DEILDARBIKARMEISTARAR 2022!!!!!


Liverpool fer ekki titlalaust út úr þessu tímabili, því fyrsti (og vonandi ekki síðasti!) bikarinn var unninn í kvöld eftir 10-11 sigur í vítakeppni og bráðabana.

Mörkin

Engin mörk í venjulegum leiktíma og framlengingu. Bókstaflega allir leikmennirnir sem voru inná í vítakeppninni skoruðu, nema einn.

Gangur leiksins

Leikurinn byrjaði nú ekki vel því Thiago meiddist í upphitun og þurfti því að taka hann úr hóp. Keita kom inn í byrjunarliðið, og Elliott kom inn á bekkinn í hans stað. Thiago var miður sín á bekknum, skiljanlega enda vill enginn missa af því´á síðustu mínútu að spila úrslitaleik á Wembley.

Það er sjaldnast þannig að leikir gegn Chelsea séu þægilegir, þessi var engin undantekning. Okkar menn áttu í vök að verjast fyrsta korterið, en voru svo betri aðilinn fram að hálfleik. Í síðari hálfleik áttu svo Chelsea yfirhöndina, þá sérstaklega eftir skiptingarnar.

Þrátt fyrir markaleysi var þetta fjarri því að vera viðburðarlítill leikur. Mané fékk dauða-dauðafæri í fyrri hálfleik eftir að Keita átti gott skot sem Mendy varði, skotið frá Mané var svo bara örlítið of lágt því Mendy náði að slæma putta í boltann og senda hann þar með yfir. Chelsea áttu a.m.k. tvö dauðafæri sömuleiðis, fyrra færið var nokkuð beint á Kelleher og hann varði vel frá Pulisic, seinna færið fór hárfínt framhjá.

Í síðari hálfleik skoraði svo Matip mark eftir fallega rútínu þar sem Trent gaf aukaspyrnu inn á markteigshornið fjær þar sem Keita kom aðvífandi, skallaði boltann í jörðina og í humátt að fjærhorninu þar sem Matip kom aðvífandi og stangaði boltann inn. Markinu var fagnað vel og vandlega, en svo fór VAR að kíkja á málið og komst að því að Virgil van Dijk hefði verið rangstæður í aðdragandanum, því hann hindraði för varnarmanns Chelsea að hlaupaleið Keita ásamt því að hafa verið örlítið fyrir innan. En hvorki Keita né Matip voru samt rangstæðir. Hæpin röksemdafærsla, en okkur er slétt sama fyrst svona fór.

Það var þreföld skipting í seinni hálfleik hjá okkar mönnum: Milner, Elliott og Jota komu inná fyrir Hendo, Keita og Mané. Sá senegalski var nú allt annað en ánægður með að vera tekinn af velli, en Klopp ræður. Leikur Liverpool veiktist heldur við þessa skiptingu, en menn héldu sjó.

Kelleher þurfti a.m.k. tvisvar að verja vel, þar á meðal alveg undir lokin frá Lukaku, en hélt ró sinni í öllum tilfellum. Hann þurfti reyndar líka að sækja boltann úr netinu, en Chelsea voru dæmdir rangstæðir í svona 17.583 tifellum.

Framlengingin var svo bara meira af því sama. Konate kom inná fyrir Matip áður en framlengingin byrjaði, og Origi fyrir Díaz sem var orðinn ansi lúinn þarna undir lokin. Lukaku náði að setja boltann í netið en surprise, surprise, hann var rangstæður í aðdragandanum.

Vítakeppni var því niðurstaðan, en Tuchel fannst eitthvað atriði að skipta Kepa inná undir lok framlengingar í stað Mendy. Kepa náði einni markspyrnu af viti í leiknum.

Vítakeppnin

Það var stillt upp í klassíska röð vítaskyttna: Milner, Fab, Virgil, Trent og Salah. Allir skoruðu, sama gerðu líka leikmenn Chelsea. Spyrnur okkar manna voru allar vel teknar, en þó fáar eins og hjá VVD því Kepa stillti sér upp “off-center”, og Virgil gerði sér lítið fyrir og dúndraði bara samt í hornið sem Kepa var í. Kelleher var alls ekkert fjarri því að verja í 1-2 skipti, en var stundum aðeins of fljótur úr stöðu. Það þurfti því að grípa til bráðabana, þar skoruðu Jota, Origi, Robbo, Elliott og Konate úr öllum sínum spyrnum, og sama gerðu leikmenn Chelsea.

