Skammt stórra Hamarshögga á milli

Það er rétt svo að B-lið Liverpool (með dass af A-liðinu á kantinum) sé búið að tryggja okkur sæti í 8 liða úrslitum FA bikarsins, en samt er komið að næsta leik. Já, þessi velgengni hefur mikið fyrstaheimsvandamál í för með sér, sem er það að liðið okkar er að spila óvenju marga leiki þessa leiktíðina. Skoðum það aðeins. Á tímabilinu er liðið búið að leika:

 • 26 leiki í deild (12 eftir)
 • 7 leiki í CL (a.m.k. 1 eftir og ágætar líkur á að þeir verði a.m.k. 3)
 • 3 leiki í FA bikarnum (a.m.k. 1 eftir)
 • 6 leiki í Carabao bikarnum (og verða ekki fleiri)

Semsagt, 42 leikir komnir og örugglega 14 til viðbótar framundan, eða samtals 56 leikir. Ef liðið kemst alla leið í CL og FA bikarnum, þá erum við að tala um 7 leiki ofan á þessa 14, eða 63 leikir í heild á leiktíðinni. Það að koma 21 leik fyrir á tímabilinu 5. mars – 28. maí gæti orðið ákveðin áskorun, líka í ljósi þess að inn í þetta tímabil kemur landsleikjahlé á tímabilinu 21. mars (mánudagur) – 1. apríl (föstudagur). Það er ljóst að Liverpool mun spila 5 leiki til viðbótar í mars: West Ham, Inter, Brighton, Arsenal og að lokum 8 liða úrslitin í FA bikarnum (Forest eða Huddersfield) í stað leiksins gegn United sem átti að fara fram 20. mars, og sá leikur mun því frestast fram í apríl. Við gætum því séð (að hámarki) 16 leiki í apríl og maí, og geri aðrir betur. Skulum bara segja að sumarfrí leikmanna yrði með kærkomnara móti fyrir þá ef þetta verður niðurstaðan.

En nóg um það. Þetta eru allt vangaveltur, það að komast í úrslitaleiki FA bikarins og CL væri afrek í sjálfu sér, og bara alls ekkert öruggt í þeim efnum. Gerum eins og Klopp og einblínum á einn leik í einu.

Og næsti leikur er einmitt heima gegn West Ham í deildinni.

Andstæðingarnir

Liverpool er búið að tapa nákvæmlega 2 leikjum af þessum 42 sem liðið hefur spilað á leiktíðinni, og annar þeirra var gegn West Ham. Vissulega var það á útivelli, vissulega komu nokkrir furðulegir dómar okkar mönnum í óhag, en West Ham hafa ekki verið nein lömb að leika við fyrir nein lið núna í vetur. Þeir gerðu m.a. jafntefli á útivelli við City í fyrri leik þeirra liða. Núna síðustu 2 mánuði eða svo hefur liðið hugsanlega aðeins misst flugið: af 8 leikjum síðan um miðjan janúar hefur liðið unnið 3 leiki, tapað þremur, og gert 2 jafntefli. Sigurleikirnir hafa verið gegn Wolves, Watford og Kidderminster Harriers í FA bikarnum, en svo hafa þeir tapað fyrir United, Leeds, og svo að lokum fyrir Southampton í FA bikarnum núna í vikunni. Þarna á milli komu svo jafntefli gegn Newcastle og Leicester. Semsagt, þeir mega endilega halda lægðinni áfram um helgina, en svo má liðið alveg ná vopnum sínum aftur, þá sérstaklega fyrir næstsíðasta leik tímabilsins (sem fyrir algjöra tilviljun er gegn City).

Liðið kemur að mestu heilt inn í þennan leik, Ogbonna spilar ekki meira á leiktíðinni, og óvíst er hvort Úkraínumaðurinn Yarmolenko spilar á næstunni af vonandi augljósum ástæðum. Svo verður að koma í ljós hvort Zouma spilar eða hvort Moyes gefur einhverjum kettlingum sénsinn í staðinn. Það er nokkuð ljóst að það verður einhver kattliðugur sem spilar í vörninni, nú og ef West Ham ákveða að losa sig við hann og kaupa einhvern nýjan vonum við að sjálfsögðu að þeir kaupi ekki köttinn í sekknum.

Jæja, nóg af pabbabröndurum í bili.

