Upphitun: Cardiff í bikarnum

Eftir þetta 783 ára langa vetrarfrí (tíminn er afstæður sjáið til) er loksins komið að því að við sjáum okkar ástkæra lið aftur á Anfield. Reyndar á afskaplega ókristilegum tíma, því það verður flautað til leiks kl. 12 á hádegi. Vonum bara að strákarnir okkar vakni nú í tæka tíð.

Andstæðingurinn er lið Cardiff, og þetta er leikur í 32ja liða úrslitum FA bikarsins.

Fyrri leikir

Cardiff er lið sem komst upp í efstu deild í fyrsta skipti fyrir ekkert svo mörgum árum, og hefur náð heilum tveim tímabilum í efstu deild síðan þá. Í ljósi þessa þarf ekki að koma á óvart að liðin hafa ekki mæst neitt mjög oft á síðustu árum, eða sex sinnum á síðustu 15 árum. Leikur liðanna í deildarbikarnum 2007 (sem Liverpool vann 2-1) var sá fyrsti síðan 1959. Eftir það hafa liðin mæst fjórum sinnum í deildinni (þessi tvö tímabil sem Cardiff hefur verið í úrvalsdeild), og svo í úrslitaleik deildarbikarsins 2012 þegar okkar menn unnu í vítaspyrnukeppni. Þá var það enginn annar en Gerrard sem klúðraði víti fyrir sína menn, þ.e. Anthony Gerrard, frændi Steven. Deildarleikirnir enduðu allir með sigri Liverpool, þar á meðal 3-6 leikur þar sem Skrtel skoraði 2 og Sturridge lagði upp mark fyrir Suarez með hælspyrnu (þið munið, tímabilið þegar Liverpool var með hripleka vörn en skoraði á móti bara fleiri mörk en andstæðingurinn – svona langoftast). Það var góðkunningi okkar Ole Gunnar Solskjaer sem stýrði þeim tímabilið 2013 – 2014, og svo annar góðkunningi – Neil Warnock – sem stýrði þeim gegn Liverpool í tveim leikjum tímabilið 2018 – 2019.

Andstæðingarnir

Lið Cardiff leikur sem stendur í næstefstu deild, og verður nú ekki sakað um að vera að gera neina atlögu að því að komast í deild þeirra bestu, allavega ekki um þessar mundir. Sem stendur er liðið í 20. sæti af 24. Sá sem mun stýra þeim á sunnudaginn heitir Steve Morison, og tók við þeim í nóvember sl. Í ljósi stöðunnar í deildinni er kannski ekki skrýtið að þar á bæ hafi verið ákveðið að skipta um mann í brúnni, en téður Steve er vissulega með yngri mönnum í þessari stöðu. Hann er fæddur 1983, lagði skóna á hilluna árið 2019 og fór að þjálfa, en þetta er fyrsta aðalliðið sem hann stýrir. Semsagt, kornungur (ok, hann er jafngamall Pep Lijnders, svo við skulum ekki dæma hann út frá aldrinum svona strax a.m.k). Annars ætlar pistlahöfundur bara alls ekki að þykjast þekkja nokkurn einasta leikmann liðsins, en upptalning á ferli næstum allra leikmanna myndi sóma sér vel í hópnum “Algjörlega óáhugaverðar fótboltaupplýsingar”.

En þeir verða nú samt alveg örugglega sýnd veiði en ekki gefin á sunnudaginn. Þetta er jú bikarleikur.

Okkar menn

Okkar menn munu að sjálfsögðu gera sitt besta til að endurtaka leikinn frá síðasta bikarleik gegn Cardiff, það er að vísu ekki bikarinn sjálfur í boði á sunnudaginn, heldur sæti í 16 liða úrslitum (með tilheyrandi auknu leikjaálagi í byrjun mars hið minnsta). Hópurinn sem Klopp hefur yfir að ráða er bara með albreiðasta móti. Tveir ansi mikilvægir leikmenn eru vissulega enn í Afríkukeppninni, og munu einmitt mætast í úrslitaleik á sunnudagskvöldið. En svo koma þeir aftur, og gætu mögulega náð Leicester leiknum sem er á fimmtudagskvöldið (tæpt, en ekki útilokað). Tveir aðrir yfirgáfu hópinn tímabundið: Nat Phillips og Neco Williams, sem munu reyndar etja kappi þann 23. apríl nk. þegar Fulham og Bournemouth mætast í leik sem gæti vel orðið toppslagur í deildinni. En svo hafa menn verið að tínast inn á æfingasvæðið eftir meiðsli: Divock Origi er mættur, Thiago sömuleiðis (veiktist reyndar eitthvað í vikunni en verður líklega í hóp), nú og svo er búið að staðfesta að Harvey Elliott verður í hóp á sunnudaginn. Byrjar hann? Ekki hugmynd.

