Upphitun: Preston í deildarbikarnum

Á morgun taka okkar menn rúmlega klukkutíma rúnt upp M6 norður til Preston að mæta heimamönnum í deildarbikarnum. Þrátt fyrir nálægðina hafa liðin mæst mjög sjaldan en við höfum aðeins einu sinni mætt Preston síðan 1962. Það var 2-0 sigur Liverpool í FA bikarnum árið 2009 þar sem Riera og Torres skoruðu framhjá Andy Lonergan í marki Preston.

Preston North End var stofnað 1880 og spila á Deepdale sem er elsti fótboltavöllur sem er enn í notkun af atvinnumannaliði. Þeir unnu deildina fyrstu tvö árin eftir stofnun hennar 1888 og lenntu svo í öðru sæti næstu þrjú árin þar á eftir en þar með var gullaldarskeiði Preston lokið næstu áratugi voru þeir mikið jójó lið milli efstu tveggja deildanna en féllu svo í síðasta skiptið 1961 og hafa ekki náð að snú aftur í efstu deild síðan. Þegar enska úrvalsdeildin var stofnuð 1992/93 voru Preston að ná botninum því þeir féllu það tímabil niður í D-deild. Þar náðu þeir þó að snúa taflinu við og tólf árum síðar voru þeir mættir í umspil um sæti í Úrvalsdeildinni. Þar mættu þeir West Ham í úrslitaleik þar sem Bobby Zamora skoraði eina mark leiksins í 1-0 sigri West Ham. Síðan þá hafa Preston tvisvar komist í umspilið en bæði skiptin fallið úr leik í undanúrslitaleiknum.

Hvernig gengur Preston í dag

Á síðasta ári var skoski stjórinn Alex Neil rekinn í mars eftir slakt gegni og aðstoðarmaður hans Frankie McAvoy tók við út tímabilið en eftir aðeins eitt tap í síðustu átta leikjunum ákvað Preston að gefa honum tækifæri og er hann nú á sínu fyrsta ári sem aðalþjálfari. McAvoy var ekki leikmaður en þegar Neil tók við Hamilton í Skotlandi var hann þjálfari í unglingastarfinu þar og Neil ákvað að taka hann inn í aðalliðsteymið. Hann hefur síðan elt Neil þar sem hann hefur verið fyrst hjá Norwich og svo Preston. En McAvoy hefur ekki náð að fylgja á eftir þessum frábæra endasprett á síðustu leiktíð og eftir fjórtán umferðir sitja Preston í nítjánda sæti Championship deildarinnar með fimmtán stig og aðeins þrjá sigra og er McAvoy kominn asni ofarlega hjá veðbönkum um næsta þjálfara sem fær sparkið í deildinni.

Leikmannahópurinn

Það eru ekki margir leikmenn hjá Preston sem hinn almenni fótboltaáhugamaður þekkir en þar ber helst að nefna okkar mann Sepp van der Berg sem er á láni hjá þeim og hefur fengið leyfi til að spila gegn Liverpool. Það kemur hinsvegar kannski mörgum á óvart að hann hefur aðallega verið að spila sem hægri vængbakvörður í fimm manna varnarlínu hjá Preston á tímabilinu. Aðrir sem menn gætu kannast við eru sóknarmennirnir Scott Sinclair og Ched Evans en báðir eru ólíklegir til að byrja á morgun enda lítið spilað í ár. Sinclair sló í gegn hjá Swansea og var þaðan keyptur til Manchester City þar sem ekkert gekk hjá honum en Evans er aðallega þekktur fyrir að missa þrjú ár af ferli sínum þar sem hann sat inni eftir kynferðisbrotamál en hann var loks dæmdur saklaus í því máli í endurupptöku nokkrum árum seinna.

Okkar menn

Það er hreinlega erfitt að fara að hugsa um næsta leik eftir stórbrotinn sigur síðustu helgi. Helst myndi maður vilja að sá leikur yrði nú bara endurtekinn helgi eftir helgi og ég er ekki viss um að maður yrði nokkurntíman leiður á honum, en lífið heldur áfram og nú stöndum við frammi fyrir ákveðinni miðjumanna krísu. Sem betur fer voru meiðsli Keita ekki alvarleg og hann ásamt Fabinho gætu snúið aftur í liðið um næstu helgi. Thiago byrjar líklega að æfa í lok vikunnar en Milner verður líklega ekki með fyrr en eftir næsta landsleikjahlé. Svo er auðvitað Harvey Elliott í langtímameiðlum. Það skilur eftir Henderson, Chamberlain og Jones þar sem sá síðastnefndi var að stíga upp úr eigin meiðslum og hinir tveir átt í sífelldu veseni undanfarin tímabil. Það er því nokkuð ljóst að við munum sjá einhverja kjúklinga spila á miðjunni á morgun.

Þeir tveir sem voru næst liðinu á síðustu leiktíð Cain og Clarkson eru báðir farnir á lán en liðsuppstillingin í u23 ára leiknum gegn Blackburn í gær gefur einhverjar vísbendingar. Þar voru hvorki Tyler Morton, sem við sáum í seinni hálfleik gegn Norwich í bikarnum, né James Balagizi. Auk þeirra var pólska ungstyrnið Musialowski ekki með og hægri bakvörðurinn Conor Bradley var á bekknum. Þessir verða líklegast allir í hóp á morgun og Morton líklegur til að fá sæti í byrjunarliði.

