Upphitun: Spurs í skugga Covid

Hvernig hitar maður upp fyrir leik sem er ekkert öruggt að fari fram? Ekki það að Klopp er búinn að lýsa því yfir að þeir vilja spila leikinn þrátt fyrir að vera án VVD, Fab og Curtis. Spurningin er hvort þessi þrjú smit verði staðfest, í augnablikinu hefur það ekki verið gert. Stærri spurning er svo kannski hvort smitum fjölgi.

Það hafa nefnilega verið að koma upp orðrómar um að smitum sé að fjölga í leikmannahóp Liverpool. Ekkert staðfest ennþá, en Henderson mætti víst ekki á eitthvað jólahlaðborð hjá hópnum. Salah og Klopp voru reyndar bara viðstaddir í gegnum fjarfundarbúnað, en Salah er jú búinn að fá Covid og hefur sést meðal fólks í dag svo varla er hann smitaður. En ef þetta reynist satt – og sérstaklega ef það dúkka svo kannski upp fleiri smit á morgun og sunnudagsmorgun sem gæti vel gerst – þá kæmi nú ekki á óvart þó það yrði farið fram á frestun. Nóg er búið að fresta leikjum um helgina, á morgun áttu að fara fram 6 leikir en það er búið að fresta fjórum, á sunnudaginn áttu að fara fram fjórir leikir en búið að fresta einum.

Klopp var reyndar ekkert endilega spenntur fyrir því að setja deildina á ís, enda engar sérstakar líkur á að staðan verði eitthvað betri eftir t.d. 2 – 3 vikur. Það má alveg færa rök fyrir því að ef bæði lið eigi X marga leikmenn leikfæra (t.d. 14), þá skuli leikurinn fara fram. En þegar lið eins og Liverpool er í þessari baráttu við City, og má einfaldlega ekki við því að missa nokkurt einasta stig, þá væri svona stefna til þess fallin að kippa öllum stoðum undan titildraumum Liverpool manna.

Afgangurinn af þessari upphitun gerir ráð fyrir að allt fari á besta veg, það sé búið að komast fyrir þetta hópsmit í hópnum, og að Klopp geti stillt upp liði sem getur spilað fótbolta.

Andstæðingarnir

Tottenham koma inn í þennan leik eftir að hafa ekki spilað leik í hálfan mánuð, því þeir léku síðast gegn Norwich sunnudaginn5. desember síðastliðinn. Í millitíðinni hefðu þeir átt að spila þrjá leiki: gegn Rennes, Brighton og Leicester, en öllum var frestað. Þeim síðasta var reyndar frestað vegna smita í leikmannahópi Leicester, en Spurs voru víst klárir í bátana og hefðu meira að segja viljað að frestunin hefði verið ákveðin fyrr því þá hefðu þeir e.t.v. náð að spila leikinn gegn Rennes sem á eftir að spila. En eins og staðan er núna þá mun ekki nást að koma þeim leik fyrir í leikjaprógramminu, og því gæti farið svo að Tottenham þurfi að gefa þann leik, og þar með missa af möguleikanum að komast í útsláttarkeppnina.

Tottenham er í augnablikinu eitt fárra liða sem kemur inn í leik með fleiri leikmenn á sjúkralistanum, aðallega vegna Covid smita. Heilir sjö leikmenn smituðust hjá þeim, og eru merktir “doubtful” fyrir leikinn.

Hvaða áhrif hefur það á Spurs að hafa ekki spilað í hálfan mánuð? Við höfum séð lið Liverpool eiga marga af sínum lakari leikjum eftir að hafa fengið pásu, en er það kannski af því að Liverpool er lið sem spilar “intense” fótbolta, og kallar á að liðið sé í ákveðnum takti? Það verður að koma í ljós hvort leikmenn Spurs séu búnir að gleyma að spila fótbolta, ég tel kannski minni líkur á því. Gleymum því ekki heldur að lið sem er með Kane og Son innanborðs er líklega alltaf hættulegt, jafnvel þó svo Kane hafi alls ekki átt gott tímabil það sem af er, og að Son er nýkominn úr Covid. Við vitum ekkert hvernig hann kom út úr þessu smiti, kannski var hann einkennalaus allan tímann og mætir stálsleginn í leikinn á sunnudaginn.

