Everton 1 – 4 Liverpool – Liverpool borg er rauð (as usual)

Liverpool vann allt of sjaldséðan sigur á Everton á Goodison Park í kvöld, og þessi leikur var tekinn með vinstri (bókstaflega).

Mörkin

0-1 Henderson (9. mín)
0-2 Salah (19. mín)
1-2 Gray (38. mín)
1-3 Salah (64. mín)
1-4 Jota (79. mín)

Gangur leiksins

Það var ekkert verið að byrja neitt óþarflega rólega í kvöld, okkar menn voru strax komnir í færi og hefðu getað verið komnir í 4-0 eftir 10 mínútur með nákvæmari afgreiðslum. Matip fékk frían skalla eftir hornspyrnu frá Trent, en sneiddi boltann framhjá. Salah fékk tvö góð færi til að skora, hefði átt að skalla annan boltann en ákvað í staðinn að reyna að taka hann með fætinum og setti hann yfir fyrir vikið. Lét svo Pickford verja frá sér annað skot. En sá stutthenti kom engum vörnum við þegar Robbo fékk boltann við vinstri kantinn á teignum, gaf snyrtilega sendingu á Hendo sem hafði hellings pláss, gat stillt miðið og átti hnitmiðað vinstri fótar skot í bláhornið. Mjög sanngjarnt, og það var alveg jafn sanngjarnt þegar Salah kom okkar mönnum í 0-2 10 mínútum síðar. Everton voru í sókn en töpuðu boltanum, Hendo átti fullkomna sendingu upp í hægra hornið þar sem Salah kom aðvífandi, lagði boltann fyrir sig og sneiddi hann svo í fjærhornið með vinstri, alveg óverjandi fyrir litlu risaeðluna í markinu.

En svo tók við kafli þar sem okkar menn slökuðu á klónni, og duttu niður á sama plan og Everton. Og auðvitað endaði það með því að þeim bláklæddu náðu að pota inn einu marki, varnarleikurinn var einfaldlega ekki nógu góður, Gray fékk boltann óvaldaður fyrir framan vítateig Liverpool, og þó svo Trent væri nálægt honum var hann samt ekki nógu nálægt til að blokka skotið sem Alisson varði ekki, ótrúlegt en satt. Við erum líklega orðin of vön því að hann taki svona færi og éti þau, en það er nefnilega alls ekki sjálfgefið. Í framhaldinu fékk svo Thiago gult spjald, en að vísu voru Everton menn mun duglegri í þeirri deild og gengu til búningsherbergja með 4 gul spjöld á bakinu (þar af 2 fyrir dýfur) á meðan Thiago var sá eini af okkar mönnum sem fór í svörtu bókina.

1-2 í hálfleik, forystan var sanngjörn en hefði gjarnan mátt vera stærri út frá spilamennskunni fyrstu 20 mínúturnar.

Byrjunin á síðari hálfleik var aðeins skárri, en þó voru þeir bláklæddu óþarflega mikið inni í leiknum. Á 62. mínútu fengu þeir aukaspyrnu á hættulegum stað, en skotið var varið í horn. Hornspyrnan var líka varin og barst svo út á miðjan völl þar sem Coleman hefði átt að taka boltann þægilega niður, en missti hann klaufalega til Salah sem var þar með sloppinn í gegn. Við vitum að Salah tekur svona gjöfum alltaf fagnandi, og gerði engin mistök í þetta skiptið þegar hann renndi snyrtilega fram hjá Pickford í fjærhornið. Með vinstri.

Þarna var nú leikurinn ansi nálægt því að vera frágenginn, en á 79. mínútu sá Jota um að veita þeim náðarhöggið. Hann fékk sendingu frá Robbo inn á teig, sendingin var erfið því hún var aðeins fyrir aftan Jota, en móttakan var upp á 10. Hann var kominn upp að endamörkum við markteigslínuna, en í stað þess að gefa fyrir eins og líklega allir (Pickford þar með talinn) áttu von á, þá dúndraði hann boltanum einfaldlega upp í þaknetið. Með vinstri.

Það var eitthvað um önnur færi í leiknum, t.d. vannst aukaspyrna sem van Dijk ákvað að vilja taka en skaut frekar hættulítið í varnarvegginn. Milner, Ox og Minamino fengu nokkrar mínútur, en annars kláraðist leikurinn enda Liverpool búið að skora 4 mörk og í síðustu leikjum hafa okkar menn einfaldlega sett í hlutlausan eftir mark nr. 4 og “krúsað” leiknum í höfn.