Meiðslin eru þó alls ekki búinn þarna því Keide Gordon 17 ára strákurinn sem við keyptum frá Derby og fékk byrjunarliðssæti gegn Norwich er frá vegna meiðsla og Kelleher var ekki með um helgina vegna veikinda. Með það í huga ætla ég að skjóta á að byrjunarliðið verði svona

Adrían fær að vera í markinu í fjarveru Kelleher. Vissulega gæti Matip fengið leik þar sem Konate tók sæti hans gegn Man United en fyrst við framlengdum við Nat Phillips hlýtur hann einhvern tíman að fá að spila og ef ekki á morgun þá hvenær. Geri ráð fyrir að Henderson fái frí en Chamberlain og Jones byrji en Balagizi eða einhver af ungu strákunum leysi Jones af snemma í seinni hálfleik. Setti svo Mane í liðið fyrst að Gordon er meiddur og Mane spilaði minnst af sóknarmönnunum um helgina en gætum vissulega séð Musialowski í þeirri stöðu. Klopp og Lijnders eru ansi óútreiknanlegir í bikarliðunum sínum hafa stundum mætt með mun sterkara lið en maður heldur en jafnframt ekki óhræddir við að henda óreyndum leikmönnum en þetta lið hér að ofan kæmi mér minnst á óvart á morgun.

Spá

Held að við höldum áfram hefðinni að skora þrjú eða meira í útileikjum okkar í ár og vinnum góðan 4-0 sigur þar sem Origi, Chamberlain, Jones og Minamino skora mörkin og við fljúgum áfram í bikarnum og verðum enn í möguleika að vinna allt sem í boði er eftir annað kvöld!

10 Comments

  1. Já þetta er ákveðinn höfuðverkur. Mané og Ox spiluðu vissulega lítið á sunnudaginn. Jones hins vegar spilaði í tæpar 70 mínútur, nýkominn úr meiðslum, og það eru bara 3 heilir miðjumenn í aðalliðinu: Hendo, Jones og Ox. Sé ekki betur en að þeir verði allir að spila á laugardaginn, ekki nema menn séu að veðja á að Fab og/eða Keita verði klárir í bátana, og það er alltaf veðmál. Plús það að menn geta meiðst í “ómerkilegu” leikjunum, við sáum það nú bara á síðasta ári gegn Midtjylland.

    En á hinn bóginn, þá vill maður kannski ekki tefla fram miðju sem er eingöngu með kjúklingum. Jafnvel þó andstæðingurinn heiti Preston. Engu að síður kæmi mér ekki á óvart þó við sæjum Musialowski og Balagizi bregða fyrir (hvort sem þeir byrja eða ekki), og jafnvel Frauendorfer.

    Jæja, þetta er ekki minn höfuðverkur. En ég hlakka mjög til að sjá hvaða leið Klopp og Lijnders fara!

    2
      • Mér fannst nú hreinlega óþarfi að taka það fram, það er svo sjálfsagt!

        2
  2. Líst vel á þetta lið og það á að vera nægilega gott til að sigla þessu þægilega heim.
    Vörnin sterk og sóknin nokkuð góð.
    Ég vil að við förum langt í þessum bikarkeppnum, við höfum alltof oft verið að detta út of snemma í þessum bikarkeppnum.

    1
  3. Vill ekki að Jones né Ox komi nálægt þessum leik við eigum svona 3 fit miðjuleikmenn eftir þetta er komið nóg af meiðslum í bili.
    Allavega fram að næsta leik í PL.

    • Fúlt að Gordon sé meiddur var farinn að hlakka til sjá hann spila virkilega öflugut efni þarna á ferð.

      1
    • Ef ekki að spila Chamberlain í þessum leik, hvernær þá ?
      Fabinho, Thiago og Keita ættu að vera í hóp í næsta deildarleik.
      Henderson, Jones og Chamberlain eru heilir.
      Sé ekki vandamál að spila Jones og Chamberlain í þessum leik.

      3
  4. Það yrði svo sem eftir bókinni að leikurinn í kvöld verði eitthvað bananahýði þó ég leyfi mér ekki að jinxa þessu neitt og ég ætla að spá því að við förum með sigur af hólmi í kvöld þó það verði frekar tæpt. Sé fyrir mér að við vinnum þetta 2-1 með mörkum frá Minamino og Origi. Liðsuppstillingin er höfuðverkur sem ég ætla ekki að reyna að spá í , Klopp og Linders finna örugglega bestu blönduna í þennan leik.
    Held að Klopp vilji fara lengra í þessari keppni en síðastliðin ár og það væri gaman að fá í það minnsta einn alvöru úrslitaleik þetta seasonið og held að við gætum verið kandidatar í það í þessari keppni en PL og meistaradeildin eiga að vera aðalmarkmiðið

    • Hahaha!! Þetta var skemmtilegt! „Can we sack him at halftime?!”

      1

Gullkastið – GIVE ME FIVE!

Liðið gegn Preston