Upphitun: Ríkasta lið heims mætir á Anfield

Á morgun mætir markahæsta lið deildarinnar því liði sem hefur fengið á sig flest mörk þegar Newcastle mætir á Anfield. Tímabilið hefur verið undarlegt hjá Newcastle en það var gríðarleg ánægja þegar Mike Ashley seldi loks félagið til Arabanna í Public Investment Fund sem gerði félagið það langríkasta í heimsfótboltanum. Það gerðist hinsvegar eftir að félagskiptaglugginn lokaði og því fékk núverandi leikmannahópur það undarlega verkefni að þurfa að halda liðinu uppi, vitandi að enginn á öruggt sæti í liðinu takist þeim það.

Newcastle náði loks sínum fyrsta sigri tímabilsins í fimmtándu umferð með 1-0 sigri á Burnley en þrátt fyrir að hafa þurft að bíða svona lengi eftir sínum fyrsta sigri hafa þeir gert sjö jafntefli sem þýðir að þeir sitja í nítjánda sæti deildarinnar með tíu stig, aðeins þremur stigum frá öruggu sæti.

Liðið hefur þegar farið í gegnum ein stjóraskipti á tímabilinu þar sem Arabarnir voru fljótir að losa sig við Steve Bruce og eftir töluverða leit og nokkra stjóra sem afþökkuðu starfið þá enduðu þeir á að ráða Eddie Howe fyrrum stjóra Bournemouth. Howe hefur þrettán sinnum stýrt liði gegn Liverpool, alltaf með Bournemouth, þar af hefur hann tapað ellefu, gert eitt jafntelfi og unnið einn leik í desember 2016 þar sem hann vann ótrúlegan 4-3 endurkomu sigur eftir að vera 3-1 undir þegar korter var eftir.

Á meiðslalista Newcastle eru varnarmennirnir Paul Dummett og Federico Fernandez en hvorugur hefur spilað mikið þó meiðsli Fernandez minnki líkurnar á því að Howe breyti yfir í þriggja manna vörn sem margir hafa reynt gegn okkar mönnum. Howe gæti viljað skoðað það eftir að hafa steinlegið í síðustu umferð 4-0 gegn Leicester og hefur Newcastle gengið illa að verjast í ár. Lascelles og Schar hafa myndað miðvarðarpar norðanmanna í undanförnum leikjum og væri þá Ciaran Clarke eini heili miðvörðurinn sem gæti komið inn með þeim.

Okkar menn

Meðan Newcastle hefur fengið á sig rétt rúmnlega tvö mörk í leik hafa sóknarmenn okkar leikið á alls oddi og er Liverpool lang markahæsta lið deildarinnar með 2,8 skoruð mörk að meðaltali í leik. Hinsvegar hafa mörkinn aðeins verið að þorna upp að undanförnu. Tveir 1-0 baráttu sigrar í röð þar sem Liverpool hefur verið mun betra liðið á vellinum en átt erfitt með að koma boltanum í netið, þrátt fyrir frábær tækifæri á köflum. Newcastle og varnarleikur þeirra veitir því vonandi góða leið aftur á markaskorunarbrautina.

Við erum komnir í enn einn rússibanann með Manchester City þar sem tilfinningin er að allir leikir þurfa að vinnast annars sé þetta nánast búið. City spilaði á undan í þessari umferð og gékk frá Leeds með 7-0 sigri í gær og sendi boltann á okkur og nú má ekkert fara úrskeiðis í þessum leik.

Klopp veitti góðar fréttir á blaðamannafundinum fyrir leikinn því Bobby Firmino er orðinn heill og verður í leikmannahópnum fyrir leikinn ásamt því að Jones og Origi eru að koma tilbaka. Einnig fengum við að vita það að Joel Matip er ekki að íhuga endurkomu í landslið Kamerún og þurfum við því ekki að hafa áhyggjur af því að missa hann í Afríkukeppnina í janúar. Klopp neitaði hinsvegar að tjá sig um Afríkukeppnina sjálfa en það hefur verið í umræðunni hvort það þurfi að fresta keppninni vegna fjölgandi smita en CAF, Afríska knattspyrnusambandið, hefur sagt að það sé ekki rétt að þeir séu að íhuga það. Hinsvegar sendi félag evrópska knattspyrnuliða ECA bréf þess efnis að ef þeir hafi ekki trú á að öryggi leikmanna sé tryggt telji þeir rétt að lið geti neitað leikmönnum sínum að fara í landsliðsverkefni. Það er því ljóst að við erum ekki búinn að heyra það síðasta um Afríkukeppnina sem mun þó að öllum líkindum fara fram á settum tíma.

Þá að leiknum á morgun. Liverpool fékk ágætis hvíld frá laugardegi til fimmtudags og því líklegt að Klopp velji sitt besta lið, það eina sem hann gæti haft í huga er að við eigum leik gegn Tottenham á sunnudaginn. Liðið er þó vant því að spila þrjá leiki á viku og fengu flestir hvíld gegn AC Milan. Stóru spurningarnar eru Mane og Salah sem byrjuðu þann leik. Báðir hafa yfirleitt fengið hvíld einu sinni í desember en ég geri þó ráð fyrir því að við sjáum báða í byrjunarliði í dag og þeir verði báðir á bekknum gegn Leicester í bikarnum í næstu viku.

Eins og ég sagði áður býst bara við okkar sterkasta liði og Firmino fái einhverjar mínútur af bekknum til að koma honum í gang áður en Afríkukeppnin hefst. Gæti þó jafnvel séð Chamberlain byrja ef læknateymið er óvisst með einhvern miðjumanninn og spurning hvort Konate fái leik ef þeir treysta Matip ekki í þrjá leiki á einni viku en það þarf að sækja þrjú stig úr hverjum einasta leik svo ég sé Klopp ekki taka mikið af áhættum á morgun.

