Liverpool 2 – 0 Atletico Madrid

Mörkin

1-0 Jota (13. mín)
2-0 Mané (21. mín)

Gangur leiksins

Þetta var leikur sem var búinn eftir rúmlega hálftíma eða svo. Fyrsti naglinn af þremur kom þegar Trent átti eina af sínum baneitruðu sendingum inn á markteig þar sem Jota lúrði og gat einfaldlega ekki annað en skallað boltann í netið. Næsti nagli kom átta mínútum síðar þegar Trent átti aðra sendingu inn á Mané sem stýrði boltanum fimlega fram hjá Oblak. Fram að því hafði Mané fengið ansi furðulega meðferð hjá andstæðingum (sem þarf svosem ekki að koma á óvart), en einnig dómaranum sem kom kannski meira á óvart. Þannig gaf dómarinn Mané gult spjald fyrir litlar sakir fljótlega eftir fyrra markið, og greinilegt að Madrídingar ætluðu sér að nýta sér það með því að djöflast í honum og reyna að fiska annað gult á hann. En á 36. mínútu komust Liverpool í skyndisókn eftir sókn hjá Atletico, Mané fékk boltann aðeins fyrir utan eigin vítateig og hljóp aðeins áfram en var þá tekinn niður af Felipe. Manni fannst þetta vera svona gult en út í appelsínugult spjald, Mané var vissulega að byrja sókn sem leit ansi efnilega út, en var á engan hátt samt sloppinn í gegn. En Felipe ansaði ekki köllum dómarans að koma til hans, og hvort sem það hafði áhrif á litinn á spjaldinu eða ekki, þá var það rauða spjaldið sem flaug á loft. Það kom víst einhver tilkynning frá UEFA að spjaldið hefði verið gefið fyrir brotið eingöngu, en hvort það sé rétt verður að koma í ljós.

Eftir þennan þriðja nagla í kistuna var ljóst að Madrídingar myndu fara tómhentir heim. Liverpool hefði getað bætt við mörkum ef eitthvað er, bæði lið skoruðu reyndar mörk í síðari hálfleik en bæði mörkin voru dæmd af eftir að VAR hafði litið á þau og fundið rangstöðu í báðum tilfellum. Sú sem var dæmd á Jota var ansi tæp en þó alveg rétt, rangstaðan sem var dæmd þegar Suarez setti boltann í netið var ekki eins tæp en afar kærkomin enda fátt ömurlegra en að láta okkar gamla “vin” skora hjá okkur. Það voru alls konar færi sem komu til viðbótar, ekkert sem beinlínis ógnaði marki Alisson, en allnokkur sem hefðu getað endað í netinu hjá Oblak með aðeins klínískari afgreiðslum hjá sóknarmönnunum. Firmino kom inná fyrir Mané í hálfleik en þurfti svo að fara af velli eftir að hafa átt ca. hálftíma sprett, og það er líklega mesta áhyggjuefnið. Þá fengu Thiago, Minamino og Origi allir mínútur, og Nat Phillips fékk svo ca. 15 sekúndur í lokin eða þar um bil. Kannski ekki mikið, og líklega náði hann ekki að snerta boltann, en hei, sekúndur eru sekúndur.

Besta/versta frammistaðan

Nafnbótin “maður leiksins” hlýtur að fara á scouserinn í liðinu: Trent Alexander-Arnold, fyrir að búa til þessi tvö mörk. Kannski ekki alveg einn og óstuddur, en þetta voru stoðsendingar eins og þær gerast bestar. Annars áttu margir leikmenn mjög góðan dag: Hendo með virkilega kraftmikla frammistöðu, Tsimikas sýndi að hann er síst lakari en Robbo, og enn er Liverpool að halda hreinu með Kostas inni á vellinum. Fabinho sýndi að það er betra að hafa hann inná heldur en ekki, Salah var Salah og í raun bara óheppinn að skora ekki en sífellt að ógna þarna uppi á hægri kanti. Mané var virkilega kraftmikill í þessum fyrri hálfleik sem hann spilaði, og hefði sjálfsagt fengið að spila restina af leiknum ef hann hefði ekki krækt í þetta gula spjald:

Kannski líka vert að minnast á að Mané er núna orðinn þriðji markahæsti leikmaður Liverpool í meistaradeildinni frá upphafi, aðeins Gerrard og Salah hafa skorað fleiri mörk.

