Burnley 0 – 1 Liverpool

Liverpool mætti á Turf Moor í dag í skíta-skítaveðri – rok og rigning, og aðstæður bara alls ekki góðar. Ekki hjálpaði þetta nú til að gera leikinn eitthvað sérstaklega fallegan, enda líkurnar ekki neitt sérstaklega góðar fyrirfram í ljósi þess hver andstæðingurinn er. En Liverpool fer heim með 3 stig og við biðjum nú eiginlega ekki um meira.

Markið

0-1 Fabinho (40. mín)

Gangur leiksins

Það þarf kannski ekki að koma neinum á óvart að þetta var ströggl frá byrjun. Aðstæðurnar hjálpuðu lítið til, og reyndar voru það Burnley sem voru hættulegri í fyrri hálfleik. Þeir nýttu sér háu línuna sem vörn Liverpool tók, og áttu nokkrar stungusendingar inn fyrir sem gengu upp. Sumar þeirra reyndust svo vera rangstaða þegar á reyndi, en það komu alveg 2-3 atvik í fyrri hálfleik þar sem Alisson þurfti að taka á honum stóra sínum. Henderson tapaði tæklingu, fékk gult spjald og meiddist lítillega, aukaspyrnan sem fylgdi endaði sirka við vítapunktinn með a.m.k. einn Burnley mann í dauðafæri, en Alisson var mættur út í boltann og lokaði meistaralega. Risinn þeirra fékk svo góða sendingu inn fyrir síðar í hálfleiknum en skaut framhjá, og a.m.k. tvisvar þurfti Alisson að koma út úr teig og annaðhvort að skalla í burtu eða reyna að sóla sóknarmenn Burnley.

Þess má geta að á einum tímapunkti var skoðað hvort Salah hefði átt að fá víti eftir horn, en Atkinson og VAR voru sammála um að svo væri ekki. Víti hefði e.t.v. verið harður dómur, en það er samt áhugavert hvernig öll vafaatriði hafa fallið Liverpool í óhag eftir að Kevin Friend “gaf” eitt víti gegn Palace þegar var brotið á Jota, og var svo refsað fyrir vikið.

En á 40. mínútu náðu okkar menn að brjóta ísinn. Trent með hornspyrnu, bæði Mané og Fab hlupu sig lausa, Fab skallaði boltann inn á markteig þar sem Fab kom aðvífandi og skaut beint í Pope, en fékk boltann aftur og potaði honum yfir línuna af ca. 37 cm færi. Liverpool fór því með 0-1 forystu til búningsherbergja. Sanngjarnt? Við spyrjum bara ekkert að því.

Síðari hálfleikur var svolítið eins og afrit af þeim fyrri. Thiago kom inná í staðinn fyrir Hendo, svo kom Jota inn fyrir Mané og í uppbótartíma kom Milner inn fyrir Keita. Jota var öflugur eins og svo oft áður, og var nálægt því að tvöfalda forystuna en sendingin frá Salah var ööööörlítið of laus og varnarmaður Burnley náði að hreinsa.

Það var samt þannig að maður var óvenju rólegur – líklega hefði maður verið á nálum ef staðan hefði verið 0-2 og 10 mínútur eftir. Burnley náðu í raun ekkert að ógna marki Liverpool á síðustu mínútunum, og 0-1 sigur í höfn þegar flautað var til leiksloka.

Frammistaða leikmanna

Alisson á þessi 3 stig að mestu, en annars voru Fabinho, Keita og Robbo öflugir. Thiago og Jota komu ferskir inn. Framlínan var svolítið að ströggla, Firmino hefur t.d. oft átt betri leiki.

Umræðan eftir leik

Það er gott þegar Liverpool er komið á þann stað að ná að hala inn þessum sigrum eins og í dag. Ef það á að vera einhver séns að ná City þá má einfaldlega hvergi misstíga sig. Í augnablikinu lítur kannski ekki út fyrir að City sé að fara að tapa mörgum stigum, en útilokum samt ekkert. Fram að því er Liverpool nokkuð öruggt í 2. sæti í deildinni.

Framundan

Nú fara leikirnir að hellast yfir af fullum þunga: Inter á miðvikudaginn, Norwich um helgina, frestaði leikurinn gegn Leeds í vikunni þar á eftir, og svo bikarúrslitaleikurinn gegn Chelsea eftir hálfan mánuð. Eins gott að hópurinn hefur líklega aldrei verið breiðari, nú reynir á þá breidd.

Stelpurnar okkar

Það gekk ágætlega á Prenton Park hjá kvennaliðinu, en þær unnu Sunderland 3-0 með mörkum frá Katie Stengel, Yana Daniels og Missy Bo Kearns, tvö síðustu mörkin komu á síðustu mínútum leiksins. Liðið er núna með 10 stiga forystu á toppnum (sem gæti breyst í 7 stiga forystu ef London City Lionesses vinna sinn frestaða leik), og næstu fjórir leikir verða ansi áhugaverðir: Arsenal í bikarnum (sama dag og leikurinn við Chelsea), og svo koma leikir gegn London City Lionesses, Charlton og Durham. Allt lið sem eru við topp deildarinnar. Ef vel gengur á þessu tímabili þá fara stelpurnar okkar langt með að tryggja sig aftur upp í deild þeirra bestu.

