Upphitun: Atletico Madrid mætir á Anfield

Eftir svekkjandi jafntefli um helgina gegn Brighton er komið að Meistaradeildinni þar sem við erum í hrikalega góðri stöðu. Einn sigur í síðustu þremur leikjunum mun tryggja okkur áfram í 16-liða úrslit og ef svo fer að við vinnum á morgun og á sama tíma myndi Porto ekki vinna gegn AC Milan værum við búnir að tryggja okkur toppsætið í riðlinum eftir aðeins fjórar umferðir. Eftir næsta landsleikjahlé og út desember munum við spila ellefu leiki og það væri mjög jákvætt ef tveir þeirra myndu þá ekki skipta neinu máli.

Fyrri leikur liðanna

Leikurinn í Madrid spilaðist undarlega eins og nokkrir leikir okkar á tímabilinu. Snemma vorum við komnir með tveggja marka forystu eftir mörk Salah og Keita en í hálfleik voru Atletico búnir að jafna og við máttum þakka Alisson fyrir að vera ekki undir í leiknum. Í seinni hálfleik fékk Griezmann svo að líta rauða spjaldið, þannig að hann verður í leikbanni á morgun, áður en við fengum síðan víti sem Salah nýtti og tryggði Liverpool 3-2 sigur í leik sem varð óþarflega spennandi miðað við yfirburði Liverpool á upphafsmínútunum.

Andstæðingurinn

Atletico hafa spilað þrjá leiki síðan við mættum þeim síðast en þeir gerðu tvö 2-2 jafntefli fyrst gegn toppliði Real Sociedad en síðan við Levante áður en þeir slátruðu Betis um helgina 3-0. Eins og áður kom fram verður Griezmann ekki með á morgun þar sem hann er í leikbanni líkt og varnarmaðurinn Stefan Savic.

Það eru því allar líkur á því að við sjáum Luis Suarez í byrjunarliði á Anfield á morgun. Það verður athyglisvert að sjá hvernig móttökur hann fær, sáum um síðustu helgi stuðningsmenn Liverpool sýna Adam Lallana mikla ást en Suarez náði að reita ansi marga Liverpool stuðningsmenn til reiði með framgöngu sinni í frægu undanúrslitarimmunni gegn Barcelona þegar hann spilaði þar og því ólíklegt að hann fái mikla ást á Anfield á morgun.

Simone hefur alltaf haft sinn sérstaka leikstíl og spila liðin hans ansi andstyggilegan fótbolta, eins og við sáum sérstaklega eftir rauða spjaldið á Griezmann í síðasta leik. Þá fóru leikmenn hans að fara ansi hart í öll návígi og hentu sér niður við hvert tilefni sjálfir.

Liðið spilar hörku varnarleik og því mjög mikilvægt að lenda ekki undir snemma í leiknum. Atletico eru aðeins með fjögur stig eftir þrjá leiki, eins og Porto, og því mikilvægt fyrir þá að sigra leikinn.

Liverpool

Stóra spurningin fyrir morgundaginn er hvort Fabinho eða Thiago séu tilbúnir eða ekki. Ef ekki erum við líklega að sjá sömu miðju og var gjörsamlega étinn af Brighton um helgina með Jones og Chamberlain fyrir framan Henderson en það myndi breyta miklu þó aðeins annar þeirra væri tilbúinn til að byrja. Klopp talaði um það á blaðamannafundi að staðan yrði tekinn á Thiago og Fabinho stuttu fyrir leik en Keita verður frá í töluverðan tíma.

Við höfum ekki átt í miklum vandræðum sóknarlega á tímabilinu með 45 mörk í fimmtán leikjum og erum á svaka skriði, eina sem ætti að valda okkur Liverpool mönnum áhyggjum er að í fjögur skipti á tímabilinu höfum við kastað frá okkur tveggja marka forystu gegn Brighton, Atletico, Milan og Brentford. Sem betur fer höfum við þó unnið tvo af þessum leikjum og erum enn taplausir á tímabilinu, en í svona svaka baráttu við Chelsea og Manchester City eins og deildin virðist vera að stefna megum við ekki gera þetta að vana.

