Wolves 0 – Liverpool 1

0-1 Divok Origi, 94. mín

Eftir að Chelsea missteig sig gegn West Ham fyrr í dag var dauðafæri fyrir Liverpool að ná toppsæti deildarinnar, allavega tímabundið, þegar við kíktum í heimsókn til Wolves í dag. Leikurinn byrjaði þó frekar hægt og var ekki mikið að frétta í fyrri hálfleik. Liverpool átti betri færin og leiddi xG bardagan í hálfleik 0,23-0,07. Eftir um hálftíma leik hefði Trent getað gert betur að koma boltanum á markið eftir frábæra sendingu frá Thiago en komst ekki nægilega vel undir boltann og hamraði honum langt yfir markið. Stuttu seinna átti Trent svo góða fyrirgjöf á fjær þar sem Jota var mættur en skallaði boltann framhjá markinu. Besta tækifærið í fyrri hálfleik kom svo þegar Robertson átti hlaup út að endalínu og renndi boltanum fyrir markið þar sem bæði Salah og Mané voru tilbúnir að renna boltanum yfir línuna en varnarmenn Wolves náðu að koma í veg fyrir það.

Seinni hálfleikur reyndist svo meira af því sama. Liverpool komu sér í ágætis hálffæri en áttu erfitt með að koma boltanum yfir línuna meðan Wolves reyndu að beita skyndisóknum en rangstæðulína Liverpool reyndist þeim erfið og ef það brást var Alisson duglegur að koma af línunni og éta langar sendingar Wolves manna. Atvik leiksins kom svo eftir klukkutíma leik þegar Jose Sa kom út úr teignum að elta boltan en eftir einhvern misskilning milli hans og Roman Saiss endaði Jota með boltann sótti inn á teig en hamraði svo boltanum í Coady á marklínunni. Ótrúlegt klúður að vera með tvo varnarmenn á marklínu og setja boltann beint í annan þeirra. Það leit því allt út fyrir að við værum að horfa á mjög svekkjandi 0-0 jafntelfi þegar á þriðju mínútu uppbótartíma átti Van Dijk sendingu út á hægri vængin þar sem Salah tók við honum hljóp niður að endalínu áður en hann kom boltanum inn á varamanninn Divok Origi sem náði að snúa og loks koma boltanum í netið.

Bestu menn Liverpool

Það er ekki hægt annað en að velja bjargvættinn Origi mann leiksins í dag. Hefur látið lítið fyrir sér fara í tæplega tvö tímabil en þarna sáum við þann Origi sem við lærðum að elska. Ekki besti fótboltamaðurinn en ótrúlegur að ná að skora mikilvæg mörk á ögurstundu.

Alisson hafði ekki mikið að gera en það sem hann gerði, það gerði hann mjög vel. Varnarlínan átti fínan dag en leikurinn litast algjörlega af því hvað við áttum erfitt fyrir framan mark andstæðinganna og svo léttinum þegar við skoruðum loks sigurmarkið.

Vondur dagur

Sóknarþríeikið átti slakan leik sem heild í dag. Jota hreinlega verður að skora þegar hann er búinn að skilja markmanninn eftir fyrir utan teig og Salah og Mane áttu erfitt með að fóta sig í leiknum í dag.

Umræðupunktar

  • Með tapi Chelsea í dag er toppsætið okkar allavega næstu 90. mínúturnar, yfir til ykkar Manchester City!
  • Hrikalega er það pirrandi að horfa á svona leik þar sem liðið sem er að verjast hendir sér í jörðina hvað í annað að tefja. Var bið á leiknum í 5-6 skipti og þó þetta sé vissulega þeirri þriðji leikur í vikunni með lítinn hóp þá kristalaðist það með Raúl Jimenez sem meiddist fyrir utan hliðarlínu og rúllaði sér inn á völlinn til að stoppa leikinn.
  • Vissulega leiðinlegt að ná ekki að halda áfram að skora 2 mörk eða fleiri en vorum í staðinn vonandi að sjá einn af þessum frægu meistarasigrum sem er alltaf verið að tala um.

Næsta verkefni

Næst á dagskrá er það svo Ac Milan á San Siro á þriðjudaginn. Þar er ekkert í húfi fyrir okkur nema möguleikinn að verða fyrsta enska liðið til að vinna alla sex leikina í riðlakeppni í Meistaradeild. Vonandi sjáum við frábæra frammistöðu frá okkar “næstu ellefu” og menn sem þurfa hvíld sitji helst bara heima í Liverpool. Flott tækifæri fyrir Origi, Minamino og fleiri að sýna okkur að þeir geti haft áhrif á tímabilið og erfiður desembermánuður framundan.