23 Comments

 1. Fór illa með mig í Fantasy … en maður tekur alltaf öllum sigrum. Get ekki sagt að þetta hafi verið sanngjörn úrslit en … Liverpool hefur nú svo oft verið á hinum endanum þannig að … karma og allt það. En alla vega sigur … og vú hú! Einn bjór búinn. Reyndar á ég ekki fleiri.

  5
 2. Sæl og blessuð.

  Klafssigur hjá okkar mönnum. Hefði ekki haldið fyrir leik – að Alisson yrði bestur. Fabinho næstbestur. Klopp beið of lengi með skiptingar og það hefði getað orðið dýrkeypt. Firmino er e.t.v. allra darling en ég er eiginlega búinn að fá nóg í bili af brosmildu fölsku níunni okkar. Sendingar eru ómarkvissar, óþarfa boltakapp og bolta glatað á mikilvægum stöðum.

  Við nutum þess hvað Burnley eru mistækir í sínum aðgerðum – betri lið hefðu refsað fyrir frammistöðuna, einkum í fyrri hálfleik.

  En nóg um það. Mikilvægt að landa þremur ljótum stigum í kulda og trekki!

  11
 3. Flott 3 stig í hús en rosalega var ég pirraður að sjá þriðju skiptinguna koma á 92 mín leiksins þegar að við höfum sennilega aldrei verið með sterkari varamannabekk.
  Diaz og Elliot hefðu báðir getað komið inná með eithvað til að brjóta þetta upp.
  En góð 3 stig í hús og við höldum örlítilli pressu áfram á city.

  7
  • það að henda Diaz og Eliot inn á karftöflugarð fullan af 2 merta verkamönnum er að mínu viti ekki málið og það var þess vegna sem skiptingarnar voru eins og þær voru. En hvað veit ég treysti Klopp enn fyrir þessu og er bara mest ánægður að við náðum þessum stigum þau voru ekki gefins og ekki falleg en ekki heldur við öðru að búast á móti þessu liði.

   YNWA.

   7
 4. Sáttur við 3 stig.
  Erfiður leikur í miklu roki og rigningu og Burnley hefðu hæglega getað skorað og oftar en einu sinni ef væri ekki fyrir snilld Alisson í markinu átti frábæran leik og er maður leiksins.
  Fabinho með þetta mikilvæga mark.
  Varð fyrir vonbrigðum að sjá ekki Diaz fá að spreyta sig.
  Fannst margir í dag vera frekar þungir en ég er viss um að þessar aðstæður hafi spilað stórt þar inní.

  YNWA

  3
 5. Sælir félagar

  Engin glans yfir þessum sigri Liverpool í dag en góð 3 stig og það er gott. Það sýnir styrk að vinna svona leiki og vera ekki að spila vel. Mér fannst sérkennilegt af LFC leikmönnum að fara í þennan háloftabolta á móti liði sem spilar helst ekkert nema háloftabolta. Á móti svona liði á að spila boltanum með jörðinni, hratt og láta þá hlaupa. Með því móti spilar liðið sig alltaf í einhver færi og dauðafæri. Að spila háloftabolta er að spila innan þægindaramma Burnley en ekki Liverpool

  TAA var allt að því lélegur í þessum leik og átti fátt sem gladdi augað. Fab, Alisson og Keita beztu leikmenn Liverpool og einnig átti Thiago góða innkomu og batnaði leikur liðsins við framlag hans. Jota fékk eitt dauðafæri (markanefur) eftir sending frá Salah en sú sending mátti vera nokkrum grömmum þyngri þá hefði Jota skorað og gulltryggt sigurinn. Dómgæslan var fyrir neðan allar hellur og fékk Salah virkilega að finna fyrir því. Atkinson er í bezta falli sæmilegur dómari en oftast lélegur og stundum afspyrnu slakur eins og í dag.

  Það er nú þannig

  YNWA

  6
  • Erfitt að spila með jörðinni við svona aðstæður. Sást nokkru sinnum þegar menn reyndu að boltinn náði yfirleitt ekki á réttan stað. Vsr einmitt að velta dómgæslunni fyrir mér og þá sérstaklega gagnvart Salah
   YNWA

   7
 6. Frabær stig í hörmulegum leik sem Ali og Fab eiga skuldlaust. Thiago VERÐUR að byrja gegn Inter. Náðum engri stjórn fyrr en hann kom inn.

