Breytingar á innkaupastefnu Liverpool?

Frá því að Liverpool keypti hinn 19 ára Lazar Markovic á €25m frá Benfica sumarið 2014 hefur Liverpool ekki keypt einn leikmann beint frá Portúgal. Rétt tæplega 1/3 af Suarez peningnum fór í Markovic í glugga þar sem kaupin á honum voru ekki einu sinni þau verstu. FSG lærði sína lexíu í þessum glugga og hafa verið hálf ótrúlegir á markaðnum síðan þá.

Mögulega er það tilviljun en undanfarin ár hefur Liverpool ekki ekki sett háa fjárhæð í neinn leikmann sem ekki er með reynslu af ensku úrvalsdeildinni eða einhverri af hinum stærstu deildum Evrópu (Seria A, Bundesliga, La Liga eða Ligue 1). Engin risakaup hafa komið beint frá Portúgal, Hollandi, Austurríki, Sviss, Brasilíu o.s.frv.

Hluti af ástæðunni er auðvitað sú að Liverpool hefur hreint ekki keypt marga leikmenn dýrum dómi á þessum tíma. Eins hefur það mögulega spilað inn í að stórliðin þrjú í Portúgal hafa verið að selja mjög vel undanfarin ár. Þau hafa notið góðs af því að reglur voru slakari gagnvart leikmannakaupum frá S-Ameríku og þeir áttu auðveldara með að aðlagast lífinu í Portúgal enda kúltúrinn nær þeirra heimaslóðum. Sumir af bestu umboðsmönnum í heimi eru einmitt frá Portúgal.

Kaupverð bestu leikmanna Porto, Benfica og Sporting hefur því bara alls ekkert endilega verið lægra en sambærilegra leikmanna með reynslu af stóru deildinum fimm. Mögulega er landslagið aðeins að breytast hvað þetta varðar, úrvalsdeildarlið eins og Leicester, Aston Villa, Southampton og Wolves þurfa alls ekkert að selja sína bestu leikmenn til að láta enda ná saman á meðan Porto, Benfica og Sporting verða að treysta á sölu sinna bestu manna. Flest liðin í ensku úrvalsdeildinni eru núna meðal ríkustu liða í heimi, Barcelona var t.a.m. að fá leikmann Wolves að láni í þessum glugga!

Engu að síður hefði maður búist við því að Liverpool myndi láta meira til sín taka á þessum markaði undanfarin ár enda góðar tengingar innan herbúða Liverpool við Portúgal. Pep Ljinders kom til Liverpool frá Porto þar sem hann þjálfaði m.a. Ruben Neves, Diogo Jota og fleiri góða. Julien Ward var njósnari Liverpool á þessu svæði og vann með landsliði Portúgal. Auk þess sem Liverpool hefur núna mætt Porto sex sinnum á nokkrum árum.

Á hverju sumri selja stóru liðin þrjú í Portúgal nokkra mjög góða leikmenn úr deildinni, mig langaði í tilefni af væntanlegum kaupum Liverpool á Luis Diaz frá Porto að skoða þessi kaup aðeins.

Luis Diaz vs Ruben Dias

Það er of snemmt að meta þá sem voru keytir sumarið 2021, byrjum því á sumrinu 2020

2020

Wolves er auðvitað aðeins sérstak tilfelli með alla sína portúgölsku leikmenn. Fabio Silva er einn efnilegasti leikmaður í heimi í dag og Wolves vonast klárlega til að ávaxta pundið vel eftir einhver ár en er á sama tíma lið sem getur gefið honum séns og þann spilatíma sem hann þarf. Kaupverðið sýnir samt að þú ert ekkert að fá neitt gefins í Portúgal þó deildin sé ekki meðal þeirra bestu. Sambærilegur leikmaður frá Hollandi, kostar hann svona mikið?

Ruben Dias frá Benfica hefur komið frábærlega inn í vörn Man City og er þegar talinn einn besti miðvörður í heimi. Kaupverðið gefur til kynna að það var alveg vitað fyrir.

Alex Telles hjá United er svo squad leikmaður og kostaði svipað og squad leikmenn kosta hjá því illa rekna félagi. Bestu leikmenn Portúgal eru að fara í ríku liðin (og Wolves).

2019

Gluggarnir 2019/20 sýna enn betur að bestu leikmenn portúgölsku deildarinnar eru að fara í ríku liðin í Evrópu (og Wolves).

Felipe sem hafði verið frábær í vörn Porto lengi og festi sig fljótlega í sessi í frábærri vörn Atletico enda ekkert unglamb þegar hann skipti yfir.

Militao fór ekki beint í liðið hjá Real Madríd enda mun yngri og harðari samkeppni en hefur verið að festa sig í sessi síðan. Hann er einmitt einn af þeim sem við vildum að Liverpool myndi skoða eftir eina af viðureignum Liverpool og Porto.

