Jólin koma með ferð á Goodison Park (Upphitun)

Á meðan snjó kyngir niður í höfuðborginni hér á Íslandi undirbúa leikmenn Liverpool sig undir jólatörnina. Hún er alla jafnan brjáluð og árið 2021 er engin undantekning á því. Níu leikir á fjórum vikum, heimsókn til gamals þjálfara og besti leikmaður í sögu Liverpool kemur á Anfield, ferð til Ítalíu, 8 liða úrslit deildarbikarsins og annar leikur gegn lærisveinum annars fyrrum þjálfara, svo verður dregið bæði í bikarnum og Meistaradeildinni. Alvöru törn sem byrjar á einum erfiðasta leik sem Liverpool spilar á ári hverju, oftar en ekki í byrjun desember: Heimsókna til eldri, minni bróðursins í Everton.

Hvað varstu að pæla Rafa?

Frá því að Rafael Benitez steig upp í flugvél árið 2004 til að taka við Liverpool hefur hann tekið einstakan túr um fótboltaheiminn, þar sem markmiðið virðist hafa verið að vinna fyrir alla erfiðustu eigendur í fótboltanum. Liverpool undir stjórn Gillet og Hicks, Chelsea hjá Roman, Real Madrid með öllu þeirra drama, tveim ítölskum liðum og Newcastle United hjá Ashley. Hann skaust líka til Kína að hjálpa til við að hífa boltann þar upp en hætti þar vegna Covid.

Eftir allt þetta flakk varð honum tvennt ljóst: Hann vildi búa í Bítlaborginni og að hann yrði að finna sér lið til að þjálfa. Á meðan stjórasæti Liverpool er líklega það tryggasta á Englandi hefði verið rökréttast fyrir hann að taka við Tranmere Rovers en stuðningsmönnum Liverpool (og Everton) til mikils hryllings þá var honum boðið stjórasætið á Goodison Park. Hann þáði það.

Það er leit að liði sem hefur spilað jafn mikið undir getu (á pappír) síðustu áratugi og Everton. Í áratug voru þeir undir stjórn David Moyes, sem eftir á að hyggja skilaði liðinu á fínu pari. Síðan 2013 hafa níu menn staðið í brúnni hjá liðinu, allt frá Duncan Ferguson og upp í Carlo Ancelotti. Þeir hafa eytt ógrynni af peningum leikmenn, en þeir leikmenn hafa átt að passa inn í hvern leikstílinn á fætur öðrum. Niðurstaðan er hrærigrautur og lið sem hengur nú um miðja deild. Þeirra lang stærsta og í raun eina afrek síðustu tíu ár var á síðasta tímabili: Þeim tókst þá í fyrsta sinn síðan árið 2000 að ná í þrjú stig á Anfield. Af mörgum lágpunktum á síðasta tímabils þá var þessi sá lægsti.

En hvert stefnir þetta lið undir stjórn Rafa? Það er erfitt að segja. Með fullri virðingu fyrir spánverjanum þá er hann ekki lengur einn af topp stjórunum í heiminum, þó hann sé frábær. Með tíð og tíma held ég að hann gæti byggt upp ógnvekjandi lið á Goodison Park, kannski ekki meistaradeildarlið en miðað við peningana sem er ausið í leikmannahópinn þá ættu þeir undir eðlilegum kringumstæðum í það minnsta að vera í Evrópudeildinni. Stærsta vandamál þeirra síðustu ár er þessi óstöðuleiki og ólíklegt að þeir nái nokkrum stöðuleika á meðan þeir skipta um stjóra árlega. Hvort sem það er óþolinmæði eigenda eða stuðningsmanna er ekki augljóst, en eitthvað er vandamálið.

