Upphitun: Heimsókn á heimavöll erkifjendanna

Hjartað slær aðeins hraðar hjá stuðningsmönnum í marga daga á undan. Á kaffistofum um allan heim er aðeins meiri broddur í skotum og bröndurum sem ganga manna á milli. Á Carrington og Kirkby, þrátt fyrir góða sigra í vikunni, eru liðsmenn beggja liða aðeins einbeittari. Liðin finna væntingar borganna allt í kringum sig. Borgir sem hafa eldað grátt silfur í áratugi, stuðningsmenn sem hata hvor aðra. Það er komið að því, stærsti leikurinn í enskri knattspyrnu er á dagskrá: Liverpool – Manchester United.

Hvað er hægt að segja?

Hvað er svo sem hægt að segja um þennan leik sem hefur ekki verið sagt áður? Þetta er sá stærsti, sá leikur sem stuðningsmenn beggja liða gefa hvað sem er til að vinna. Í gegnum árin hafa þessir leikir verið magnaðir, spennuþrungnir en líka stundum drepleiðinlegir. Þjálfarar þessara liða hafa alltof oft farið inn í leikina með það að markmiði að tapa ekki, sem olli því að nýlega fóru fjórir í röð jafntefli, ýmist 1-1 eða 0-0. Ég ætla að játa að síðustu ár tékka ég fyrst á hvenær City leikirnir eru, bara vegna þess að þeir leikir eru yfirleitt skemmtilegri.

Ef við tökum síðustu tíu leiki liðanna er tölfræðin svona: Liverpool hafa unnið þrjá, United tvo (þar af einn í bikarnum) og fimm leikir hafa farið jafntefli. Þetta jafnræði hefur verið með liðunum þó Liverpool hafi klárlega verið betra liðið megnið af þessum árum, en það er svo sem ekkert nýtt að form og gæði skipti ekki öllu í þessum leikjum. United gæti verið á botni deildarinnar með núll stig eftir þrjátíu leiki og maður væri samt dauðhræddur við þennan leik.

Eftir að United kjöldrógu Leeds í fyrsta leik tímabilsins og bættu við sig ákveðnum Portúgala þá var umræðan á þá leið að þeir ættu að vera í baráttu um titilinn. Sem miðað við hópinn sem þeir eru með er fullkomnlega sanngjörn umræða.

En svo… hvað gerðist? Vandamálið er, frá sjónarhorni United: Þeir hafa spilað hörmulega aftur og aftur, en oftar en ekki hafa þeir bjargað stigum. Þeir eru komnir með sex stig í meistaradeildinni þrátt fyrir lélegar frammistöður. Þeir eru rétt fyrir neðan toppliðin stigalega, þrátt fyrir að hafa ekki spilað vel á löngum köflum. Ef þeir væru með alvöru þjálfara myndi maður horfa á þessar vikur og hugsa: Þeir geta snúið þessu við.

En hvað er svo sem hægt að segja um Ole Gunnar Solskjaer, hið mennska „Bíddu, ha?“ Það er að segja að í hvert sinn sem maður sér hann á hliðarlínunni spyr einhver hluti af manni „Bíddu, ha? Er ekki ennþá búið að reka hann?“ Það er komið skrýtið mynstur á stjóratíð Ole: Liðið hefur nokkrum sinnum tekið harkalega dýfu, en um leið og sætið hitnar undir honum birtist allt annað United lið á vellinum og þeir ná í risaúrslit. Það er nokkuð ljóst að leikmenn elska að spila hjá honum og hann hefur komið í þá þessum leiðinda „gefumst aldrei upp“ anda sem var í gömlu United liðinum. Það er hreinlega fáranlegt hversu oft þeir hafa verið undir síðastliðið árið, en samt náð að vinna, einkum á útivelli.

Ég öfunda ekki United stuðningsmenn sem eiga að mynda sér skoðun á Ole. Á eina hönd þá er hann goðsögn. Hann skoraði stærsta mark í sögu klúbbsins. Hann er líka að allra sögn viðkunnalegur og góður gaur. Hann er líka ekki nógu góður þjálfari til að koma liðinu þangað sem stuðningsmenn vilja hafa það. Ef næsti þjálfari hjá United nær að vinna stóra titla verður stjóratíð hans minnst á sama hátt og við minnumst seinni stjóratíð Dalglish: Goðsögn sem slökkti elda og kom liðinu á réttan kjöl, áður en annar tók við stýrinu.

