Liverpool 4 – 0 Arsenal

Liverpool fékk Arsenal í heimsókn á Anfield, og tókst núna ekki bara að halda tveggja marka forystu heldur tvöfalda hana, sem verður að teljast mjög jákvætt. Sigurinn kom í kjölfarið á erfiðri byrjun fyrir klúbbinn í dag, þegar bæði U18 og U23 töpuðu sínum leikjum í morgun.

Mörkin

1-0 Mané (39. mín)
2-0 Jota (52. mín)
3-0 Salah (73. mín)
4-0 Minamino (77. mín)

Gangur leiksins

Leikurinn fór frekar hægt af stað, mikið verið að byggja upp spilið frá aftasta manni og fara varlega upp völlinn. Fyrsta alvöru færið kom á 29. mínútu þegar Trent átti fyrirgjöf inn á teig, Thiago átti skot sem Ramsdale varði en í lappirnar á Mané sem var samt ekki í jafnvægi og náði ekki almennilega skoti á markið svo boltinn barst í horn. Skömmu síðar kom annað svipað færi, góður samleikur milli Tsimikas og Mané á vinstri kantinum endaði með því að Kostas komst upp að endamörkum og gaf á Salah á markteig en aftur náði Ramsdale að þvælast nægilega fyrir til að koma í veg fyrir mark. Arsenal náðu að setja boltann í netið með mjög snyrtilegum samleik í gegnum vörn Liverpool, en eini gallinn var sá að Aubameyang var kolrangstæður þegar hann fékk sendinguna innfyrir og því réttilega dæmd rangstaða (og þurfti ekki VAR til).

Það var eftir rúmlega hálftíma leik sem leikurinn breyttist, en sú breyting kom úr óvæntri átt. Alisson átti sendingu fram sem Mané og Tomiyasu stukku upp í. Arteta fannst Mané brjóta eitthvað á Arsenal leikmanninum lét vel í sér heyra á hliðarlínunni. Klopp svaraði honum fullum hálsi, og þá brjálaðist Arteta og það þurfti að skilja þessa tvo annars dagfarsprúðu herramenn að. Oliver gaf þeim báðum gult spjald, en sá ekki ástæðu til að áminna Mané enda virtist endursýning staðfesta að þetta var bara hefðbundin barátta um boltann. En við þetta atvik var eins og stemmingin breyttist, Anfield vaknaði heldur betur og fór að hvetja okkar menn til dáða. Það skilaði árangri á 39. mínútu þegar Liverpool fékk aukaspyrnu hægra megin á vallarhelmingi Arsenal, Trent tók spyrnuna og sendi eina af sínum hárnákvæmu sendingum beint á kollinn á Mané sem var rétt við markteig og skallaði þar í jörðina og inn, óverjandi fyrir Ramsdale. 1-0 og það var mjög sanngjarnt. Mané fékk svo gult spjald áður en hálfleikurinn var úti, svo maður velti fyrir sér hvort Klopp myndi taka hann aftur útaf eins og gegn Atletico.

Í síðari hálfleik hófst svo stórskotahríð í átt að Kop-stúkunni. Liverpool fékk hvert færið á fætur öðru, og Nallarnir gátu í raun þakkað Ramsdale að vera ekki búnir að missa Liverpool langt fram úr sér. Það stóð reyndar ekki mjög lengi, því á 52. mínútu átti sá Tavares leikmaðurinn sem var gestur á Anfield hræðilega sendingu sem átti að sjálfsögðu að rata á samherja en endaði í löppunum á Diogo Jota við vítateigslínuna. Jota tók nokkur Firmino-esque dansspor með boltann sem skildu White og Ramsdale eftir í grasinu, og hann endaði á að renna boltanum í autt markið. 2-0 og aftur mjög sanngjarnt, í reynd var frekar ósanngjarnt að þetta hefði ekki gerst fyrr.

En gleymum því ekki að 2-0 forysta hefur fjarri því verið eitthvað sem Liverpool hefur getað stólað á, allt of oft hafði nákvæmlega þessi markamunur glutrast niður í leikjum gegn Brendford, Brighton o.fl., og því var maður fjarri því að vera eitthvað rólegur. En það hjálpaði reyndar að Liverpool virkaði mun öruggara í dag heldur en í þeim leikjum, hápressan var að virka vel og má segja að Oxlade nokkur Chamberlain hafi þar verið fremstur í flokki gegn sínum gömlu félögum.