Jota síógnandi, skoraði gott mark og var óheppinn að sendingin á hann var sekúndubroti of sein í markinu sem var dæmt af honum. Ox hefur mögulega lesið textann í liðsuppstillingunni á kop.is, því hann sýndi einmitt alveg hvaða leikmaður er þarna. Hann varð fyrir einhverju hnjaski á hné sem við vonum að sé ekki alvarlegt. Virgil og Matip voru eins og þeir eiga að sér, Matip óheppinn að skora ekki úr upplögðu færi í seinni hálfleik (kannski er góð ástæða fyrir því að hann spilar ekki sem framherji?)

Sé enga ástæðu til að gefa neinum af okkar mönnum neina nafnbót varðandi “versta leikmanninn”, en Felipe má alveg hugsa sinn gang. Reyndar má þetta Atletico lið í heild sinni og þá Diego Simeone sérstaklega alveg spá í hvort þeir ættu ekki að fara að spila fótbolta.

Umræðan eftir leik

Aðal atriðið er auðvitað að Liverpool er núna búið að tryggja sér toppsætið í riðlinum, burtséð frá því hvernig síðustu tveir leikirnir fara og alveg sama hvað hin liðin gera. Þá er liðið það eina í riðlinum sem er með markatölu í plús, öll hin eru í mínus.

Þýðir þetta að Klopp hvíli aðalliðið í síðustu tveim leikjunum? Ég er ekki viss, því stigafjöldinn í riðlinum og markahlutfallið getur skipt máli upp á alls konar aðra hluti heldur en dráttinn í 16. liða úrslitum, t.d. verðlaunafé. En hver veit, kannski lærði Klopp af því að spila Jota í þessum nauðaómerkilega leik gegn Midtjylland í fyrra, sem þýddi að hann var frá í 3 mánuði (give or take). Persónulega væri ég alveg til í að sjá svipað lið og lék gegn Preston, og löngu kominn tími á að Tyler Morton fái sínar mínútur í meistaradeildinni.

Svo er það spurningin: er það áhyggjuefni að Liverpool hefur núna verið manni fleiri í égveitekkihvaðmargarmínútur á þessari leiktíð: gegn Chelsea, United, og svo tvisvar á móti Atletico. Aðeins eitt mark hefur komið út úr þeim mínútum, og það var úr víti. Vissulega hefur liðið ekki *þurft* að bæta við marki í þremur af þessum leikjum, en engu að síður…

Á hinn bóginn hefur það kannski ekki farið mjög hátt, en Liverpool er nú ósigrað í öllum keppnum í síðustu 25 leikjum, og er það jafnt lengstu lotu sem klúbburinn hefur farið í gegnum en þetta gerðist áður árið 1982.

Verstu fréttirnar eru svo að sjálfsögðu að Firmino tognaði í læri og verður því sjálfsagt frá eitthvað fram yfir landsleikjahlé. En þá er bara tilvalið fyrir aðra menn að stíga upp (wink wink Minamino og Origi…)

Næsti leikur

West Ham á sunnudaginn í Lundúnum. Þeir eru á hörku siglingu, enginn leikur í miðri viku að þvælast fyrir þeim(leiðrétt, þeir leika einmitt fimmtudagskvöldið 4. nóv). Algjörlega sýnd veiði en ekki gefin. Daginn áður verður Manchesterslagur annars vegar, og svo Chelsea -Burnley hins vegar. Er til of mikils ætlast að Sean Dyche geri Klopp greiða í þetta skiptið og taki stig af Chelsea? Já líklega.


Jú og af því að það hefur verið mikið spurt, þá gerðu stelpurnar okkar jafntefli við Sheffield í sínum leik, en unnu svo vítakeppnina og tóku því 2 stig úr þessum leik. Þær eru því komnar með 4 stig eftir 2 leiki í þessari bikarkeppni, og eiga svo leik í deildinni gegn Blackburn kl. 14 á sunnudaginn sem við að sjálfsögðu gerum skil.

31 Comments

  1. Sæl og blessuð.

    Átti þetta ekki að vera dauðariðill?

    14
      • “Atletico lið í heild sinni og þá Diego Simeone sérstaklega alveg spá í hvort þeir ættu ekki að fara að spila fótbolta.” kanski fara bara æfa Íslenska glímu frekar ?
        Salla rólegur yfir leiknum bara smá hnútur í malla í fyrri hálfleik yfir Mané kallinu þar sem þessir AM hrottar voru að reyna æsa kallinn upp og dómarinn var líka eitthvað stór furðulegur og skil ég ekki afhverju hann gaf Mané gult ? Síðan þegar brotið var á Mané þá var maður bara enþá meira hissa á þeim dóm við hefðum orðið allir hér inni brjálaðir ef okkar maður hefði fengið raut en svo þegar þetta er skoðað hægt þá stígur hann fyrst á hælinn á vinstri og síðan tekur hann strau á báða fætur eftir það en hverjum er ekki sama 25 leikir án tap búinir að vinna B riðil og tvær umferði eftir töpum viljandi stórt fyrir Fc Porto með D liðið okkar sem er samt ekki verra en Porto reynum allt til að AM verði í Evrópudeildinni held ég bara.