Svo þá var komið að markvörðunum.

Munum að markvörður Chelsea var fenginn inná völlinn, eingöngu í þeim tilgangi að standa sig í vítakeppninni. Þegar þarna var komið sögu hafði hann látið skora 10 sinnum hjá sér, og lét Kelleher skora 11. markið. En spyrnan frá Kepa reyndist hins vegar arfaslök. Það kemur í ljós að það er mjög til bóta að hitta á markið í vítakeppnum. Við getum því þakkað þeim Tuchel og Kepa fyrir að fyrsti bikarinn á tímabilinu er kominn í hús!

Frammistöður leikmanna

Jújú, einhverjir leikmenn áttu hugsanlega síðri dag en þeir hafa átt. En munum að Chelsea er bara drulluerfitt lið sem Liverpool hefur ekki enn tekist að vinna í venjulegum leiktíma á þessari leiktíð. Það hversu ólseigir þeir eru þurfti því ekkert að koma á óvart. Nokkrir leikmenn eiga þó verðskuldað að á þá sé minnst fyrir góða frammistöðu: Luis Díaz var mjög öflugur megnið af leiknum, aðeins farið að draga af honum undir lokin, en hann hélt samt áfram að djöflast. Virgil van Dijk var algjör klettur í vörninni, Robbo hefur kannski verið betur en var síhlaupandi, svei mér þá ef hann tók ekki sprett í átt að vítapunktinum til að taka sína spyrnu. Tilnefninguna “Maður leiksins” hlýtur þó írska ungstirnið Caomihín Kelleher fyrir sína frammistöðu. Ekki nóg með að hann héldi hreinu gegn Chelsea mönnum, þá var hann duglegur að koma út úr teig þegar þess þurfti, og dreifði boltanum vel. Í stuttu máli þá stóð hann algjörlega undir því trausti sem Klopp sýndi honum með því að gefa honum úrslitaleikinn.

Framundan

Það er annar bikarleikur framundan, en liðið mætir Norwich í FA bikarnum í miðri viku á Anfield áður en West Ham mæta svo á laugardaginn í deildinni. Það má reikna með að Klopp róteri eitthvað á miðvikudaginn, gefi e.t.v. Minamino og Ox einhverjar mínútur, en svo þarf að stilla upp allra sterkasta liðinu í deildinni.

Fögnum þessum bikar vel, og vonum að þeim fjölgi á næstu vikum!

35 Comments

  1. Þessi drengur Kelleher ískaldur á punktinum..en vá gæðin í þessum vítaspyrnum hjá báðum liðum.

    15
  2. Q: Hverja undirbýrðu í vítaspyrnukeppni?
    Klopp: ALLA!! … afhverju spyrðu?

    18
  3. Heimsmeistararnir komust ekkert inn í þennan leik fyrr en eftir skiptingar. Sem þýðir hversu öflugt first 11 eru hjá okkur. Hefðu átt að klára þetta í 90 mín. Hingað til hefur aldrei verið dæmd rangstaða á barning innan teigs hvort sem hann sé í rangstöðu eða ekki. Þannig við unnum dómarann og Var í þessum leik líka.

    10
    • Var dæmt á Harry Maguire um daginn á móti Burnley, það var eiginlega alveg eins.

      5
  4. Tuchel treysti ekki dýrasta markmanni heims til að byrja leikinn.

    Klopp sveik ekki óreyndan Kelleher.

    28
    • Yess!!!Til hamingju me? titillinn allir Poolarar? klikka?ur endir????

      5
  5. Frábær sigur. Kelleher maður leiksins. Ekki ónýtt að hafa svona markmann til að bakka Allisson upp. Nú er staðan 5-6 hjá Klopp í topp tveimur í öllum keppnum.

    13
  6. Til hamingju með bikarinn, þetta var sætt.

    Kepa var aldrei að fara að skora. Ég hafði sömu tilfinningu fyrir því og í úrslitaleikum í Evrópudeildinni í fyrra… það var reyndar annað lið og annar markmaður 😉

    7
  7. Þetta var frábært skemmtun fyrsta að við unnum leikinn.

