Crystal Palace 1 – 3 Liverpool

0-1 Van Dijk ‘8

2-0 Chamberlain ’32

2-1 Édouard ’55

3-1 Fabinho víti ’89

Framvindan

Það tók svona 2 mínútur af ómarkvissum hasar fyrir Liverpool að taka öll völd á vellinum. Þá fékk maður strax á tilfinninguna að markið okkar lægi í loftinu. Eftir þungar sóknir og ekki svo frábær færi setti Virgil Van Dijk okkur í bílstjórasætið þegar hann stangaði boltann af ógnarkrafti í netið eftir hornspyrnu Robertson. Hornspyrnan var fín en varnarmenn Palace steinsofnuðu og leyfðu Van Dijk að skora eitt sitt allra auðveldasta mark.

Viðvörunarbjöllur

Tilfinningin var sú að þetta gæti varla annað en endað sem stórsigur, en það voru samt ákveðnar viðvörunarbjöllur sem fóru að hringja. Miðjan tók öll völd, en einstaka sinnum glataðist boltinn og það var ljóst að einhver hröð sóknin frá Palace gæti endað með marki, við höfum séð svoleiðis gerast áður. Á 21. mínútu vorum við minnt á að þetta er fljótt að gerast þegar heimamenn skutust fram en Allison varði meistaralega úr sannkölluðu dauðafæri, að vísu var flautuð síðbúin rangstæða svo það hefði ekki staðið, en ógnin var til staðar.

Önnur viðvörunarbjallan fór af stað þegar Fabinho fékk sannkallað dauðafæri þegar boltanum var rúllað til hans eftir frábæra sókn og hann skaut rétt við vítapunktinn en boltinn fór hátt yfir. Þá kom þessi tilfinning að þetta klúður gæti reynst dýrkeypt.

Annað mark

Yfirburðirnir voru samt sem áður enn verulegir, mest af ógninni kom frá vinstri vængnum, og þaðan kom þessi stórkostlega sending frá Robertson á fjærstöngina þar sem Ox Chamberlain tók boltann niður og smellti honum af stuttu færi í netið og forskotið var tvöfaldað. Á þessum tíma hugsaði maður að það væri fátt sem gæti breytt þessum leik. Palace átti engin svör og við áttum alla bolta sem voru á eða nálægt miðjusvæðinu.

Svefn og heimamenn minnka muninn

En svo gerðist eitthvað eftir u.þ.b. 35 mínútna leik. Einhver ýtti á hnapp sem gerir það að verkum að við hættum að spila fótbolta. Palace komst inn í leikinn fór allt í einu að geta ógnað. Okkar menn fóru að gefa frá sér boltann á hættulegum stöðum, og var þar Matip fremstur í flokki. Síðustu mínúturnar voru frekar óþægilegar en Palace tókst ekki að nýta sér það sem þeim var boðið.

Því miður tókst Klopp ekki að vekja okkar menn af værum blundi í hálfleik og fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik voru enn erfiðari en síðustu mínútur fyrri hálfleiks. Palace fékk nokkur fín færi, en Allison var fyrst og fremst sá sem kom í veg fyrir að heimamenn minnkuðu muninn. Hann gat þó ekkert gert á 55. mínútu þegar við glötuðum boltanum á miðjunni og Schlupp splundraði vörninni með eitraðri sendingu á Mateta, sem lagði boltann framhjá Allison til Edouard sem svo gott sem labbaði með boltann í markið. Þarna var leikur okkar hruninn og þetta mark var sanngjarnt miðað við spilamennskuna sem var í gangi.

Við náðum ekki að svara þessu og taka leikinn yfir aftur. Klopp reyndi skiptingar en þær virtust ekki breyta leiknum neitt. Minamino kom inn á fyrir Chamberlain á 60. mínútu, en það er óvíst hvort Minamino hafi ratað inn á völlinn, a.m.k. gekk myndavélinni illa að finna hann eftir skiptinguna. Palace þreyttust greinilega líka og áttu erfiðara með að skapa sér hættuleg færi eftir markið og gerðu svo þrjár skiptingar, og settu m.a. Benteke inn á. Allison sýndi svo hversu mikilvægur og magnaður hann er þegar Palace fékk besta færi sitt á 84. mínútu þegar Olise reyndi að vippa yfir hann, en okkar maður sá það fyrir og tók sprettinn til baka og bjargaði með naumindum.

