Hvernig koma liðin undan janúarglugganum?

Tökum léttan snúning á helstu breytingum á leikmannahópum úrvalsdeildarliðanna, hvaða lið voru að bæta sig mest o.þ.h.

Liverpool

Luis Diaz var skemmtilega óvænt viðbót við sóknarlínu Liverpool sem hefur aldrei verið eins vel mönnuð í ensku úrvalsdeildinni. Klopp hafði fyrir úr alveg nægum mannskap að velja en Luis Diaz kemur með gæði sem ógnar töluvert byrjunarliðssæti Sadio Mané og fara kaupin á honum algjörlega í flokk með kaupunum á Salah, Mané, Jota og jafnvel Firmino. Það er auðvitað ekkert lögmál að hann standi sig eins vel og þeir hjá Liverpool en hann fær öll tækifæri til þess, er í sama verðflokki og með sambærilega tölfræði auk þess sem hann ætti að henta leikstíl Liverpool fullkomlega.

Þegar Salah og Mané skila sér frá Kamerún verða Origi og Minamino sjötti og sjöundi maður í frammlínuna hjá Liverpool svo lengi sem Ox, Elliott eða Gordon byrja ekki á undan þeim!

Breytingar milli mánaða á miðsvæðinu eru engu minna mikilvægar þó ekki hafi verið keyptur nýr leikmaður. Thiago á að mæta til æfinga núna eftir þetta landsleikjahlé / frí og munar rosalega um ef að við fáum hann loksins heilan, hann hefur aðeins spilað 34% af deildarleikjum Liverpool það sem af er þessu tímabili.

Naby Keita er einnig mættur aftur frá Afríku og klár í slaginn, hann er búinn að spila 27% af deildarleikjum Liverpool í vetur. Harvey Elliott er byrjaður að spila aftur og bæði skoraði og lagði upp mark í æfingaleik sem var settur upp fyrir hann í síðustu viku, hann hefur aðeins spilað tæp 13% það sem af er þessu tímabili. Það er töluverð viðbót við breiddina á miðjunni ef hann er kominn aftur á gott ról.

Curtis Jones hefur komið sterkur til leiks undanfarið eftir meiðsli, covid og augnvesen. Það er aðeins vanmetið hversu mikið vesen er búið að vera á honum fyrir áramót því hann hefur aðeins spilað 25% deildarleikjum Liverpool.  Auk hans er svo Oxlade-Chemberlain heill heilsu og hefur farið vaxandi það sem af er þessu tímabili. Ótrúlegt en satt þá hefur Ox spilað meira það sem af er móti en Thiago, Keita, Firmino, Jones, Milner og Elliott.

Liverpool hefur verið án 3-4 af þessum sóknarþenkjandi miðjumönnum meira og minna allt tímabilið sem hefur riðlað holningu liðsins umtalsvert.

Það munar einnig um það að núna í janúar er Liverpool að lána Nat Phillips í Champinoship deildina í stað þess að nánast gera hann að fyrirliða eins og staðan var fyrir ári síðan.

Einkunn: 9

Væntingar voru engar en við fáum gríðarlega spennandi leikmann í gæðaflokki sem jafnan er aðeins hægt að versla að sumri til. Auðvitað svekkjandi að kaupin á Carvalho hafi ekki gengið upp en það var líka eitthvað sem engin bjóst við og sá díll er alls ekki dáinn ennþá. Með Luis Diaz opnast einnig möguleikar fyrir að færa Firmino eða Mané meira inn á miðjuna í einhverjum leikjum og blása til sóknar.

Man City

Það er nokkuð ljóst að Man City er að undirbúa stór leikmannakaup í sumar úr því að þeir fengu ekki sinn mann Harry Kane í fyrra. Erling Haaland gæði fara jafnan ekki í janúarglugganum og City er ekki í neinni krísu. Engu að síður er spes að þeir veikja hópinn núna í janúar með því að láta hinn efnilega Ferran Torres fara til Barcelona. Einu leikmannakaupin voru Julián Álvarez frá River Plate sem kemur næsta sumar. Það er reyndar gríðarlegt efni sem er að skora mark í leik í heimalandinu á þessu tímabili hjá toppliðinu.

Einkunn: 5

Erfitt að meta þennan glugga hjá þeim en út þetta tímabil voru þeir a.m.k. ekki að styrkja hópinn. Torres var búinn að koma við sögu í fjórum leikjum þannig að það ætti ekki að vera svo stór missir. Man City hefur hinsvegar ekki lent í neinum alvöru áföllum það sem af er þessu tímabili öfugt við flest önnur lið.