    Chelsea byrjaði af krafti og fengu dauðafæri strax í byrjun leiks.
    Liverpool tók svo yfir leikinn og fékk Mane dauðafæri til að skora.
    Chelsea fékk svo dauðafæri alveg í blálokinn í fyrri hálfleik en klúðruðu.

    Chelsea byrjaði síðari hálfleikinn betur en við náðum svo aftur að koma okkur inn í leikinn.
    Liverpool virtist skora löglegt mark en það var dæmt af út af því að VAR taldi að Van Dijk hafði áhrif á leikinn úr rangstöðu.
    Liðin skiptust á að ógna en þrefaldaskiptinginn hjá Klopp virtist klúðrast því að allur botn datt úr leik liðsins þegar Hendo, Mane og Keita fóru út af fyrir Milner, Jota og Elliott.

    Chelsea virkuðu sterkari í frammlengingu og héldu að þeir höfðu skorað en það var dæmd rangstæða.

    Víta keppninn var epic þar sem Kelleher virtist alltaf leggja af stað of snemma á meðan að maður hafði á tilfinningunni að Kepa myndi taka einn en hann endar sem skúrkur.

    Liverpool leikmenn.
    Van Dijk var eins og kóngur þarna inn á vellinum hvort sem Konate eða Matip var með honum.
    Kelleher var geggjaður í leiknum og skoraði úr víti.
    Fabinho var traustur.
    Andy er svo með nokkur auka lungu, gaurinn var upp og niður völlinn í 120 mín og skoraði úr víti.
    Mane hann klúðraði dauðafærinu en var að standa sig virkilega vel að halda bolta og ógna marki.
    Diaz 75 mín hann var virkilega ógnandi og lét hægri bakvörð Chelsea snúast í hringi en svo var eins og hann virkaði algjörlega bensínlaus og var tekinn af velli fyrir Origi.
    Keita fannst mér nokkuð sprækur á miðsvæðinu og átti góðan leik.
    Hendo barði liðið áfram en er líklega tæpur og ekki hægt að spila honum lengur.
    Salah átti sýna spretti en þeir voru með hann í gjörgæslu og eiginlega týndist hann í c.a klukkutíma.
    Trent hefur oft leikið betur en átti nokkrar góðar sendingar en maður setti smá spurningarmerki með varnarvinnuna.
    Matip var flottur þessar 90 mín en Klopp hafði áhyggjur af Lukaku óþreyttan á honum og setti inn Konate.
    Konate var í smá vandræðum en ekkert alvarlegt.
    Elliott var því miður ekkert spes eftir að hann kom inn á en það er eitthvað sem segir mér að hann eigi eftir að vinna fleiri bikara með Liverpool í stærra hlutverki.
    Jota var einfaldlega lélegur eftir að hann kom inn á. Greinilega ekki 100% heill og var aldrei nálægt því að skora.
    Origi kom inn á og lét finna fyrir sér.

    Þetta var ekki okkar besti leikur en Chelsea opnaði vörnina okkar nokkrum sinnum mjög vel og svo fannst manni sóknarleikurinn okkar verða að engu eftir að Mane og Keita fór af velli en hverjum er ekki drullu sama. Bikarinn endar hjá okkur 🙂

    YNWA – Pælið í því að koma inn á til að verja víti og það er skorað 11 hjá þér og þú klúðrar sjálfur víti.

    13
  8. Ellefu vítaskyttur, geri aðrir betur, KLOPP vann þetta, vann Thuchel

    4
    • Til hamingju Poollarar ! Ég er að reyna að komast niður úr skýjunum.

      5
      • Vertu bara uppi en það er leikur á miðvikudaginn sem þarf að vinnast 😉

        Við erum deildarbikarmeistarar 2022!!

        1
  9. Sæl og blessuð.

    Ótrúlega mikilvægur bikar þótt nettur sé. Nú höfum við skv. útreikningum jafnaði MU í bikurum. Chelsea og Tuchel hafa eitthvert jafnteflistak á okkur. 1-1 og 2-2 og svo núna 0-0. Var orðinn svartsýnn þegar leið á leik – allir súpersöbbarnir þeirra komnir inn á, en okkar varamenn, Milner, Jota, Elliot og Origi, standa ekki alveg undir þeirri nafnbót á þessum tímapunkti. Ýmist og aldnir, nýstignir úr meiðslum, of ungir eða of óútreiknanlegir.