VAR var rothöggið

Tveimur mínútum eftir markvörsluna miklu fékk Jota góða vörumerkjasendingu innfyrir frá Alexander Arnold. Jota tók boltann niður af áræðni og lenti á Guaita markverði og datt. Jota vildi víti en dómarinn hló og sagði þeim að halda áfram. VAR herbergið aftur á móti tók völdin.. og mikinn tíma og horfði aftur og aftur. Að lokum var dómarinn beðinn að taka ákvörðun því þetta var loðið. Alls tók það um 3 mínútur að ákveða að niðurstaðan væri víti og það er alveg ljóst að þetta er og verður umdeildur dómur. En það er ekki umdeilt að Fabinho er fyrirtaks vítaskytta og hann kláraði þetta af punktinum af miklu öryggi.

Dómarinn bætti 6 mínútum við leikinn vegna VAR og annarra tafa, en það gerðist ekki mikið markvert eftir vítið og 1-3 sigur var lokaniðurstaðan.

Samantekt

Við sýndum það fyrsta þriðjunginn af leiknum að breiddin í hópnum ræður við að tveir af bestu framherjum veraldar eru ekki með í liðinu. Á þessum tíma voru yfirburðirnir ofsalega miklir, liðsheildin og leikskipulagið algjörlega frábært. Við sýndum það líka að tveggja marka forysta er aldrei nóg fyrir okkur. Við erum brothættir og hleypum liðum allt of oft aftur inn í leiki, oft út af engri góðri og gildri ástæðu. Að þessu sinni tókst okkur að halda þetta út og gulltryggja leikinn í blálokin. En þetta var ekki öruggur sigur, mistökin voru of mörg og það má segja að heppnin hafi aðeins verið með okkur í liði. Ekki veit ég hvort þetta er doði eftir að hafa tryggt okkur í úrslitaleik á Wembley, eða hvort við söknuðum Salah og Mane, en hrun okkar í leiknum virtist vera upp úr þurru, var óþarfi og hættulegt.

Maður leiksins

Við unnum leikinn því Allison varði nokkur skot sem margir markverðir hefðu aldrei varið. Hann er maður leiksins að mínu mati því án hans hefðum við tapað. Það má líka draga fram Andy Robertson sem lagði upp fyrstu tvö mörkin með glæsilegum sendingum. Meðan við spiluðum vel var öll mesta ógnin frá vinstri vængnum og hann vann þar vel með Jota, Firmino og Jones. Hann er samt sem áður einn af þeim sem tók þátt í að færa liðið niður í meðalmennsku frá og með 35. mínútu þegar liðið hætti að spila fótbolta. Van Dijk var mestan tíma af leiknum mjög góður, eftir 20 mínútna leik var hann búinn að skora mark, gefa 23 sendingar sem heppnuðust allar, og var búinn að leiða vörnina í 350 mínútur án þess að fá á sig mark.

Slæmur dagur

Matip er ekki upp á sitt besta þessa dagana. Hann var að gefa boltann á hættulegum stöðum og bjóða hættunni heim. Það var ekki honum að þakka að við fengum ekki fleiri mörk á okkur. Hann er alltaf betri að fara fram á við og senda boltann í þá átt heldur en til hliðar í öftustu línu. Þegar hann gerir það fær maður netta óttatilfinningu. Ég var heldur ekki svo hrifinn af Trent í þessum leik. Hann er oft betri og ógnin var ekki mikil af hans væng, ekki heldur meðan við stýrðum leiknum. Kannski líður honum best þegar hann vinnur með Salah, en þetta fór aldrei á flug og varnarlega var hann ekki í stuði heldur. Það sem bjargar honum þó í horn er frábær sending sem fæddi af sér vítaspyrnuna í lokin.

Góður dagur hjá stelpunum

Það var ekki bara karlaliðið sem mætti Crystal Palace í dag, heldur mætti kvennaliðið líka til Lundúna. Þær gerðu mun betra mót og rúlluðu upp gestgjöfunum 0-4 með tveimur mörkum frá Yana Daniels, einu frá Stengel og einu frá Rachel Furness.