Þegar hér var komið sögu var Salah farinn að ókyrrast enda skoraði hann ekkert í síðustu tveim leikjum, og greinilegt að hann langaði ekkert að viðhalda því ástandi. Það lagaðist sem betur fer í sókn á 73. mínútu sem var sérdeilis falleg. Boltinn barst með einni snertingu á mann úr vörninni, Alisson sendi háan bolta á Tsimikas, sem skallaði á Jota, sem skallaði í hlaupaleiðina hjá Mané sem var sloppinn einn í gegn. Salah var með honum hægra megin, Mané gerði engin mistök þegar hann vippaði boltanum á Salah og hann átti í litlum vandræðum með að skila boltanum í autt markið. Sókn eins og þær gerast bestar, og Liverpool maskínan komin í fjórða gír. Já og það var nú ekki að sjá að það skorti bræðraþelið milli Salah og Mané þegar þeir fögnuðu saman þessu marki.

Minamino og Hendo komu svo inná fyrir Jota og Ox, og það voru liðnar nákvæmlega 54 sekúndur frá því Taki kom inn á völlinn þar til hann var búinn að skora eftir ekkert mikið síðri sókn eins og í 3ja markinu, en þar endaði sóknin á því að Trent fékk sendingu upp að endalínu hægra megin við markið, renndi boltanum framhjá varnarmönnum Arsenal, beint í lappirnar á Minamino og aftur kom mark þar sem markaskorarinn gat varla annað en rennt boltanum í markið.

Hér var búið að afgreiða þennan leik, binda slaufu utan um pakkann og senda hann af stað. Klopp gerði sína síðustu skiptingu þegar hann gaf hinum 19 ára Tyler Morton sínar fyrstu úrvalsdeildarmínútur og tók Thiago út af í staðinn. Morton skilaði sínu af miklu öryggi, Liverpool var reyndar komið í æfingaleikjahaminn og var ekki að reyna allt of mikið þessar síðustu mínútur. 4-0 sigur staðreynd, hefði getað orðið talsvert stærri ef menn hefðu nýtt færin ögn betur, eða ef Ramsdale hefði bara átt örlítið lélegri leik. En hann verður ekki sakaður um þessi úrslit, svo mikið er víst.

Bestu/verstu menn leiksins

Hér er reyndar mjög erfitt að taka einhvern út fyrir frekar en annan. Eins og áður sagði var Ox mjög öflugur í pressunni. Mané átti einn af sínum albestu leikjum á síðustu mánuðum. Fab var magnaður á miðjunni, og ryksugaði upp alveg ótrúlega. Salah var valinn maður leiksins á Sky, Trent átti tvær stoðsendingar og er því kominn með 9 slíkar í síðustu 6 leikjum í öllum keppnum. Aðrir leikmenn liðsins voru einfaldlega mjög öflugir og stóðu fullkomlega fyrir sínu.

Last leiksins fer kannski til Arteta fyrir að espa leikvanginn svona upp, ekki það að við erum mjög sátt við svonalagað fyrst það hafði þessi áhrif.

Umræðan eftir leik

Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur fyrir liðið til að koma til baka eftir leikinn gegn West Ham (sem töpuðu gegn Úlfunum fyrr í dag). Jafnframt var mjög gott að sjá að þrátt fyrir að bekkurinn væri þunnur, þá var liðið sem var inni á vellinum hverju sinni alltaf að gefa 100+%

Annars er áhugavert að enn á Liverpool eftir að fá á sig mark með Kostas Tsimikas inni á vellinum. Maður gerir sér svosem engar grillur um að sú tölfræði haldist óbreytt út tímabilið, en mikið er gott til þess að vita að við skulum eiga tvo virkilega öfluga kosti í vinstri bakverði.

Næstu leikir

Kannski rétt að minnast aðeins á leik City og Everton á morgun, ekki það að Everton hafa aldrei gert Liverpool nokkurn skapaðan greiða í toppbaráttuslagnum, og við reiknum því ekki með neinu slíku á morgun. Eins væri líka mjög gaman ef Chelsea færu kannski örlítið að hiksta í deildinni. Er ég nokkuð að biðja um of mikið með því að óska þess? Nei hélt ekki.

