Inter heimsækir Anfield á morgun

Annað kvöld munu Liverpool og Inter mætast í seinni leik liðana í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en Liverpool stendur vel að vígi eftir fyrri leikinn þegar liðið vann 2-0 sigur á Ítalíu. Útivallarmörkin hafa ekki vægi lengur svo við þurfum ekki að velta því mikið fyrir okkur hvernig þetta gæti reiknast ef leikurinn færi á einn eða annan hátt. Ef Inter vinnur með tveimur þá förum við í framlengingu en ef þeir vinna með þremur þá færu þeir áfram.

Ivan Perisic, leikmaður Inter og fyrrum leikmaður Klopp er eitthvað tæpur virðist vera en líklegt er að hann verði með þeim á morgun en líkt og í fyrri leiknum þá verður Nicolo Barella ekki með vegna leikbanns en hann er lykilmaður í þessu Inter liði.

Roberto Firmino er að hefja æfingar aftur eftir meiðsli og spurning hvort hann verði í leikmannahópnum á morgun, í besta falli væri hann þá á bekknum en kæmi ekki á óvart þannig séð ef hann væri utan hóps þennan leik. Joel Matip var veikur á laugardaginn og spurning hvort hann sé búinn að hrista af sér þessa pest sem hann nældi sér í og geti verið aftur í liðinu. Konate átti mjög flottan leik gegn West Ham og hefur sýnt það oftar en einu sinni að hann á vel heima í þessu liði svo Liverpool er í góðum höndum hvort sem það verður hann eða Matip við hlið van Dijk. Thiago er ekki enn mættur aftur til æfinga en spurning hvort hann sé líklegur til að koma aftur inn í þessari viku.

Liverpool spilaði fyrri leikinn ekki mjög vel en vann réttmætan sigur í leiknum. Það voru ansi margir sem vildu meina að Inter hafi verið óheppnir að tapa leiknum og hafi sundurspilað Liveprool og ég veit ekki hvað og hvað. Það gerðist ekki! Liverpool voru ekki góðir en þrátt fyrir þessa meintu yfirburði Inter þá áttu þeir ekki skot á mark Liverpool og spiluðu nauðvörn mest allan leikinn, þetta Inter lið er gott en ef þeir hefðu mætt Liverpool í betra standi þá hefði ekki einu sinni þurft að spila seinni leikinn.

Alisson

Trent- Konate – Van Dijk – Robertson

Henderson – Fabinho – Milner

Salah – Jota – Mane

Það er margt í liðinu sem ég held að maður gæti talið nokkuð öruggt að við munum sjá. Alisson verður í markinu, van Dijk í miðverðinum, Trent og Robertson í bakvörðunum. Fabinho verður á miðjunni og Henderson líklega með honum, ég held að Salah og Mane byrji þennan leik og því bara spurning um annan miðvörðinn, þriðja miðjumanninn og hver verður frammi.

Luis Diaz hefur byrjað undanfarna leiki og spilað mjög vel, þarna var Liverpool að bæta við sig frábærum leikmanni sem gefur liðinu algjörlega nýja vídd og eiginleika. Ég held að hann muni þó setjast á bekkinn annað kvöld og Diogo Jota kemur aftur inn í byrjunarliðið. Mane hefur spilað undanfarna leiki í strikernum og skorað nokkur mörk en ég held að í svona leik þá fari Klopp í pínu “Meistaradeildar-legt” lið, ég held að Milner komi inn á miðjuna í stað Naby Keita sem var víst tæpur fyrir leikinn gegn West Ham og spurning hvort hann fari á bekkinn. Matip byrjar leikinn ef hann er 100% en ég held að hann verði það ekki og Konate byrji. Það gæti verið að Jones komi inn á miðjuna í stað Keita og Milner ef Klopp myndi vilja auka hæð á miðsvæðið.

Ég held að Liverpool muni ekki á nokkurn hátt ætla að spila upp á jafnteflið eða eitthvað álíka og mun leitast eftir því að klára leikinn og sækja til sigurs. Það er mikil reynsla og gæði í þessu liði sem á að vera nóg til að klára einvígið, Inter mun auðvitað ekki ætla að gefast upp og munu reyna að sækja sigurinn en ef Liverpool spilar sinn leik þá fer liðið áfram í næstu umferð sama hvað Inter reynir að gera.

Titilbarátta, einn bikar kominn í hús, komnir ágætlega á leið í hinum bikarnum og nú þarf að tryggja sig áfram í næstu umferð Meistaradeildarinnar og halda fernu draumunum lifandi!

8 Comments

  1. Góðar fréttir en Thiago, Matip og Firmino æfðu í gær og í dag. Klopp talaði reyndar um að Bobby væri sá sem er líklegastur að missa af þessum leik.

    Inter liðið mun selja sig dýrt í þessum leik og snýst þetta um að vera skynsamir og ekki gefa þeim mark í upphafi leiks. Tíminn vinnur með okkur og eftir því sem lengra líður því meira þurfa þeir að færa sig framar og þá getum við refsað þeim með okkar hraða.

    Spái 2-0 sigri þar sem Salah og Jota refsa þeim með skyndisóknar mörkum.

    8
  2. Er ég galinn yfir því að vilja sjá Salah á bekknum, mér finnst vera komin mikil þreyta í hann og það skiljanleg enda búinn að spila fáranlega mikið undanfarið.
    Við höfum Mane, Jota og Diaz sem geta vel leyst hann af og ef á þarf að halda þá væri hann frábær leikmaður til að skipta inná.

    2
  3. Einhver að horfa á Spurs-Everton? Nú er útlitið svart hjá okkar minnstu bræðrum…

    5
    • Er það ekki skrifað í skýin að Lampard tekur við m-united?

      lásuð það fyrst hér..!

      2
      • Set minn fimmtíu-kall á Rooney. Hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að hann tók ekki djobbið hjá Everton.

        1
    • Þetta yljar manni um hjartarætur.
      Var að skoða leikjaplanið hjá karamellunum… ég sé þá ná 3 stigum það sem eftir er!!
      Sorry jinxið

      1
  4. Nú geta bæði Tottenham og Arsenal haldið ManUtd á skemmtilegum stað á töflunni með því að vinna leiki sem þau lið eiga til góða á Utd. Gaman að því.

    9

Kvennaliðið heimsækir London City Lionesses

Gullkastið – Fulla ferð á þremur vígstöðvum