Tottenham

Eins og oft áður eru Liverpool og Tottenham að versla leikmenn á sama markaði og kaup okkar manna á Luis Diaz töluvert áfall fyrir Spurs sem voru búnir að vinna alla grunnvinnuna og töldu sig vera að landa þessum bita. Eins missa þeir af Adama Traore þó það geti nú varla talist eins mikið áfall.

Þess í stað leituðu þeir á markað sem nýr yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu þekkir vel sem og stjórinn auðvitað. Fengu tvo leikmenn sem Juventus hafði ekki lengur not fyrir í Rodrigo Bentancur og Dejan Kulusevski. Báðir hörkuleikmenn sem Conte treystir sem koma inn í stað fjögurra annarra sem hann treystir ekki. Töluverð tiltekt greinilega áætluð hjá Spurs.

Út fara þeir Tanguy Ndombele, Bryan Gil, Giovani Lo Celso allir á láni og svo Dele Alli sem fór til Everton. Eru þetta verri leikmenn heldur en Spurs er að fá í staðin? Hefði betri stjóri eða lið með meiri stöðugleika ekki náð mun meiru úr þessum leikmönnum undanfarin 1-2 ár en stjórar Spurs hafa verið að ná?

Það er raunar magnað að sjá hversu misheppnaðir Spurs hafa verið á leikmannamarkaðnum undanfarin ár, sérstaklega í ljós þess að flestir af þessum leikmönnum sem Levy hefur verið að kaupa voru mjög spennandi á pappír og maður þorir að fullyrða að Jurgen Klopp hefði náð meiru út úr nánast því hverjum einum og einasta á þessum lista:

Dýrustu leikmannakaup Tottenham:

Ndombele er dýrasti leikmaður í sögu félagsins, kom sumarið 2019 og er farinn á láni í janúar 2022. Þetta var frábær leikmaður í Frakklandi. Lo Celso er fjórði dýrasti og kom sumarið 2020. Það er svo erfitt að segja hvað kom fyrir Dele Alli en það kemur svosem ekki á óvart að Jose Mourinho hafi ekki verið lausin. Hann er ennþá bara 25 ára.

Einkunn: 4,0

Efast ekki um að þeir séu að fá tvo mjög góða leikmenn frá Juventus en er eitthvað líklegra að þeir blómstri hjá Spurs en þessir fjórir sem fóru í staðin? Conte hefur ekki stoppað lengi við í starfi hingað til á ferlinum en það gæti verið lykillinn að einhverjum stöðugleika hjá félaginu.

Pochettino eru í raun eini stjóri Spurs á Levy tímanum sem náð hefur einhverjum stöðugleika og samhliða því byggja upp alvöru lið.

Arsenal

Liðið sem náði ekki í hóp núna í janúar með einn Covid smitaðan leikmann ákvað bara að taka hressilega til í leikmannahópnum og losa sig við sex leikmenn í janúar, þ.á.m. þennan eina sem var smitaður af Covid um daginn.

Mikel Arteta er augljóslega að ná að setja sinn stimipl á hópinn og er með þessu að hreinsa ágætlega til í hópnum og losa af launaskrá leikmenn sem hann er ekki að nota eða getur ekki treyst. Ungir leikmenn eru að fá traustið og standa vel undir því. Hann er kaldur að losa sig við sex leikmenn án þess að fá neinn í staðin en á móti er Arsenal ekki lengur inni í neinni keppni nema deildinni.

Þar til núna í desember var Pierre-Emerick Aubameyang fyrirliði Arsenal og helsta ógn í sóknarlínunni. Hann er enn einn vonlausi fyrirliði félagsins undanfarin ár, raunar svo slæmur að Arsenal ákvað að gefa hann bara til Barcelona þó hann eigi slatta eftir af samningi. Þeir spara 25-30m í launakostnað með þessu og Auba tók á sig hellings launalækkun til að Barcelona gæti skráð hann. Þvílíka buiseness fyrirmyndin sem það félag er í dag nota bene!

Martinelli er nú þegar búinn að fylla hans skarð og fær meiri ábyrgð núna eftir áramót ásamt Eddie Nketiah og mögulega Lacazette sem hefur bara spilað helminginn af leikjum Arsenal það sem af er tímabili.

