Liverpool 1 – 0 Aston Villa

Steven Gerrard fór tómhentur heim af Anfield í kvöld, eftir að okkar menn kræktu í 1-0 sigur gegn ólseigum Villa mönnum.

Markið

1-0 Salah (67. mín)

Gangur leiksins

Þetta var erfiður leikur, þá sérstaklega fyrri hálfleikurinn. Bæði voru andstæðingarnir vel mótíveraðir, vissu vel að þeir eru með lakara lið þegar kemur að knattspyrnulegum gæðum, og því þyrftu þeir að vinna það upp með vinnusemi, hörku, já og dassi af leikaraskap og töfum. Nú svo hjálpaði ekki til að dómari leiksins átti líklega ekki sinn besta dag.

Það vantaði svosem ekki færin í fyrri hálfleik. Robbo átti skalla sem fór í varnarmann og sem Martinez varði úti við stöng. Salah átti skot sem Martinez varði aftur úti við stöng, nema bara hinu megin. Ox átti gott skot sem fór rétt yfir, Trent átti annað skot sem fór í varnarmann og í horn, Matip átti skalla (með hnakkanum?) sem Marinez varði, og svona mætti lengi telja. Nú og svo voru það tilfellin þar sem okkar menn hefðu viljað sjá dæmda vítaspyrnu. Tvö skýrustu dæmin voru þegar það var togað í öxlina á Mané, og svo þegar Robbo var kominn inn í teig og féll við eftir snertingu frá varnarmanni (sem í endursýningu virkaði á mann sem nægilega mikil til að dæma víti en VAR var á öðru máli). Villa átti færri færi, það var sérstaklega eitt skógarhlaup hjá Alisson sem hefði getað verið hættulegt en slapp til. Einhvers staðar sá ég að boltinn hefði verið í leik í 26 mínútur af þessum 45 og finnst það bara alls ekkert ólíklegt, því Villa menn reyndu allt til að halda tempóinu niðri.

Seinni hálfleikur var aðeins skárri, Liverpool sótti í áttina að Kop stúkunni en Villa vörðust eftir bestu getu. Jafnframt héldu þeir áfram að drepa tempóið, þá sérstaklega Martinez sem tók sér viiiiiiiirkilega góðan tíma í öll útspörk.

Það var svo á 67. mínútu sem ísinn var brotinn. Salah fékk boltann hægra meginn við teig Villa, og var í baráttu við Tyrone Mings. Salah slapp fram hjá honum og Mings tók Salah niður, mistækur dómari leiksins gat lítið annað gert en bent á vítapunktinn. Salah tók vítið og skoraði af hefðbundnu öryggi, ákvað að skjóta í vinstra hornið frá Martinez séð þó svo hann hvetti Salah til að skjóta í hitt hornið. Í viðtölum eftir leik var Gerrard eitthvað að kvarta yfir því að Salah hefði brotið á Mings á undan, en það var erfitt að finna slíkt í endursýningum.

Þetta breytti leiknum merkilega lítið, Liverpool hélt áfram að vera meira með boltann. Þó áttu Villa menn stöku hættuleg færi, og í eitt skiptið slapp Alisson heldur betur með skrekkinn þegar hann ætlaði að hreinsa stungusendingu en dúndraði boltanum í Matip og aftur inn í teig þar sem Danny okkar Ings var eins og hungraður úlfur. Eftir talsvert japl, jaml og fuður náðist að hreinsa boltann burt, og aftur kvartaði Gerrard yfir því eftir leik að þar hefði átt að dæma víti á Becker, en það hefði alltaf verið gríðarlega harður dómur og ekki í neinu samræmi við vítaspyrnurnar sem var sleppt að dæma í fyrri hálfleik.

Undir lokin fengu svo Liverpool tvö dauðafæri, fyrst voru Mané, Salah og Jota þrír á móti einum en tókst einhvernveginn að klúðra því, og svo aftur nálægt 90. mínútu komust Salah og Jota næstum því í gegn en tókst líka að klúðra því færi. Kom sem betur fer ekki að sök, en ef ekki hefði verið fyrir vítaspyrnuna sem réði úrslitum þá hefði maður blótað þessari færanýtingu í sand og ösku.

