Inter 0 – 2 Liverpool

0-1 Firmino 75.mín

0-2 Salah 83. mín

Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og gáfu Inter mönnum lítinn tíma á boltanum. Okkar menn komust snemma í nokkrar ágætar stöður en þó enginn alvöru færi fyrr en eftir tæpar fimmtán mínútur þegar Robertson átti frábæra fyrirgjöf úr aukaspyrnu sem Mane setti yfir markið. Mínútu síðar voru Inter hinsvegar nánast komnir yfir þegar Calhanoglu fékk boltann í þröngu færi og þrumaði honum í þverslánna. Í kjölfarið fóru Inter menn að ná að spila sig aðeins betur úr pressunni og leikurinn fór að opnast aðeins og eftir tuttugu og tveggja mínútna leik setti Mane boltann rétt framhjá úr sinni annarri bakfallsspyrnu í leiknum.

Það sem eftir var hálfleiks stýrði Liverpool leiknum ágætlega fyrir utan nokkrar slakar sendingar en átti erfitt með að skapa sér almennileg færi meðan Inter reyndi að beita skyndisóknum og náðu tvisvar að skapa ágætis hættu en Van Dijk steig Dzeko út í annað skiptið meðan Konate komst inn í sendingu í hinni. Hálfleiksflautið kom svo á undarlegum tíma þar sem Salah virtist vera að sleppa einn í gegn en lítið að gera við því.

Í hálfleik var Jota tekinn útaf fyrir Firmino en Inter voru mun betri í byrjun seinni hálfleiks Martinez var hársbreidd frá því að koma Inter yfir þegar hann rétt missti af boltanum eftir sendingu Perisic en síðan náðu Inter að koma boltanum í markið en Dzeko var rangstæður og það taldi því ekki. Klopp var greinilega ekki ánægður sína menn og eftir klukkutíma leik var þreföld skipting þar sem Henderson, Diaz og Keita komu inn fyrir Fabinho, Mane og Elliott. Aðeins fjórum mínútum síðar átti Díaz þríhyrningsspil við Trent áður en hann átti skot sem Skriniar kom framhjá markinu.

Það var svo aðeins korter eftir af leiknum þegar Liverpool fékk hornspyrnu sem Robertson tók og útivalla-Bobby Firmino sneiddi yfir í fjærhornið og kom okkar mönnum yfir. Mark úr fyrsta skoti leiksins sem rataði á markið.

Átta mínútnum síðar átti Liverpool aukaspyrnu hægra meginn á vellinum sem Robertson tók, Inter-menn komu boltanum frá en þar barst hann til Trent sem sendi hann beint aftur inn á teig þar sem Van Dijk skallaði honum niður og Mo Salah fyrstur til boltans og skoraði með smá viðkomu í varnarmanni Inter.

Bestu menn Liverpool

Langt frá því að vera okkar besti leikur. Salah og Firmino skoruðu mörkin en voru báðir langt frá sínu besta. Diaz kom inn af miklum krafti og náði að koma okkur aftur inn í leikinn með Henderson og Keita. Bestir voru þó hafsentar okkar Konate og Van Dijk sem voru algjör veggur aftast á vellinum og í raun erfitt að velja á milli þeirra en gef Konate mann leiksins þar sem Van Dijk hefur hvort eð er fengið þann titil svo oft.

Vondur dagur

Harvey Elliott fékk sinn fyrsta byrjunarliðsleik í Meistaradeild en náði aldrei neinum takti. Dagurinn var þó verstur fyrir Mane. Hann átti ekkert afleitan leik en hefði mátt gera betur úr skallafæri sínu en verst fyrir Mane var í raun hversu góður Diaz var þegar hann leysti hann af hólmi.

Umræðupunktar

  • Liverpool 2-0 yfir í hálfleik í þessari rimmu og seinni leikurinn á Anfield. Það verður enginn spurning að seinni leikurinn verður erfiður en klárlega komnir í góða stöðu til að komast í átta liða úrslitin.
  • Skiptingarnar fullkomnar! Klopp hefur kannski helst verið gagnrýndur fyrir það að hafa verið full ragur við að skipta þegar illa gengur en í dag var staðan önnur. Firmino kom inn í hálfleik átti kannski ekki sinn besta leik en kom okkur yfir og þrefalda skiptingin eftir klukktíma var frábær Henderson, Keita og Diaz komu allir mjög vel inn í leikinn í dag.
  • Jota fór útaf í hálfleik en er víst meiddur á ökkla, vonum að það sé ekki of slæmt.
  • James Milner kom inn á undir lokinn og spilaði sinn 800 leik á ferlinum – Rosalegur áfangi hjá frábærum leikmanni.