Hann hefur vissulega komið liðinu á rétta leið. Það er allt annar andi yfir klúbbnum núna en þegar hann tók við af Móra og liðið er klárlega betur mannað. En er einhver sem í alvöru heldur að hann hafi x-faktorinn sem þarf til að vinna stærstu titlanna? Já hann er fínn, en hann er nákvæmlega fínn. En hann er ekki stærsta nafnið í kringum Manchester United. Það má reyndar færa rök fyrir því í dag að Manchester United sé ekki stærsta nafnið í Manchester United.

Maðurinn sem er stærri en liðið(?)

Í lok félagsskiptagluggans fengu margir United menn sína heitustu ósk uppfyllta þegar Christiano Ronaldo sneri aftur. Ég hef aldrei skilið dýrkun United manna á Ronaldo. Ronaldo sprakk út hjá United, varð að þeim leikmanni sem hann varð: lang næst besta leikmanni heims. En svo fór hann frá þeim og maður hefði haldið að það myndi eitthvað aðeins hafa áhrif á hetjudýrkunina. Svo virðist ekki vera, fyrir sumum (alls ekki öllum) virðist það að vera stuðningsmaður Ronaldo vera jafn mikill hluti af sjálfsmyndinni eins og að vera stuðningsmaður United og árum saman fögnuðu þeir mörkum hans á Twitter eins og United.

Ronaldo er fyrsta súperstjarna samfélagsmiðlatímans og hans eigið vörumerki er það lang stærsta af vörumerkjum fótboltamanna af hans kynslóð (ég þekki ekki hvernig hann er í samanburði við Haaland, Mbappé og Neymar sem eru töluvert yngri). Hann kom heim til United og það virðist vera meira mál fyrir United að fá hann, en fyrir hann að koma til United. Þetta gæti verið merki um hnignun United eða einfaldlega breytta tíma. Stórstjörnurnar eins Messi, Ronaldo, Mbappé, Neymar, Haaland og hver veit kannski Salah, eru orðnir stærri nöfn en liðin sem þeir spila fyrir. Við getum pirrað okkur á þessu, en svona er þetta.

Þó Ronaldo sé stórfenglegur markaskorari og ungu mennirnir í United læri helling af því að vera í kringum hann, þá er alls ekki augljóst að hann geri liðið betra. Hann sinnir nánast engri varnarvinnu, er mökk gráðugur á boltann og bætir ekki samherja sína. Já hann er töframaður með boltann en var hann það sem United þurfti? Er hægt að stilla upp liði með honum og Pogba, tveim súperstjörnum sem þurfa báðir að vera aðalmaðurinn? Síðast en ekki síst: Var hann í alvöru það sem United þurfti, frekar en segjum geggjaður varnartengiliður? United vantaði ekki súperstjörnu í sóknina, en á sama hátt og þeim bráðvantaði alvöru hafsent þegar Maguire kom, þá gætu þeir stórbætt liðið núna með því að kaupa diet útgáfu af Fabinho. Þeir þurfa ekki fleiri mörk en þeir þurfa að verja varnarlínuna sína betur.

Ronaldo er í raun fullkomin myndlíking fyrir United í dag: Stórhættulegur, risavörumerki, ofur vinsæll en á leiðinni niður á við. Getur hann rifið þetta lið upp og skilað titlum í hús? Það kemur í ljós. Getur hann skilað þremur stigum í hús gegn Liverpool? Vonum ekki.

Okkar menn

Erum við öll búin að ná okkur niður eftir Atletico Madrid leikinn? Það má segja margt um Liverpool í ár en skemmtanagildi leikjanna hefur verið rosalegt. Nú er 21 leikur síðan liðið okkar tapaði síðast og á tímabilinu skora Liverpool að meðaltali þrjú mörk í hverjum leik. Á listanum yfir topp tíu markaskorara í deildinni eru þrír leikmenn Liverpool og liðið er einum punkti frá toppsætinu.

Leikirnir tveir síðan í landsleikjahléinu hafa verið eins og ævintýri. Þrátt fyrir að það vantaði tvo lykilmenn gegn Watford var Lundúnaliðið tekið í bakaríið. Á sama tíma ákvað La Liga að gefa Atletico Madrid frí, þannig að þeir voru vel úthvíldir þegar Liverpool mættu til Madridar, sem hjálpaði þeim ekki neitt.