22 Comments

  1. JÁ!”!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

    1
  2. Hver er legend?

    Hver er legend?

    Hver er f***ng legend?

    Nú kaupi ég Origitopp á jóltréð. Hvað fæst svoleiðis?

    14
  3. Origi er undarlegasta Liverpool goðsögn allra tíma. Ég veit ekki hversu oft hann hefur skorað sigurmark eða lykilmörk í leik í gegnum tíðina oftar en ekki á tímaskeiðum þegar enginn átti von á því. Þetta var svo sannarlega verðskuldaður sigur en jeminn einasti hvað við þurftum að hafa fyrir þessum sigri og sýnir kannski svart á hvítu afhverju það er hreinn beinn hroki að kalla einhverja sigra skildusigra í ensku deildinni.

    Wolves er einfaldlega heimsklassa varnarlið sem ákaflega erfitt að er að spila gegn. Þessi Traore er eina mannveran í þessu jarðríki sem er gerð úr múrsteinum en ekki blóði og vatni. Þvílíkur trukkur sem náungi er og í raun ótrúlegt að ekki neitt stórlið sé að seilast á eftir honum. Allar sóknir Wolves snérust í kringum hann enda þægilegra að lenda fyrir járnbrautalest en lenda í honum.

    Origi er maður leiksins. Það er ekki annað hægt enn að elska hann og þakka honum óendanlega fyrir sitt framtak. Vera fyrir utan byrjunarlið í marga mánuði og koma svo óvænt inn á í jöfnum leik og skora sigurmarkið. Það eru svona gæði sem eru oft herslumunurinn í titilbaráttunni. Ég held að hann sé vanmetinn leikmaður. Stóra vandamálið við hann eru ekki gæðin heldur að hann passar ekki inn í leikstílinn okkar. svona að jafnaði.

    16
  4. Þetta var ótrúlega sætur sigur.

    Allir þulir á öllum rásum að hrósa Wolves liðinu fyrir að vera þéttir og frábærir. Þrátt fyrir að okkar menn voru að fá c.a 10 dauðafæri (hversu þéttir eru lið sem fá svona mörg færi á sig?) og svo láu þeir í grassinu aftur og aftur til að draga úr hraðanum og tefja.

    Það eru svona stig sem skipta einfaldlega gríðarlega miklu máli þegar talið verður úr pokkanum í maí. Við vorum miklu betri en þeir en markaskórnir voru eitthvað vitlaust reimaðir fyrir framan markið. Það var annað hvort okkar eigin klaufagangur eða stórkostleg markvarsla sem komu í veg fyrir mark.

    Í sambandi við framistöður leikmanna.
    Alisson – Hafði ekki mikið að gera en gerði sitt vel.
    Andy – Átti solid leik en maður hefði viljað sjá hann skjóta í restina.
    Van Dijk – Átti ekki klúður þegar Trajore stal af honum boltanum en annars góður.
    Matip – Fékk aðeins að fara fram með boltan og gerði það oft vel, átti fínan leik.
    Fabinho – Virkaði smá þreyttur og hefur spilað betur.
    Thiago – Mér fannst hann frábær í þessum leik. Átti nokkrar geggjaðar sendingar og var virkilega duglegur að vinna boltan.
    Henderson – Var á fullu eins og venjulega en ekki mjög áberandi í dag.
    Salah – Átti ekki merkilegan leik í dag.
    Jota – Var líflegastur af okkar framherjum en í guðana bænum skoraðu drengur.
    Mane – Átti ekki merkilegan leik í dag.

    Origi – Hetja dagsins og þótt að mér fannst Thiago bestur heilt yfir þá er þetta klárlega maður leiksins.
    Ox – Fór lítið fyrir og maður hefði viljað sjá hann koma með meiri kraft þessar 10 mín.
    Milner – Spilaði c.a 30 sek en það er alltaf gott að sjá hann koma inn á þegar við erum að vinna.

    Klopp – Ef við hefðum ekki sigrað þá var það ekki út af lélegri taktík eða að leikmenn voru ekki að leggja sig fram, heldur helvítis klúður úr dauðafærum. Þetta var okkar sterkasta lið í dag.

    YNWA – Núna vill maður að allir sem byrjuðu í dag fá hvíld gegn Milan. Því að A.Villa leikurinn með Gerrard aftur á Anfield verður rosalegur.

    p.s Að sigra Man utd og Everton eru skemmtilegustu sigranir en maður elskar samt svona síðustu sek sigurmörk og set ég þennan sigur í flokk með hinum í ánægjustuðlinum.