Næsta verkefni

Á laugardaginn fáum við kanarífuglana í Norwich í heimsókn og þá þarf að leggja þessa rimmu á ís og fara enn einu sinni að einbeita sér að kapphlaupinu við Manchester City.

30 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Frábært lið! Það var áhætta að setja kornungan Elliot inn á! Framan af fundust mér miðverðirnir halda okkur á floti. Mané sprækur sem og Jota en Salah lítt sýnilegur.

    Skildi því ekki þessar útafskiptingar en sem betur fer er Klopp þarna á vellinum og ég í sófanum.

    Hendo kom inn eins og generáll, Díasinn stórhættulegur, Kante smekkvís. Þvílík breyting á hraða og snerpu. Já og Firmino kom þarna inn á – ég ætla ekki að endurtaka orðin sem ég lét fjúka þegar hann birtist þarna! Bölsýnisfólk er alltaf ánægt þegar það hefur rangt fyrir sér.

    Og Salah birtist svo upp úr djúpinu og skoraði þvílík kærkomið mark!

    Frábær leikur. Frábært lið.

    8
    • Ég fyrirgef þér að kalla Keita Kante, enda menn í sama gæðaflokki.

      3
      • Já, gerði ég það? jahérna! En Kante er reyndar gæðablóð og einhver besti leikmaður í PL að mínu mati, svo þetta feudíska hras ætti einmitt ekki að túlka nema sem kompliment á Keita 🙂

        2
  2. Erfitt var það en það tókst að lokum og þetta lítur veæ út fyrir seinni leikinn þó að þetta sé langt frá því að vera öruggt.
    Mér fannst Elliot eiga erfitt í kvöld skiljanlega enda hans fyrsti cl leikur og það á móti Inter á útivelli.
    Og þvílíkur lúxus að geta skipt inná Firmino, Diaz, Keita, Henderson og Milner og liðið varð bara betra við þessar skiptingar.
    Þessi hópur á alveg að geta komið sér í úrslitaleikinn, þetta er reynslumikið lið sem við höfum og gæðin erum mikil í öllum stöðum.

    7
  3. Skiptingarnar sýndu breidd liðsins. Inter áttu ekki break eftir að Firminator og co komu inná

    9
  4. Skiptingarnar komu á hárréttum tíma því Inter var að reyna keyra yfir okkur sem þeir náðu ekki sem betur fer. Ég ætla bara játa að ég var orðinn stressaður og orðljótur áður en markið hjá Bobby kom og mikið er það frábært að hann skildi skora það yess flott úrslit á erfiðum útivelli þar sem Vidal fékk að brjóta á okkar mönnum eins og hann vildi ekki eitt gult spjald á loft í leiknum pælið í því.

    YNWA.

    9
  5. Hafsentarnir frábærir í kvöld Inter átti ekki skot á rammann….við erum með orku til að spila á fullu í 90min…frábært að hafa möguleika á 5 skiptingum með þessa breidd…algjörlega magnað þetta lið okkar og framhaldið hefur sjaldan litið betur út….þetta var sigur nr 50 hjá Klopp í meistaradeildinni sem mjög fáir hafa náð…

    10
    • Og leikur númer 800 á atvinnumannsferli Hames Milner! Geri aðrir betur.

      9
      • Magnaður gæi….Milner er kanski búinn að vinna fleirri leiki en Klopp í meistaradeildinni…

        7
      • Leikur nr 800 með félagsliðum. Auk þess hefur þessi gaur spilað 61 landsleik fyrir England og 70 leiki fyrir yngri landslið Englands. Alls 931 leikur.

        12
  6. Flott úrslit og maður fer brosandi á koddan.

    Við vorum ágætir í fyrri hálfleik en ekkert meira en það. Í síðari voru við einfaldlega lélegir þangað til að að við skoruðum og þá var eins og við fórum í gang já eða þeir gáfu aðeins eftir.

    Konate maður leiksins en Van Dijk var líka góður. Keita/Henderson komu með kraft á miðjuna sem var lykilinn að þessum úrslitum.

    Það er mjög skrítið að segja þetta en mér fannst sóknarlínan okkar lengi vel ekki góð og fannst mér Firmino einfaldlega lélegur eftir að hann kom inn á en svo skorar hann og ja… mér fannst það geggjað en framistaðan hans samt ekki góð heilt yfir í síðari.

