Upphitun: Liverpool heimsækir Watford

Á laugardaginn kl 11.30 fáum við loks deildina aftur og fylgjumst með Liverpool heimsækja Watford á Vicarage Road. Það væri hægt að fara í gegnum fornsögu og kúltúr Watford liðsins hér en því hefur verið gerð verulega góð skil í eldri upphitunum (sjá t.d. hér). En í stuttu máli er það sem skiptir okkur máli í sögulegu samhengi að við fengum John Barnes þaðan. Það skiptir líka máli að Heiðar Helguson var mikilvægur hlekkur í liðinu um árabil, og skoraði 55 mörk fyrir þá í 174 leikjum á árinum 1999-2005. Og að sjálfsögðu skiptir máli að Sir Elton John var stjórnarformaður, hluthafi og örlagavaldur fyrir liðið. Fornsögukennslu er hér með lokið.

Samtímasagan

Af samtímasögu Watford er stóra málið nýi stjórinn þeirra, en þeir eru nýlega búnir að reka Xisco Munoz og ráða inn öldunginn og reynsluboltann Claudio Ranieri (sem verður sjötugur í næstu viku). Þetta verður fyrsti leikurinn hans sem stjóri Watford. Stóra spurningin fyrir Watford snýst um það hvað Ranieri getur gert með þetta lið. Menn töldu það vera töfra þegar hann gerði Leicester að meisturum 2016, en hann tók reyndar við alveg þokkalegu búi þar. Þeir voru með Vardy, Mahrez, Kante og Smeichel í markinu, og til viðbótar voru flestar stöður þokkalega mannaðar með leikmönnum í fínu formi. Það má þó vissulega alls ekki gera lítið úr þessu mikla afreki. Hann tók svo síðar við Fulham þar sem menn vonuðust eftir svipuðum töfrum. Það fór nú ekki eins vel, en þar voru engin markverð gæði til staðar og liðið í tómum vandræðum og engin leið að snúa þeirri skútu. En hvaða liði er hann að taka við hjá Watford? Það eru vissulega prýðilegir leikmenn þar, og ber þar helst að nefna Ismalia Sarr, Danny Rose, Kiko Femenia og Emmanuel Dennis. En því miður fyrir liðið er miðjan að mestu leyti gömul og stirð, og vörnin frekar slök, og liðið situr verðskuldað í 15. sæti, með 7 stig eftir 7 leiki. Það er því vandséð að Ranieri geti töfrað nein ósköp. Það má þó reikna með að liðið verði einhverju skárra þegar Ranieri hefur náð að setja sitt mark á það.

Spáin

Hér er spáin, en hún er í mörgum liðum því það er að mörgu að hyggja.

Grunntölfræðin

Fyrir þennan leik er ýmislegt hægt að telja til. Liðin hafa mæst 14 sinnum í Úrvalsdeildinni, og þar af hefur Liverpool sigrað 10 sinnum, Watford hafa sigrað 3 sinnum, og einu sinni var jafntefli. Við höfum skorað 35 mörk í þessum leikjum, en Watford 13. Átta sinnum höfum við haldið hreinu, en Watford hafa þrisvar haldið hreinu. Úr því að við höfum skorað að meðaltali 2,5 mörk í leikjunum og Watford 0,9 mörk gætum við auðveldlega spáð því að við sigrum 1-3 (námundum upp því þriðja markið verður skoðað í VAR og svo samþykkt). En í leikjunum milli liðanna er algengara en ekki að Liverpool haldi hreinu. Svo við skulum bara toga spána niður um 1 mark hjá Watford, og segja 0-3.  

En hvernig erum við búnir að vera að spila?

En jú, hvað er Liverpool búið að vera að bralla í síðustu leikjum? Við getum ekki komist yfir í leikjum án þess að leyfa hinu liðinu að jafna skömmu síðar. Sama hversu sterkur eða veikur andstæðingurinn er. Ég ætla því að buffa upp markatölu Watford aftur, þeir ná pottþétt að jafna a.m.k. tvisvar. Ég ætla því að breyta spánni í 2-3.

En hvernig er Watford að spila?

Það má þó líka skoða að Watford er aðeins búið að skora 7 mörk í deildinni hingað til. Að meðaltali 1 mark í leik. Er þá ekki frekar hæpið að þeir fjölgi mörkunum um næstum 30% á móti okkur? Jú, það er ósennilegt, drögum eitt mark frá þeim aftur, 1-3 verða lokatölur.

Er eitthvað annað í gangi hjá Watford?

En hvað var að ske hjá Watford? Jú, þeir voru að skipta um stjóra. Þetta verður því örugglega hættulegur leikur fyrir okkur, og alveg pottþétt að leikmenn Watford gíra sig upp til að sýna sig og sanna fyrir nýja stjóranum. Það mun þó springa framan í Watford, sem verða of æstir og fá á sig spjöld, gera mistök og við bætum einu marki við hjá okkur. Eins og staðan er í dag í deildinni, þá er leikmaður Watford með flest spjöld allra (Emmanuel Dennis með 4). Við segjum því 1-4. Liverpool er of stór biti til þess að einhver æsingur hjálpi þeim eitthvað.

Er eitthvað annað að trufla Liverpool?