Geri ráð fyrir að við fáum Matip aftur inn. Konate er líklega framtíðin en eins og er eru van Dijk og Matip okkar besta hafsentapar og mikilvægt að fá þá í hjartað í vörninni. Miðjan velur sig nokkurnveginn sjálf. Þeir miðjumenn sem eru heilir byrja leikinn. Í sóknarlínunni er Salah sá eini sem er ósnertanlegur og Jota hvíldi í síðasta leik, Mané þar á undan og geri því ráð fyrir að Firmino verði á bekknum á morgun.

Spá

Ég spái því að við klárum dæmið á morgun í lokuðum leik. Vinnum 1-0 sigur þar sem Mane skorar sigurmarkið.

12 Comments

 1. Sæl og blessuð.

  Væri það ekki upplagt að þjálfa leiklæsan og spilandi Matip upp í að vera varaskeifa aftast á miðjunni? Allt í einu er offramboð af miðvörðum en hörgull á miðjumönnum. Í fyrra færðum við hendo og fab í vörnina. Fer ekki að koma tími á að jafna þetta út? Vörnin skuldar miðjunni nokkra leiki..!

  Það verður að passa upp á varnarlínuna og ef Fab er ekki geim þá væri hægt að vera með Hendo, Chambo/Jones/Thiago og svo Matip á miðjunni. Allt betra en gatasigtið sem boðið var upp á gegn Brighton.

  Þetta verður óvænta útspilið í leiknum.

  Lásuð það fyrst hér!

  18
  • Tveir dagar síðan ég nefndi þetta í kommenti. Sorrí, ekki fyrstur með fréttirnar. *hehe*

   2
  • stöð tvö, sem betur fer. Tómt vesen að vera með þetta viaplay dót.

   1
 2. Sælir félagar

  Þetta leiðindalið kemur brjálað inn í þennan leik og munu verða með leiksýningu frá fyrstu mínútu. Þeir munu velta sér um völlinn öskrandi eins og stungnir grísir, vælandi í dómurunum og heimtandi víti og spjöld um allan völl. Þetta verða sem sagt leiðindi. En ef vörnin tekur sig saman með Matip og Virgil í hjarta hennar og Tsimikas í vinstri þá held ég að við vinnum þetta. Ég vil fá Firmino sem fremsta miðjumann oghendo og Gomes til að verja vörnina. Jota, Mané og Salah fremstir og allt gott svo fremi að dómarinn haldi haus. Þetta miðast við að hvorki Thiago né Fab verði leikfærir. Niðurstaða 2 – 1

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
  • Þetta er alveg einstaklega leiðinlegt fótboltalið; vælandi um allan völl eins og þú segir réttilega.

   3
 3. Þetta verður fróðlegur leikur og spurning hvernig skák Klopp ætlar að spila gegn þessu liði. Liverpool virkar meira sannfærandi á útivelli í vetur og því er smákvíði. Sigur tryggir nánast efsta sætið og jafntefli tryggir nánast sæti í 16 liða. Best er að sjálfsögðu að vinna og geta þá í staðinn hvílt þá hálfmeiddu eitthvað í síðustu tveimur leikjunum. Flott ef Fab og Thiago eru komnir til baka því í augnablikinu virðast Ox og Jones ekki geta borið upp miðjuspilið gegn sterkum andstæðingi. Ef menn ná að gíra sig upp og spila sinn leik er öruggur sigur í farvatninu en ef slen og væflagangur ræður ríkjum, eins og í seinni hálfleik í síðasta leik, þá er voðinn vís og tap verður niðurstaðan.

  5
 4. Takk fyrir upphitunina.
  Í fyrra var hægt að horfa á staka leiki í meistaradeildinni, er það ennþá hægt og hvernig er það gert?

  1
  • Það er lítið annað hægt ef þú ert ekki að streama.
   Að vera með enska boltann hjá símanum, meistaradeildina hjá viaplay og stöð2sport.
   Frekar glatað en svona er þetta bara.

   1
   • Ég er með tvennt af þessu, en vantar hið þriðja.
    Hvar er best að stríma leiki?

    1
 5. Ég held að það sé ekki í boði lengur – hringdi þangað fyrr í haust og mér var tjáð að einstaka leikir komi upp,en sjaldan.

  2

Gullkastið – Sjóðandi pirrandi jafntefli

Liðið gegn Atletico