Næsti leikur er á miðvikudaginn þegar Porto koma í heimsókn á Anfield, og svo koma Southampton í heimsókn á laugardag eftir viku. Við skulum gera ráð fyrir að Klopp spili alveg sæmilega sterku liði gegn Porto jafnvel þó svo toppsætið í riðlinum sé tryggt, en auðvitað þarf líka að taka með í reikninginn leikjaálag og meiðsli. Sem betur fer eru menn eins og Milner, Keita, Robbo og Neco líklega að koma til baka og gætu sést á miðvikudaginn, kannski bara á bekk samt. Leikurinn við Saints í deildinni um næstu helgi er að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægur í þessum toppbaráttuslag, en einbeitum okkur að einum leik í einu.

P.s. stelpurnar okkar eru að vinna Sunderland 1-3 á útivelli í þessum töluðu orðum, í leik sem er hvergi sýndur á streymisveitum. Gerum honum skil með annarri færslu síðar.

37 Comments

 1. Sælir félagar

  Ég átti von á að þetta yrði anzi mikið erfiðara en raun varð á. Arsenal men komu frískir inn í leikinn en eftir 10 til 15 mínútur voru okkar menn búnir að taka leikinn yfir og létu hann aldrei af hendi eftir það. Frábær frammistaða frá A til Ö og dásamlegt að horfa á liðið í þessum gír. Takk fyrir mig Klopp og félagar.

  Það er nú þannig

  YNWA

  16
 2. Þvílík veizla!

  Allir fjórir framherjarnir á blað og hreint lak! Takk, takk og takk. En þeir dýrðarsnillingar sem við fáum að njóta!

  Svo voru úrslit í ákveðnum leik fyrr í dag líka svolítið skemmtileg. Eiginlega bara dj. skemmtileg!

  7
 3. Þetta var einfaldlega frábær leikur hjá okkar mönnum í kvöld.
  Við vorum alltaf betra liðið en það tók okkur c.a 15 mín að læra að spila á móti pressunni hjá Arsenal og komast ofar á völlinn.
  Vendipunkturinn gerðist samt eiginlega utan vallar. Klopp lét Arteta heyra það en Arteta var búinn að vera að garga á dómaran allan leikinn og fór það svo að Arteta svarið Klopp og það kom smá læti en með þessu þá vöknuðu stuðningsmenn við sér og leikmenn Liverpool gáfu aðeins í.
  Eftir þetta var aðeins eitt lið á vellinum við fengum fullt af færum og Mane skoraði flott skalla mark eftir sendingu frá Trent.
  1-0 í hálfleik.
  Í síðari hálfleik þá stjórnuðum við leiknum en þá betur og kláruðum þetta með þremur mörkum í viðbót.
  Jota eftir flottan einleik, Salah eftir góða sendingu frá Mane og svo sundurspil þar sem Minamino kláraði vel.

  Það var pínu skrítið að sjá Arsenal bíða í þessari hálfpressu í síðari hálfleik tveimur mörkum undir og fengum við því nóg af tíma til að spila í gegnum þá og keyra á þá en ætli við höfðum ekki fengið 10 færi bara í síðari hálfleik.

  Alisson 9 – Lítið að gera en það sem hann þurfti að gera gerði hann vel
  Tsminkas 9 – Átti flottan leik. Var greinilega meira að hugsa um varnarleikinn og var kannski ekki alveg eins gráðugur og Andy sóknarlega en hann þurfti þess ekki. Við eigum tvo geggjaða vinstri bakverði.
  Van Dijk 9- Eins og kóngur í vörninni og stjórnaði spilinu þarna aftast.
  Matip 9 – Mjög góður í dag eins og svo oft áður.
  Trent 9 – Tvær stoðsendingar og frábær leikur.
  Fabinho 9 – Andstæðan við West Ham leikinn, les leikinn vel, vann boltan og kom honum frá sér. Frábær í dag.
  Thiago 10 – Mér fannst hann frábær í dag. Hann stjórnaði spilinu á miðjunni sem var frábært en það fylgir honum ákveðin ró. Hann var líka sterkur varnarlega en hann var að vinna boltan margoft framarlega á vellinum.
  Ox 9 – Hafði áhyggjur að hafa hann þarna í dag en þær áhyggjur voru óþarfar. Frábær í pressu og maður sá að honum leið vel.
  Salah 9 – Fór ekki mikið fyrir honum lengi vel en svo kom kafli þar sem hann virkaði sem besti leikmaður heims(sem hann er) en maður hefur samt séð hann gera betur í nokkrum stöðum. Samt mjög góður í dag.
  Jota 9 – Geggjað mark númer tvö hjá honum og var hann mjög ógnandi allan tíman.
  Mane 10 – Stórkostlegur í dag. Arsenal menn réðu einfaldlega ekkert við hann í dag. Skoraði, lagði upp mark og lét þá líta stundum mjög illa út.

