Upphitun: Liverpool – Leicester

Eftir langt hlé hjá okkar mönnum í deildinni tryggðum við okkur áfram í FA bikarnum um síðustu helgi en á morgun er loks deildarleikur hjá okkar mönnum þar sem Leicester mæta í heimsókn á Anfield klukkan 19:45. Okkar menn hafa oft mætt ryðgaðir tilbaka eftir pásur en vonandi mun það hjálpa að hafa spilað á nokkuð sterku liði gegn Cardiff í bikarnum og menn hafa hrist af sér slenið þar.

Vandræði hjá Rodgers?

Fyrrum stjóri okkar Brendan Rodgers er í brúnni hjá Leicester mönnum en eftir tæp þrjú ár í starfi er kominn smá hiti á hann. Hann hefur skilað þeim tvisvar í fimmta sæti deildarinnar og einum FA titli en í ár hefur gengið verið óstöðugt. Leicester sitja í ellefta sæti deildarinnar, þó aðeins búnir að spila 20 leiki, og hefur gengið illa að halda hreinu enda fengið á sig 37 mörk eða 1.85 í leik að meðaltali. Eftir niðurlægjandi tap í bikarnum gegn Nottingham Forest um helgina lét Rodgers svo leikmennina heyra það í viðtali eftir leik og talaði um að það vantaði hungur í leikmannahópinn. Í kjölfarið var Rodgers orðinn líklegastur hjá veðbönkum til að vera næsti stjóri í deildinni sem missir starf sitt. Á hálfu ári farinn úr því að vera orðaður við Manchester United og Tottenham í það að vera hársbreidd frá atvinnuleysi

Smá ljós í myrkrinu

Mikil meiðsli hafa herjað á Leicester liðið undanfarið á og vantar meðal annars mikið í vörnina hjá þeim eins og er þar sem Jonny Evans, Westley Fofana, Ryan Bertrand og Timothy Castagne eru allir frá en þeir virtust vera að fara úr öskunni í eldinn þegar Jamie Vardy meiddist en hinsvegar virðist Patson Daka vera að finna markaskónna og hefur skorað í síðustu tveimur deildarleikjum.

Okkar menn

Hver er staðan á Salah og Mane

Eftir að hafa verið í tapliði í úrslitaleiknum á Afcon er Salah mættur til æfinga og segist vera tilbúinn í slaginn og líklegt að hann verði í byrjunarliðinu á morgun, nema ef Klopp vilji hvíla hann aðeins eftir að hafa spilað fjóru sinnum 120 mínútur á síðustu tveim vikum en það kæmi mér á óvart ef hann myndi ekki byrja.

Sadio Mane fékk hinsvegar aðeins lengra frí og skellti sér heim til Senegal þar sem var sigurhátið. Hann fékk æðstu orðu Senegala ljónaorðuna. Hann er þó kominn aftur til Liverpool og gæti mögulega verið á bekk á morgun þó það sé líklegra að við sjáum hann fyrst gegn Burnley um helgina.

Aðrir ansi klárir

Við sáum Harvey Elliott minna hressilega á sig eftir meiðslin í síðasta leik gegn Cardiff og það virðast flestir vera heilir fyrir leikinn á morgun. Gomez og Chamberlain misstu af síðasta leik vegna Covid en eru mættir aftur á æfingar, það sama á við um Origi sem er búinn að vera frá í nokkrar vikur og missti af flestum þeim tækifærum sem hann færi í vetur. Eina sem er í raun að frétta er að Jordan Henderson fékk högg á bakið í bikarleiknum og æfði ekki á þriðjudaginn og verður tekinn staðan á því á morgun.

Set þetta upp sem líklegt byrjunarlið en það er erfitt að segja til um það hver tæki stöðuna ef Henderson byrjar ekki. Elliott kom vel inn um helgina en óviss um hvort hann sé klár í heilan leik, Chamberlain hefur stigið ágætlega upp í síðustu leikjum en misjafnt hvernig menn hafa komið tilbaka eftir veikindi, Keita, Jones og Milner eiga svo allir möguleika þó ég telji að þessir fyrstu tveir væru líklegastir.

Spá

Mo Salah mætir aftur til Liverpool í miklum hefndarhug eftir að hafa misst af Afcon titli og klúðrað víti í fyrri leik liðanna og setur tvö í 3-0 sigri á lánlausum Leicester mönnum þar sem Trent setur þriðja.

6 Comments

  • Líka orðið fulllangt síðan Liverpool keypti leikmann af Southampton. Meira að segja búnir að senda þeim einn leikmann að láni í millitíðinni.

   4
 1. Ég gæti nú alveg séð Luiz Dias byrja þennan leik á kostnað Firmino og jafnvel Elliot í staðinn fyrir Thiago.
  Klopp á allavega mjög stórt vandamál sem er þó virkilega gott vandamál, það er að það eru allir leikmenn meira og minna heilir og það er gríðarlega mikil samkeppni um flestar stöður í liðinu.
  Það eina sem má bóka er að Allison, Salah, Trent, Fabinho og Van Dijk eru mjög öruggir með sínar stöður og byrja alla leiki sem þeir eru heilir.

  3
 2. Sælir félagar

  Takk fyrir upphitunina Hannes og mikið vildi ég að tapsins gegn þessu liði Rodgers verði hefnt svo um muni. Tapið var í reynd ótrúlegt þar sem okkar menn fengu aragrúa færa og dauðafæra (ma. víti) en ekki vildi tuðran inn. Nú er komið að því að nýta færin og sýna að þessi tapleikur var slys sem ekki kemur fyrir aftur. 5 – 1 er mín spá og von.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 3. Leicester liðið er mjög hættulegur andstæðingur fyrir okkur eins og undanfarinn tímabil hafa sýnt.

  Þeir geta haldið boltanum þegar þeir hafa hann en þykkir samt ekkert verra að keyra upp í skyndisóknir þegar þeir vinna boltan þar sem þeir hafa hraða og hæfileiki í að refsa liðum sem færra sig framar.

  Það sem hefur verið að gera þeim erfitt fyrir er að þeir ná ekki að brjóta niður varnir sem pakka í vörn og gefa þeim lítið pláss en á móti Liverpool verður það ekkert vanamál því að það er ekki séns í Old trafford(helvíti) að við pökkum í vörn gegn þeim.

  Ég spái opnum markaleik sem fer 3-2 fyrir okkur. Salah, Jota og Van Dijk með mörkin fyrir okkur.

  3
 4. Ég vil sjá díaz hent í djúpu laugina og setja hann inn fyrir bobby, jota á toppnum.

Gullkastið – Endurkoma lykilmanna

Liðið gegn Leicester – Diaz byrjar