Enn eigum við eftir að skoða það að við eigum í basli með að stilla upp okkar besta liði. Það er óljóst hvort Trent verði 100% heill og tilbúinn í byrjunarliðið, Jota er í svipuðum sporum, Thiago er enn að kljást við sín meiðsli, við erum með brasilíska landsliðsmenn sem eiga í tómu basli með að komast heim í tæka tíð eftir landsleiki. Við verðum því örugglega án Becker og Fabinho nema lögfræðideildin sýni kænsku og galdri þá heim á nokkrum mínútum án sóttkvíar. Liverpool verður því ekki með sitt sterkasta allra lið, og er sennilega ekki enn með á hreinu hvernig best verður að stilla liðinu upp. Það hjálpar ekki, en gæðin og breiddin í okkar liði er miklu meiri en hjá Watford og þetta mun því ekki skemma fyrir okkur leikinn.

Um breiddina og gæðin og lokalokaspá

Í öllum keppnum tímabilsins hafa  aðeins 4 leikmenn hjá Watford skorað alls 9 mörk, og er Sarr með næstum helming markanna. Hjá Liverpool hafa 10 leikmenn skorað mörk á tímabilinu. Ég ætla því að standa við lokaspá mína, 1-4. Salah með 2, Mané með 1 og Dijk með 1. Við setjum eitt í viðbót sem verður dæmt af í einhverju VAR ævintýri. Það er líka mikilvægt að klára þennan leik eftir að hafa glatað 4 stigum í síðustu tveimur leikjum. Leikir okkar helstu keppinauta eru þægilegir á pappírunum og því áríðandi að klára leikinn og verja stöðu okkar við toppinn.

Að lokum. Voruð þið búin að sjá þegar Elton John grætti James Hetfield?

YNWA

9 Comments

 1. Takk fyrir skemmtilegan pistil.
  Við vinnum þetta reyndar 0-2, með mörkum frá Salah og Salah.

  5
 2. Sælir Drengir,

  Hvar er best að kaupa miða á liverpool leiki í meistaradeildinni ?

  1
 3. Spá um lið.
  Kelleher – Trent, Van Dijk, Matip, Andy – Henderson, Milner, Ox – Mane, Firmino, Salah.

  Þetta verður krefjandi leikur.
  C.Ranieri hefur aðeins tapað 1 af síðustu 8 fyrstu leikjunum sínum með lið( já, hann er duglegur að skipta).
  Liverpool hefur aðeins unnið 2 af síðustu 6 hádegisleikjunum sínum og flestir hafa verið gegn minni spámönnum.
  Það vantar Fabinho, Thiago, Elliott og Jones inn á miðsvæðið og Keita var að spila slatta í þessum landsleikjarglugga. Það vantar svo Alisson í markið.
  Watford slátruðu okkur 3-0 síðast þegar við mættum á þennan völl.

  Mín spá 1-2 sigur í hörkuleik. Salah og Van Dijk með mörkin.

  3
  • Mig dauðlangar að sjá Tsimikas spila í staðinn fyrir Andy Robertson. Hann er með frábærar hornspyrnur, miklu betri en Andy, og það gæti þýtt dýrmætt mark.

   Get hinsvegar ekki sagt að ég fírist neitt upp yfir hugmyndinni um Ox á miðsvæðinu. Hans tankur er búinn að vera galtómur lengi. Held að Keïta sé betri kostur, bæði þrusugóður pressari og vel heitur eftir landsliðsspilamennsku í hléinu.

   3
   • Ég vill líka frekar Keita en hann var að spila slatta og ef Ox fær ekki þennan leik þá er þetta búið hjá honum.

    2
  • Gæti trúað að Trent byrji á bekknum þar sem hann er að koma úr meiðslum og lið gæti litið svona út.
   Kelleher
   Milner – Matip – Van Dijk – Robertsson
   OX – Henderson – Keita
   Salah – Firmino – Mané

   2
   • Svo má ekki gleyma miðjumanninum Tyler Morton (verður 19 eftir nokkra daga) sem kom inná í hálfleik á móti Norwich í Carabao Cup og stóð sig með mikilli prýði. Kannski kemur hans tími bráðum?

    2
   • Ég yrði reyndar ekkert mjög hissa þó við sæjum Tyler Morton á bekk á morgun.

    2
 4. Jæja, landsleikjahléið búið og enn eina ferðina kemur það illa út fyrir okkur. Nú vegna þess að mönnum er meinað að spila og svosem viðbót, eða áframhald, á meiðslalistanum. Vona þó sannarlega að þetta sé ekki uppskrift af einhverjum hörmungum. Meiðslin eru strax farin að bíta þó tímabilið sé varla byrjað svo nú reynir heldur betur á hvort hausinn á mönnum sé rétt skrúfaður á og lappir líka. Ekki er minna áhyggjuefni hvernig menn hafa komið til baka úr meiðslum, annaðhvort áfram hálfmeiddir eða alls ekki í réttu formi og lengi að komast í gírinn (Hendo, Robbo svo einhverjir séu nefndir). En það verður að halda í alla jákvæðnina fyrir framhaldið og byrja á Watford. Mér nægir alveg 1-0 sigur og jafnvel þó markið komi í uppbótartíma. Mane setur hann með hausnum eftir fyrirgjafasnuddu frá Salah.

  3

Bikarkeppnin hefst hjá kvennaliðinu – Aston Villa mæta í heimsókn

Byrjunarliðið klár: Milner, Keita og Hendo á miðjunni