Bestu/verstu frammistöðurnar

Það er nú erfitt að ætla að taka einhvern einn út. Salah á klárlega tilkall í mann leiksins enda skoraði hann tvö mörk, og þurfti alveg að hafa fyrir þeim báðum. Hendo átti einn albesta leik sinn í lengri tíma, með mark og stoðsendingu, fyrsti leikmaður Liverpool til að eiga slíkt gegn Everton síðan…. Gerrard árið 2005. Jota var líka mjög öflugur, hann á það alveg til að vera svona semí ósýnilegur í leikjum en poppar svo upp með afgreiðslur eins og þessa í kvöld. Í kvöld var hann samt alls ekkert ósýnilegur, heldur þvert á móti sívinnandi. Það var einna helst að Fab og Virgil ættu pínku erfitt, en samt fjarri því að eiga eitthvað slæman leik. Robbo með mjög dæmigerða frammistöðu fyrir þá útgáfuna af Andy Robertson sem er í stuði og veit af samkeppninni bankandi á dyrnar. Hann er núna hægt og bítandi búinn að vera að saxa á stoðsendingaforskotið sem Trent var búinn að búa til, og er núna með 4 í deildinni á meðan Trent er með 7 (Salah að sjálfsögðu efstur með 8).

Umræðan eftir leik

Byrjum á alvarlegu nótunum, en leikmenn léku með sorgarbönd til heiðurs 12 ára stúlku sem var stungin til bana í Liverpoolborg, og Trent var með þessi skilaboð á bolnum sínum:

En svo að aðeins skemmtilegri hlutum: Liverpool hefur núna skorað 2+ mörk í 18 leikjum í öllum keppnum í röð, fyrst enskra liða. Salah er kominn með 30 mörk/stoðsendingar í öllum keppnum, og desember var rétt að byrja. Hvað segið þið um þennan samning FSG? Á ekkert að fara að skrifa undir? Þið vitið alveg að þetta er besti leikmaðurinn í boltanum í dag, sama hvað eitthvað franskt sorprit segir?

Nú og svo verður að minnast á frammistöðu Travelling Kop sem bæði tók Rafa “chant”-ið og svissaði svo yfir í uppfærða útgáfu af “X is at the wheel” sem núna virðist vera orðinn söngur sem er hægt að syngja þegar knattspyrnustjóri andstæðinganna er klárlega í heitu sæti og ætti líklega að vera löngu farinn. Við viljum nú gjarnan að Rafa fái að búa hjá fjölskyldu sinni í Liverpool borg, fer ekki að losna staða hjá Tranmere fljótlega? Því hann hlýtur að fá að fjúka frá Everton fljótlega. Ekki það að núverandi staða Everton er alls ekki honum að kenna, þetta er bara klúbbur í vondum málum.

Já og hei, við vitum ekki annað en að menn hafi sloppið ómeiddir frá þessum leik. Því ber alltaf að fagna.

Næsti leikur

Heimsókn til Úlfanna um næstu helgi, sýnd veiði en ekki gefin þar. Ekki tókst að saxa á City og Chelsea í kvöld, þar sem þau unnu bæði 2-1 sigra á útivelli, en markatalan er hægt og bítandi að batna okkar mönnum í hag, svo það er eitthvað. En eins og við vitum þá skiptir auðvitað engu máli hvaða lið er á toppnum um jólin, það er staðan í lok 38. umferðar sem skiptir öllu máli. Okkar menn þurfa bara að vera tilbúnir að grípa gæsina þegar hún gefst, því hún mun gefast. Við skulum ekki láta okkur detta neitt annað í hug!

20 Comments

 1. Algjörlega frábært! Stórkostleg mörk!

  Þriðja markið okkar (spretturinn hjá Salah) ólýsanlega mikilvægt!

  Mikilvægt að halda í við City og Chelsea sem vinna virkilega sterka útisigra í kvöld.

  Áfram Liverpool!

  10
 2. Sæl og blessuð.

  Það er sjaldan að maður sér svona yfirburði á öllum hugsanlegum sviðum. Liverpool bara af þeim bláu eins og gull af eyri, vonleysið lak af heimamönnum og eina bætingin hjá þeim, voru auðu sætin á vellinum. Þeim fjölgaði ört.