Okkar menn

Leikurinn á fimmtudaginn var talsvert fjarri því að vera besti leikur okkar manna í seinni tíð, mögulega voru tíðindi af smitum liðsfélaganna að hafa áhrif á frammistöðuna. Ef það er raunin og ef svo smitum e.t.v. fjölgar, þá gæti orðið ansi vandasamt fyrir Klopp að mótívera þá leikmenn sem eftir standa til að mæta á fullu gasi í leikinn.

Eins og staðan er núna, þá eru eftirfarandi leikmenn ekki leikfærir vegna meiðsla: Adrian, Origi, Harvey, Nat. Einna helst hægt að tala um Harvey Elliott sem byrjunarliðsmann af þessum hópi, og við vitum að hann kemur ekki til greina fyrr en í fyrsta lagi seinnipartinn í janúar, líklega febrúar samt. Svo er það þessir þrír sem eru mögulega með Covid: VVD, Fab og Curtis. Þarna eru tveir byrjunarliðsmenn, og þar að auki líklega tveir af bestu leikmönnum í heiminum í sínum stöðum. Hvert einasta lið myndi finna fyrir því að missa slíka máttarstólpa úr hópnum. Tala nú ekki um ef orðrómurinn um Henderson reynist réttur, þá eru 2/3 miðjunnar frá.

Það er annars lang líklegast að Klopp stilli upp sama liði og byrjaði gegn Newcastle:

Alisson

Trent – Matip – Konate – Robbo

Ox – Hendo – Thiago

Salah – Jota – Mané

Ef Hendo reynist smitaður er líklegast að annaðhvort Keita eða Milner komi inn í hans stað. Firmino virkaði jafn ryðgaður eins og maður sem er að koma úr 6 vikna lærvöðva tognun, og því frekar ólíklegt að hann byrji á bekknum. En Firmino hefur alltaf fagnað því að spila á móti Tottenham, við þurfum nú bara að rifja upp sigurmark hans fyrir ári síðan fyrir framan nokkur þúsund áhorfendur í Kop stúkunni. Við gætum því vel séð hann koma inná.

Gætum við séð Tsimikas koma inn í vinstri bakvörðinn fyrir Andy? Ekki útilokað, hugsanlega vill Klopp rótera í þeim stöðum þar sem gæðamunurinn á fyrsta vali og öðru vali er ekki það mikill.

Tökum líka eftir því að með VVD frá vegna Covid, og Nat frá vegna brákaðs kinnbeins, þá er breiddin í miðvarðarstöðunni ekkert svakaleg. Matip, Konate og Gomez, tveir þessara nýkomnir úr langtímameiðslum. Við vonum bara að þeir haldist sæmilega heilir allir þrír.

Eins og kom fram í upphafi er ekkert 100% að leikurinn fari fram. Við skulum hafa það sem hluta af spánni: mun leikurinn fara fram, og ef svo er, hvernig fer hann?

Undirritaður spáir því að leikurinn muni fara fram, og að Liverpool merji 1-2 sigur, mörk frá Keita og Mané (Salah með a.m.k. eina stoðsendingu).

KOMA SVO!!! (og haldið nú heilsu elskurnar mínar)

7 Comments

 1. Vonandi verður þessi leikur spilaður, verst að það munar töluvert að hafa ekki Van Dijk og Fabinho, en ég vil frekar að Liverpool spili án þeirra heldur en að fresta leiknum.

  3
 2. Já, vonandi verður spilað en mér finnst reyndar staðan vera þannig að fresta eigi til áramóta. Vinnum þetta 0-2!

  2
 3. Sælir félagar

  Ég læt allt liggja á milli hluta þar til ég veit a) hvort leikurinn verður leikinn. b) hverjir geta leikið og c) hvernig lið t’ham verður skipað.

  Það er nú þannig

  YNWA

  1
 4. Ég er kominn með uppí kok af þessu helvítis covid ógeðið eins og flestir aðrir, maður þorir varla hugsa þá hugsun til enda ef að ensku deildinni verður frestað sem flest bendir til og þar með þarf ég að fara að hreyfa minn feita rass og hjálpa til hér á heimilinu.

  6
 5. Tuchel að kvarta og kveina yfir covid, þrátt fyrir að hafa sterkara lið á pappír en klopp. Hann getur ekki kennt meiðslunum um.
  Annars virðist leikurinn fara fram og mikilvægt að sigra þennann leik!
  Salah hlýtyr að skora allavega 2.

Liverpool – Newcastle 3-1

Byrjunarliðið gegn Tottenham