Svo er það nýji leikmaðurinn. Luis Díaz. Hann mætti á æfingasvæðið og æfði aðeins í einrúmi, en er enn að venjast tímamismuninum og ferðalaginu. Klopp vildi þó ekki útiloka að við fengjum að sjá kappann á vellinum, sem bendir til þess að það sé búið að græja alla pappíra sem þarf. En það hefur margoft komið fram að Klopp er lítið í því að henda mönnum út í djúpu laugina, og vill að nýir menn fái góðan tíma til að aðlagast borginni, leikmönnum, æfingasvæðinu, leikkerfinu og öðru (sjá Fabinho, Robertson, Tsimikas o.fl.). Það er því ákaflega hæpið að við sjáum kappann byrja, en ég hef lúmskan grun um að hann verði á bekk og fái jafnvel einhverjar mínútur í lokin ef staðan í leiknum býður upp á það. Ætli það verði ekki tekin endanleg ákvörðun á æfingu á laugardeginum.

Klopp vill örugglega spila sínu besta liði í gang eftir vetrarfríið, engin ástæða til að hvíla neitt á þessum tímapunkti. Það eru alls konar smáatriði sem spila inn í, fyrst og fremst þá hvernig er leikformið á þeim sem voru að koma til baka.

En prófum að stilla þessu upp svona:

Alisson

Trent – Matip – Virgil – Robbo

Hendo – Fab – Thiago

Ox – Firmino – Jota

Hér er ég að gefa mér að Alisson fái þessa keppni, en satt að segja held ég að það skipti ekki öllu máli þó Kelleher verði þarna í staðinn. Hugsanlega fær Konate sénsinn við hliðina á Virgil í vörninni. Miðjan er meira spurningamerki: verður Harvey hent beint í byrjunarliðið? Kannski þykir hann ekki klár í þann slag alveg strax, ég er frekar að veðja á það. Það er svosem ekkert víst að Thiago sé klár heldur, og þá gæti Jones komið inn, nú eða Keita. Þarna þarf að meta stöðuna á æfingasvæðinu, og ég er ekki ennþá kominn með passa þangað (sjálfsagt bara tafist í pósti). Framlínan er líka ekki alveg geirnegld, ég geri ráð fyrir að Ox verði verðlaunaður fyrir að vera með stabílli mönnum síðustu mánuði, en svo gætu Origi eða Minamino alveg dottið þarna inn sömuleiðis.

Og spáin? Hún er ekki góð, það eru jafnvel líkur á rauðri viðvörun á mánudagsmorguninn. Ég held að sunnudagurinn verði líka rauður, bara öðruvísi rauður. Enda á Liverpool alltaf að vinna Cardiff, og reyndar hvaða lið sem er sem er í neðri hlutanum á næstefstu deild.

Spáum 3-0 og málið dautt.

KOMA SVO!!!

6 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Snilldarupphitun og erum við þó góðu vön.

    Unaður að skoða þessa breidd. Trúi því að Elliott og Diaz mæti á 82. mínútu. Tvöföld skipting og vísbending um góða tíma framundan.

    Vinnum þá stórt ef við skorum snemma. Annars verður þetta bæði bals og klafs.

    Já, og heilladísirnar hafa farið að dæmi áhorfenda á OT og yfirgefið svæðið! epískt allt saman.

    4
  2. Vönduð upphitun. Auðveldur sigur sama hvaða liði Klopp kýs að tefla fram. Vonandi fáum við að sjá Diaz í nokkrar mín.

    3
  3. Sælir félagar

    Frábær upphitun og engu hægt við hana að bæta – af viti amk. Það verður gaman að sjá Elliot aftur og ekki skemmdi að sjá Diaz bregða fyrir.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  4. Kellegher í markinu vonandi og það væri gaman að sjá þá Elliot og Diaz fá 20-30 min.
    Við fáum vonandi skemmtilegan leik sem við eigum að öllum líkindum að sigra.
    Spái þessu 3-0 þar sem Elliot skorar

    2
  5. Spái liðinu svona: kelleher, Arnold, konate.vaninn, tsmikas, curtis, keita,hendo, formino, minamino,jota

    1

Diaz er mættur á svæðið

Byrjunarliðsþráður gegn Cardiff: Keita byrjar, Elliot, Thiago og Diaz á bekk.