  6
 7. Flott þrjú stig í hús í hörkuleik við ömurlegar aðstæður. Vorum heilt yfir betra liðið og hefðum vel geta bætt við mörkum. Auðvitað hefði andstæðingurinn geta laumað inn marki, en seinustu 10-15 mínúturnar voru bara solid og ég hafði aldrei á tilfinningunni að við fengjum mark í andlitið. En hvað segja sérfræðingar um brotið á Salah, víti eða ekki? En áfram gakk nægur fótbolti framundan 🙂
  YNWA

  3
 8. Eftir sigurleik gegn leiðinlegasta liði deildarinar á útivelli í miklu roki og rigningu á útivelli þá er ég bara mjög sáttur.
  Völlurinn var rennandi blautur og þungur. Vindurinn var sterkur hafði það mikil áhrif á leikinn og hendar þetta liðum eins og Burnley mjög vel.
  Mér fannst við gera þetta nokkuð vel í dag.

  Fyrri: Við vorum sterkari en varnarlínan okkar var flöt og þeir voru að reyna stungusendingar í gegn með ágætum árangri. Við náðum þó að skora eitt mark og fórum með 0-1 forskot í hálfleik.

  Síðari: Mér fannst þetta mjög fagmannlegt. Héldu boltanum betur, varnarlínan varðist aðeins aftar og þetta virkaði ekki í mikili hættu. Hefðum átt að skora annað mark en maður hefur séð okkur stundum of graða í svona stöðu í að bæta inn marki og það hefur kostað okkur en í dag var það ekki í gangi og pössuðum við varnarlínuna vel og tókum hraðan og neistan úr heimamönnum með því að láta þá eltan boltan og virkuðu þeir alveg sprungnir síðustu 10 mín.

  Bestu menn:
  Alisson besti markvörður í heimi 1 á 1
  Keita sprækasti miðjumaðurinn okkar, hreyfanlegur og skilaði boltanum vel frá sér.
  Fabinho traustur og með mark.
  Thiago kom sterkur inn á miðsvæðið.

  Verstu menn:
  Það var engin lélegur í dag en Firmino þarf að vera beitari, Salah var eiginlega alveg týndur og virkaði mjög pirraður. Hendo virkaði tæpur og var líklega tæpur.

  YNWA – 3 stig og ljót að segja þetta en vonandi þurfum við ekki að spila á þessum velli á næstu árum.

  9
  • Sammála þér Sig. ein. um allt nema Salah. Atkinson leyfði varnarmönnum að brjóta endalaust á honum án nokkura athugasemda. Það var lykillinn að “ýndum Salah

   8
   • Það er klárlega ein af ástæðunum fyrir því að hann var týndur en hvort sem það var ástæðan eða ekki þá var kallinn týndur í þessum leik.

    Lið hafa reynt að sparka hann úr leikjum ja… eiginlega í hverjum einasta leik en samt hefur hann náð nokkrum geggjuðum sprettum og skapað eitthvað.
    Í þessum leik þá var þetta bara ekkert að falla með kappanum.

    Mér finnst hann samt en þá bestur í heimi svo að því sé haldið til haga.

    2
  • Sammála þér með Keïta. Hann komst prýðilega frá þessum leik.

   4
 9. Er Martin Atkinson blindur á öðru?

  Annars bara frábær sigur á þessu leiðinlega Burnley liði.

  2
 10. Þrjú stig og ég er mjög sáttur! Næsta verkefni er Inter.

  3
 11. Og enn er Brendan Rodgers að missa dampinn í lok leiks. Það verður engin Evrópukeppni hjá Leicester í ár.

  2
 12. Vissi fyrir leik að þetta yrði leiðilegasti leikur tímabilsins þrátt fyrir að tímabilið sé rúmlega hálfnað.Burnley er leiðilegasta liðið í deildinni og verð þeim degi fegnastur þegar þeir fara niður um deild. Horfi að jafnaði á flesta leiki en alls ekki með þessu truntu liði nema þegar Liverpool spilar gegn þeim. Það er ekki hægt að spila glæsilegan fótbolta við þetta foooook lið. Bíð spenntur eftir leiknum á miðvíkudaginn.

  1
 13. “Skyldusigur” er orð sem oft er notað gegn svokölluðum slakari liðum deildarinnar en þetta eru leikirnir sem við höfum oft átt í erfiðleikum með að sigla heim. Ég var mjög sáttur í leikslok og hef enn ekki gefið upp alla von um að við náum city fyrir lok tímabilsins. Það verður alls ekki auðvelt og það þarf hreinlega allt að ganga upp, ef (þetta stóra EF enn og aftur)Liverpool nær að vinna leikinn sem við eigum inni og ná síðan að leggja City þá er munurinn aðeins 3 stig og þá getur allt gerst, liðin eru að skora svipað og ég má hundur heita ef City á ekki eftir að tapa einhverjum leikjum, reyndar eigum við líka örugglega eftir að tapa einhverjum stigum en meðan það er einhver möguleiki þá megum við ekki afskrifa hann.
  En tökum einn leik og eina keppni í einu, næst er Inter og það verður drull erfitt verkefni.

  2

Liðið gegn Burnley

Internazionale í Mílan