    Salah var aftur týndur(alltaf verið að brjóta á honum) en skoraði mark og það gæti verið mikilvægt fyrir hann eftir pirringinn gegn Burnley(gæti skorað þrennu gegn Norwich).
    Mane átti nokkra ágæta spretti skalla yfir markið og svo hjólhestarspyrnu rétt framhjá en það pirraði mig ekkert að hann var tekinn af velli sem segir manni að það var lítið að frétta og maður hefur alltaf meiri trú á að Salah skori.
    Diaz kom af krafti inn á og vill maður að hann fái að byrja bara næsta leik. Áræðin, hraður og teknískur þessi strákur.

    Þetta einvígi er ekki búið en við höfum komið okkur í frábæra stöðu.

    3
  7. Er bara alls ekki sammál mönnum með Firminio, fannst hann standa sig vel í erfiðum leik. Hann náði að tengja bolta á milli kanta og miðju og losaði boltann hratt sem var nausynlegt því þeir pressuðu af ákafa og gáfu okkar mönnum ekki frið. Hann er líka okkar fremsti varnarmaður sem stundum gleymist. Við vorum að klappa boltanum of mikið í fyrri hálfleik og losuðum of seint, erum orðnir værukærir vegna liða sem sitja aftarlega og spila fótbolta eins og handbolta og leyfa Liverpool að dúlla með boltann. Það var ekki fyrr en að við skiptum inn á að boltinn fór að ganga hraðar og mörkin komu. Frábbært lið sem við eigum, ekki viss um að mörg lið hefðu sótt stig þarna í kvöld.

    19
  8. Munurinn á evrópskum meistaradeildar-dómurum og enskum úrvalsdeildar-dómurum er rosalegur.

    Þessi pólski í kvöld var something else. Togaði Vidal bara á lappir og sagði honum að hætta þessu bulli!

    Hvenær skyldi enska knattspyrnusambandið fara að gera kröfur til dómaranna? Þeir eru til skammar og ekki samboðnir atvinnumönnunum inni á vellinum.

    19
  9. Ég hef vel að merkja ekki lesið kommentin hér að ofan sem maður ætti væntanlega að gera ef maður ætlar að tjá sig.

    Leikurinn var ekki sá skemmtilegasti eins og fyrirfram mátti búast við. En liðið okkar er nánast ósigranlegt í þessum gír. Algjört Látrabjarg. Það er erfitt að meta hvar þessi keppni Klopps og Peps endar. Við fórum í vaskinn einhverja 3-4 leiki á jólavertíð, út af veikindum og meiðslum og kannski einhverju einbeitingarleysi sem fylgdi því. Á venjulegum degi er okkar lið og eitt eitt til viðbótar maskínur sem önnur lið geta ekkert keppt við.

    Aldrei óskar maður öðrum einhvers nema besta brautargengis. En ég held að eins og staðan er núna eigum við alveg séns í alla þessa titla. Bara eitt tap hjá keppinauti og sigur á móti því liði.

    Allt er opið ennþá. Það er spenna í þessu og um að gera að njóta hennar.

    11
  10. Mér finnst þessi sigur mjög vanmetinn. Að fara á san siro og vinna inter milano 0-2 er ótrúlega sterkt. Ekki bara það heldur fá þeir varla eitt færi, bara færi sem voru mjög erfið. Sumir myndu segja að við vorum heppnir en þetta var engin heppni heldur mikill styrkur.
    Svo verð ég bara að segja að þessi Diaz er eitthvað! Hann kemur inn á og sprengir allt upp í loft. Hann á eftir að verða svaðalegur fyrir okkur.

    20
  11. Hvað finnst ykkur um þetta sífellda gjálfur apakattarins í hátalarakerfinu á vellinum? Gott og vel ef Ítalirnir vilji leyfa þetta í sinni deild, enda ekki nokkur með snefil af fótboltasmekk sem nennir að horfa á Seria A, en ættu ekki að vera einhverjar reglur hjá CL um umgjörð leikja. Sýnir manni samt hvað stuðningsmannakúltúrinn er þróaðri á Bretland að þurfa ekki að vera með svona ýlfrandi klappstýru í gangi mest allan leikinn.

    4
    • Gjálfrið truflaði mig ekki, enda alltaf gaman að hlusta á ítölsku, jafnvel í leiðinlegum Interistum. Annars svöruðu okkar menn þessu á eina rétta háttinn. Og ég tel mig hafa snefil af fótboltasmekk, enda nýt ég þess að horfa á skemmtilegasta lið í heimi 🙂

      Svo fannst mér allir góðir í gær, nema hvað táningurinn átti erfitt uppdráttar á miðjunni. Allar skiptingarnar gerðu svo gott betra, Firmino geggjaður!