Að lokum

Það er gott að leikurinn er búinn. Hann var erfiður og við erum án mikilvægra leikmanna. Það tókst að sækja stigin þrjú og það er frábært. Það er þó margt sem verður að læra af þessum leik. Lærdómur sem ætti að vera búinn að eiga sér stað. En við erum að saxa á forskotið sem City hefur á okkur. Það er ánægjulegt. En nú erum við á leiðinni í vetrarfrí, og næsti leikur á dagskrá er ekki fyrr en 6. febrúar þegar við tökum á móti Cardiff á Anfield í FA Cup.

YNWA

30 Comments

  1. Alisson Alisson Alisson! Þvílíkar snilldarvörslur! Hélt okkur algjörlega á floti þegar vindsængin byrjaði að leka, og það strax í fyrri hálfleik.

    16
    • Virkilega flott að sigla þessum 3 stigum í hús á frekar erfiðum velli þar sem að Viera er að smíða sterkt fótboltalið sem er búið að gleyma Hodgson boltanum.
      Allison bjargaði okkur í dag og mér fannst þetta einn af verri leikjum Van Dijk þrátt fyrir þetta mark hjá honum, ég geri meiri kröfur á besta varnarmann heims.
      En 3 stig og svo er Cardiff í bikarnum í næsta leik og það eru 18 dagar í næsta deildarleik og þá ættu Salah, Mane og Keita allir að verða komnir aftur.

      5
  2. Frábær skemmtun í kaflaskiptum leik en VAR bjargaði engu. Staðan var 1-2 og við hefðum örugglega siglt þessu í höfn. Í framhaldi af þessum leik þá væri bara frábært að spila 90 góðar mínútur næst. Stigin þrjú voru góð og kærkomin í baráttunni við city.
    YNWA

    4
  3. Gríðarlega mikilvægur sigur.
    Þreyta í liðinu í seinni hálfleik, tek hattinn ofan fyrir palace að gefast ekki upp.
    Get ekki annað en verið ánægður með liðið. Án afríkustrákanna höfum við tryggt okkur sæti á Wembley.
    Vinnum leikinn sem við eigum inni þá munar bara 6 stigum og eigum eftir að mæta City.
    Enn möguleikar á 4 titlum, yfir hverju er eiginlega að kvarta.

    Svo eigum við besta markvörð í heimi, Alisson, stórkostlegur í dag.

    17
  4. Sælir félagar

    Nú mátti Liverpool þakka fyrir að missa þennan leik ekki niður í jafntefli eða jafnvel tap. Alisson með stórleik og bjargaði amk. 2 ef ekki þremur stigunum. Kevin Friend dæmdi okkur víti sem var frekar “soft” en þó alveg réttlætanlegt. Jota fiskaði það en var búinn að vera alveg týndur í seinni fram að því og bjargaði andlitinu fyrir vikið. Þetta drullu “syndrome” Liverpool leikmanna að skíta uppá bak í unninni stöðu er skelfilegt og verður að taka á því máli af festu.

    Minn maður leiksins er Alisson þó Robbo hafi verið magnaður í fyrri þá var Alisson það allan leikinn. Virgil skoraði loksins úr föstu leikatriði og bjargaði sínu andliti með því þar sem hann átti mjög slakan seinni hálfleik. Miðjan hætti að virka í seinni hálfleik og ég skil ekki hvernig men missa hausinn svona og gefa frá sér unna stöðu – þó það hafi “bjargast” þetta skiptið. Núna förum við að fara að fá Afríkumennina en spurning hvernig Liverpool kemur eftir vetrarfríið en liðið hefur oft komið mjög þungt og slappt eftir frí.

    Það er nú þannig

    YNWA

    8
    • Jota fiskaði þetta er bara ekki rétt og ekki soft heldur að mínu viti. Fyrir það fyrsta þá stýrði varnarmaðurinn Jota að markmanni sem reyndi aldrei við boltann þannig að þetta var pjúra víti.
      Og þá var Jota lang lang skástur af okkar fremstu í síðari ef einhver var tíndur í síðari var það frekar Firmino og OX. Ég set nú ekki oft út á skipperinn okkar en Hendó var allveg tíndur á miðjunni og klárt mál að Thiago og Keita verða velkomnir í liðið því Hendó verður betri leikmaður með annan af þeim inná. Annars ætla ég ekki að gráta það að liðið er búið að spila frábærlega með varamannabekkinn fullan af krökkum og Minamino sem fyrsta kost af bekk þannig að bara rosalega sáttur.

      YNWA.