Bestu/verstu menn

Svolítið erfitt að nefna einhverja hérna. Salah hefur oft verið betri, en þó voru allnokkrir miðlar sem tilnefndu hann sem mann leiksins. Undirritaður hefði líklega frekar nefnt Robbo eða Hendo, en vinnusemin í þeim kom sér afar vel.

Alisson átti tvö virkilega brothætt úthlaup sem hefðu getað gefið mörk, en náði samt að halda hreinu. Thiago var stundum aðeins úr takti, var einstöku sinnum að reyna of tekníska hluti í leik sem gekk út á baráttu og vinnusemi. Það er nú samt þannig að núna hafa Fabinho og Thiago byrjað saman 6 leiki á miðjunni á Anfield, og haldið hreinu í þeim öllum.

Umræðan eftir leik

Nokkrar tölfræði upplýsingar:

  • Klopp var þarna að ná sér í stig númer 500 (og 501) með Liverpool frá því hann kom til liðsins.
  • James Milner er nú orðinn fjórði leikjahæsti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar, á eftir Barry, Giggs og Lampard, en var að setja David James niður í 5. sætið.
  • Salah er núna kominn með 30 mörk+stoðsendingar í öllum leikjum á leiktíðinni.

Þetta var annars gríðarlega góður sigur á ólseigu Villa liði, og eins og allir aðrir sigrar er hann mjög mikilvægur í baráttunni við City og Chelsea. Þau lið unnu bæði eins marks sigra í dag, og rétt eins og í þessum leik komu sigurmörkin úr vítaspyrnum (já og líka hjá United, en erum við að spá eitthvað í þessi lið sem eru um miðja deild?)

Næstu leikir

Nú kemur fimm daga pása, en svo mætir Eddie Howe með Newcastle liðið sitt á Anfield næsta fimmtudag. Svo er aðeins minni pása því leikurinn þar á eftir er á sunnudaginn 19. desember gegn Tottenham – ef við gerum ráð fyrir að hópurinn hjá þeim verði laus úr Covid prísundinni. Og þar á eftir er deildarbikarleikur gegn Leicester þann 22. desember. Semsagt, örlítill tími fyrir menn til að safna kröftum, en svo kemur hrina af leikjum. Það væri helvíti gott ef t.d. Firmino og Origi gætu verið klárir í bátana í næstu leikjum, nú fyrst fer að reyna á hópinn.

19 Comments

  1. Nokkrir punktar
    Matip var virkilega frábær í þessum leik og VVD var ekki síðri.
    Salah er góður að taka víti eins og í flestu öðru.
    Fannst Hendo vera frábær að pressa á þá allstaðar á vellinum.
    Ali okkar hefur átt betri daga.
    Dómarinn átti ekki góðan dag
    3 stig og fá mörk gegn Gerrard ég er sáttur.

    10
    • Van Dijk byrjaði reyndar ekkert of vel þegar hann neyddist til að taka á sig gula spjaldið, var búinn að missa manninn framhjá sér. Vonandi verður hann bráðum 100% eftir líkamsárásina í fyrra.

      1
  2. Sæl og blessuð.

    Þetta var einn besti leikurinn á þessu tímabili. AV gáfu sig 100% í þetta verkefni og það er greinilegt að SG er að mótivera þá í drasl. Okkar menn gríðarlega öflugir á miðjunni en ákvarðanatakan var stundum röng á lokametrunum. Dómarinn var ekki að hjálpa okkur mikið. Lét þeim eftir vafaatriðin að mér fannst.

    Það jafnaði sig samt þegar leið á leikinn. Við hefðum samt getað séð á eftir Virgilnum þegar hann slengdi olnboganum í andstæðing og Alison danglaði í sóknarmann og slapp fyrir horn.

    Fannst Robertson feykiöflugur, Hendo upp á sitt besta, Fabinho traustur, Salah kláraði vítið með glæsibrag og fiskaði það af fagmennsku. Hefði nú samt viljað sjá meiri klíník í þessum hraðaupphlaupum. Vonandi er Jota ekki að lenda í einhverjum baklás.

    Jæja, maður er dauðuppgefinn.