  Þarna sáum við Liverpool liðið eins og við þekkjum þá. Heimsklassa markvörður, traust vörn, Fabinho að slökkva á sóknum, Thiago að stjórna miðjunni og fremstu þrír sjóðheitir.

  YNWA – Góður dagur 🙂

  p.s Eina sem gæti skemmt þennan dag aðeins er að Man utd eru líklega að reka Ole(ættu að vera fyrir löngu búnir að því) en það er synd og skömm að maður fékk ekki að sjá Ian Rush live og Ole Gunnar að stjóra Man utd live

  6
 4. Frábær frammistaða. Rúst.

  Hægt og rólega hlaðast þó upp áhyggjurnar yfir því að missa Salah, Mané og Keita í þessa FÁRÁNLEGU Afríkukeppni í janúar. Hvernig ætla FSG, Klopp & Co að leysa það?

  Miðað við samkeppnina frá Chelsea og City, þá er afskaplega lítið rúm fyrir mistök, sérstaklega í ljósi þess að liðið hefur nú þegar gert fjögur jafntefli og tapað einum leik.

  Við erum svo sannarlega með í baráttunni en þetta verður erfitt og má lítið út af bregða.

  Áfram Liverpool!

  4
  • FSG hafa fagnað vel þessum mörkum frá Origi og Minamino, sem gera það væntanlega að verkum að þeir sleppa við að styrkja hópinn i janúar.

   Annars verður fróðlegt að sjá þá spila í meistaradeildinni. Það ætti að segja eittvað um hvar þeir standa.

   Svo eru það auðvitað miðjumennirnir. Milner, Jones og Elliott meiddir og við vitum það að Fab, Hendó, Thiago, Ox og Keita meiðast reglulega. Mögulega þarf að styrkja þar.

   3
 5. Frábært að sjá Ox spila vel, ekki síst i stöðunni 0-0. Þetta var bara rosalega jákvæður leikur i alla staði.

  7
  • Fannst hann samt upp og niður. Mátti nokkrum sinnum þakka fyrir að hafa Fab fyrir aftan sig. Samt hans besti leikur þetta tímabil, mun betri í pressunni en í síðustu leikjum.

   4
 6. Þetta var fullkominn dagur í fótboltanum. Þvílíkt rúst og herra Klopp sýnir snilli sína. Mikið var nú gaman að bursta þetta arsenal-lið og þennan brjálæðing sem líkist alltaf meir og meir Simeone.

  I love it!

  8
  • tja, segi ekki fullkominn, Chelsea með þægilegan sigur og svo hef ég áhyggjur af Óla mínum.

   6
 7. sælir pullarar og til lukku með sigurinn eg ætla ekki að vera mjôg leiðinlegur við ykkur en ykkur er loksins orðið að ósk ykkar óli verður sennilega rekinn a eftir eða óli at the weel eins og þið nefnið hann þið bjugguð til þennan ógeðfelda sông um hann og meigið hafa skômm fyrir sem hin liðin vôru farin að væla upp eftir ykkur sem utd maður óska eg ykkur góðrar baráttu um titilinn en þetta er geymt en ekki gleymt eins og maðurinn sagði.

  2
  • Þú gerir þér grein fyrir því að ástæðan fyrir því að Ole verður rekinn eru einfaldlegar hroðalegar frammistöður og skelfileg úrslit aftur og aftur.