Kaupverðið á Joao Felix sem var ekki orðin tvítugur er ennþá alveg magnað og sýnir kannski hvað best afhverju FSG hafa ekkert verið ólmir í að vinna á þessum markaði. Verst fyrir hann að fara þarna í lið sem hentar honum alls ekki eins vel og hægt er að ná út úr honum, hann hefur alls ekki verið €127m virði.

Raul Jiminez voru frábær kaup hjá Wolves og enn einn leikmaðurinn frá Portúgal sem flestir töldu of góðan til að fara í Wolves.

Luca Jovic er gott dæmi um frábært njósnaranet portúgölsku liðanna, hann kom frá Serbíu til Benifca, var lánaður í tvö tímabil til Frankfurt sem keypti hann á endanum. Hann er núna hjá Real Madríd. Fengu nota bene svipað mikið fyrir þessi kaup á enfilegum serba og þegar þeir seldu Lazar Markovic.

Bruno Fernandes eru leikmannakaup beint frá Portúgal til Englands sem kannski líkjast hvað mest kaupum Liverpool á Luis Diaz. Fernandes var búinn að vera bestur í deildinni í smá tíma en engu að síður voru miklar efasemdir um hvort hann gæti ráðið eins vel við ensku deildina. Fernandes fór á sama aldri og Diaz er núna og kaupverðið var svipað. Vonandi kemur Diaz með svipað impact inn í deildina, hann fær hjá Liverpool mun betri stjóra og lið með miklu betri holningu en Fernandes fékk hjá United.

Raphinha sem margir vildu/vilja einmitt fá til Liverpool er enn einn af þessum brössum sem stoppa við í Portúgal á leið sinni í Evrópska boltann, hann fór þetta sumar í Ligue 1 og þaðan til Leeds. Hann er núna 25/26 ára og farinn að nálgast hátind ferilsins, klárlega tilbúinn í eitthvað meira en Leeds.

2018

Á einu tímabili seldi Porto frá sér Dalot, Pereira og Boly úr varnarlínunni. Allir fór þeir beint í ensku úrvalsdeildina. Landsliðsmarkmaðurinn Rui Patrício einnig. Dalot var svo ungur að það hefur tekið hann tíma að fóta sig en hinir fóru allir beint í liðið hjá sínum nýju félögum.

Eins héldu Madrídarliðin áfram að versla í Portúgal.

2017

Stærstu leikmannasölurnar tímabilið 2017/18 voru að vanda til stórliðanna (og Wolves). Lindelöf kom með mjög gott orðspor til Man Utd og kostnaði slatta af pening, ruglið innan herbúða félagsins hefur klárlega ekki hjálpað honum en hann hefur varla staðið undir verðmiðanum. Man Utd keypti nota bene leikmann frá Portúgal öll þessi ár sem við erum að skoða (2017-2018-2019-2020)

Ederson fyrir €40m er þjófnaður og ljóst að City hafa gert öllu betri kaup í Portúgal en nágrannarnir í Utd. Sýnir líka hvað það er mikilvægt að koma inn í heilsteypt lið með góða holningu og leikstíl. Lindelöf, Fernandes eða Telles hefðu allir átt auðveldara með að skína hjá City en þeir hafa náð hjá Utd.

Kaup Wolves á Neves komu þó mest á óvart þetta sumar og hjálpuðu örugglega helling til við leikmannakaup þeirra í kjölfarið. Hann er núna kominn á það stig að hann þarf að fara huga að næsta skrefi á sínum ferli, núna með góða reynslu af úrvalsdeildinni.

Af hverju engin til Liverpool?

Af þeim leikmönnum sem hafa yfirgefið Portúgal undanfarin fimm ár eru ekki margir sem maður myndi flokka sem klúður af hálfu Liverpool að kaupa ekki. Það eru engir faldir demantar í stóru liðunum í Portúgal og það þarf að borga til að fá þá. Luis Diaz hefur verið í umræðunni í 1-2 ár þó hann hafi ekki byrjað að springa út fyrir alvöru núna á þessu tímabili. Það eru fjölmörg lið búin að setja sig í samband við umboðsmenn hans undanfarna mánuði.

Fabio Silva og Ruben Dias eru sem dæmi báðir mjög spennandi en kostuðu líka fullt verð og rúmlega það. Liverpool á fyrir sambærileg gæði. Sama má segja um Joao Felix sem er þó velkominn á Anfield á einhverju stigi síns ferils.

Eftir á að hyggja hefðum við skipt á Keita og Fernandes vegna meiðsla Keita en Liverpool var svosem búið að ganga frá kaupum á Keita tveimur árum áður en Bruno fór til Manchester. United greiddi líka sannarlega uppsett verð fyrir hann.