        YNWA.

        6
  2. Virkilega flottur Liverpool leikur í kvöld.
    Menn geta bent á þetta rauðaspjald en fyrir það vorum við yfirburðalið á vellinum búnir að skora tvö mörk og má segja að við eigum alltaf í meiri vandræðum með að skora þegar við erum manni fleiri.

    12 stig eftir 4 leiki og búnir að tryggja okkur efsta sæti í riðliðnum sem er gríðarlega mikilvægt því að við getum hvílt lykilmenn í leikjaálaginu sem er framundan.

    Að sigra þetta A.Madrid svona sannfærandi er bara alls ekki sjálfgefið og á meðan sum lið(nefni engin nöfn en þið vitið um hvaða lið við erum að tala) eru í hálfgerðum B-liða riðli í ströggli erum við að slátra svokölluðum dauðariðill.

    Gaman að sjá Fabinho og Thiago aftur á vellinum en þeir þurfa smá tíma að komast aftur í gang(sérstaklega Thiago) en Trent var án efa maður leiksins. Hann var frábært bæði í vörn og sókn en flestir í okkar liði áttu bara mjög góðan leik.

    YNWA – Eina slæma er að Firmino er meiddur en vonandi kemur hann til baka eftir landsleikjarhlé.

    12
    • Alveg meiriháttar að sjá Fab og Thiago koma inn! Ekki veitir af í þessari krísu okkur á miðsvæðinu. Núna er bara að safna stigum í deildinni og hvíla stóru karlana í síðustu tveimur í þessum ,,dauðariðli”.

      9
  3. Mér fannst nú Suårez frekar “bitlaus” en lélegasti maður vallarins var dómarinn. Liverpool voru frábærir. YNWA

    5
  4. Slátrun í fyrri hálfleik. Game over ! Rudda lið sem àtti að fá tvö til þrjú rauð spjöld. Mane verndaður sem er gott. Komnir áfram , sem er frábært, höldum hreinu, Kostas sem var frábær. Mane, Salah og Trent frábærir. Grófir atm áttu ekkert skilið. Næsti leikur. ??

    3
  5. Daníel West Ham á útileik á móti Genk á morgun ekki satt ? Bara smá pæling þar sem þú segir að það sé enginn leikur að þvælast fyrir þeim í miðri viku ?

    YNWA

    3
  6. Ég sá ekki leikinn en verð að hrósa pistlahöfundi. Fín yfirferð og gott flæði við lesturinn. Að mínu mati þinn besti pistill Daníel, vel gert. Það vaknaði reyndar ein spurning sem kemur til af vanþekkingu minni.
    “…Tsimikas sýndi að hann er síst lakari en Robbo, og enn er Liverpool að halda hreinu með Kostas inni á vellinum.” Hver er Kostas, eru Tsimikas og Kostas sami maðurinn eða er eitthvað dýpra á vanþekkinguni hjá mér?

    2
  7. Takk fyrir pistilinn Daníel.

    Frábær leikur, ótrúlegt hvernig okkar menn geta yfirspilað ManUtd og Atletico Madrid en misstigið sig gegn Brighton, en ég er sáttur. Að geta horft á nánast allan leikinn án hjartaruflana og ekki þurft að standa upp nema til að fagna mörkum er góð tilbreyting.

    Annars bara bjart framundan, erfiður útileikur gegn West Ham um helgina, þessir erfiðu leikir virðast oft henta okkar mönnum betur en þeir sem líta einfaldari út. Eftir landsleikjahlé verður þétt program sem fyrst og fremst er mikilvægt að komast í gegnum án stórra meiðsla og með eins mörg stig og hægt er. Kæmi mér ekki á óvart að við sjáum fleiri leiki eins og gegn Brighton þar sem stóð til að ná forystu og síðan sigla sigrinum þægilega heim, en í það skiptið hitti báturinn sker og nánast sökk.