  Mikið svakalega var þetta sætt. Erfitt að velja mann leiksins, var á því framan af að Hendo ætti það skilið en svo koma tvö frá Salah og eitt frá Jota! Að hugsa sér – við sóttum þann síðarnefnda af varamennabekknum hjá … Wolves… Hvað er það?

  Dómarinn var röggsamur og svalur. Lét ekki þessa Atletico Madrid wannabees setja sig út af laginu með fellum, dífum, handapati og hnéháum tæklingum. Spjöldin voru ófá þótt maður sé súr yfir því að þeim hafi tekist nokkrum sinnum að komast upp með sín bellibrögð. Það voru þó undantekningar.

  Jæja og markið hans Jota er með þeim snotrari sem maður hefur séð í vetur. Snúningurinn, yfirvegunin og skotið. Úff.

  Og enginn meiddist – að því ég best veit. Það verður ekki betra.

  14
 3. “við sóttum þann síðarnefnda af varamennabekknum hjá … Wolves… Hvað er það?”

  ekkert annað en snilld. Virkir í athugasemdum í Wolves foruminu töldu sig vera að fá góðan pening fyrir góðan en mjög óstöðugan leikmann.

  Að mínu mati er Jota kostur nr. 2 í framlínuna hjá okkur í dag.

  11
 4. Það er alltaf gaman að vinna fótboltaleiki en það er extra gaman að vinna Everton(já og Man utd).

  Okkar menn byrjuðu leikinn af krafti og fengu nokkur færi áður en Henderson skoraði flott mark. Salah bæti við svo marki og maður hélt þarna að þetta myndi vera algjör slátrun því að Everton liðið virkaði sofandi og við vorum að leika okkur að búa til færi.
  Eftir þetta vorum við en þá betri en voru stundum kærulausir með boltan og okkur tókst að koma þeim í leikinn en þeir skoruðu eitt fyrir hlé og þá lifnaði yfir stuðningsmönnum heimamanna og þeir enduðu hálfleikinn af krafti.

  Í síðari hálfleik þá vorum við aftur betri en aðeins með eins marks forustu og það er alltaf hættulegut. Salah kláraði svo leikinn eftir misstök frá Everton og Jota átti eitt snildar mark.

  1-4 sigur á velli þar sem við höfum oft lent í hörku leikjum og má segja að leikurinn gegn þeim á síðasta tímabili skemmdi okkar vonir um titilbaráttu(Van Dijk frá út tímabilið og Thiago lengi frá).

  Bestu menn Liverpool.
  Henderson átti frábæran leik, Fabinho flottur á miðsvæðinu, Andy að leggja upp og láta finna fyrir sér, Jota með stórkostlegt mark og mjög líflegur en maður leiksins var Mo Salah sem gerði þeim lífið leit allan leikinn.
  Það átti engin leikmaður slæman leik í dag.

  Næsti leikur er annar útileikur og núna gegn Wolves á laugardaginn áður en við förum til Ítalíu og spilum við Milan.

  YNWA – Pínu sérstakt að sjá Benitez stýra Everton gegn Liverpool en það er eitthvað sem segir mér að hann brosir út í annað þegar hann leggst á koddan í kvöld 😉

  11
 5. Jibbíkæjei motherf…..
  þetta var svo mikið þannig frammistaða.
  Geggjað

  5
 6. Einu áhyggjurnar í kvöld var meiðsla áhyggjur og sem betur fer þá slapp það. Gæðamunurinn á þessum liðum er það mikill að það var meira eins og neverton væru að spila blöndu af ruðning og handbolta og þá sérstaklega einn maður Colman jesúsminn hvað gæjinn fékk að handleika knöttinn oft. liðið okkar frá A – Ö maður leiksins hvert eru við kominn með þetta lið okkar eiginlega !

  YNWA

  3
 7. Það eru forréttindi að vera Liverpool aðdáandi í dag, skora yfir þrjú mörk að meðaltali í hverjum leik. Ég elska þennan fótbolta sem þeir spila.