Nú þurfa okkar menn einn sigur í viðbót til að fullkomna vikuna. En hverjir verða í byrjunarliðinu? Alisson er auðvitað sjálfvalinn og Trent sömuleiðis. En eru Matip og Van Dijk með lappir í þrjá leiki á átta dögum? Van Dijk er að koma vel til baka eftir meiðslin en það sást gegn Atletico að hann er ekki alveg hundrað prósent, fyrir utan að hann spilaði tvo leiki í landsleikjahléinu. Matip virðist vera orðinn aðeins harðari en fyrir ári þannig að þrír á átta dögum virkar ekki jafn brjálað og áður. Vegna þess að þetta er risaleikur og í næstu viku er deildarbikarinn hugsa ég að Klopp taki sénsinn og þeir byrja báðir.

Robbo er svo annað spurningamerki. Eftir að hann var prímus mótorinn í Liverpool í fyrra er eins og hann þurfi smá hvíld. Ég myndi vilja sjá Tsimikas fá séns nokkra leiki í röð og ég spái að hann fái þá… eftir United leikinn. Klopp er almennt íhaldssamur í stórleikjunum og ég held að hann taki klassíkina á þetta.

Held að framlínan sé engin spurning, hin heilaga þrenning. En miðjan? Fabinho verður djúpur og því miður er Thiago ekki orðin heill, Jones er víst byrjaður að æfa eitthvað þannig að hann gæti komið inn á, en það er ekki fræðilegur að hann byrji leikinn. Annað hvort Hendo eða Milner verður eiginlega að byrja og held að fyrirliðinn fái að fara fyrir liðinu. Fyrir þriðja sætið er valið milli Chamberlain og Keita. Keita hefur verið mikið gagnrýndur eftir leikinn gegn Atletico en ég held að Fabinho bæti upp fyrir veikleika Keita vel. Þannig að þetta verður svona:

 

Spá

Tvö lið sem spila blússandi sóknarbolta og eru með spurningamerki í vörninni. Tvö stærstu lið Englands. Hluti af mér er ofur bölsýnn og heldur að þetta verði steindautt 0-0 jafntefli. En ég nenni ekki slíku núna. Ronaldo kemur United yfir með vítaspyrnu á 23. mínútu, eftir klaufalegt brot Alisson í teignum. Fimm mínútum seinna sendir Van Dijk langan bolta þvert yfir völlinn. Maguire verður miklu nær boltanum en Mané en tapar einhvern veginn kapphlaupinu um boltann og Mané jafnar, hann fagnar með því að sýna Old Trafford töluna sex.

Rétt fyrir hlé fellir Shaw Salah í teignum og Salah skorar úr vítinu. Á 76. mínútu brýtur Maguire illa á Hendo fyrir utan teiginn og fær sitt annað gula spjald og Trent skorar beint úr aukaspyrnunni. Að lokum sendir Alisson boltann úr teignum, boltinn skoppar fyrir framan teiginn og Firmino vippar boltanum yfir De Gea í fyrstu snerting. Já þetta algjörlega hvernig leikurinn fer og það er ekki alls búin að horfa á þetta myndband fimm sinnum í dag.

13 Comments

  1. Sælir félagar

    Það er málið eins og Ingimar bendir á að ekki skiptir öllu hver staða liðanna er í deildinni í leikjum Liverpool og MU. Þetta verður alltaf stríð og bæði lið þola ekki að tapa þessum leikjum og bæði lið vilja vinna þá. Því verður spurning um uppleggið hjá stjórunum. Ég spái að MU muni ekki leggjast í skotgrafirnar í upphafi leiks. Þeir munu reyna að koma Klopp og félögum á óvart og ráðast á Liverpool frá fyrstu mínútu. Ef þeim tekst að skora á fyrstu 15 – 20 mín. munu þeir leggja strætónum og reyna að halda fengnum hlut eða allavega stiginu.

    Voandi verður Klopp viðbúinn þessu en MU hafa alltaf legið til baka og treyst á skyndisóknir með Rasford eldsnöggan frammi. Verði okkar menn viðbúnir þessu og breika svo hratt á dýrasta varnarmann veraldar þá vinnst þessi leikur ca. 1 – 3. En ef menn láta taka sig í bólinu getur farið illa. Ef hinsvegar MU leggst strax í skotgrafirnar og treysta á skyndisóknir verður þetta auðveldur 0 – 2 eða 1 – 3 sigur. Min spá; 1 – 3 og allir glaðir.

    Það er nú þannig

    YNWA

    6
  2. Málið er að okkar menn eru orðnir það góðir að við stjórnum ollum leikjum annað en fyrir þremur árum þegar við vorum besta skyndisoknarlid heims. Það mun henta United að liggja til baka og þeir eru núna svona skyndisóknarlið eins og við vorum. Ég myndi helst vilja að við reyndum að láta þá hafa boltann soldið og sækja hratt en þetta verður alltaf þannig að okkar menn verða 65-70 prósent með boltannn eins og United vill hafa það.

