Liverpool – Newcastle 3-1

0-1 Shelvey, 6. min
1-1 Jota, 21. min.
2-1 Salah, 25. min.
3-1 TAA, 86. min

Það var sterkur orðrómur í gangi dag, sem sagði að VVD og Curtis Jones hefðu greinst með Covid. Fabinho bættist svo við þann hóp og ljóst að þeir verða frá amk næstu 10 daganna eða svo, virkilega slæmt á þessum tíma árs en ég er ekki svo viss með að mótinu verði haldið áfram miðað við hve margir hafa greinst síðustu vikuna eða svo.

Þessi leikur byrjaði ekki vel hjá okkar mönnum. Það gerðist lítið fyrstu 5 mínúturnar en á 6 mínútu leiksins komumst gestirnir í hraða sókn upp vinstri kanntinn, Maximin gaf boltann á Fraser sýndist mér sem sendi frekar slakan bolta fyrir markið. Thiago kom þar en átti ömurlega hreinsun beint á Shelvey sem skaut fyrir utan teig og Alisson, sem tók skref í öfuga átt af einhverjum ástæðum, reyndi ekki einu sinni í boltann 0-1.

Jöfnunarmarkið kom á 21 mínútu og það var við frekar furðulegar aðstæður. Robertson tók horn frá vinstri, þar varð einhver árekstur svo tveir leikmenn gestanna lágu eftir. Dómarinn lét leikinn halda áfram, að mér fannst réttilega (sá engin höfuðmeiðsli í endursýningunni), Mané sendi að lokum boltann fyrir á óvaldaðan Jota sem skoraði að lokum eftir að Dubravka hafði varið skallann frá Portúgalanum en hann klikkaði svo ekki í frákastinu, 1-1!

Thiago var næstum búinn að gefa gestunum forskotið í nýjan leik örfáum mínútum síðar þegar skelfileg sending hans fór beint á Maximin sem hljóp á vörnina og átti fínt skota sem Alisson varði vel. Thiago með sína fjórðu fail sendingu á einhverjum 25 mínútum. Í næstu sókn ákvað Shelvey að taka upp á því sama og Spænski kollegi hans hjá Liverpool, átti virkilega slaka sendingu til baka sem Mané komst inní. Varnarmaður Newcastle reyndi að ná til boltans en fór bara í Mané sem var kominn einn í gegn. Mané gerði allt sem hann gat til að detta ekki og náði skoti á markið (hefði væntanlega alltaf verið víti ef sóknin hefði fjarað út) sem Dubravka varði en Salah náði frákastinu og skoraði, 2-1!

Salah hefði átt að koma okkur í 3-1 á 34 mínútu þegar viðstöðulaus sending frá Ox sendi þann fyrrnefnda einn innfyrir en slakt skot hans fór hárfínt framhjá.

Síðustu 10 mínútur leiksins voru svipaðar, leikurinn fór nánast eingöngu fram á vallarhelmingi Newcastle en gestirnir áttu samt hættulega sókn þegar þeir komust í 4 á móti 3 en náðu ekki að nýta sér það.

Staðan 2-1 í hálfleik, nokkuð sanngjarnt miðað við gang leiksins.

Síðari hálfleikur

Síðari hálfleikur byrjaði nokkuð svipað og sá fyrri (utan markið). Liverpool voru meira og minna með boltann á meðan gestirnir freistuðu þess að liggja aftarlega og treysta á hraða Maximin.

Fraser var við það að sleppa í gegn á 62 mínútu en TAA náði frábærri tæklingu á síðustu stundu.

Eftir þetta gerist afskaplega lítið næstu 15 mínúturnar eða svo. Keita og Firmino komu inn í stað Salah og Ox, virkilega jákvætt að fá þá til baka. Maximin fór einnig útaf í stað Wilson eftir að hafa verið meiddur inn á vellinum í góðar 10 mínútur eða svo.

Jota fékk líklega besta færið á 81 mínútu þegar skot hans úr miðjum teignum var varið af Dubravka. Þurfti svo sem ekki mikið til enda var þetta fursta skot Liverpool á markið í síðari hálfleik.

Það var svo á 86 mínútu sem að Liverpool gerði endanlega út um þennan leik þegar Trent var orðinn leiður á þessum krúsídúllum í kringum vítateig gestanna, fékk boltann rétt fyrir utan teig og átti frábært skot upp í vinstra hornið, 3-1, game over.