   Söngur upp í stúku hefur 0% áhrif eða ætti að gera það en ef söngur upp í stúku hefur áhrif á Man Utd þannig að þeir reka stjóran, þá eru þeir í verri málum en ég hélt( sem ég reyndar vona að þeir séu)

   P.s Þessi söngur er kominn beint frá Man Utd stuðningsmönnum sem hafa sungið þetta þegar vel gengur en miða við marga ljóta söngva sem bæði liðinn hafa sungið um hvort annað þá er þessi söngur algjör vöggu vísa

   25
  • Þetta er ykkar söngur. Hann er nú ekki ógeðslegri en það.

   11
 8. veit nú ekki betur að þessu söngur kemur frá Man Utd mönnum, þegar vel gengur. Auðvitað taka andstæðingarnir hann upp þegar illa gengur.

  6
 9. “ykkur er loksins orðið að ósk ykkar óli verður sennilega rekinn a eftir”

  Hefur einhver hér verið að óska eftir brottrekstri Óla?

  Satt að segja var ég í og með að vonast eftir að þeir jöfnuðu í stöðunni 2-1 til að treysta stöðu Óla.

  14
 10. Ég spáði þessu 5 eða jafnvel 6-0 í einhverju commenti hér inni og ef ekki væri fyrir þessar geggjuðu markvörslur markvarðar Arsenal hefði það örugglega orðið. Ég verð að nefna Fab okkar hann var bara eitthvað annað í dag algjörir yfirburðir á miðjuni í dag og greinilegt að hann og Thiago hafa náð upp forminu í þessu landsleikja hlé rusli sem loksins er búið fór í dag og náði loks að veiða i jólamatinn allt frábært við þennan góða dag ManU skítur algerlega í sig að venju veðrið geggjað fult af fugli. Ég ætla að horfa á mark nr 3 hjá okkur aftur og aftur og aftur algerlega geggjað upp spíl sem fékk mann til að fá gæsahúð uppúr og niðrúr einnar snertingu bolti af langbestu gerð.

  Góðar stundir vinir og vandamenn gangið hægt um gleðinnar dyr í kvöld þó það verði erfit !
  YNWA.

  6
  • Hversu geggjað yrði það að halda Thiago og Fabinho báðum heilum og vinna svona saman?

   Sé ekki sterkari miðju en þá tvo saman í þessum ham.

   5
 11. Sæl og blessuð.

  Ég var með óveðurskýin vomandi yfir mér fyrir leik, svartsýnn og fullur af bölmóði. Nallar á rífandi siglingu en maður hafði það á tilfinningunni að andstæðingar færu farnir að lesa í leik okkar manna fyrir utan þessi óskaplegu meiðsli sem hrjá liðið. Sat þar að auki með tveimur vinum og horfði á leikinn – þeir eru miklir nallar og ég óttaðist hið versta.

  Þvert á spár mínar reyndust rándýrir Arsenalmenn með þéttskipaðan bekk auðveld bráð fyrir okkar menn. Ég held að það sem skildi að liðin tvö hafi fyrst og fremst verið … uh … já liðin tvö. Okkar lið masteraði hópíþróttina fótbolta sem sást best á því hversu vel skipulögð hápressan var. Það var alveg magnað að okkar menn unnu alltaf seinni boltann. Mistök sem leiddu til þess að gulir unnu boltann höfðu því aldrei alvarleg áhrif.

  Aftur á móti voru gestirnir samansafn af einstaklingum – minntu á dauðyflin dýru í aftursætinu hjá Óla sem er með stýrið í hendinni (Ole’s at the wheel…). Þeir reyndu hvað eftir annað að einspila í gegnum þéttriðið net rauðklæddra sem unnu boltann hvað eftir annað. Þá talar maður ekki um bakvarðardrauminn þeirra sem gaf þessa líka fínu stoðsending á Joðið sem þakkaði pent fyrir sig.

  Ógnvekjandi liðsuppstilling þeirra reyndist ekkert hættuleg – meðal annars af því að þeim tókst aldrei að ná upp spili eða kerfi.