  1
 8. Sálfræðin hjá Klopp fyrir leik heppnaðist, því mótstæðingarnir héldu sér að mestu á mottunni og dómarinn ætlaði greinilega ekki að hleypa leiknum í neina vitleysu eins og á síðasta ári. En mikið djö.. eru heimamenn mikið enskt sheit. Toppaði allt þegar þeir skiluðu ekki boltanum til baka. Það er til sérstakur staður í helvíti fyrir þá sem gera svona.

  En getumunurinn á þessum liðum var æpandi. Vorkenndi Rafa okkar í lok leiks og vona að hann sleppi fljótt úr þessu með digrann sjóð í hendi.

  Merry Christmas, Everton!

  1
 9. Sælir félagar

  Ég fór fram á það að við ynnum þennan leik og leikmenn okkar kæmust frá honum óskemmdir. Við hvoru tveggja varð lukkan og ég er sáttur. Mér fannst Salah, Hendo og Fab beztu leikmenn liðsins í dag og Salah er nottla bara frá annari plánetu. Mér fannst Mané líka góður þó hann næði ekki að skora í dag og það er dálítið merkilgt hvað hann fær slæma meðferð hjá dómurum yfirleitt. Skrítið þar sem hann er alls ekki grófur leikmaður og er aldrei með þras. Klopp mætti taka það fyrir einhvern tíma..

  Markið hjá Jota var magnað og hvernig hann skildi Allan eftir í rykinu með einn gabbhreyfingu sem að vísu var með þeim hætti að það eru ekkert mjög margir leikmenn sem hafa getu til svona hreyfinga með bolta. Hinsvega finnst mér og hefur fundist lengi að Jota megi bæta sinn leik úti á vellinum þar sem sendingar hans eru mjög oft kæruleysislegar og rata ekki nálægt þeim samherjum sem eiga að fá þær. Annars bara góður 🙂

  Það er nú þannig

  YNWA

  8
 10. Frábær sigur í borgaralagum. Ekkert sem kemur á óvart eins og okkar menn eru að spila þessa dagana. Þvílíkur leikur hjá Hendó. Það sem furðar mig mest er af hverju okkar lið er ekki með margra stiga forskot í deildinni. Skora langmest, með besta markamismuninn en virðast geta átt slaka leiki inn á milli. Chelsea er í einhverjum Móra ham þ.e. vinna leiki án þess að eiga það skilið eins og síðasti leikurinn hjá þeim.
  Enn er Liverpool undir í innbyrðis viðureign toppliðanna. Verður að breyta því í seinni umferðinni og ekkert væl því þetta MC lið er ekki líklegt til að tapa mörgun stigum.

  2
 11. Ef menn haldast heilir erum við líklegir til að lyfta þeim stóra í vor.
  Eins og Mækarinn benti á er breiddin í Chelsea rosaleg og þeir líka líklegir til alls.
  Höfðinginn segir að ef Pep nær de Bruyne í gang geti City unnið deildina.
  YNWA

  3
  • Erum menn virkilega bara að vitna í þessa tvo trúða á Liverpool síðu?

   14
 12. Varla að maður þori að spyrja, enda á jaðrinum með að teljast guðlast. Var Jota kominn í skó Robbie Fowler í fjórða markinu?

  3
 13. Geðveikur leikur í einu orði sagt!

  En er einhver með tilfinningu fyrir því hvað er að hrjá Mané? Saknar hann þjónustunnar frá Firmino eða…?

  • Ertu að tala um Mane sem er kominn með 7 mörk og stoðsendingu í fyrstu 14 leikjunum?
   Mane hefur átt gott tímabil hingað til að mínu mati og verið með betri mönnum í mörgum leikjum. Hann var samt ekki að spila sinn besta leik gegn Everton en var frábær gegn Man utd.

   4
 14. Gaman að sjá Everton í svona mikilli krísu. Hafa eytt eins og vitleysingar síðustu ár. Gátu ekki keypt leikmenn í sumar vegna þessa skv. FFP
  James sendur burt.
  Gylfi var rekinn (sorgarsaga).
  Calvert-Lewin hefur lítið sem ekkert spilað.
  Demarai Gray fenginn á 2m£
  Kötturinn segir að Townsend sé “skorpuleikmaður” (á sínar rispur). Sammála því.
  Við að spila frábærlega og nágrannar okkar að ströggla. Varchester Utd langt á eftir okkur.
  YNWA

  2

Liðið gegn Everton á Goodison

Wolves – Liverpool (Upphitun)