Upphitun: Shrewsbury í skugga Covid smita

Eftir að æfingasvæði Liverpool var lokað í vikunni og leik gegn Arsenal frestað er komið að næsta leik og það er Shrewsbury í FA-bikarnum. Það er enn mjög óljóst hverjir smituðust hjá Liverpool og því erfitt að meta hvernig við komum í þennan leik en ljóst er að Pep Ljinders smitaðist og líklegt að Klopp verði enn frá og því sjáum við líklega Peter Krawietz stýra liðinu á morgun.

Liverpool mætti Shrewsbury í sömu keppni fyrir tveimur árum og gerðu þá 2-2 jafntefli og þurfti því að spila annan leik sem var settur í mitt vetrarfrí ensku úrvalsdeildarinnar. Klopp var mjög ósáttur við þá ákvörðun og sendi því Neil Critchley með unglingaliðið í endurtekna leikinn sem Liverpool vann 1-0. Shrewsbury menn voru hrikalega ósáttir við þessa ákvörðun Klopp og töldu hann hafa rænt af sér sjónvarpsleik og miklum tekjum.

Með þrjá sigra og eitt jafntefli í síðustu fjórum leikjum mæta Shrewsbury í leikinn í góðu standi og sitja í fjórtánda sæti í League one. Steve Cotterill, maðurinn sem tók við af Guðjóni Þórðarsyni hjá Stoke, er þjáfari Shrewsbury og er reyndur neðri deildar þjálfari sem hefur stýrt liðum á borð við Portsmouth, Burnley og Birmingham. Í leikmannahópi Shrewsbury eru ekki margir leikmenn sem flestir kannast við en einhverjir þekkja hugsanlega við varnarmanninn Matthew Pennington sem gekk til liðs við liðið frá Everton í sumar en hann skoraði einmitt eina mark Everton í 3-1 tapi í grannaslagnum gegn okkar mönnum 2017.

Krawietz gaf ekki mikið af sér á blaðamannafundi sínum í dag og vildi ekki einu sinni staðfesta hversu margir væru með Covid í hópnum vegna þess að flestir væru að fara í annað próf í dag. Hann staðfesti þó að Joel Matip byjaður að æfa aftur og að liðið yrði blanda af ungum strákum með nokkra reyna til að stýra þeim í gegnum leikinn.

Ég gæti trúað að liðið muni koma mörgum á óvart og verði jafnvel sterkara en menn búast við, nema það séu of margir enn frá. Ef Alisson og Firmino eru líka heilir aftur eins og Matip gæti ég trúað að þeir fái að spila til að koma þeim aftur í leikæfingu eftir að hafa verið með veiruna en fyrir utan það ætla ég ekki að reyna að geta á liðið þar sem við höfum hreinlega ekki hugmynd um hverjir geta spilað leikinn. Ljóst er þó að við sjáum eitthvað af ungu strákunum spila og eru þar líklegastir Clarkson, Owen Beck, Tylor Morton, Conor Bradley og Kaide Gordon sem hafa verið í kringum hópinn í þessum bikarleikjum. Einnig verða þó líkega einhverjir óvæntir ungir strákar þar sem einhverjir þeirra smituðust vissulega líka.

Það er vonandi að prófin í dag fari vel og leikurinn fari fram. Þó er líka varhugavert að liðin í neðri deildunum eru hvorki jafnvel bólusett og liðin í efstu deild og fara ekki í próf jafn reglulega heldur og því einnig vonandi að það komi ekkert upp hjá Shrewsbury í heldur nú þegar þeir fara í próf fyrir bikarkeppnina.

Spá

Það er erfitt að spá í þessa leiki þegar stóru liðin rótera jafnmikið og við munum gera og nú eru Covid smit í þokkabót. Við gerðum jafntefli við Shrewsbury fyrir tveimur árum með blandað lið af ungum og reyndari þar sem Matip, Fabinho og fleiri spiluðu en unnum þá svo með Curtis Jones sem lang reyndasta leikmann liðsins. Ég held þó að við fáum ansi sterk lið og vinnum leikinn frekar örugglega.

4 Comments

 1. Það þarf nú eiginlega að henda í getraun varðandi uppstillinguna, láta lesendur síðunnar giska á liðið, og sá sem er með flest rétt nöfn hlýtur titilinn “Gisk-kóngur FA bikarsins janúar 2022”.

  Hér er mín ágiskun:

  Pitaluga

  Neco – Matip – Virgil – Robbo

  Clarkson – Morton – Thiago

  Gordon – Jota – Musialowski

  Þetta er auðvitað nánast algjörlega út í loftið, maður veit ekkert hverjir smituðust, hverjir ekki, og hverjir verða komnir til baka. Semsagt bara mjög nálægt því að spila í lottói.

  3
 2. Kelleher; Neco, Gomez, Konate, Robertson; Clarkson, Morton, Milner; Origi, Firmino, Minamino

  2
 3. Orðrómur um að Thiago sé frá fram í mars eða jafnvel út tímabilið?

  Vona að þetta sé ekki rétt en ef svo er þá þarf að kaupa miðjumann í janúar.

Arsenal leik frestað

Liðið gegn Shrewsbury í bikarnum