Kvennaliðið fær Lewes í heimsókn

Það er búið að vera nóg að gera hjá Liverpool liðunum þessa helgi, karlaliðið tók jú á móti Brighton í gær, en fyrr um daginn höfðu U18 unnið Everton þar sem Cannonier skoraði enn eitt markið, og U23 unnu Derby 3-1.

Núna á eftir mæta svo stelpurnar okkar Lewes í deildinni, fyrsti leikur eftir landsleikjahlé þar sem talsvert af okkar konum fóru á flakk með landsliðunum. Jafnframt gerðist það að Rylee Foster lenti í bílslysi og verður eitthvað frá, er t.a.m. ekkert nálægt liði dagsins. Vonum að hún komi fljótt til baka, en það hefur ekkert verið gefið út hvað hún verði lengi frá eða hve alvarleg meiðslin eru.

Svona ætlar Matt Beard að stilla upp núna á eftir, hann heldur sig við 3-4-3 kerfið sem hefur reynst ágætlega í síðustu leikjum:

Laws

Robe – Fahey – Matthews

Roberts – Kearns – Holland – Hinds

Lawley – Kiernan – Daniels

Bekkur: Startup, Bailey, Furness, Hodson, Moore, Humphrey, Walters, Parry, Silcock

Charlotte Wardlaw er ekki í hóp, ekkert komið fram hvort hún er meidd eða hvað. Lucy Parry tók stöðu hennar í síðasta leik, en núna er það Rhiannon Roberts sem fær það hlutverk að fljúga upp og niður hægri vænginn.

Þar sem þetta er heimaleikur þá hefur Liverpool leyfi til að senda út beint og því hægt að horfa á hann á öllum miðlum félagsins.

Við uppfærum svo færsluna með úrslitum og stöðu síðar í dag.


Leik lokið með góðum 2-0 sigri, og aftur er það Leanne Kiernan sem skorar. Hún sá um bæði mörkin í þessum leik, á 17. mínútu og svo aftur á 40. mínútu, og er þá komin með 6 mörk á þessari leiktíð. Leikurinn var annars opinn og fjörlegur, og mikið um færi á báða bóga. Lewes áttu m.a. skot í þverslá í fyrri hálfleik og í stöng í síðari, en að sama skapi voru okkar konur ákveðnir klaufar að bæta ekki við allnokkrum mörkum því þær voru ansi oft sloppnar í gegn eða komnar í góð færi sem þær ekki nýttu. En við tökum sigrinum fagnandi og stigunum þrem sem honum fylgja.

Þetta þýðir að Liverpool er þá komið með 16 stig og er við topp deildarinnar, síðast þegar fréttist var Durham að vinna London City Lionesses 1-0 svo þær halda þá væntanlega toppsætinu. Síðar í dag verða svo leiknir fleiri leikir í þessari umferð og þá skýrist staðan í eftri hluta deildarinnar. En það er ljóst að leikurinn við Durham eftir hálfan mánuð verður risastór.

Liverpool – Brighton 2-2

Gullkastið – Sjóðandi pirrandi jafntefli