Litið til baka

Í tilefni þess hver andstæðingurinn er langar mig að horfa aðeins í baksýnisspegilinn og deila með ykkur mynd sem eru engar líkur á að verði kvartað yfir vegna höfundarréttar, enda var það undirritaður sem tók myndina fyrir leik Liverpool og West Ham í desember 2013, en þetta var fyrsta heimsókn undirritaðs á Anfield:

Glöggir lesendur sjá e.t.v. að þetta er tekið áður en aðalstúkan var stækkuð. Sömu glöggu lesendur muna e.t.v. að leikurinn endaði með 4-1 sigri okkar manna, megnið af mörkum leiksins voru sjálfsmörk – t.d. eitt frá Skrtel, og var það fjarri því að vera eina sjálfsmarkið hans á ferlinum.

Okkar menn

Fyrst aðeins af hvers konar titlatogi og upphefðum: Joel Matip hefur verið tilnefndur sem leikmaður mánaðarins í deildinni. Þá hefur bakfallsspyrna Mané gegn Norwich verið tilnefnd í flokkinum mark mánaðarins, og að lokum er Jürgen Klopp tilnefndur sem stjóri febrúarmánaðar. Kíkið endilega á þessa linka og kjósið okkar menn (ég ætla reyndar alls ekkert að segja ykkur hvernig þið eigið að kjósa, þið eigið það við ykkar eigin samvisku).

Næst kíkjum við á meiðslalistann, sem var tómur í u.þ.b. 135 mínútur af spilatíma. Það hefur enn ekkert verið gefið út hvenær Firmino kemur til baka, Thiago nær líklegast ekki leiknum um helgina en hugsanlega leiknum gegn Inter í næstu viku, og Curtis Jones kvartaði undan eymslum í hálfleik og var því tekinn af velli í varúðarskyni. Það er ekki víst að það hamli honum nein ósköp, en á meðan Klopp er með þetta breiðan hóp er hæpið að menn taki neina sénsa með Curtis.

Merkilegt nokk, þá er meiðslalistinn í augnablikinu þar með upptalinn.

Allnokkrar kanónur fengu hvíld í leiknum gegn Norwich eftir að hafa spilað 120 mínútur gegn Chelsea, sbr. Trent, VVD, Matip, Robbo, Fab, Keita og Salah, og við megum því reikna með að sjá þá alla í byrjunarliði. Mané, Díaz og Hendo koma sjálfsagt við sögu, og Alisson verður nánast örugglega í marki. Í raun er bara spurning hverjir af fremstu 4 byrja (sem væru fremstu 5 ef Firmino væri heill), og erum við komin á þann stað að tala um Minamino í sömu andrá og þessa fremstu 5? Hann er klárlega 6. – 7. kostur í sókninni (Origi var t.d. settur inná gegn Chelsea frekar en hann), en hann hefur klárlega sýnt þess merki að vera að bæta sinn leik, og tölfræðin varðandi mörk og stoðsendingar er betri en hjá ýmsum stærri nöfnum. Persónulega held ég að Klopp haldi áfram að sýna honum þolinmæði, og að hann verði á bekk á sunnudaginn.

Hér kemur a.m.k. sprenglærð ágiskun að uppstillingu:

Alisson

Trent – Matip – VVD – Robbo

Hendo – Fab – Keita

Salah – Mané – Díaz

Mané og Díaz komu inná á 84. mínútu gegn Norwich, og það var því bara létt upphitun hjá þeim fyrir leikinn um helgina. Jota hins vegar spilaði í þessar 84 mínútur og verður því líklegast á bekk, en tilbúinn í slaginn gegn Inter í næstu viku.

Fernan góða vinnst tæpast ef þessi leikur vinnst ekki. Þetta vita Klopp, Lijnders og félagar, og munu örugglega setja allan fókus á þennan leik. En gleymum því ekki heldur að engu ensku liði hefur tekist að vinna téða fernu, og eins og Klopp benti á fyrir leikinn gegn Norwich er það vegna þess að slíkt afrek er mjög erfitt. Ekki nóg með að liðið sé þar að berjast við olíumaskínur eins og City, heldur þarf líka að vinna öll hin sterku liðin í Evrópu. Engu að síður skulum við að sjálfsögðu ekki láta það stoppa okkur í því að dreyma. Miði er möguleiki sagði einhversstaðar, og á meðan liðið er inni í öllum keppnum, er með sterkan hóp, þá er ýmislegt hægt. Mér segir þó svo hugur að ef við hefðum verið spurð í upphafi tímabils hvort við yrðum ánægð með 1, 2 eða 3 bikara í lok tímabilsins, að þá hefðum við líklega svarað því játandi.