    Maður er alltaf skíthræddur við þessa leiki sérstaklega a old Trafford og ef ég man rétt hefur Klopp ekki enn unnið þar en komin tími til. Sigur á morgun yrði rísa statement en til að ná sigri þarf allt að ganga upp gersamlega ALLT.

    EG ætla að spá 2-3 í rosalegum leik þar sem Salah heldur áfram að bæta felagsmet með að skora í morgum leikjum í röð og setur tvö annað úr víti já ótrúlegt en við fáum viti a old Trafford. Svo skorar Arnold eitt úr aukaspyrnu. Maður liggur allavega á bæn og vonar það besta. Það yrði gott bil að eiga 7 stig á þá eftir ekki fleiri leiki en þetta.

      • Alveg rétt Daníel hvernig gat ég verið búin að gleyma því. Takk fyrir að leiðrétta mig 🙂

        2
      • Afsakið mig samt, þetta var í maí, upphaflega átti leikurinn að fara fram fyrr en var frestað út af dottlu.

  3. Þetta er aldrei að fara svona. Allison tekur vítið og siðasta markið verður skalli frá Dijk.

    Að því slepptu mikið djö vildi ég hafa þennan Torres á milli Salah og Manè.

  4. Núna finnst mér í fyrsta skipti í langan tíma verið að tala um að Liverpool sé betri lið, spili betur, betri liðsheild. Flestir tala United niður, núna er möguleiki hjá þeim að snúa öllu við. Liverpool vinnur þetta 1-2, Salah skorar bæði.

    2
  5. Sæl og blessuð.

    Þetta verður gríðarlega erfitt:

    1. MU breytti leikstíl í leikhléi gegn Atalanta og unnu seinni hálfleik 3-0. þeir koma með aukið sjálfstraust og vita að þeir eiga alltaf von.
    2. Sama með þessa leiki sem Liverpool hefur verið að missa niður. Það gefur andstæðingum alltaf von – ólíkt því sem var þegar vörnin hélt hreinu leik eftir leik.
    3. Þeir verða agressívir og grimmir frá fyrsta flauti og við þurfum að spila afar skynsamlega.
    4. Þessir leikir geta enda í ógnarjafnvægi – þar sem hvorugu liði tekst að brjóta niður vörn hinna.
    5. Ole er vanur að sprikla í snörunni þegar öll sund virðast lokuð – hann einhvern veginn nær að druslast til að ná stigum.

    Spái 2-2.

    2
  6. Kvöldið

    Annað hvort ömurlegt 1-1 jafntefli þar sem mark mu verður vafasamt eða auðveldur 1-4 sigur,
    vonast eftir (og reikna með) seinni spánni.

    YNWA

    2
  7. Þessi leikir eru oftast ekki fallegir með fullt af misstökum og stressi í gangi hjá báðum liðum.

    Ég vill sjá Milner byrja í þessum leik með Fabinho/Henderson. Í svona stórleikjum þá þurfum við karakter sem er hægt að treysta á og ég veit ekki hvað við myndum fá hjá Keita eða hvort að Jones sé orðinn 100% heill í þetta verkefni.
    Maður veit alltaf hvað maður fær frá Milner en það er dugnaður og kraftur en það er lykil í svona leik. Svo ef við lendum undir er hægt að setja Keita til að skapa meira og ef við erum yfir þá er óþarfi að skipta honum af velli enda vinnusamur og sterkur varnarlega.

    YNWA – spái 1-1

    2
  8. 1-3. Alveg sama hver skorar og alveg sama hvernig leikurinn verður. Vil bara sigur!

    YNWA!

    2
  9. ég er alveg skíthræddur að við tôpum þessum leik 3 -1 og sala meiðist og verður frá í 4 mánuði og timabil búið.

    1
  10. Hjartað er farið að slá örlítið hraðar. Þetta verður ekki auðveldur sigur nema fyrir mu, þeir koma með rétt spennustig vegna áhorfenda. Vonandi mun Liverpool gera það líka, og þá eru stálin stinn og læðist að mér sá grunur að þessi leikur muni vinnast á einstaklings verkum í stað heildar. Ég vona að salah sýni ronna að hans tími með kórónu sé liðinn.
    Æi, ég veit ekkert hvað ég er að rugla. Koma svo.

Spennandi þróun á miðsvæðinu

Liðið gegn United