Á þessu tímabili sem við erum að miða við, 2017-2020 keypti Liverpool eftirfarandi leikmenn: Alisson, Van Dijk, Salah, Fabinho, Robertson, Keita, Jota, Thaigo, Ox, Shaqiri, Minamino og Tsimikas,

Þetta er ótrúlegt succsess rate í leikmannakaupum. Þeir sem hafa kostað yfir €30m hafa flestir rúmlega staðið undir væntingum og jafnvel virkað ódýrir, sama hvert kaupverðið var. Allir fyrir utan Ox og Naby Keita sem væru sannarlega meðtaldir væri ekki fyrir endalaus Harry Kewell-esq meiðslin.

Andy Robertson vegur einn og sér upp á móti og guð minn góður ef við teljum Trent Alexander-Arnold með líka sem kostaði ekki neitt.

Thiago er með Keita og Ox í pirrandi flokknum ennþá en kom blessunarlega á frjálsri sölu.

Shaqiri, Tsimikas og Minamino kostuðu svo allir mun minna og hafa aldrei verið hugsaðir annað en squad leikmenn.

Niðurstaða:

Það sem stendur eftir og kom mest á óvart við að rannsaka þetta er að Lazar Markovic er bara 27 ára í dag! Hann ætti að vera toppa núna!

 

 

18 Comments

  1. Thiago kom ekki á frjálsri sölu, kostaði 20m punda. Finnst það svo hæpið að kalla það breytingu á innkaupastefnu að kaupa einn leikmann úr portúgölski deildinni. Kallað var eftir meiri samkeppni í þessa stöðu síðasta sumar. Þetta virðist vera orðið normið hjá FSG, að kaupa leikmenn hálfu ári til ári of seint, sbr. Konate.

    Svo eru leikmenn á leiðinni út til að fjármagna þessi kaup, sem líka virðist vera stefna FSG, selja til þess að kaupa þannig að breiddin er ekkert meiri svosem, en vonandi meiri gæði til að velja úr. Eitt atriði, verður Diaz löglegur í CL?

    5
    • Það er spurningamerki við hvort þetta sé breyting á innkaupastefnu Liverpool, sjáum það mögulega á næstu árum.

      Rétt með Thiago, beit í mig að hann hefði komið frítt, ekki að 20m er mjög lágt fyrir hans klassa.

      Já hann má vera með í CL, búið að breyta reglunum þess efnis á þessu stigi keppninnar.

      4
      • 20m mögulega nokkuð eðlilegt verð fyrir leikmann með meiðslasögu sem átti lítið eftir að samning.

        20m vissulega góður díll ef maður horfir einungis í gæði Thiago.

        4
  2. Sæl og blessðu.

    ,,Aldrei aftur Markovic” hlýtur að standa á skrifborðinu hjá þeim í innkaupanefndinni. Svakalega klúðruðu Rodgers og co. málum eftir söluna á nafna. Úff.

    Allt annað líf eftir að þeir létu af störfum og við fengum Edwards og co. Flott samantekt og það er unun að fylgjast með því hvað kaupin eru markviss og laus við allt bull. Ekki amalegt að geta borið þetta saman við hroðann á Gúdison og OT.

    4
    • Hugsa nú að Edwards og sömu aðlilar og hafa unnið með Klopp beri miklu meira ábyrgð á Markovic en nokkurntíma Rodgers. Munurinn frekar að Rodgers virtist ekki vilja vinna með nokkum þeirra leikmanna sem hann var ekki 100% sammála um að kaupa á meðan Klopp virðist gefa nánast öllum séns og geta bætt hvern sem er. Hvar væri Markovic núna ef Klopp hefði verið stjóri Liverpool 2014? Gæðin voru til staðar.

      Klopp er þó með sterka stefnu um engan bjánaskap og því átti Balotelli aldrei glætu og mögulega Sakho ekki heldur.

      8
      • Fyndið að Klopp var stjóri Balotelli í einhverja mánuði. Balo fékk ekki að koma á æfingasvæðið allan þann tíma.

        En því miður held ég að Klopp hefði ekki bjargað Markovic. Öll lánin sem hann fór á floppuðu. Fór frítt til Fulham og spilaði ekkert og er núna hjá uppeldisfélagi sínu í Serbíu.

        Annars segir sagan að Klopp hafi alls ekki tekið vel í þær hugmyndir um að kaupa Mo Salah í fyrstu en að lokum tókst innkaupanefndinni að sannfæra hann. Klopp á að hafa viljað Julian Draxler.

