Wolves – Liverpool (Upphitun)

Þetta er nákvæmlega eins og maður vill hafa það, Liverpool í frábæru formi, skora þrjú mörk að meðaltali í leik og leikir á þriggja daga fresti! Næsta verkefni er ekki auðvelt, þau eru það reyndar fá í ensku úrvalsdeildinni. Liverpool heimsækir Wolves á Molineux á morgun (laugardag) og hefjast leikar kl.15:00.

Sagan og formið

Wolves hafa verið að hitna síðustu vikur eftir erfiða byrjun. Þeir töpuðu fyrstu 3 leikjum tímabilsins, öllum 1-0 (Leicester úti, Spurs heima og United úti) en fóru svo á fínt “rönn” þar sem þeir tóku 16 stig í næstu 7 leikjum (16/21) en hafa síðan þá náð í 5 stig í síðustu 4 leikjum (5/12) með sigri á heimavelli gegn West Ham, tap gegn Crystal Palance á útivelli og núna 2 jafntefli í röð gegn Norwich (ú) og Burnley (h), báðir leikir markalausir.

Það er hægt að horfa á þetta Wolves lið frá (amk) tveimur mjög ólíkum sjónarhornum. Þeir eru annars vegar að koma inn í þennan leik ósigraðir í síðustu 3 deildarleikjum, ósigraðir í síðustu 4 heimaleikjum og eingöngu fengið á sig 12 mörk í 14 deildarleikjum sem er t.a.m. helmingi færri mörk en Man Utd (sem við unnum 0-5) og Leicester hafa fengið á sig! Hin sagan er talsvert öðruvísi en sönn engu að síður, en Wolves kemur einnig inn í þennan leik með  aðeins 1 sigur í síðustu tveimur leikjum, hafa skorað næst fæst mörkin í deildinni eða 12 mörk (Liverpool á sama tíma með 43 mörk og Newcastle, neðsta lið deildarinnar, með 16 mörk) en þeir hafa ekki skorað nema 1 mark í deildinni síðustu 30 daga eða svo.

Á sama tíma koma okkar menn inn í þennan leik með 3 góða sigra á bakinu í síðustu 3 leikjum eftir vonbrigðin gegn West Ham. Í þessum 3 leikjum höfum við skorað 12 mörk og dreift þeim nokkuð bróðurlega á milli leikja. Liverpool er búið að skora liða mest (43), halda oftast hreinu (8) og er með 3 af 4 markahæstu leikmönnum deildarinnar í sínum röðum (Salah 13, Jota 8, Mané 7).

 

Annars hafa heimmenn ekki verið neitt sérstakir á heimavelli, sitja í þeirri formtöflu í 12 sæti með 3 sigra, 1 jafntefli og 3 töp í 7 heimaleikjum (10/21). Liverpool að sama skapi með næst besta útivallarárangrinn (eingöngu á eftir toppliði Chelsea) með 5 sigra, 1 jafntefli og 1 tap (16/21).

Annars er nokkuð áhugavert að skoða úrslit síðustu ára þegar þessi lið hafa leitt saman hesta sína. Liverpool hefur unnið síðustu 6 deildarleiki, og unnið 5 af síðustu 6 útileikjum í deild á Molineux með 1 jafntefli sem kom í janúar 2010. Okkar menn töpuðu reyndar þarna í FA Cup í janúar 2019 2-1 en hafa annars unnið síðustu 5 útileiki í deild með markatölunni 11-1!

Wolves

Á meðan að Pep Guardiola hringdi í neyðarlínuna, hjálpræðisherinn og björgunarsveitina þegar hann hafði ekki átján 50 milljón punda leikmenn til að rótera í síðasta deildarleik (allir komnir til baka núna utan Torres) þá hefur heyrst minna í Bruno Lage, stjóra Wolves. Hann er með aðeins minni breidd en ríka liðið í Manchester, er að glíma við bæði meiðsli í þeim Jonny, Neto, Boly og Mosquera ásamt þvi að Podence og Marcal greindust nýverið með Covid – samt sem áður hefur hann ekki kvartað yfir því að þurfa að gefa yngri leikmönnum sæti á bekknum eða jafnvel mínútur í síðustu leikjum.

Heimamenn hafa verið þéttir síðustu misseri, spila með þrjá miðverði með okkar mann, Cody, í miðri vörninni og hafa ekki verið að leka mörgum mörkum. Það hefur vissulega komið niður á sóknarleik liðsins og ljóst að þeir munu sakna Neto og Podence í þessum leik. Liðið hefur alveg verið að skapa færi en eins og svo oft áður, ekki náð að nýta þau.