  Og já – Tsimikas – má ég biðja um hann sem fastamann? Hann glímdi við einn snarpasta kantmann deildarinnar, hinn bráðefnilega Sako. Undir lokin var maður farinn að gleyma því að Sako blessaður væri inni á vellinum. Rosalega hefur grikkinn okkar vaxið undanfarið. Já, ég held að Robbo megi fara að verma bekkinn meðan þetta heldur áfram.

  Þetta var geggjuð frammistaða. Veikleikar okkar liðs virðast felast í því að mæta hröðum og STERKUM andstæðingum eins og Brentford og West Ham (látum vera þótt ekki takist að vinna City og Chelsea). Það verður að finna lausn á því vandamáli en svona leikir gefa manni heldur betur von og liðinu byr undir Liverbird-vængina.

  Geggjað.

  7
 12. Og já … er ekki einhver undirskriftasöfnun fyrir því að Ole haldi djobbinu?

  Sýnið mér og ég skrifa undir!

  6
  • Neyðarfundur hjá Glazer kompaníinu í kvöld.

   Hver ætli veðbanka-stuðullinn sé á að Brendan Rodgers sé að fara að taka við Man Utd?

   Segi svona…

 13. Uxinn var hreint út sagt frábær í dag og fær minn maður leiksins í dag. Var grimmur, tæklaði, snöggar hraða breytingar og skeiðaði á menn er hann fékk færi á.

  Frábær come back sigur eftir vondan West Ham leik þrátt fyrir landsleikja hlé.

  Arteta var svo rekinn aftur í hundakofann eftir að hafa gjammað á Klopp.

  7
  • Hjartanlega sammála, minn maður leiksins. Hinir sem voru tilnefndir sem menn leiksins eru bara komnir á þann stall að svona frammistöður vænti ég í hverjum leik…

   YNWA

 14. Sorrí ef þetta hefur komið fram áður en þegar JK stóð uppí hárinu á MA þá breyttist leikurinn til hins betra. Lengi lifi JK!

  9
 15. Ég man að Ríó Ferdinand talaði um þennan ótrúlega skamma tíma sem það tók Man Utd að komast fram úr okkur. Hann gaf lítið fyrir það að við þurftum að spila 19 miðvarðapörum í 38 deildarleikjum og sagðist ekki hlusta á neinar afsakanir. Taflan talaði sínum máli.

  Tók annars eftir að Rhys Williams er aftur kominn á bekkinn hjá Swansea. Byrjaði fyrstu 2 eða 3 leikina og var það hræðilegur að aðdáendur vildu skila honum. Verið að mestu utan hóps hjá þeim í vetur án þess að vera meiddur.

  Kabak var ekki í hóp hjá Norwich í dag og ég sé hann ekki á meiðslalistanum. Ekkert lið vildi kaupa manninn þrátt fyrir að Schalke hafi boðið hann á hálfvirði í sumar. Hefur spilað 2 leiki fyrir Norwich í vetur og verið hræðilegur.

  Ben Davies er þó að standa sig hjá Sheff Utd, spilaði í dag og hélt hreinu.

  6
  • í þessum samanburði er 30m punda maðurinn Eric Bailly með 1 leik skráðan leik í deildinni í fyrra. Mögulega kom hann inn á sem varamaður.

   Phil Jones kom ekki við sögu, en framreiknað kaupverð á honum er um 30 milljón pund.

   1
  • Þú ert semsagt að segja að Nat Phillips sé heilinn á bak við endurkomu Liverpool í lok síðasta tímabils?

   3
   • Við værum væntanlega ekki í CL án Nat Phillips.

    Það að Kabak og Rhys Williams komast hvorki í Norwich eða Swansea liðið finnst mér merkilegt.

    Annars skilst mér að Seppi sé að gera gott mót hjá Preston. Það vantaði eitthvað upp á sjálfstraustið hjá honum, en það kemur væntanlega með aldri og reynslu.

 16. Góðir hlutir taka alltaf enda.

  Óli var harður stuðningsmaður LFC í æsku.

  Takk fyrir mig Ole, YNWA

  6
 17. Það var kannski óþarfi að fara vitlaust með nafnið á þeim norska Ole Gunnar Solskjær en fréttirnar samt jafn slæmar.

Liðið gegn Arsenal

Sigur hjá kvennaliðinu gegn Sunderland, þriggja vikna pása