En auðvitað gerum við kröfu um að vinna fernuna. Skárra væri það nú.

Einn leikur í einu.

KOMA SVO!!!

11 Comments

 1. Það eru semsagt 84 dagar eftir af tímabilinu frá West Ham leiknum. Og af þeim eru 11 landsleikja dagar. Til að vinna fernu þyrfti að spila 21 leik á 73 leikdögum, eða leikur á uþb. 3.5 daga fresti. Margir af þessum leikjum yrðu gegn bestu liðum Englands og Evrópu. Á að giska mætti kannski 1-2 leikir tapast í UCL og undanúrslitum FA (er það ekki tveir leikir?). Enginn leikur í deild má tapast. Kannski séns að gera eitt jafntefli.

  Ef við gæfum okkur (í brjáluðu bjartsýniskasti) að LFC hafi um 90% líkur á að ná réttum úrslitum í hverjum leik, þá væru líkurnar samt 0.9^21 eða um 11%. Ef líkurnar eru 95% þá fer það upp í 34%. Kannski bara rétt að njóta hvers leiks fyrir sig því það eru 100% líkur á að liðið spili skemmtilegan fótbolta…

  8
 2. “og erum við komin á þann stað að tala um Minamino í sömu andrá og þessa fremstu 5?”

  Það er styst milli marka hjá Minamino (Salah meðtalinn). Mörk Minamino hafa vissulega komið mörg gegn slökum andstæðingum, en það má líka segja um Bobby Firmino. 7 af 8 mörkum BF hafa komið í stórum og auðveldum sigrum gegn Norwich (0-3), Porto (1-5), Watford (0-5) og Shrewsbury (4-1). Tæki Minamino fram yfir Bobby í dag.

  Fótboltagreind mín er líklega ekki upp á marga fiska.

  5
 3. Takk fyrir þetta. Sjáið hvernig velja liðið hausverkurinn er hjá Klopp, þegar lítið er um meiðsli, fyrir hvern leik. Auðvitað er leikjaálagið nánast ómannlegt og því skiptir miklu að dreifa álagi sem mest á hátt í 20 manns. Leikmenn eins og Tsimikas, Elliott, Jones, Milner, Keita, Diaz, Konate og jafnvel fleiri (etv Ox, Minamino og Origi) væru byrjunarliðsmenn í nánast hverjum leik í öllum liðum PL utan Liverpool og MC. Þessi hópur er fullur af gæðaleikmönnum. Númer 1, 2 og 3 er þó að hann haldist heill. Þá getur langstærsti draumurinn lifað.

  5
 4. 5. mars 2008: ég á Anfield á afmælisdegi mínum, leikur gegn West Ham sem Liverpool vann 4:0

  5. mars 2022: ég á Anfield á afmælisdegi mínum, leikur gegn West Ham…………. 4:0 aftur?

  20
  • Minn afmælisdagur líka – en ég hef því miður aldrei farið á Anfield. Fjögur núll takk!

   6
   • Það þarf nú heldur betur að bæta úr þessu heimsóknarleysi!

    6
 5. West ham er búnir að vera alltof góðir þetta tímabil og það er enginn heppni hjá þeim.
  Var meira segja að roota fyrir þá að lenda í 4dja sæti já meira segja þó þeir hafi unnið okkur
  lið sem hefur unnið Liverpool á þessu tímabili á bara alla mína virðingu skilið.

  That said ..við erum á blússandi siglingu og Liverpool búnir að vera algjörlega frábærir og tel okkur vinna þennan leik það eru marka leikir gegn Westham ef ég tek bara síðustu 4 leiki milli okkar og þeirra frá feb 2020 þá hafa verið skoruð 17 mörk ! þar sem Liverpool hafa haft betur 3 sinnum af þessum 4 ég tek hattinn ofan af fyrir þessu og vona við sjáum skemmtilegan marka leik aftur þar sem Liverpool verður í aðalhlutverki að skora 🙂

  YNWA !

  3
 6. Ég hef sjaldan lesið meira bull. Það er sko aldrei komið nóg af pabbabröndurum!

  Er sammála pistlahöfundi að öðru leyti.

  2
  • Ég sagði líka Í BILI. En jú, annars er ég sammála að þeir eiga alltaf við.

   2

FA CUP 8.liða úrslit

Byrjunarliðin hjá Liverpool og West Ham