Spennandi þróun á miðsvæðinu

Lengi hafa verið vangaveltur hvernig hægt væri að þróa miðsvæðið hjá Liverpool og fá meiri ógn þaðan. Frá því Klopp tók við hefur miðjan hjá Liverpool meira verið skipuð þremur iðnaðarmönnum sem vinna stóran part skítverkanna fyrir listamennina í öðrum stöðum. Miðjan hjá Liverpool hefur hleypt Alexander-Arnold og Robertson svo framarlega að þeir hafa verið meira kantmenn en bakverðir undanfarin ár.

Kaupin á Fabinho leystu margra ára vandræði í stöðu varnartengiliðs og þegar fyrirliðinn er leikfær spilar hann jafnan, hvort sem það er aftast eða í sínu box-to-box hlutverki. Gini Wijnaldum var jafnan sá sem stóð útaf, hans hlutverk var það sem mögulega væri hægt að fá meira útúr sóknarlega og Liverpool hefur sannarlega reynt að breyta liðinu í þá átt sem við erum kannski loksins farin að sjá núna.  Kaup á Ox, Keita og Thiago eru allt leikmannakaup sem voru bein samkeppni um stöðu við Wijnaldum en máltækið um að availability is the best ability felldi þá alla. Það og auðvitað frábært gengi Liverpool sem var ekki að neinum litlum parti Wijnaldum að þakka. Wijnaldum hefur öll ár Klopp hjá Liverpool spilað langmest á miðjunni af öllum miðjumönnum liðsins.

Ef að hann hefði ekki farið í sumar efast ég ekki um að hann hefði líklega byrjað alla átta fyrstu leiki tímabilsins og guð minn góður hvað hann saknar líklega Liverpool miðað við hvernig honum gengur í Frakklandi. En úr því að Wijnaldum er farinn er áhugavert að sjá hvernig miðjan hefur verið hjá Liverpool fyrstu tvo mánuði tímabilsins. Þrátt fyrir töluvert mikið af meiðslum hefur Liverpool ekki saknað hans eins mikið og hann líklega Liverpool.

Eina ástæðan fyrir því að Harvey Elliott er ekki í byrjunarliðinu lengur eru meiðslin gegn Leeds. Curtis Jones hefur stigið vel inn aftur í hans fjarveru og virðist hvað helst vera í samkeppni við Keita núna um stöðu fremsta miðjumanns. Thiago hefur reyndar bara spilað tvo leiki og aðeins einn með Fabinho og Henderson.

Meiðsli á miðsvæðinu það sem af er þessu tímabili eru farin að minna á vörnina á síðasta tímabili en samt er alltaf alvöru sóknartengiliður á miðjunni, stundum jafnvel tveir. Þetta er breyting frá undanförnum árum, engin ofurbylting en engu að síður þó nokkuð og við sjáum ágætlega áherslubreytingar í leik liðsins.

Hlutverk Henderson virðist hafa breyst töluvert miðað við fyrstu leiki tímabilsins og meira ætlast til af honum sóknarlega. Við höfum séð nokkuð augljósa vaxtaverki varnarlega en á móti er Liverpool liðið að skora þrjú mörk að meðaltali í leik það sem af er móti og jafnan að skapa færi fyrir önnur þrjú í hverjum leik. Pressan á Alexander-Arnold og Robertson hefur eins minnkað sóknarlega.

Liverpool er búið að skora 22 mörk í 8 umferðum það sem af er þessu tímabili og 33 mörk alls með Meistaradeildarleikjunum, það gera þrjú mörk að meðaltali. Samt eru inni í þessu viðureignir við Man City, Chelsea og Atletico Madrid úti.

Á móti hefur liðið fengið á sig 6 mörk í deildinni og þrjú af þeim gegn Brentford, 0,75 að meðaltali í leik sem væru um 28 mörk yfir heilt tímabil sem væri þokkalega ásættanlegt.

Alls hefur liðið fengið á sig 11 mörk í deild og Meistaradeild eða eitt mark að meðaltali í leik, eitthvað sem má bæta.

Markatalan að meðaltali það sem af er tímabili er því 3-1 fyrir Liverpool og má liðið fá á sig eins mörg mörk og þeir vilja í vetur svo lengi sem þeir halda áfram að skora alltaf tveimur mörkum meira.

2020

Síðasta tímabil er alls ekki gott ár til að miða við en gleymum ekki að Liverpool byrjaði tímabilið ekkert hræðilega og var raunar á toppnum um áramótin (og besta lið deildarinnar síðustu tíu umferðirnar). Það var bara þessi kafli þar sem nánast allt liðið var í meiðslum og/eða að spila úr stöðu sem hjólin duttu af.