        5
      • Já, það er víst best að hafa það sem sannara reynist. Klopp hefur þessa sýn á sjálfan sig og aðra sem gerir hann að framúrskarandi leiðtoga. Það, einmitt, að hlusta á samstarfsfólkið og viðurkenna að stundum hefur maður einmitt rangt fyrir sér – er partur af þessum töfrum. Hið sama gildir um afstöðu hans til leikmanna. Þeir fá sannarlega tækifæri til að blómstra.

        Held að BR hafi verið meiri egóisti á þessum sviðum og ekki hlustað eins vel á fólkið. Minnir einhvern veginn að hinn ,,serbneski Messi”, eða hvað þeir nefndu hann, hafi einmitt verið hans óskaval. Þá skilst mér að Firmino hafi ekki fallið honum í geð og að hann hafi knúið það fram að fá Benteke fremur. Þeir enduðu svo báðir í liðinu sem kunnugt er.

        1
  3. Birgir.

    Það sem ég heyrði var að Njósnaranir tóku yfir. Klopp taldi hann ekki nógu líkamlega sterkan en njósnaranir voru ósammála því.

    En það að Klopp hafi leyft þeim að taka yfir er vissulega stjórnun út af fyrir sig. Kallast að hlusta að rök annarra og fara eftir þeim.

    3
    • Alltaf verið partur af galdrinum hjá Klopp að vita sín takmörk og treysta þeim sem vinna með honum og vita betur í einhverjum ákveðnum þáttum. Liverpool er teymisvinna innan sem utan vallar.

      Liverpool hefur ekki keypt einn leikmann sem Klopp hefur klappað sér á bakið fyrir að hafa barist fyrir að kaupa. Edwards, Fallows og félagar fá alltaf hrósið og hann virkilega leggur sig fram við að ítreka það. Frekar að hann taki ábyrgðina ef illa fer.

      Rodgers var ekki alveg þannig…

      9
      • Brendan Rodgers ofmetnaðist. Það varð honum að falli. Góður þjálfari en ekki nógu sterkur karakter.

        1
  4. Lazar Markovic var ótrúleg efni og einn mest spennandi ungi leikmaður evrópu þegar hann kom til okkar og því skiljanlegt að Liverpool tæki sénsinn á honum en því miður þá náði hann aldrei þeim hæðum sem vonast var eftir ekki frekar en landi Markovic sem voru fyrstu kaup Klopp hjá Liverpool.

  5. Ég er enn alltaf að vonast eftir kaupum á Raphinha, sem þú nefnir og hefur verið orðaður við LFC annað slagið frá því á síðasta tímabili og búinn að sanna sig í ensku deildinni. Þetta er leikmaður sem hefur gert útslagið í mörgum leikjum fyrir Leeds og ætti að geta gert töluvert betur í betra liði. Upphæðirnar sem hafa verið nefndar um hann eru hálfgert grín m.v. gæði og færi góður biti í hundskjaft ef hann færi t.d. til West Ham sem voru að fá höfnun við sínu tilboði. Hann er með samning til 2024 og Leeds hljóta að íhuga gott tilboð.

    Það væri frábært að fá hann og Luis Diaz, því þá væri breiddin fram á við komin í algjöran heimsklassa og öflug vopn á bekknum ef á þyrfti að halda seint í leikjum, eins og gerist alltaf enn annað slagið.

    2
  6. Ég held að kaupstefna eiganda Liverpool have ekkert breyst síðan 2010.
    Það sem er að tikka inn fyrir Liverpool er það að við erum með einn besta stjórann í heiminum.
    Það má alveg segja að Michael Edwards og Julian Ward eru að vinna vel út úr því fjármagni sem þeir mega nota.
    Við skulum ekki horfa framhjá því að Jurgen Klopp er búinn að vera hjá Liverpool síðan haustið 2015
    og ef hann hefði fengið meiri stuðning eigandana væri Liverpool búnir að vinna fleiri titla, það er alveg ljóst. Ég haf alltaf verið að vona að Liverpool yrði selt til mun fjársterkari eiganda!

    2
  7. Inn: Luís Diaz

    Út: Takumi Minamino verður mögulega lánaður til Leeds. Monaco hefur líka áhuga á honum. Burnley, Fiorentina og Atalanta hafa áhuga á Divock Origi. Watford bauð í Nat Phillips en því tilboði var hafnað. Newcastle og West Ham hafa líka áhuga á honum. Neco Williams virðist vera á leiðinni á lán til Bournemouth.

  8. Sælir félagar

    Luis Diaz er frágenginn díll. Velkomin til Liverpool Diaz og megir þú verða farsæll og meiðslalaus allan þinn tíma hjá Liverpool 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

    3

Luis Diaz – Bein samkeppni við Sadio Mané?

Luis Díaz til Liverpool – Staðfest!