Bikarleikur hjá kvennaliðinu gegn Lincoln

Þó enska deildin sé í pásu þessa helgina þá getum við samt fengið að sjá Liverpool spila, því stelpurnar okkar mæta Lincoln City í bikarkeppninni á Prenton Park núna kl. 14.

Það hefur verið allt of lítið um leiki hjá þeim sem hafa verið aðgengilegir á netinu, t.d. léku þær gegn Crystal Palace um síðustu helgi, á nákvæmlega sama tíma og strákarnir okkar spiluðu á móti karlaliði Palace, og báðir leikir unnust eins og kom fram í leikskýrslunni. Okkar konur eru því enn með 7 stiga forskot á London City Lionesses, en þær eiga leik til góða. Sætið í efstu deild er því fjarri því að vera tryggt, en klárlega eru stelpurnar okkar í eins góðri stöðu og þær geta verið í á þessum tímapunkti.

Þá léku þær gegn Spurs í 8 liða úrslitum í Continental Cup fyrir 10 dögum síðan, sá leikur fór 1-0 fyrir Spurs. Þetta var þó ágætis tækifæri fyrir liðið til að máta sig gagnvart andstæðingum í efstu deild, Tottenham hafa verið að gera fína hluti og eru í efri hluta deildarinnar, og því ljóst að okkar konur eru alls ekkert fjarri þeim í gæðum.

En nóg um það. Liðið á eftir verður skipað sem hér segir:

Clarke

Robe – Silcock – Moore

Wardlaw – Holland – Bailey – Hinds

Kiernan – Stengel – Humphrey

Bekkur: Laws, Roberts, Fahey, Missy Bo, Furness, Daniels

Í ljósi þess að Lincoln er að spila í þriðju efstu deild (og eru í fjórða efsta sæti í “Division One Midlands” hluta hennar), þá leyfir Matt Beard sér að stilla upp liði sem er ekki sterkasta uppstillingin. Charlotte Clarke fær markvarðarstöðuna, ungstirnið Hannah Silcock er í byrjunarliði í annað sinn, og á miðjunni ætla þær Carla Humphrey og Jade Bailey að ráða ríkjum í þetta skiptið (EDIT: Humphrey virðist vera í hægri framvarðarstöðunni, en Ceri Holland á sínum stað á miðjunni). Á meiðslalistanum erum við áfram með Rylee Foster, ásamt því að Melissa Lawley er frá og Rhianna Dean varð fyrir einhverju bakslagi í sinni meðferð.

Það verður Taylor Hinds sem mun bera fyrirliðabandið á eftir, og gerir það í fyrsta skipti.

Leikurinn á eftir verður sýndur á helstu streymisveitum Liverpool, þar á meðal á YouTube. Við uppfærum svo færsluna að leik loknum með úrslitum.


Leik lokið með öruggum 6-0 sigri hjá stelpunum okkar, en þær voru líklega svona 85% með boltann. Mörkin röðuðust þannig að þrennu skoraði – wait for it – Leighanne Robe, með tvö skallamörk eftir föst leikatriði, og svo fékk hún að taka víti í seinni hálfleik til að fullkomna þrennuna. Þar fyrir utan átti hún a.m.k. tvo aðra skalla í þverslá og líklega einn eða tvo bolta til viðbótar sem hefðu með smá heppni getað endað í netinu. Þetta eru víst fyrstu mörk hennar fyrir klúbbinn, þvílík innkoma inn á markaskorunarlistann. Síðan skoruðu Katie Stengel, Meikayla Moore og Charlotte Wardlaw eitt mark hver.

Næsti leikur er á sunnudaginn eftir viku þegar þær fá Coventry í heimsókn, viku síðar koma stelpurnar í Sunderland í heimsókn, og svo heimsækja þær höfuðborgina og mæta þar London City Lionesses, í leik sem gæti vel verið toppslagur seinni hluta tímabilsins.

Luis Díaz til Liverpool – Staðfest!

Gluggadagur: Liverpool ekki hættir á markaðnum? UPPFÆRT