    3
  8. Sælir félagar

    Takk fyrir góða skýrslu Daníel. Ég hafði áhyggjur af þessum leik þar sem lið eins og Liverpool sem spilar fótbolta á stundum erfitt með svona skítalið sem stundar allt annað en spila fótbolta á fótboltavelli. En eftir smá tíma fór hnúturinn úr maganum því það var augljóst hvert stefndi. Liverpool með yfirburði á öllum sviðum íþróttarinnar og þessi sigur aldrei í hættu. Mjög gott að sjá Fab og Thiago aftur á vellinum og sanngjarnt að TAA fái titilinn maður leiksins. Minn maður Firmino verður vonandi orðinn góður eftir landsleikjahléið. Sammála þeim sem nefndi að dómarinn var greinilega lélegasti maður vallarins og sumir dómar hans afar einkennilegir. En samt – góður sigur og staða í riðlinum.

    Það er nú þannig

    YNWA

    5
  9. Eddie Howe sennilega að taka við Newcastle. Hvernig líst okkur á það?

    • Mjög vel bara, vona bara heitt og innilega að Newcastle falli svo ógeðiseigendurnir þurfi að byrja á að ná liðinu upp um deild 🙂

      4
      • Vissulegaa verður það mun áhugaverðara að fylgjast með framtíðarviðfangsefnum olíubarónanna (lesist …xyW8æja) ef Newcastle fer niður.

        Ef Newcastle fellur, þá verður þeirra fyrsta viðfangsefni að sannfæra leikmenn í PL flokki um að koma og taka þátt í því alla vega eitt ár með þessu “concepti” þeirra í 1. deild, hvað svo það er. Hluti af sama viðfangsefni er að semja við frambjóðendur um eitthvað ásættanlegt í framhaldinu ef það gengur ekki í fyrstu lotu …

        Við erum því að sjá kostnað og upphæðir ná nýjum hæðum á nýju ári ef sú verður staðan.

  10. Erum að spila frábærlega og úrslitin eftir því. Erum að fara enda með einhver gull um hálsinn í vor.
    Hræðilegar fréttir samt af móralnum þar sem Salah er hafður að háði og spotti á samfélagsmiðlum, gerandinn í því máli er Robertson.
    Tsimiskas hefur verið flottur þá leiki sem hann hefur komið inn þannig það er ekki að örvænta þó Robertson fari í agabann.

    1
    • Alveg rólegur þetta var smá grín sem er pottett á milli manna alla daga þarna bara eins og mórall á að vera

      1
  11. Maður bæði grét og hló yfir úrslitunum úr Manchester slagnum í dag. Vonandi heldur frændinn starfinu, “he has come too far to give up”.

    Nú þurfa okkar menn að komast aftur nær Chelsea, Salah hlýtur að skora. Verst að Shaqiri getur ekki gefið stoðsendingu eins og hann er vanur að gera gegn þeim.

    3
  12. Eftir þessa frammistöðu Ronaldo gegn City hlítur hann bara að verða kosinn leikmaður mánaðarsins í Enska. Þar telur auðvitað markið gegn Atalanta og tiktok video af honum að hlaupa aftur 40m og hjálpa Luke Shaw að verjast mögulegri fyrirgjöf.

    6
  13. Á morgun er leikur gegn West Ham. Eins og stigatalan sýnir, þá er ekki annað hægt en að bera virðingu fyrir þeim árangri sem klúbburinn er að ná undir stjórn David Moyes, sem er hvað kunnastur fyrir það að hafa spilað fyrir ÍBV og stjórnað tveimur smáklúbbum á íslandi sem enginn nennir að fylgjast með.

    Liðið er tveimur stigum á eftir okkur og virðist hafa alla burði að berjast um meistaradeildarsæti í vetur og getað veitt sterkustu liðum deildarinnar mjög verðuga samkeppni. Þeir eru t.d þremur stigum fyrir ofan einhvern klúbb í borg þarna rétt hjá Liverpool sem var að tapa 2-0 á mjög sannfærandi hátt.

    Þessi leikur hefði ekki hrætt mig eins mikið ef klúbburinn okkar spilaði ekki í meistaradeildinni í vikunni. Mér finnst eins og liðið okkar sé miklu skeinuhættara þegar það er virkilega vel undirbúið gegn andstæðingum sínum og mjög meðvitað um bæði styrk og veikleika þeirra.
    Mér finnst augljóst að þessi vetur verði þriggja hesta keppni milli Chelsia, Man City og Liverpool en það er góð tilbreyting að West Ham ætli að slá liðum eins og Tottenham, Arsenal, leicester og þessum þessum rándýra tebolla klúbbi sem norsk fornhetja stjórnar.

    3
    • „Norsk fornhetja” HAHAHA!

      Réttast væri að senda Óla víkingahjálm úr plasti með hornum.

Liðið gegn Atletico

West Ham á morgun