Toppslagur hjá kvennaliðinu gegn Durham

UPPFÆRT: byrjum á að skoða stöðuna í deildinni, sem er afskaplega falleg:

Liðið vann semsagt öruggan 0-2 sigur á Durham núna áðan, og smellti sér þar með á topp deildarinnar. 10 leikir í röð sem liðið hefur leikið án þess að tapa.

Mörkin komu á 2ja mínútna kafla þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka, bæði eftir sendingar frá Razza Roberts af hægri kantinum. Fyrra markið kom þegar sendingin fór á markið, markvörðurinn varði en beint í lappirnar á Leanne Kiernan sem getur ekki hætt að skora og bætti einu marki í safnið. Aðeins tveim mínútum síðar kom svipuð sending frá Roberts en örlítið utar, beint á kollinn á Taylor Hinds sem stóð á markteigshorninu og skallaði örugglega framhjá markverðinum. Liverpool var í raun eina liðið á vellinum, því nánast öll marktækifæri leiksins komu eftir sóknir frá stelpunum okkar, Durham hreinsuðu líklega fjórum sinnum á línu og blokkuðu helling af skotum.

Næst er það heimsókn til Sunderland eftir viku. Nú er bara að halda dampi.


Þá fer að styttast í að fyrri umferðinni í deildinni ljúki hjá kvennaliðinu okkar, aðeins þrír leikir eftir, og sannkallaður toppslagur framundan. Stelpurnar okkar eru í öðru sæti, aðeins stigi á eftir Durham, og heimsækja þær núna kl. 12.

Það gekk ekki alveg nógu vel hjá okkar konum í síðustu umferð því þær náðu aðeins 0-0 jafntefli gegn Blackburn, en á hinn bóginn töpuðu Durham frekar óvænt 3-1 fyrir Crystal Palace. Það mætti að vísu alveg vera marklínutækni á Prenton Park því okkar konur vildu meina að boltinn hefði farið yfir línuna á einum tímapunkti gegn Blackburn, en ekkert var dæmt og jafntefli því niðurstaðan. Semsagt: með sigri núna á eftir ná Liverpool toppsætinu.

Af efstu deild er það að frétta að Leicester, liðið sem komst upp í efstu deild í vor, er stigalaust í neðsta sæti. Maður gæti því haldið að það gæfi ákveðin fyrirheit um styrkleikamuninn á þessum tveim deildum, en það er vert að hafa það í huga að Tottenham komst upp í efstu deild vorið 2019, eru núna í 3ja sæti og voru nálægt því að hirða 3 stig gegn toppliði Arsenal ef ekki hefði verið fyrir mark frá Vivianne Miedema í uppbótartíma í leiknum í gær. Þess má geta að Vicky okkar Jepson er núna aðstoðarþjálfari hjá Tottenham (justsayin…)

En nóg um það. Leikurinn á eftir er það sem skiptir máli, og svona verður stillt upp:

Laws

Robe – Fahey – Matthews

Roberts – Holland – Furness – Hinds

Lawley – Kiernan – Daniels

Bekkur: Startup, Moore, Silcock, Parry, Missy Bo, Bailey, Humphrey, Hodson, Walters

Helsta breytingin er sú að Missy Bo Kearns fer á bekkinn og Rachel Furness tekur hennar sæti í byrjunarliðinu. Enn vantar Charlotte Wardlaw, Rhianna Dean og Megan Campbell ásamt auðvitað Rylee Foster.

Í þetta sinn verður leikurinn sýndur á The FA Player (þar sem þarf að skrá sig til að geta horft).

Færslan verður svo uppfærð síðar í dag með úrslitum, og vonandi sjáum við þá okkar konur á toppnum í deildinni.

KOMA SVO!!!

2 Comments

Gerrard til Villa (Staðfest)

Gullkastið – Breytingar hjá Liverpool