Bestu menn Liverpool

Það er frekar erfitt í þetta skiptið. Heilt yfir fannst mér liðið ekkert spila neitt sérstaklega vel, gerðu bara nákvæmlega það sem þurfti og nánast ekkert aukalega.

Sóknartríóið okkar hefur oft verið sprækara, Jota sást lítið fyrir utan markið og Mané var frekar dapur og Salah var mikið í boltanum en end-productið oft verið meira.

Thiago átti skelfilegar fyrstu 25 mínútur en náði svo ágætis takti. Henderson og Ox voru frekar hlutlausir en skiluðu samt alveg sínu.

Í öftustu línu fannst mér Alisson eiga mögulega að gera betur í markinu en varði svo mjög vel 20 mínútum síðar frá Maximin. Robertson, Konaté og Matip voru fínir í dag, réðu vel við hraða sóknarlínu Newcastle ásamt Trent, sem ég ætla að velja sem mann leiksins í dag. Hann átti bæði frábæra tæklingu í síðari hálfleik þegar Fraser var kominn einn í gegn ásamt því að skora frábært mark og tryggja endanlega öll þrjú stigin.

Umræðan

 • Rafa. Varalið Everton sótti stig á brúnni, við skálum fyrir því.
 • 37. Salah er með marki kvöldins kominn með 37 mörk á árinu 2021, sem er jafnt hans besta árangri á almanaksári (2018).

Næstu verkefni

Því miður þá sé ég ekki annað í spilunum nema að næstu leikjum verði frestað. Mikið af COVID smitum í liðunum og nú þegar búið að fresta þónokkrum leikjum. Þá voru Virgil og Fabinho á liðshótelinu með liðinu þar til í morgun þegar þeir voru greindir – spurning hvort það komi ekki fleiri smit í okkar herbúðum á næstu dögum.

Ef svo ólíklega vill til að menn ákveða að spila næstu umferðir þá er dagskráin þétt, eins og svo oft áður á þessum árstíma. Tottanhem (ú) næstkomandi sunnudag, Leicester (h) 22 desember í Carabao Cup og svo Leeds (h) á annan í jólum – þrír leikir á einni viku takk fyrir.

Þar til næst (sem vonandi verður ekki svo langt)

YNWA

14 Comments

 1. Frábær sigur eftir óvænta byrjun þar sem leikmenn Liverpool voru frekar slakir en svo sýndu þeir af hverju þeir eru eitt besta lið heims, Konate og Matip voru flottir í kvöld og frábært að sjá hvað Matip er að halda sér heilum á tímabilinu.
  Ég set mann leiksins verðlaunin á Konate í kvöld, þessi strákur á eftir að ná virikilega langt ef hann heldur svona áfram og gæti vel orðið leiðtoginn í vörninni eftir að Virgil hættir.
  Sóknin hefði vel getað sett fleiri mörk í kvöld en stóðu sig samt nokkuð vel og mjög flott að sjá Firmino koma aftur inná völlinn.
  Chelsea tapaði svo 2 stigum á móti lélegu liði Benitez sem hjálpar okkur aðeins.

  12
 2. Sýnist að Covid sé að fara með enska boltann í jólafrí.
  Ég er sáttur við stöðuna og segi Gleðileg rauð Jól !

  7
 3. Sæl og blessuð.

  Enn einn strögglleikurinn þar sem andstæðingurinn gefur allt í leikinn. Hefði viljað sjá betra slútt hjá Salah einn á móti markmanni en annars var þetta mikið klafs fyrir utan teig. En við unnum enn einn leikinn þar sem allt er í járnum!

  Konate fannst mér virkilega góður. Chambo átti skilið stoðsendingu í færi Salah. Trent var maður leiksins. Ekki annað hægt.

  5
 4. Mig langar að kvarta eitthvað yfir Robbo en læt það vera því Trent skoraði svo fallegt mark. Og Keïta á að byrja næsta leik á kostnað Ox.

  4
 5. Ég er eiginlega svolítið sammála þér með Robbo, hefur svolítið farið í pirrurnar á mér. Hann er alltaf einhvern vegin með bakið í sóknarstöðu og getur ómögulega notað hægri fótinn, þannig hann er aldrei með opna stöðu til að swinga boltanum inn í teig. Þarf alltaf að leita til baka. Trent er annars miklu betri í þessu, alltaf með brjóstið í sóknarstöðu og getur því alltaf átt möguleika á að setja hann inn í. Þetta hefur svolítið pirrað mig með Robbo, tek samt ekkert annað af honum, hlaupin til að opna fyrir aðra og svoleiðis. Bara hann myndi bæta hægri fótinn sinn, þá yrði hann alveg jafn hættulegur og Trentinn.