      Glasið er greinilega a.m.k. hálffullt hjá mér
      Hlakka til næstu leikja

      6
  12. Sælir félagar

    Takk fyrir leikskýrsluna Hannes. Þetta var frábær sigur í mjög erfiðum leik. Okkar menn ekki að spila sinn bezta leik og geta gert mun betur en sigur hafðist og það er fyrir öllu. Ég er ekki í vafa um að seinni leikurinn verður mun betur spilaður af okkar hálfu en Inter mun liggja mjög aftarlega í þeim leik og reyna að “breika” hratt. Með Konate bezta mann liðsins í vörninni þarf ekki að hafa áhyggjur. Hraði hans og styrkur étur framherja Inter liðsins í morgunmat. Ég er sáttur með niðurstöðuna þó ýmislegt hafi bjátað á í leik okkar manna.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
  13. Sama hvaða lið það er, í hvaða aðstæðum sem er, alveg sama hvernig liðið hefur spilað undanfarið, alveg sama hvernig Inter stillir upp sínu liði .. Það er alltaf, alveg sama hvað, það er alltaf risastórt að fara í heimsókn á San Siro og vinna, hvað þá með tveimur mörkum og halda hreinu.

    Það voru ekkert allir að spila sinn besta leik, en liðið pússlaði saman í góða frammistöðu. Það er oft talað um að hriggjarsúlan skipti mestu máli í liðum. Fyrstu 45 mínúturnar náði súlan bara frá Alisson til Dijk&Konate. Í hálfleik kom Firmino inná og hann framlengdi súluna aðeins þegar hann kom niður og sóttu boltann. Á 60. mínútu kom Henderson inná og þá var súlan orðin góð, þarna vorum við komnir með 5 leikmenn sem allir áttu stórgóðan leik, ég hlusta ekki á þá sem vilja meina að Firmino hafi verið lélegur.

    Dómarinn fannst mér stundum góður en stundum fauk í mig, heilt yfir sennilega bara flottur. Enskur dómari hefði gefið Vidal gult í byrjun til að vera laus við ruglið í honum það sem eftir lifði leiks, ég var að vona að þessi pólski mundi gera það sama. Stórt spurningamerki við tímasetningu hálfleiksflautsins, en maður gleymir svona ákvörðunum eiginlega um leið og leikurinn er búinn.

    Ég vill gefa Henderson nafnbótina “maður leiksins”, hann breytti öllu um leið og hann kom inná.

    Hlakka til laugardagsins.

    12
  14. Flottur sigur en erfiður. Ég átti von á erfiðum leik og því eru úrslitin mun ánægjulegri. Skiptingarnar í seinni hálfleik riðu baggamuninn. Diaz virkar á mig enn sem komið er einhver áhugaverðustu kaup síðari ára. Ótrúleg yfirferð á kappanum, hraðinn mjög góður og hann þorir og getur tekið menn á. Vörnin hélt að mestu, Arnold nokkrum sinnum úr stöðu en sem betur fer kom það ekki að sök. Elliot var hálf týndur fannst mér löngum stundum í leiknum. Fab ekki með sinn besta leik. Kafteinninn var frábær eftir að hann kom inná og Keita er ótrúlega góður í sinni stöðu þegar hann er á deginum sínum. Alison greip inní þegar það þurfti. Þvílík breidd sem herr Klopp hefur úr að velja núna. Ég myndi vilja sjá strax þá breytingu í enska boltanum að heimila 5 skiptingar í leik, miðað við ákefðina og pressuna þá er okkur nauðsynlegt að geta fengið fleiri ferskar lappir þegar líða fer á leikina ?
    Næsta lið takk.

    6
  15. Ég vil ekki jinxa neitt en ég gæti vel trúað því að tottenham gætu gert jafntefli a móti sitý núna um helgina. Tottenham eru í djúpum skít og verða að ná í stig til að viðhalda möguleikunum á CL-sæti.
    Ef slíkt gerist þá gæti það opnað þessa titilbaráttu ansi mikið.

    3
    • Conte verður þá að laga varnarleikinn hressilega hjá spursurum sem hann er reyndar þekktur fyrir vonum að hann smelli í lás gegn city….

      3
  16. Er grínverjinn að tröllríða netinu um þessar mundir. Hugmynd um að Mbappé komi til Liverpool á frjálsri sölu???

    4

Byrjunarliðið gegn Inter

Gulir fuglar koma í heimsókn, upphitun fyrir heimsókn Norwich