúir því ekki heldur og ert ef til vill ekki að meina það.

   Eina áætlunin sem Klopp hlýtur að hafa er að vinna alla leiki. Það er eina áætlunin sem dugir til að vinna titla. Auðvitað gengur hún ekki alltaf eftir en samt er það það eina sem virkar. Mér finnst eins og fleirum að liðið okkar, sem getur á sínum degi verið bezta lið í heimi, hafi ekki verið á góðum stað undanfarið og það veldur áhyggjum. Þrátt fyrir færi skoraði liðið ekki mark í síðasta leik og tapaði leiknum og í leiknum við WH voru okkar menn heppnir (góð varnarvinna) að tapa ekki leiknum. Það veldur áhyggjum og ég veit að ég er ekki eini áhyggjufulli stuðningsmaður liðsins.

   Það er nú þannig

   YNWA

   3
 17. Ótrúlegt að sjá PSG kasta frá sér tveggja marka forystu með tómum bjálfagangi í kvöld. Enn eina ferðina dottnir út úr Meistaradeildinni. Það nægir ekki að skora og skora, þegar menn eru alltaf rangstæðir. Lookin’ at you, Mbappé…

  En þvílíkur markasegull sem Benzema er. Smellti bara þrennu sisvona, sjálfum sér til skemmtunar.

  2
 18. Ef við skoðum aðeins hvaða níur eru bestar í heiminum í dag þá er það Benzema 34 ára gamall og Robert Lewandowski 33 ára. þessi leikmenn eru ennþá að leika sér að því að skora mörk.
  Mo Salah er núna 29 ára og miðað við form þá á hann nóg eftir á tanknum og nauðsynlegt að fá hann til að skrifa undir nýjan samning.

  6

Liðið gegn Inter – Thiago byrjar

Fréttir af andstæðingum: Chelsea fryst!