Ainsley Maitland-Niles virðist alveg hafa staðnað undanfarin misseri og fékk að fara á láni til Roma, þar er einmitt Jose Mourinho stjóri þannig að ekki er sjálfstraustið að fara lagast neitt þar.

Hinn efnilegi Folarin Balogun fór til Middlesbrough. Sead Kolasinac og Pablo Marí voru einnig lánaðir burt og Steven Gerrard tók af þeim Calum Chambers.

Samtals hafa þessir sex leikmann sem yfirgefa Arsenal núna í janúar spilað 1.800 mínútur í deildinni sem er ígildi eins stöðugildis samanlagt, Aubameyang á 57% af þeim mínútum.

Arteta er m.ö.o. að ná þarna að losa sig við töluvert af deadwood af launaskrá.

Einkunn: 3,5

Rekstrarlega var þetta líklega ágætur gluggi fyrir félagið sem þeir geta þá nýtt sér á leikmannamarkaðnum í sumar en hópurinn styrkist ekki við það að fækka um sex leikmenn. Juventus vann kapphlaupið um Vlahovic frá Fiorentina, sá hefði lagað málin hjá Arsenal verulega.

Everton

Frank Lampard tók við liðinu núna um mánaðarmótin og náði að fá inn tvo sóknarþenkjandi miðjumenn sem gætu styrkt þetta Everton lið all verulega.

Donny van der Beek ætti að vera besti miðjumaður Man Utd miðað við hvernig hann var hjá Ajax. Hann fær a.m.k séns hjá Everton að sanna sig eftir afleitan tíma hjá United. Sama á við um Dele Alli og spurning hvort Lampard sé ekki akkurat tegund af stjóra sem hentar honum vel. Rétt eins og maður hefur fulla trú á því að Gerrard geti látið Coutinho blómstra?

Veit ekki til þess að Alli hafi lent í alvarlegum meiðslum sem hafa hægt á honum, byrjuðu hans vandamal ekki ca. um leið og Mourinho tók við Tottenham?

Áður hafði Mykolenko komið frá Dynamo Kyiv til að fylla skarð Lucas Dinge og Anwar El Ghazi á láni frá Aston Villa

Mikilvægara fyrir Everton er samt líklega að það hefur fækkað töluvert á meiðslalistanum, Calvert-Levin er kominn aftur á ról eftir að hafa lítið spilað fyrir áramót. Richarlison gerpið er líka heill. Yerry Mina er kominn aftur sem og Mason Holgate.

Einkunn: 7

Öfugt við oft áður vann Everton ekki leikmannagluggann þó þeir hafi fengið leikmenn sem gætu allir átt töluvert inni. Klárlega miðjumennirnir og eins El Ghazi sem var góður hjá Villa í fyrrra.

Frank Lampard er nýr stjóri Everton, einungis vegna þess að hann heitir Frank Lampard. Hann hefur ekki beint CV-ið til að bakka sig upp sem stjóri en hefur á móti væntanlega lært helling í þeim störfum sem hann hefur verið í og hefur auk þess auðvitað góða reynslu sem leikmaður. Þar fyrir utan er hann auðvitað alinn upp af knattspyrnuþjálfara á Úrvalsdeildarleveli.

Aston Villa

Gerrard var búinn að laga stöðuna töluvert í deildinni áður en leikmannaglugginn opnaði og er með töluvert statment á þessum markaði að fá Coutinho til Aston Villa. Coutinho er ennþá byrjunarliðsmaður í landsliðinu, hann var bara að skora fyrir þá síðast í gærkvöldi. Lucas Digne er einnig öflug viðbót frá Everton sem og mögulega Calum Chambers frá Arsenal.

Einkunn: 8

Stóri vinningurinn fyrir Villa var að fá Gerrard í nóvember. Þeir eru í 11.sæti núna, voru í 16. þegar Gerrard tók við en ættu að blanda sér í baráttuna um Evrópusæti í vor.

Chelsea

Tímabilið er búið hjá Ben Chilwell og Chelsea náði ekki að semja við Lyon um að fá Emerson til baka úr láni. Alonso er því eini alvöru vinstri bakvörðurinn þeirra út tímabilið en þeir eiga svosem leikmenn sem geta leyst margar stöður. Chelsea er betur rekið en svo að painc kaupa leikmenn í janúarglugganum og hafa ákveðið að sleppa því. Ættu nú að eiga eitthvað til vara í sinni frábæru akademíu sem þeir nota sárasjaldan nema eftir að hafa lánað viðkomandi tólf sinnum.