    13
    • fannst reyndar Fab góður í leiknum. Vissulega hefur hann átt betri leiki og eðlilega tekur það í að spila á 90+ mín á 3 daga fresti.

      Salah, skapaði markið og er stoðsendingahæstur í deildinni. Var annars mjög aðþrengdur gegn 8 manna varnarlínu sem lokaði vel á hann.

      Mané fékk meira pláss og hefði mátt nýta það betur.

      Jota vinnusamur eins og alltaf en ef ekki væri fyrir Origi væri erfitt að fyrirgefa þetta klúður.

      5
  5. Það eru framkvæmdir í gangi nú þegar fyrir utan Anfield, afhverju í veröldinni ekki að henda í styttu af Origi við hliðina á Bill gamla Shankly og að sjálfsögu henda í hann annan langtímasamning. Hvað er gaurinn með mörg svona risamörk?

    Guð minn góður hvað þetta var sætur sigur eftir sturlað pirrandi leik, Diego Jota er líklega að fara sofa hjá Origi í kvöld eftir þetta, sá bjargaði honum frá því að vera sagan eftir leik og það á afmælisdaginn. Aðeins ísraelinn knái (Ronny) á verra klúður í sögu félagsins svei mér þá.

    Gjörsamlega óþolandi þegar liðin sem við erum í toppbaráttu við ná svona sigrum, nokkuð viss um að það eigi jafn mikið við í hina áttina.

    Já og þetta Wolves lið spilar eins og Burnley lið undir stjórn Tony Pulis, ömurlegt helvíti í dag.

    9
    • Pulis, Dyche, Allardyce og hvað þeir allir heita mega þó eiga það að þeir láta ekki menn kasta sér taktískt í jörðina til þess eins að tefja.

      Þetta Wolves lið er eitt mesta anti football lið sem ég hef séð.

      Fyrir Origi markið voru liðnar um 300 mín síðan þeir skoruðu og sirka 400 síðan þeir fengu á sig mark.

  6. Þetta var svo sturlað og greyið Coady, vinurinn okkar. Hann bjargaði á línu með því að fórna hægri hliðinni á sixpakkinu sínu. En við fengum þrjú stigin í dag! Það er svo góð tilfinning. Svo verður helgin nánast fullkomnuð á morgun þegar CP sækir sigur á the old toilet.

    3
  7. Margir með krummafót í dag. Fengum fullt af færum til að klára þetta.
    Bara annað liðið sem vildi vinna þennan leik.
    Wolves að festa sig sem eitt allra leiðinlegasta liðið í deidinni.
    Sendingar lélegar, snertingar lélegar. Margt afspyrnu slakt í dag.

    … og svo kom Origi.

    2
  8. Mikið rosalega var fallegt að sjá þetta mark hjá Origi á 95 mín, þessi strákur væri lykilmaður í mörgun öðrum liðum í deildinni en því miður fyrir hann þá er hann að keppa við Salah, Mane, Jota og Firmino um 3 stöður ig erfitt að gefa honun marga sénsa en það er geggjað að geta sett hann inná eins og í dag og reyndar í mörgum öðrum leikjum til að tryggja okkur sigur. Það er einfaldlega nauðsynlegt að hafa svona möguleika á bekknum og hann ætti að fá Milan leikinn og svo fær hann fullt af leikjum í jan þegar að Salah og Mane fara í sína keppni.
    En þetta Wolves lið er gríðarlega erfitt að brjóta niður og það munu flest lið tapa stigum þarna ef þeir spila svona varnarsinnað.
    Núna er Adama Traore mikið orðaður við okkur en ég veit það ekki, mögulega væri hann rosalegur í sóknarsinnaðar liði en hann er feykilega erfiður við að eiga enda fengu 2 eða 3 okkar manna gul spjöld eftir að reyna að stoppa hann en gallinn er að hann er alls ekki mikið að skora en eins og áður segir að það myndi kannski breytast í sóknarliði eins og Liverpool.
    En flottur sigur í dag þó þetta hafi staðið helvíti tæpt.

    7
    • Liverpool reyndu að selja Origi í sumar og í fyrra. Ekkert viðunandi tilboð barst.

      Þrátt fyrir mörg mikilvæg mörk þá hefur hann í raun aldrei náð sér eftir þessa ógeðslegu Funes Mori tæklingu.