Spá

Ég held að við slátrum þessu Newcastle liði á morgun. Ætla að spá 5-1 þar sem við komumst yfir snemma og Callum Wilson setur sárabótamark fyrir þá í seinni hálfleik. Salah með þrennu, Jota og Mane með eitt hvor.

14 Comments

  1. Ef það er einhver leikur sem má spara og hvíla lykilleikmenn þá er það þessi.

  2. Ég er sammála Gettra. Það mætti nýta breiddina í þessum leik. t.d nota leikmenn eins og Kostas, Konate, Gomez, Chamberlain, Milner, Keita og jafnvel Firmino. Kannski ekki alla en eitthvað af þeim. Hef reyndar ekki nægjanlega hugmynd um ástand þessara leikmanna en einhverjir af þeim eru klárlega í mjög fínu formi eins og Kostas, Konate og Chamberlain,

  3. Þokkalega viss um að Klopp spili sýnum bestu mönnum i kvöld, menn mæta 100% mótiveraðir og ætla komast í 4 – 0 í fyrrihálfleik skipta svo öllum út og spila í neutral í seinni hálfleik.

    Þetta leik kerfi virkaði fínt á old trafford og sýnir að við erum að þroskast og getum auðveldlega spilað á móti fallbaráttu liðum.

    3
  4. Sælir félagar

    Það á að stilla upp gríðarsterku byrjunarliði og koma leiknum í vinningsstöðu og skipta svo þeim leikmönnum út sem þurfa nauðsynlega hvíld. Þar sé ég helst Virgil og ef til vill Hendo. Skoða má hvort Alisson mundi þyggja smá hvíld en ég tel að Salah hafi engan áhuga á að setjast á bekkinn nema hann sé búinn að skora þrennu.

    Það er nú þannig

    YNWA

    4
  5. SigKarl er með þetta.

    Ekkert kjaftæði að rótera fyrir þennan leik. Okkar sterkast á bara að byrja og ná í þessi 3 stig og ég hef trú á að þeir geta spilað aftur þann 19.des gegn Tottenham en fá svo hvíld 22.des í deildarbikar.

    3
  6. Bara tímaspursmál hvenær deildin verður slaufuð útaf covid.
    Búið að fresta 1 leik í kvöld allavega spurning svo með Chelsea leikinn voru að greinast eh þar líka.

    1
  7. Ég held að menn ættu að hætta að tala um að hvíla hina og þessa í deildarleik eins og það séu einhver auðveld stig í boði, Newcastle geta alveg hitt á góðan dag og refsað okkur. Það er engin leikur skyldusigur og allt tal um að gefa lykilmönnum hvíld er bull að mínu mati.
    Setja sterkasta liðið á völlinn í kvöld og ná í 3 stig.

    7
  8. Ef leikurinn fer fram er algjör nauðsyn að tefla fram því besta liði sem við eigum. Þetta Newcastle lið getur alveg spilað þokkalegan fótbolta og Eddie Howe er örugglega með það á hreinu í dag hverja ber að stoppa og minni ég á leikinn við Brentford fyrr í haust hjá okkur sem flestir hefðu sagt fyrirfram að væru örugg þrjú stig. Auk þess aukast líkurnar á að þetta gæti orðið síðasti leikurinn í bili ef tjallinn fer að loka vegna Covid.

    2
  9. Verið að tala um að stöðva deildina allavega til 15 janúar samkvæmt fréttum gæti orðið lengra ef allt fer í lockdown hjá bretanum gengur ekki vel hjá þeim.
    Þetta gæti orðið með síðustu leikjum núna ef rétt reynist.
    Maður vonar auðvitað að hægt sé að halda áfram en því miður lítur þetta ekki vel út þarna úti.
    Og þeir ætla halda afríkumótið ?

    1
  10. Sterkasta byrjunarliðið takk. Spila þennan leik eins og hann sé sá síðasti. Ég vil sjá kröftuga byrjun hjá okkar mönnum.

    En djöfull er covid að fara illa með fótbolta. Þetta rugl gæti hjálpað til við að stofna ofurdeild. Þá mæli ég með þeir sleppi VAR. Það væri frekar nett move.

    Annars bara, Áfram Liverpool og áfram Klopp!!!

    2
  11. Klopp hlýtur að velja liðið með tilliti til þess að það er alls óvíst hvort leikurinn gegn Tottenham fari fram.

    Semsagt sterkasta liðið.

    3
  12. Ansi hávært slúðrið um að Van Dijk og fleiri séu komnir með Covid og verði ekki með í kvöld.
    Anskotans vesen.
    Þannig að við fáum þá líklega að sjá Matip og Konate spila í kvöld.

  13. Ég held án þess að vera viss að okkar menn hafi ekki fengið fleiri stig gegn neinu liði en Newcastle síðan deildin var stofnuð 92 ef ég man rétt. Eftirminnilegast eru tveir 4-3 sigrar okkar manna 96 og 97. Höfum oft vaktað yfir þá og ég hef það sterklega á tilfinningunni að við vinnum 5-0 og svörum aðeins city sem vann Leeds 7-0 en samt tveimur mörkum frá okkur í markatölu.

    Ég vill sjá Salah gera þrennu helst en mikilvægast að hann leggi upp eða skori og jafni met Vardy frá 2015 sem er að leggja upp eða skora í 15 leikjum í röð, hann er núna í 14 leikjum og maður vill sjá hann bæta þetta met eins og hann hefur stundað síðan hann kom að bæta met.

    Spái 5-0. Salah með 2. Mane 2 og Thiago eitt.

Gullkastið – Bring on yer Internazionale

Liðið gegn Newcastle