Breytir því ekki að það er alvöru álag á Chelsea út þetta tímabil, HM félagsliða í næstu viku, deildarbikar í lok febrúar ásamt deild, FA Cup og Meistaradeild.

Einkunn: 5 – Hlutlaust. 

Man Utd

Maður hefði nú haldið að Ralf Ragnick með öll sín sambönd í bland við fjárráð Man Utd væri klár með 1-2 leikmannakaup núna í janúar til að styrkja United liðið aðeins út tímabilið. Þess í stað endaði glugginn með hreinum hörmungum, eitthvað sem hann hafði reyndar litla stjórn á.

Donny van der Beek er orðin svo lélegur Utd að lánar hann til Everton og treystir bara áfram frekar á Fred og félaga, eftir að hann kom frá þessu frábæra Ajax liði sumarið 2020 hefur hann spilað um 600 mínútur í deild á einu og hálfu tímabili. Ætli Davy Klaassen sé ekki besta samlíkingin við hann og því viðeigandi að hann fari núna til Everton.

Tony Martial náði aldrei þeim hæðum sem efni stóðu til og var núna í janúar lánaður til Sevilla, eitthvað sem þeir sjá mögulega eftir í ljósi nýjustu frétta af Mason Greenwood. Það mál kom upp svo stuttu fyrir lok leikmannagluggans að vonlaust var fyrir United að bregðast við nema mögulega með því að banna Lingard að fara í þessum glugga.

Mason Greenwood er það sem af er þessu tímabili búinn að spila megnið af leikjum United og var auðvitað ein helsta vonarstjarna félagsins. Þó að það sé alls ekki aðalatriði í hans máli er auðvitað alvöru áfall fyrir Utd að missa hann svona snögglega því ef allt er eðlilegt spilar hann aldrei aftur fyrir félagið.

Einkunn: 0 

Erfitt að sjá hvernig þessi gluggi var eitthvað annað en martröð hjá United

Newcastle

Þessi gluggi snerist um það hjá Newcastle að fá menn inn til að halda liðinu uppi. Þeir kaupa nýja hryggsúlu og auk þess tvo nýja bakverði sem verður að teljast ágætis byrjun í einum janúarglugga.

Kieran Trippier fer frá einum af spænsku risunum í fallbaráttuna á Englandi. Chris Wood frá Burnley gæti verið öflugri viðbót en honum er gefið credit fyrir og gefur sóknarlínu liðsins öðruvísi vopn en þeir eiga fyrir.

Bruno Guimarães frá Lyon eru alvöru kaup þar sem eigendur félagsins eru að sýna klærnar. Þetta er landsliðsmaður brassa að smella sér í fallbaráttuna á Englandi.

Matt Targett og Dan Burn eru svo ágæt viðbót einnig með reynslu af þessari deild.

Einkunn: 9

Væntanlega besti leikmannagluggi Newcastle í langan tíma, sérstaklega úr því peningar skipta þá engu.


Liverpool er eina toppliðið sem lét eitthvað til sín taka í janúarglugganum, bæði Man City og Chelsea voru óvenju róleg. Næsta sumar verður líklega stórt hjá þeim öllum nota bene.

Tottenham og Arsenal eru bæði í töluverðri tiltekt og líklega bæði með annað augað á Financial Fair Play reglunum í huga núna í janúar. Losa sig við dýra leikmenn sem eru ekkert að gefa af sér í samræmi við laun til að hafa svigrúm í sumar.

Man Utd fær alvöru kjaftshögg í lok leikmannagluggans og voru áður búnir að losa sig við Martial sem líklega hefði aldrei verið samþykkt. Hinn ungi og efnilegi Jessi Lingard (29 ára) er því ennþá á Old Trafford. Hefði ekki alveg trúað því í desember að Ragnick myndi losa/missa Greenwood, Martial og van der Beek án þess að fá neinn inn í staðin.

Stóru liðin eru uppfull af allt of dýrum leikmönnum sem eru farnig að hamla leikmannaviðskiptum framtíðarinnar. Við erum að sjá lið eins og Arsenal losa Aubameyang frítt til að skapa pláss og slatta af alvöru nöfnum fara á láni. Þetta er jafnvel verra ef við horfum utan Englands.

Það er ekkert Kínverskt lið að kaupa miðlungsleikmenn á fáránlegum prís og losa stóru liðin við slíka menn af launaskrá. Það er ekkert að frétta í Rússlandi eða Katar.