Þegar Everton héldu að þeir væru með bestu framlínu borgarinnar

Eins og staðan er núna þá er erfitt að sjá Rafa fagna áramótum sem stjóri Everton. Gengi þeirra undanfarið hefur verið hreinasta hörmung. Það er auðvelt að gleyma að Everton byrjaði tímabilið af miklum krafti, unnu fjóra af fyrstu sex leikjum í deildinni. Málið er að síðan 25. september hafa þeir ekki unnið leik í deild né bikar og hafa litið hörmulega út. Það er fullkomnlega líklegt að þeir fari sigurlausir í gegnum jólamánuðinn og þá er spurningin hvenær þeir ákveða að taka í gikkinn og henda Rafa út. En ef þeir ná að stela þrem stigum á morgun myndi það líklega kaupa Rafa tíma fram á vor, þessi leikur skiptir okkur púllara miklu en hann skiptir blánefina öllu.

Okkar menn

Á ég að skrifa upphitun fyrir þennan leik í desember og ekki deila jólalaginu?

 

Eða fyndnasta marki allra tíma?

Allavega. Klopp var afar flottur á blaðamannafundi núna fyrir leikinn. Hann benti réttilega á að leikir þessara liða síðustu ár hafa farið úr því að vera harðir yfir í að vara fáranlegir. Síðustu ára hafa Van Dijk, Thiago, Origi meiðst illa í leikjum liðanna og gæti vel verið að ég sé að gleyma einhverjum.

Það breytir ekki að þetta er leikur sem þarf að vinnast. Þrjú efstu liðin í deildinni eru að slíta sig frá restinni hægt og bítandi og er ansi líklegt að frammistaða þeirra í desember muni ráða miklu í kapphlaupinu um titilinn. Það er líklegra að Klopp reyni að rótera á móti Úlfunum um helgina en í þessum, fyrir utan að eftir að hafa klárað síðustu leiki nokkuð örruglega ætti hópurinn að vera nokkuð hress.

Eins og stendur er meiðslalisti Liverpool þannig séð stuttur, „bara“ Firmino, Keita, Gomez, Elliot og Jones úti. Það er samt nokkuð stór hópur sem er nýstiginn upp úr meiðslum. Ég ætla að giska á að við fáum okkar sterkustu varnarlínu, það er að segja Trent, Van Dijk, Matip og Robbo fyrir framan Alisson. Það má færa mjög rök fyrir að Fabinho sé fyrsti maður á blað í stórum leikjum og ég er því hjartanlega sammála. En hverjir verða með honum á miðjunni? Eins og stendur er sterkasta miðjan okkar Fab, Thiago og Henderson og þeir munu hefja þennan leik ef mér skjátlast ekki.

Það var bent á í Gullkastinu í gær að Klopp hefur ansi oft hringlað með framlínuna í þessum leik. Það er vissulega pínu freistandi að setja Origi í byrjunarliðið, enda er hann markahæstur af núverandi leikmönnum liðsins í nágrannaslagnum, en ég ætla frekar að tippa á að hann komi snemma inn á í seinni hálfleik ef vel gengur. Þannig að höldum okkur við það sem virkar: Jota, Salah, Mané.

Spá.

Sama hvað öllum grannaslagsklisjum líður, þá getur þetta Everton lið ekki blautan og þetta Liverpool lið er stórfenglegt. Okkar menn hafa ekkert talað um það í fjölmiðlum en þeir hljóta að vera með leikina á síðasta tímabili bakvið eyrað. Þetta fer 4-0 fyrir Liverpool, Mané og Jota skora sitthvort, Van Dijk nær sér í eitt eftir horn, Salah lokar svo leikum í seinni hálfleik.

 

Spurt er að lokum: Hvað sem tengist Everton eiga þessir tveir sameiginlegt?

 

 

— Viðbót —

Þær sorgarfréttir voru að berast að miðjumaðurinn Ray Kennedy lést fyrr í dag af völdum Parkinsons sjúkdóms. Hann spilaði 251 leik með Liverpool og skoraði 51 mark, auk 17 leikja fyrir landslið Englands og um 150 með Arsenal. Hann vann allt sem hægt var að vinna með Liverpool og Bob Paisley kallaði hann eitt sinn vanmetnasta leikmann í heimi. Hann vann líka tvennuna meða Arsenal og var síðustu kaup Bill Shankly til liðsins.