  9. Maður er enn að jafna sig svei mér þá. Þegar ég fór með bæn UPPHÀTT sem ég geri aldrei en bid nu oft til GUDS með hverjum leik en tók eina upphátt fyrir framan konuna mína eftir 90.00 mínútur og sagði bara góði GUD núna þarf kraftaverk, gerðu það koddu með það og Þótt það yrði bara Origi væri mér sama.. ég skal gera hvað sem er í staðinn tu bara hendir á mig hugboð og ég geri eitthvað góðverk ef þú getur kallað fram þetta kraftaverk AMEN. stuttu seinna skoraði svo Origi og shit hvað ég var og er glaður. Svona sigur gerir meira fyrir liðið en að hafa unnið 3-0 í dag. Þetta eru fallegustu sigrarnir sem gefa mönnum trú á að allt sé hægt. Þetta var algerlega geggjað í dag og ég segi bara takk aftur góði GUÐ…

    3
  10. Sælir félagar

    Ég þakka guði fyrir að hafa misst af þessum leik, ég hefði brunnið yfir og bara brunarústir eftir í sófanum. Ég hefi afar sjaldan hælt Origi og get það ekki í dag (ég sá hann ekki) en ég mun geta þakkað honum frá innstu hjartatrótum fyrir þetta mark og reyndar fleiri. Ég hlakka til að horfa á leikinn í rólegheitum og hafa gaman af þar sem sigurinn er öruggur núna.

    Það er nú þannig

    YNWA

    1
  11. „Ekki skemmtileg skilaboð frá KLOPP eftir leikinn í gær:
    Divock Origi, goðsögnin, klárar þetta með stæl. Hann er stórkostlegur framherji.
    “Hann fær ekki það mikinn spilatíma en ég vona að hann finni stjóra einn daginn sem spilar honum meira en ég.“
    „Hann er einn besti slúttari sem ég hef séð. Í þessu frábæra liði með okkar framlínu þá fær hann ekki að spila mikið en hann er mjög jákvæður og elskar klúbbinn.“

  12. Ojjjjjjjjj bjakk…….. Last dagsins og vikunar fær Wolves eins og það leggur sig, frá eigendum til leikmanna og þjálfara fyrir leikstíl og að voga sér að bjóða uppá svona horbjóð í sterkustu deild í heimi! Það að byrja að tefja leik á 20. mín í fyrri hálfleik ætti að vera frádráttarbært, ef ég væri spillingarstjórinn hjá uefa þá kæmi ég mínus kerfi á legg og lið eins og Wolves gætu þá ekki eyðilagt knattspyrnuna með svona afdráttarlausri þvælu og einskærum brotavilja til að drepa leiki niður og reyna að klekkja á liðum með bellibrögðum og öðrum raggeitarhætti!!!

    Origi fær lofið fyrir að vera krúttbomba sem skorar þegar á þarf að halda, og Jota fær lofið líka fyrir að kenna manni að rifbeinsbrjóta mann með fótbolta í stað þess að skora! Held að það séu engar líkur á því að hann hafi ekki gert þetta viljandi maðurinn, enda sparkviss með meiru. Kannski tapaði Jota fyrir honum í fifa….. 😉

    mbk. Pétur

  13. Ég get ekki alveg veðjað á það en ég held að Coady hafi verið að gera sér upp meiðsli í leiknum. Leggjast öðru hvoru á jörðina til að tefja tímann og þess á milli að þykjast vera haltur. Ég man þegar ég var að alast upp voru margir sem gerðu þetta en hef orðið minna var við þetta í nútímafótbolta. Það var brugðist við þessu með að koma með sjúkrabörunar eins og skot og henda mönnum á hliðarlínuna svo leikurinn gæti bara haldið áfram.

    Mér fannst dómarinn leyfa þeim að komast upp með of mikið. Menn eiga ekki að komast upp með að svindla. T.d labbar framherji inn á völlinn aftur og dettur svo niður. Afhverju á hann að komast upp með þessháttar ? Þetta er ekki flókið ef lið eru augljóslega að þessu aftur og aftur – þá á að gefa einum manni liðsins rautt spjald og þá steinhætta þeir þessu rugli. Það er ekki lengur þess virði. T.d ef Coady var svona sárkvalinn, afhverju var honum þá ekki bara skipt út af ?

    Svo má vera að hann hafi verið haltur en ég er nokkuð viss að hann hefði ekki haldið út í 90 minútur ef hann er sárkvalinn í leik sem er á gríðarlega háu tempói.

    En fyrir utan þessar tafir, Ber ég virðingu fyrir Úlfunum. Þetta er gott lið og ég hef furðað mig á því hve mörg lið reyna að spila sóknarbolta gegn okkur en fara ekki meira í þeirra átt, byggja leikinn á sterkri vörn og hvössum skyndisóknum.

    1

Byrjunarliðið gegn Wolves

AC Milan – European Royalty