      7
  5. Alisson klárlega maður leiksins.
    Varðandi vítið að þá er Jota að taka skrefið frá markmanni þegar hann er tekin niður og því klárt víti finnst mér.
    Er svo sem slétt sama að öðru leyti svo framarlega við fáum 3 punkta.

    10
  6. Sæl og blessuð.

    1. Leið eins og vorið 2014 þegar eftir yfirburðabyrjun botninn datt úr leiknum. Hefðum á verri degi fengið á okkur 1-3 mörk úr þessum dauðafærum þeirra. Þarna var gæfan með okkur eftir ítrekuð miðju/varnarmistök sem hækkuðu í manni blóðþrýstinginn. Hverjum getum við þakkað fyrir það? sjá lokalið..!
    2. Gríðarlega kaflaskiptur leikur. Byrjunina kannaðist maður við – AC milan ofl. leikir þar sem allt gengur upp á fyrstu mínútum. Svo dofnar yfir þessu og andstæðingar fá trúna aftur.
    3. Markið sem Chambo skoraði ætti að fara í sögubækur þessa tímabils og í orðabækur yfir ,,liðsmark”. Hversu margar sendingar fóru á milli manna? Og lokasendingin frá Robbo…. Mmmmama
    4. Ótrúlegt að skora 3-2-3 mörk í þremur leikjum án Afríkumannanna.
    5. Friend var aldrei þessu vant okkur hliðhollur í vafamálum. Einhver hefði dæmt Firmino rangstæðan í marki Chambo. Ég var reyndar aldrei í vafa um að þetta væri víti. Boltinn ennþá inn á og markmaðurinn fer klaufalega í Jota.
    6. Alisson Alisson Alisson. Maður leiksins. Engin spurning. Heimsklassa markvarsla. Var hann að horfa á Frakkland – Ísland í handboltanum?

    Takk fyrir Frímann.

    11
  7. Palace er með fantagott lið og heppnin og heilagur Alisson með okkur í dag. Greinileg þreyta í mannskapnum og það er skiljanlegt eftir 3 leiki á átta dögum hjá flestum þeirra sem sumir eru þar að auki nýstignir upp úr Covid. Kærkomið frí fram undan og vonandi getum við átt hressilega atlögu að öllum fjórum titlunum þegar því lýkur með Salah, Mane, Thiago og Elliott aftur í hóp. YNWA

    8
  8. Alisson maður leiksins hann er ástæðan fyrir því að Liverpool tók stiginn 3 í dag.
    Þreyta í mönnum fannst manni og skiljanlega.
    Flott mörkin hjá VVD og Ox.
    Vítið fannst mér ódýrt en víti engu að síður.
    Bilið minnkað smá í City það er jákvætt halda áfram að vinna leiki.
    Sáttur við stiginn 3 en hefði viljað sjá betri varnarleik sérstaklega í seinni.

    YNWA !

    5
  9. 3 stig 🙂
    Firmino rangstæður í marki 2 þar sem hann hefur klárlega áhrif þrátt fyrir að snerta ekki boltan
    Við áttum svo ekki að fá víti, Jota missir boltan og tekur svo beyjuna í átt að markverði Palace til að fá snertinguna. Mjög soft að minnsta kosti.

    Við vorum samt mjög góðir lengi vel og áttum skilið að vera yfir = Fyrrihálfleikur
    Við vorum samt mjög lélegir lengi vel og átti Palace skilið að jafna= Síðari háflleikur

    Við tökum samt þessi 3 stig og hlökkum til að fá Salah, Mane, Thiago, Keita og Elliott til baka

    YNWA – Man City hafa verið snillingar í vetur að ná að kreysta út stig þegar þeir eru ekki að leika vel(Man utd heimsmeistara í því í vetur) og í dag var komið að okkur.

    8
  10. Frábært að vinna þennan leik en það var pínu erfitt að horfa á hann. Veit einvher af hverju Liverpool á ekki leik fyrr en 6. febrúar næst? Er vetrarfrí?

  11. Sæl og blessuð.

    Annars sé ég að það eru tvær vikur í næsta leik. Hvaða rugl er það?