  4
 6. Þetta var vintate Jonjo Shelvey, er oftar en ekki lykilmaður fyrir bæði liðin á vellinum! 😛

  Flottur sigur, hefði þó gjarnan mátt klára þetta fyrr til að geta tekið síðasta spölinn í 2. gír. Það er þó auðvitað óttalegt nitpicking því þrír punktar eru fyrir öllu! Á sama tíma sækir svo King Rafa punkt á Stamford Bridge með tæplega 20% possession. Glæsilegt!

  8
 7. Hversu mikill munur varð á leiknum samt þegar Keita kom inná ..meigi hann haldast heill í meira en 3 leiki Fj….dinn hafi það 🙂
  Trent frábær og Salah þvílíka markið hjá Trento !

  2
 8. Jæja, núna verða þeir að blása mótið af og í pásu. Vonandi verður sú pása ekki nema nokkrar vikur en tíminn vinnur best með okkar liði enda eigum við besta þjálfarann.

  1
 9. Ég er sáttur með að við eigum ekki leik eftir í umferðinni andstætt Tot og Utd t.d. fari svo að öllu verði frestað. Nú er sama pressan á LFC og City að vinna næsta leik.

  2
 10. Ekki okkar besti leikur en nægjanlega góður til að klára Newcastle. Fannst Thiago út á þekju framan af leik en óx þegar líða fór á leikinn. Fannst vörnin að mestu í lagi og Konate er þvílíkt tröll og Matip kemur mér stöðugt á óvart, fannst hann flottur í þessum leik. Geggjuð tækling hjá Trent sem örugglega nokkrir dómarar hefðu flautað á víti og markið hans var sleggja og gott að hafa einhvern sem þorir að skjóta fyrir utan teig. Ox er fínn fótboltamaður en fer stundum fram úr sér. Salah var bara eins og Salah er venjulega og sá var ekki sáttur að vera tekinn af velli. Firmino var auðsjáanlega ekki í leikæfingu. Líkleg niðurstaða er að nú verði mótinu frestað fram yfir áramót og staðan hjá okkur er alveg viðunandi , 2 sætið og einu stigi frá Mancity. Langar ekki í frestun , jólin verða ekki eins skemmtileg án enska boltans en ef svo fer þá óska ég öllum gleðilegra fótboltalausra jóla !

  3
 11. Sælir félagar

  Takk fyrir skýrsluna Eyþór og svo sem ekki miklu við hana að bæta. Það er gott þegar liðið okkar vinnur leiki en er þó að spila “illa” en nota bene miðað við eigin getu. Við erum farina að ganga að gæðum Salah svo vísum að hann þarf að eiga stjörnuleik til að verða maður leiksins þó hann sé bezti leikmaður vallarins leik eftir leik. Ekki sanngjarnt gagnvart honum.

  Robbo var frekar “passívur” í þessum leik og það fer í taugarnar á manni þessar endalausu sendingar hans til baka. Jota er markanefur en mér finnst hann ekki spila mikið fyrir liðið. En að skora mörk skiptir auðvitað miklu máli 🙂 Ox var algerlega villtur í þessum leik og vissi oft á tíðum hvort hann var að koma eða fara.

  Thiago var nærri búin að kosta okkur tvö mörk en náði sér svo á strik. Skiptingin Salah og Ox fyrir Firmino og Keita fannst mér skrítin en ég hefði viljað sjá Jota fara en ekki Salah. Aðrir leikmenn á pari og sleggjan frá TAA var dásamleg. Þrjú stig í hús og aldrei hægt að vanþakka það.

  Það er nú þannig

  YNWA

  2
 12. að Jota sé ekki að spila fyrir liðið?

  Á hvað hefur þú verið að horfa?

  EFtir að Portúgalski gulldrengurinn mætti á svæðið hefur liðinu aldrei gengið betur að skora.

  Stærsti faktorinn í því virðist vera innkoma Jota fyrir Firmino.

  10
  • Á meðan DJ var meiddur á síðasta tímabili þá mistókst liðinu að skora í 8 leikjum.

   Og ég held að það sé staðreynd að liðið hafi skorað í öllum leikjum sem DJ hefur byrjað.

   2

Liðið gegn Newcastle

Upphitun: Spurs í skugga Covid