Ágætt að hafa það í huga sérstaklega þegar við erum að pirra okkur á FSG og rekstri þeirra á Liverpool. Þetta er nefnilega áhugavert frá Ted Knutson, hann þekkir mjög vel til á leikmannamarkaðnum:

13 Comments

  1. Flottur pistill, takk.

    Helduru að það sé einhver séns að Lpool blandi sér í baráttuna um Haaland í sumar? Geturðu útskýrt fyrir mér af hverju við tókum Minamino en ekki Haaland þarna um árið?

    Heilagur Fowler forði okkur frá því að Trent meiðist en hver er logical back-up fyrir hann? Ekki segja Milner.

    Annars flottur gluggi hjá Lpool en hissa á Neco dílnum. Spenntur að sjá L. Dìaz í rauðu treyjunni.

    4
    • Ég myndi giska á að Chamberlain væri flott backup fyrir Trent.
      Hann spilaði þessa stöðu undir lokin hjá Arsenal og gerði vel minnir mig.

      3
    • 0% séns að Liverpool fái Haaland.
      það er padda að nafni raoila sem er umboðsmaður hans hann myndi selja hann til newcastle ef hann fengi næga peninga.
      erum að tala um launakröfur uppá 500-600k á viku það er svona svipað og er verið að borga Salah,Mané og Firmino til samans.

      7
      • ólíklegt vissulega.

        En kannski hefur Haaland sjálfur eitthvað um framtíð sína að segja. Það er eitthvað sem segir mér að hann myndi frekar skipta um umboðsmann heldur en að láta Raiola selja sig til Newcastle.

        Markaðslega fyrir Haaland er Liverpool betri kostur en City og þrátt fyrir að LFC borgi ekki hæstu grunnlaunin þá bónusa þeir fyrir árangur.

        Kaupverðið er eitthvað sem ætti að laða FSG að honum.

        Ég held að möguleikarnir séu City, LFC og Real.

        4
  2. Yndislegt að sjá. Ég vil meina það að ef Thiago helst heill inni á miðjunni okkar út tímabilið að þá munum við landa CL!

    4
  3. Sonur minn lenti í því að þurfa að skrifa grein í skólablað um sögu stuðningsmanna ManU á Íslandi. Hann hefur gert allt sem hann getur til finna einhverja stuðningsmenn en það gengur alveg djöfullega. Fann einn kall á Grund sem starfsólkið hafði séð í gamalli United treyju, en hann neitaði algerlega að kannast nokkuð við það að hafa stuff félagið. Sagðist hafa fengið þetta frá Hertex.

    Vildi bara deila þessu hér. Hann auðvitað vissi ekki neitt um það að áhangendur klúbba gætu bara hætt að viðurkenna tengsl sín. Enda alinn upp í góðri Liverpool fjölskyldu…

    12
  4. Á norsku síðunni “Liverpool.no” er nú fullyrt að samkomulag um Carvalho sé í raun klárt. Þeir eru öllu jöfnu mjög áræðanlegir.

    6
      • Já þetta er opinbera síða norska klúbbsins. Þetta er hin Liverpool síðan sem ég fylgist með og hef gert í fjölda ára einfaldlega vegna þess að þeir eru mjög áræðanlegir. Það væri mjög ólíkt þeim að taka svona sterkt til orða ef þetta er eitthvað óstaðfest slúður.

        4
      • Já þetta er spes frá opinberu síðunni en ég þekki ekki nákvæmlega hvernig þeir vinna þetta og hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla gagnvart klúbbnum. En ef þeir brjóta svona stóra frétt þá vona ég nú að þeir setji fréttina aðeins betur upp en þetta.

        En David Lynch er svosem ekki í stöðu til að staðfesta neitt fyrir hönd klúbbsins enda bara óbreyttur blaðamaður. Vægast sagt magnað samt ef hann staðfestir Fabio Carvlaho til Liverpool á heimasíðu norska Liverpoolklúbbsins en minnist ekkert á það á sínum samfélagsmiðlum og enginn annar blaðamaður er að pikka þetta upp.

        Það einfaldlega gengur ekki upp.

  5. Frábær pistill. Las sambærilega um janúargluggann hjá BBC og Guardian og þessi er bestur af þeim. Hann er bæði ítarlegri og minna að skafa af hlutunum.

    3

Miðar á Anfield

Diaz er mættur á svæðið