Svona var miðjan hjá Liverpool í fyrstu átta umferðum tímabilsins:

Vissulega nokkuð sóknarsinnað miðað við tímabilið í heild en þarna eru a.m.k. fjórir leikir með þar sem Fabinho var að spila sem miðvörður sem opnaði leið fyrir t.d. Naby Keita. Thiago náði nánast ekki leik fyrir Liverpool fyrir áramót reyndar, stóru leikmannakaupin það tímabilið og hörkubæting á sóknarleik miðsvæðisins.

Liðið skoraði 18 mörk í deildinni sem er fjórum mörkum minna en núna (2,2 mörk að meðaltali) en á móti fékk Liverpool á sig 16 mörk (2 mörk að meðaltali) sem er 10 mörkum meira en núna (takk Aston Villa!)

Þetta er breyting á markahlutfalli upp á 14 mörk í aðeins átta leikjum sem er ansi magnað. Liverpool var að skora 1,8 mörk að meðaltali í leik yfir allt síðasta tímabil en fá á sig 1,1 mark að meðaltali.

Liverpool var með 17 stig eftir átta umferðir á síðasta tímabili sem er stigi minna en núna en það er himinn og haf á milli frammistaða liðsins núna miðað við upphafi síðasta tímabils. Ef að við berum hinsvegar saman sömu leiki á síðasta tímabili og Liverpool hefur spilað núna náði Liverpool aðeins í 11 stig.

Liverpool hefur varla náð að spila tvo leiki í röð án þess að missa a.m.k. einn miðjumann í meiðsli, landsleikjaverkefni eða fjarveru af persónulegum ástæðum. Það er í raun engin stöðugleiki komin á nýja útgáfu á Liverpool miðjunni og Klopp langt í frá búinn að slípa leik liðsins saman. Elliott er þar fyrir utan nýfæddur og Jones er aðeins tvítugur sjálfur. Þetta er ansi spennandi.

Salah, Mané, Firmino og Jota virka allir helmingi ferskari en á síðasta tímabili en kröftug byrjun þeirra núna er klárlega að hluta til vegna þess að miðjan er að skapa töluvert meira pláss á síðasta þriðjungi vallarins en undanfarin ár. Cover fyrir bakverði og miðverði hefur á móti oft virkað minna og mögulega er það að hluta til fórnarkostnaður sem Klopp er tilbúinn að taka og eins að hluta til þar sem hann hefur engan veginn náð að slípa miðsvæðið saman eftir brottför Gini Wijnaldum. Hvað Henderson og Jones voru t.a.m. að gera lengst uppi á vellinum í stöðunni 2-1 gegn Man City er dæmi um game management sem liðið þarf að bæta til að standa sig betur í að sjá út leiki. Brentford leikurinn var annað dæmi sem liðið þarf að læra af og laga varnarlega.

Tímabilið er rétt að byrja og þetta er langt í frá fullkomið, Liverpool er samt í öðru sæti; stigi frá toppsætinu í deildinni og svo gott sem komið áfram í Meistaradeildinni. Sóknarleikurinn hefur ekki verið svona spennandi síðan 2017/18.

5 Comments

 1. Sælir félagar

  Takk fyrir þessa yfirferð Einar gaman að henni. Það sem er merkilegt við leik liðsins núna að mínu mati er aðvörnin sem er fullskipuð er að leka anzi mörgum mörkum. Það kemur heim og saman við það sem Virgil segir um sjálfan sig að hann eigi nokkuð langt í land með að ná fyrri styrk. Eins hefur Matip verið að gera mistök sem hafa ekki alltaf komið að sök því leikir hafa unnist þrátt fyrir það – eða amk. ekki tapast?

  Þessi pæling með miðjuna er áhugaverð og verður áhugavert að sjá hvað aðrir sófaspekingar segja um hana. Sjálfur veit ég ekki alveg en það er ljóst að liðið hefur lekið einstaka sinnum of mörgum mörkum (Brentford, M.City, A.Madrid) að því að mér finnst. Sumir hafa sagt að Keita hafi ekki skilað sínu í mörkum AM og Einar minnist á Jones og Hendo í M.City leiknum. Einnig má minnast á Matip í Brentford leiknum þar sem hann skildi TAA tvisvar einan eftir með tvo eða þrjá sóknarmenn. Ég veit það ekki en ef Virgillinn er ekki nema 75% (?!?) í lagi þá skýrir það auðvitað mikið.