Það er svolítið erfitt að lesa í vænta uppstillingu hjá þeim með öll þessi meiðsli en mér finnst líklegt að Bruno stilli þessu svona upp:

Kilman – Coady – Saiss

Semedo – Neves – Moutinho – Nouri

Traoré – Jiménez – Hwang

Liverpool

Það eru ekki bara Wolves sem eru að glíma við meiðsli, Liverpool hefur heldur betur fengið sinn skerf á þessum tímabili en þetta horfir allt til betri vegar. Elliot er farin að taka léttar æfingar með bolta en við sjáum hann væntanlega ekki fyrr en í janúar í fyrsta lagi. Jones er ennþá að jafna sig eftir meiðsli á auga og hefur ekki mikið getað æft á meðan að það er orðið stutt í Gomez og Keita sem æfðu báðir í vikunni en ná ekki þessum leik en ættu að koma til greina í næstu viku. Það er svo aðeins lengra í Firmino, líklega 1-2 vikur í viðbót (eða hvað sem “getting closer” þýðir)

Það eru ekki nema þrír dagar síðan liðið spilaði síðast, við náðum reyndar að skipta nokkrum lykilmönnum tiltölulega snemma útaf í þeim leik en það er spurning hvort einhverjir fái smá hvíld fyrir törnina sem er framundan (væri þá kannski helst Ox í stað Henderson). Ég ætla að skjóta á að Klopp geri engar breytingar á liðinu, enda liðið átt nokkuð þægilega leiki undanfarnar tvær vikur, og stilli þessu svona upp á morgun:

Alisson

TAA – Matip – Virgil – Robertson

Thiago – Fabinho – Henderson

Salah – Jota – Mané

Spá

Ég hræðist eitt í þessu. Það er sú staðreynd að ég sé bara ekki hvernig við ætlum að tapa stigum í þessum leik, það er oftast merki þess að við rennum á rassinn. Heimamönnum hefur gengið illa að skora, hafa ekki verið neitt ofboðslega sannfærandi á heimavelli í ár ásamt því að hafa unnið einungis 1 af síðustu 4 deildarleikjum. Þeir eru líka með lengri meiðslalista en við en það má samt sem áður alls ekki vanmeta þá, hafa verið að spila nokkuð vel síðustu vikur og eru sýnd veiði en alls ekki gefin.

Ég ætla að skjóta á að Liverpool breyti aðeins útaf vananum og skori 3 mörk í þetta skipti, ekki 4 en haldi hreinu á móti. Salah með tvö og Mané með eitt.

Við sjáum hvað setur.

Þar til næst

YNWA

2 Comments

  1. Miðað við hvernig Liverpool hefur spilað undanfarið, þá finnst mér þetta spurning hvort liðið okkar mæti tiltölulega óþreytt til leiks og haldi ekki að sigurinn komi af sjálfu sér. Eins og pislahöfundur segir svo réttilega um hvað hræðir hann mest varðandi þennan leik”Ég sé bara ekki hvernig við ætlum að tapa stigum í þessum leik” . Skil hann ágætlega.
    Mig minnir að Klopp hafi talað um að það sé oft erfitt að halda haus þegar liðið vinnur nánast hvern einasta leik, því hættan er hvarvetna í ensku úrvaldsdeildinni. Það eru banahýði og svell út um allt ásamt holum á sigurbrautinni.
    Wolves er þrátt fyrir allt í áttunda sæti og ætti ekki að vera gefin veiði. T.d er Brighton Howe með svipaðan stigafjölda og Brentford er töluvert fyrir neðan þá eins og við öll vitum höfum við tapað stigum gegn þeim liðum.

    Þess væri óskandi að liðið okkar geti spilað þennan “þungarokks” fótbolta í hvert skipti sem það fer inn á völlinn en það hlýtur að koma að þeirri stund að það er óhjákvæmilegt að hvíla lykilmenn.
    Lið sem spilar eins og liðið okkar spilar ætti samkvæmt öllu eðlilegu að vera á toppnum en þar sem gæði þessarar deildar er alveg einstök bendir margt til þess að þetta verði þriggja hesta keppni.

    YNWA

    4
  2. Sælir félagar

    Takk fyrir upphitunina Eyþór. Það er rétt hjá upphitara og BJ að gengi liðsins er með þeim hætti að vandséð er hvernig þessi leikur ætti að tapast. Samt má benda á leiki eins og leikinn gegn WH þar sem liðið hefði átt að skora 4 – 5 mörk en skoraði jú bara tvö. Allskyns atvik geta komið upp í fótbolta og leikir geta tapast gegn lakari liðum. Ég held að þetta verði ekki léttur leikur og okkar menn muni lenda í vandræðum. Reikna samt með sigri og lokastaðan verði 3 – 1 þegar upp verður staðið. Salah með eitt, Mané með eitt og að lokum komi eitt mark frá vörninni (Matip/Virgil). Erfiður leikur gegn þéttu liði Úlfanna en þetta hefst.

    Það er nú þannig

    YNWA

    1

Everton 1 – 4 Liverpool – Liverpool borg er rauð (as usual)

Byrjunarliðið gegn Wolves