    En mikið svakalega var þetta sterkt. Og Kelleher er maðurinn. Stórbrotin frammistaða. Eins hjá kónginum sjálfum – VvD sem gæti líka fengið MoM nafnbótina.

    Og þessi stórmeistarafórn – að skipta út langbesta og langheitasta leikmanni Chelsea fyrir ískaldan Kepa – hversu vandræðalegt?

    Gleði. Mikil gleði!

    5
  10. Svona er staðan!

    ManU er með 66 titla marga frek litla
    LIVERPOOL er með 66 TITL ALLA frekar STÓRA
    Í ár gæti það orðið svo að þeir tækju alla fjóra.

    Til hamingju Liverpool nær og fjær.

    YNWA.

    8
  11. Það er einhver sérstök Klopp-fegurð yfir því að markmennirnir okkar skuli hafa skorað hvor sitt úrslitamarkið fyrir félagið!

    10
  12. Til hamingju öll, Umræðan er að C hafi verið betri/hættulegri en einhverra hluta vegna var Mendy valinn maður leiksins.

    3
    • Virgil klárlega maður leiksins, stjórnaði varnarlínunni sem gerði andstæðingana ítrekað rangstæða.

      2
  13. Gríðarlega anægður með að nafn Liverpool sé komið á þennan bikar þetta árið. Mér hefur þótt Manchester City kveikja upp í þessari keppni með því að vinna svona oft í röð. Það er visst gæðamerki og nauðsinlegt að Liverpool komi sér að hér líka.

    0-0 leikir verða síðan ekki mikið betri.

    Og Diaz, vá hvað hann er kærkomin viðbót í þetta lið.

    Áfram Liverpool og áfram Klopp!!!

    7
    • Algjörlega sammála. Það er ákveðið styrkleikamerki að vinna litlu keppirnar líka og sýnir að aukin breidd er komin!

      4
  14. Ég hef stundum furðað mig á fréttaflutningi á visir.is þegar kemur að Liverpool og rætt á meðal vina að þeirra aðal skrípent hljóti að hafa horn i síðu liðsins og rúmlega það.

    Ekki að menn megi ekki fjalla um leikinn í gær eins og þeir vilja en ég gat ekki betur lesið út úr þessari fyrirsögn að Harvey Elliot hafi gert eitthvað stórkostlegt rangt og eigi yfir höfði sér einhverjar ákúrur frá enska knattspyrnusambandi.

    Kannski er það svo en Guð minn góður hvað það er saklaust að taka upp rautt blys og veifa þegar menn eru í sigurvímu eftir úrslitaleik.

    https://www.visir.is/g/20222228776d/harvey-elliot-kom-ser-i-vandraedi-i-fagnadarlatum-liverpool

    4
    • Þetta er ekkert nýtt, það eru united pennar á flestum fréttasíðum sem fjalla um íþróttir. Það er svo ofboðslega augljóst að margir þeirra geta engan veginn fjallað hlutlaust um Liverpool. Amk tveir svoleiðis hjá fotbolti.net. Þetta er einna augljósast þegar kemur að umfjöllun um dómgæslu í leikjum Liverpool, þar skrifa alltaf sömu tveir pennarnir “fréttir” um dómgæslu í leikjum Liverpool, báðir miklir united menn.

      6
      • merkilegt ítök sem þessir United hafa hvað alla fótboltaumfjöllun snertir.

        Ekki batnaði það þegar þessi “ég held með United” Steinke gaur tók við af Magga.net. Það er heldur ekki hlustandi á Dr. football, Þungavigtina og marga af þeim sem lýsa á Síminn sport fyrir þessari hlutdrægni.

        6
  15. Vantar okkur ekki bara alvöru miðil með Liverpool-umræðu?

    DJÓK!

    Takk enn og aftur Kop.is menn – ekki síst Einar Matthías, Maggi og SSteinn. Þið eruð langbestir og fylgið manni að venju inn í svefninn á hverju mánudagskvöldi. Það er bara oftar en ekki eins og að fá boð til Madeira á köldu kvöldi í Stoke.

    12

Liðið gegn Chelsea á Wembley

Gullkastið – Frábær ferð á Wembley