 

Við bjóðum þeim sem voru svo heppnir að sjá hann spila að deila minningum sínum af þessum frábæra leikmanni og Liverpool goðsögn.

 

Hvíl í friði meistari. You’ll Never Walk Alone.

-Kop teymið

10 Comments

 1. Virkilega flott upphitun

  Þetta verður viðbjóðis leikur með ljótu tæklingum og 11 manna varnar(jóla)pakki frá Benitez en ef okkar strákar eru á pari við þá í baráttu þá erum við með miklu betri gæði og klárum þennan leik 1-2 Thiago og Van Dijk svara fyrir meiðslin (Pickford fær á sig aulamark ).

  YNWA

  4
  • Einmitt þess vegna þarf Robbo að vera inná og helst fleiri kappar sem eru ekki smeykir við að taka á þessum andskotans lúðulökum í Everton. Lofa þeim aðeins að finna fyrir rauða liðinu…

   1
   • Spurning um að fá Skrtel, Shelvey og fleiri þess háttar aftur á neyðarláni bara fyrir þennan leik?

    5
  • Guardiola hættir ekki að væla. Hann er ekki nærri jafn dónalegur og Klopp en alveg jafn hrokafullur og þrefalt leiðinlegri.
   Þetta verður auðveldur sigur því Everton er með eitt af fimm lélegustu liðum deildarinnar. Mækarinn segir að þeir séu líklegir til að falla og þetta verður bras fram á vor hjá þeim.
   YNWA

   1
 2. Sæl og blessuð og takk fyrir fyrirmyndarupphitun.

  Mikið væri nú gaman að vinna þennan leik.

  Stórt.

  5
 3. Sælir félagar

  Takk fyrir frábæra upphitun Ingimar og ekki miklu við hana að bæta. Mínar vonir og óskir eru fáar og smáar fyrir þennan leik. Í fyrsta lagi að okkar menn vinni þennan leik og í annan stað að við sleppum óskemmdir frá viðureigninni. Sú var tíðin að mér var meinlítið við Everton liðið en sá tími er liðinn. Everton er eitt mesta skítalið í heimi og fer í flokk með liðum eins og A.Madrid. Það er skelfilegt að Rafa skuli vera þar við stjórn en vonandi lætur hann sína menn spila fótbolta en ekki snabba. Ég vil engu spá um úrslit en ítreka óskir mínar og vonir.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
 4. Mér líst ekki alveg nógu vel á þessa viðureign.
  Everton hafa ekki verið lélegri í áraraðir og við sjaldan verið sterkari sem gerir það trúlega að verkum að þeir gera sér grein fyrir að þeir eiga nánast enga möguleika á úrslitum. Óttast því að þeir munu því nálgast leikinn þannig að reyna að skemma hann frá fyrstu mínútu og jafnvel að einstaka götustrákar (t.d. Prickford eða Richarlison) reyni að slasa lykil leikmenn okkar eins og síðast til að geta glaðst yfir einhverju. Jafnvel spurning um að hvíla menn eins og Salah af þeim sökum enda á varaliðið okkar alveg að ráða við þetta Everton lið fótboltalega séð. Mikilvægt að dómarinn sé með höfuðið skrúfað á ólíkt því sem gerðist á Goodison í fyrra.

  Mun betra væri ef þeir reyndu að spila fótbolta við okkur, líkt og United gerði um daginn, en þá myndum við vinna þá svona 0-7. Vonandi verður það raunin og við getum sungið um Rafa í leikslok.

  Up the Reds!

  5
 5. Hef verið að sjá gamla leiki milli þessara liða og það sem ég sá átti lítið skilt við fótbolta ég ætla rétt að vona að Everton vilji reyna að spila fótbolta í kvöld að öðrum kosti reikna ég með lengri meiðslalista okkar manna eftir kvöldið ? Ef bæði lið spila sinn leik þá hef ég engar áhyggjur spái 2—1

Gullkastið – Nágrannaslagurinn

Liðið gegn Everton á Goodison