    11
  3. Úff þetta varð erfitt eins og við var að búast en það hafðist þó á endanum.
    Mér fannst Hendo vera maðir leiksins í dag enda var hann útum allan völl og barðist eins og ljón í 90+ mín.
    Við sluppum sem betur fer með meiðsli og gott að sjá Jota koma inná og svo styttist í Firmino sem betur fer.
    Góður leikur í dag og gríðarlega mikilvægt þar sem að city og chelsea halda áfram að vinna sína leiki.

    5
  4. Þetta var einfaldlega virkilega krefjandi leikur og þrátt fyrir að vera yfirburða lið á vellinum í 75 mín þá fórum við erfiðu leiðina að þessum sigri.

    Við fengum nokkur góð færi í fyrrihálfleik en náðu ekki að klára(hljómar kunnulega). Við áttum alla daginn að fá eina víti(Andy er sparkaður niður) og svo hefur maður séð dæmt víti á þegar rifið er í öxlina á sóknarmanni sem er að sleppa í gegn en Mane fær aldrei neitt frá dómurum á Englandi.

    Í síðari héldu við pressuni áfram og fengum núna loksins vítið og Salah skoraði. Eftir þetta varð þetta eiginlega 50-50 leikur því að þeir færðu sig framar og við náðum ekki að nýta okkur þetta nógu vel og ef maður á að vera sangjarn þá átti Alisson að fá á sig vítaspyrnu og var eiginlega stálheppinn.

    Bestu menn. Mane og Andy voru þeir sem voru að opna vörnina hjá Villa hvað mest og áttu báðir góðan leik en besti maður vallarins var Henderson sem greinilega fannst gaman að spila fyrir framan Gerrard og reif sitt lið áfram allan leikinn og hljóp úr sér lungun.

    Salah skoraði úr þessu víti mjög vel en heilt yfir fannst mér hann ekki merkilegur í dag. Fékk fullt af tækifærum til að gera eitthvað spennandi en nýtti það ekki vel og fannst manni sérstaklega ljót í tvígang þegar Trent tók overlap og var galopinn tvisvar inn í teig til að senda á en Salah ákvað að taka skot sjálfur í bæði skiptin sem urðu að engu(Trent var brjálaður í bæði skiptin)
    Alisson var samt okkar daprasti leikmaður í dag og var hann tvisvar nálagt því að gefa Villa víti með eigin klaufaskap.

    3 stig gegn Villa liði Gerrard er ekki sjálfgefið því að þeir eru vel skipulagðir og með hættulega menn fram á við. Bæði Man City og Chelsea sigruðu svo í dag á mjög vafasömum vítaspyrnum og heldur því þessi þriggja hesta barátta áfram eins og hún mun gera allt til enda.

    Það er góð törn framundan.
    Newcastle heima 16.des
    Tottenham úti 19.des ( þeir líklega úthvíldir)
    Leicester heima 22.des – Deildarbikar
    Leeds heima 26.des
    Leicester úti 28.des
    Chelsea úti 2.jan

    Það mun reyna á okkur í þessari törn en ég hef trú á strákunum.

    YNWA

    8
    • Sæll Sig. Ein og þó ég sé ekki sammála þér um allt finnst mér að klúbburinn eigi að kvarta undan mannhatri enskra dómara í meðferinni á Mané. Mér er löngu farið að blöskra hvernig þeir leyfa brot á honum innan teigs og utan. Það er einfaldlega ekki eðlilegt á meðan subba eins Ronaldo fær víti fyrir ekki neitt. Eðlilegt væri að taka þetta saman á myndbandi og dreifa og skapa um það einhverja umræðu. Svo segja menn að hann sé mistækur þegar dómarar hafa gefið á hann veiðileyfi þannig að það er endalaust brotið á honum án eftirmála. Þetta bara gengur ekki.

      Það er nú þannig

      YNWA

      2
  5. Sælir félagar

    Jæja þá getur maður tekið út úr sér puttana sem eru nagaðir upp að olnboga. Gaman að sjá hvernig Steve hefur náð að mótivera þetta lið á stuttum tíma og gert þá að afar erfiðum andstæðingum. Að vísu var þetta ekki mjög aðlaðandi bolti sem þeir spiluðu en . . .