  Það er nú þannig

  YNWA

  3
 2. Takk fyrir þessa fróðlegu yfirferð. Styrkleiki Liverpool er einmitt á þessu tímabili hve vel hefur tekist að leysa úr meiðsla og fjarveruvandamálum leikmanna með miklum sóma. Stórklúbbur eins og Liverpool þarf að vera með backup í allar stöður (eða leikmenn sem getur leyst margar stöður) til að komast vel frá rosalega erfiðum keppnistímabilinu eins og alltaf eru á Englandi. Eins og berlega kom í ljós sl vetur þá var erfitt ef backup var líka meitt svo taka þurfti aðalmenn, eða backup menn, úr öðrum stöðum. Það vatt upp á sig eins og sást þegar besti djúpi miðjumaðurinn þurfti að fara í hafsent og þar með voru, má segja, tvær stöður veikari en fyrir. Menn nýtast sárasjaldan best fyrir liðið á öðrum stað en á sínum aðalstað alveg sama hvað þeir standa sig vel í nýju stöðunni. Vissulega til undantekningar á því eins og við höfum séð.
  Meiðsli Elliott eru vissulega áfall fyrir liðið en auðvitað hefði svona ungur leikmaður ekki getað leyst eina miðjumannsstöðuna nema að hluta til í vetur. Maður hefði getað séð Jones og Elliott saman leysa eina stöðu vel. Auðvelt er að stúta ungum leikmönnum með alltof miklu leikjaálagi fyrir tvítugt. Enn er í fersku minni Owen sem gat ekkert af viti við 25 ára aldur eftir endalausa ofkeyrslu fyrir tvítugt.
  Staðan í deildinni núna er fróðleg og einmitt ekki síst mikilvægt að tapa ekki fyrir liðunum sem eru í keppni við okkar lið. Jafntefli geta verið dýrmæt þegar upp er staðið og ekki bara eina stigið sem kemur í hús og heldur líka stigið eina sem hitt liðið fær í stað þriggja. Núna í vetur eru komin 2 stig gegn Chelsea og MC í tveimur leikjum. Verst að innbyrðis staða þessara þriggja er núna MC 4 st, Liverpool 2 st, Chelsea 1 st. Til að lenda ekki undir í keppni þessarar þriggja þarf sigur í amk öðrum leiknum sem eftir er. Veit ekki hvort hægt er að telja MU með í hópi þeirra bestu en etv koma Spurs og MU þarna einhversstaðar á eftir hinum.

  2
 3. Mér sýnist við geta látið bara Thiago fara og látið Salah hafa launin hans og þá er Salah komin með 400 a viku ef það er erfitt að semja við Salah vegna þess að Thiago því miður er bara ekki að spila rassgat. Er bara pirraður að sjá hvað hann spilar miklu minna en maður heldur. Algjör unun að horfa á þennan leikmann en maðurinn spilar nánast ekki neitt og Keita í gegnum tíðina bara svipað dæmi. Allavega mun ég ekki hlusta á neina afsökun frá okkar monnum ef þeir láta Salah fara af því hann vildi svo há laun og við ekki til í að borga þau. Erum með of mikið af farþegum á alltof háum launum því miður.

  En auðvitað á bara að semja við Salah og okkar menn deyja ekkert þótt það þurfi 400 þús pund á viku. Liðið er að skila hagnaði og eyðir nánast engu nettó í leikmenn svo það er bara galið ef við ætlum ekki að ganga frá samningi við Salah bara sem allra fyrst.

  8
 4. Það er þónokkur eðlismunur á meiðslum miðjumanna okkar hingað til á þessu tímabili og meiðslum miðvarða okkar í fyrra. Matip, Gomez og Van Dijk lentu allir í alvarlegum meiðslum og Fabinho var líka úti stóran hluta af tímabilinu.

  Þrír – miðverðir og Fabinho var einfaldlega ekki nægjanlega mikil breidd.

  Sá eini sem hefur lent í virkilega alvarlegum meiðslum af miðjumönnum okkar Elliot. Meiðli annarra miðjumanna eru sem betur fer þess eðlis að þeir gætu mögulega spilað næstu leiki.

  Um miðjustöðuna eru 8 leikmenn að berjast um 3 stöður á vellinum. Það er ágætis breidd í samanburði við miðvarðarstöðuna í fyrra.

  En ef Liverpool missir einhverja miðjumenn t.d í jóla álaginu í meiðsli gæti staðan verið allt önnur en ég held að breiddin sé fín á miðjunni í samanburði við önnur stórlið.

  4
 5. Jæja Salah í viðtali við ský sport og segir allt það rétta, hann vill klára ferilinn með Liverpool og sér sig alls ekki spila gegn okkar monnum og það myndi gera hann mjög sorgmæddan. Hann segir líka að þetta velti á félaginu sem þýðir að hann vill verulega launahækkun sem hann á auðvitað bara skilið. En þegar maðurinn talar svona þá bara hljóta menn að komast að samkomulagi ég bara trúi ekki öðru 🙂

  Er allavega bjartsýnni núna en fyrir þetta viðtal.

  2

Atletico 2-3 Liverpool

Upphitun: Heimsókn á heimavöll erkifjendanna