  12. LOKSINS kemur landsleikjahlé eða vetrarfrí á réttum tíma!

    2
  13. Keita er búinn að vera besti leikmaður Afríkumótsins (í riðlakeppninni).
    Núna er Guinea að spila án hans og virðist ætla að tapa leiknum (hann er í banni, eftir tvö gul spjöld), þannig að þegar þetta er skrifað þá er hann líklega að koma heim og þá verður hann úthvíldur eftir vetrarfrí.

    Merkilegt hvað þessi magnaði leikmaður nær lítið (sjaldan) að gefa af sér eitthvað með Liverpool. Ég man ekki eftir að hafa verið spenntari yfir nokkrum kaupum hjá Liverpool – haldið þið að hann eigi einhvern tíma eftir að vera góður í lengri tíma en 1-2 leiki?

    4
    • Nei því miður held hann verði því miður ekki neitt og þetta átrúnað vera mest spennandi kaup Liverpool í 100 ár sirka. Ekkert nema vonbrigði og Thiago með sýn 200 þús pund á viku náði um daginn 5-6 leikjum en annars er hann nánast ekkert að spila og sennilega vel undir 30 prósent leikjum spilaða síðan hann kom fyrir einu og hálfu ári síðan. Gengur ekki að vera með nokkra svona farþega. Matip og Chamberlain voru svona líka en hafa ótrúlegt en satt verið heilir allt þetta season og Chamberlain í meira en ár held ég.

      1
    • Höfum við einhvertiman séð Fab;Thiago og Keita byrja leik á miðjuni ? Það væri gaman að sjá prufu af því á móti minni spámönnum á heimavelli.

      YNWA.

      3
  14. Ef við tökum núna RUN og vinnum 10-12 leiki í röð, eigum samkvæmt pappír mjög vinnanlega leiki og hofum 2-3 sinnum undir klopp oft eftir lélegan janúar rekið rosaleg RUN síðast a síðasta tímabili. Ef við ætlum að eiga séns í titilinn þá þurfum við svona RUN. Náum við því þá getum við náð city en hofum ekki efni á að tapa stigum hér og þar því city er ekki að fara tapa 10-15 stigum held það sé nokkuð ljóst, þetta eru sex stig ef við vinnum leikinn sem við eigum inni og 10 leikja sigurhrina núna gæti gert þetta spennandi. Höfum mjög oft undir klopp átt erfiðan janúar en svo þegar Salah og mane fara taver janúar perfect en klikkudum I desember i staðinn sem við höfum ekki verið að gera. En allavega tryggja topp 4 og berjast um FA bikarinn líka, sigur gegn Cardiff og þá komnir í 16 liða úrslit og 4 leikir að bikarnum. Svo verður allt power sett í meistaradeildinni meistaradeildina og þar getum við slegið hvern sem er út í 2 leikja einvígi það hefur Klöpp ítrekað sýnt með okkur og DORTMUND.

    EN góður sigur í gær ljótt en ljótu sigrarnir telja eiginlega mest, Allison gersamlega í heimsklassa og ver 4 sinnum úr dauðafærum. En frábært að klára þennan leik og núna bara njóta frísins og koma svo og halda áfram sama RUNI. Hef fulla trú á ad við getum verið frábærir út leiktíðina. Vera bara jákvædir og ekkert rugl 🙂

    3
  15. Maður er orðinn svo örvæntningarfullur eftir nýjum leikmönnum að ég er orðinn fúll að Spurs séu að fá Adama Traore frá Wolves á 20mp, leikmaður sem að hefur verið í lægð í langan tíma en ef einhver getur náð honum í gang þá væri það Conte eða Klopp.

    1
    • Þar keypti Conte köttinn í sekknum. Adama Traore er spretthlaupari með lítið sem ekkert end-pródúkt. En ekki þar fyrir, toppþjálfari getur hugsanlega gert kraftaverk úr litlu.

      3
  16. Halló,,,,, er ekkert að gerast á leikmannamarkaðnum hjá Liverpool

    Veit einhver…

  17. FSG bara sáttir að setja meira í baukinn og top 4 sætið. Neita að trúa því að Klopp vilji ekki styrkja liðið.

    1
  18. Sælir félagar

    EKKERT podcast??? Ég sakna þess verulega að heyra í félögunum Einsa, Magga og Steina 🙂 (Einari, Magnúsi og Sigursteini) 🙂

    Það er nú þannig

    YNWA

    2

Byrjunarliðin vs. Crystal Palace á Selhurst Park

Gullkastið – Engin janúar bölvun í ár