    Fyrst aðeins um dómarann: hann má fá sér aðra vinnu mín vegna.

    Svo er það A. Young sem er jafn alveg ógeðfeld persóna og þegar hann spilaði fyrir MU. Siðirnir, leikarskapurinn og óheiðarleikinn er sá sami en grátlegt að sjá það í liði Gerrard. Andstyggilegur leikmaður sem aldrei spilar fóbolta heldur er bara með leikaraskap og leiðindi. Annrs bara góður því Liverpool var miklu betra allan leikinn og allt annað en sigur hefði verið rán.

    Það er nú þannig

    YNWA

    11
    • Það er auðvelt að hata A. Young, en hann er winner. Það hefur aldrei vantað neitt upp á baráttuna hjá honum. Maður verður að virða það.

      2
      • “ maður verður að virða það” NEI nei og aftur nei aldrei virða það!. Ronaldo fiskaði víti í dag í leiknum á móti lélagasta liði deildarinnar sem var ekki þrátt fyrir allt verra en ManU í dag ef þetta var víti hefðu við LFC átt að fá minnst 3 víti til viðbótar við það sem við fengu. Ronaldo er líka winner og oftast á óheiðalegan hátt og það ber EKKI að virða það.

        YNWA.

        8
  6. Sá ekki leikinn en sá klippuna í vitinu, var þetta ekki frekar ódýrt viti?

    1
    • Mér fannst þetta víti en hefði ekki orðið hissa ef VAR hefði tekið það af okkur.

      1
    • Horfðu endilega á leiki hinna stóru sem spiluðu í dag og segðu okkur síðan hvað þér finnst ódýrast af vítunum ?

      YNWA.

      7
  7. Mér finnst Aston Villa miklu virðingaverðara lið en Wolves. Ég sé Wolves spila á móti Man City og eftir sirka fimm mínútur var ég farinn að halda með Man City því þeir spiluðu svo óheiðarlega. Létu sig detta að óþörfu og fannst það fullkomið réttlæti þegar framherjinn var rekinn út af fyrir tvö fráleidd gul spjöld sem hann uppskar því hann var með stæla.

    Mér fannst Aston Villa vera til í að spila fótbolta. Þeir vissu vel að þeir voru minni aðilinn í leiknum og spiluðu því varnarsinnaðann fótbolta. Mér fanst þetta víti á MO Salah og get ekki tekið undir að hann hafi brotið á Mings á undan. MIngs fót í bakið á honum og þetta var miklu meira en bara soft snerting.

    Mér finnst Liverpool geta betur en þeir hafa gert í síðustu tveimur deildarleikjum. Þetta lið er augljóslega með miklu meiri gæði en flest önnur lið í deildinni. Vissulega munar mikið um að Jota byrjaði á bekknum og Firmino er enn meiddur. Mér finnst eins og liðið sé nokkrum skrefum frá því að fara aftur í þennan gír sem það var í. Vinna leiki nokkuð örugglega. Vörnin var gríðarlega sterk í dag. Fannst Aston Villa ekki skapa mörg færi.

    3
  8. Þessi leikur var ekki fyrir hjartveika. Fann sterkt fyrir hvað mig langaði ekki að tapa fyrir Gerrard í dag. Fannst Henderson og Roberson frábærir, og auðvitað Salah, hvar værum við án hans.

    Liverpool er samt ekkert frábært í vörn. Sókn er besta vörnin og allt það. En þetta voru helvíti erfiðar mínútur þarna milli 80min og 90min. Alison er aðeins of cool stundum.

    2
    • Hvar værum við án Salah. eru betri kaup í sögu félagsins? Þetta er fimmta tímabilið hans, átti erfitt uppdráttar eftir áramót en sá hefur komið til baka. Ótrúlegt að hann hafi ekki verið fyrir ofan a.m.k. Jorginho í Ballondor. Helvítis titlarnir sem sá maður vann.

      3
    • jú Salha var valin í okt og síðan Trent í nóv og Ronaldo í september sem er eitt stórt djók því að Salha hefði líka átt að vera valin þá eins og allir sem hafa vit á vita.

      YNWA.

      3

Liðið gegn Gerrard og félögum

Bikarleikur hjá kvennaliðinu gegn Burnley