Bikarkeppnin hefst hjá kvennaliðinu – Aston Villa mæta í heimsókn

Þá er komið að fyrsta bikarleik kvennaliðsins á þessari leiktíð, í Continental Cup nánar tiltekið. Þar er fyrirkomulagið á þá leið að fyrst er keppt í 4 riðlum, og sigurvegarar riðlanna mætast svo í útsláttakeppni. Það er aðeins eitt úrvalsdeildarlið í riðli með okkar konum, en það eru einmitt Aston Villa sem eru að mæta á Prenton Park í kvöld.

Liðið sem mætir Villa ber þess merki að það er aðeins verið að rótera:

Foster

Roberts – Matthews – Moore

Parry – Bailey – Bo Salah – Hinds

Humphrey – Walters – Lawley

Bekkur: Startup, Wardlaw, Robe, Kiernan, Furness, Hodson, Holland, Daniels, Silcock

Lucy Parry er held ég að byrja sinn fyrsta leik fyrir klúbbinn, en hún er jú sú yngsta til að spila fyrir kvennaliðið frá upphafi. Það er gott að sjá að Ashley Hodson virðist hafa sloppið það vel frá meiðslunum sem hún varð fyrir í lok leiksins gegn Sheffield að hún er leikfær og er á bekk.

Leikurinn er sýndur á helstu streymisveitum LFC, og við uppfærum færsluna síðar í kvöld með úrslitunum.


Leik lokið með 1-1 jafntefli í venjulegum leiktíma, og í þessari keppni geta liðin krækt í aukastig með því að vinna vítakeppni ef leikurinn endar með jafntefli, og það var akkúrat það sem okkar konur gerðu. Villa skoruðu mark strax á 2. mínútu eftir að hafa unnið boltann eftir hornspyrnu. Eftir það lágu Villa konur mjög til baka, og færin voru flest hjá þeim rauðklæddu. Lawley hefði alveg mátt fá dæmda vítaspyrnu þegar hún féll í teignum á 35. mínútu, en fékk ekki. Í hálfleik komu Leighanne Robe og Yana Daniels inn fyrir Jasmine Matthews og Taylor Hinds, og þar sem Jasmine Matthews hafði byrjað leikinn með fyrirliðabandið var það Missy Bo Kearns sem tók við því, og er þar með líklega með yngstu fyrirliðum sem kvennaliðið hefur haft. Um miðjan síðari hálfleik komu svo Leanne Kiernan og Ashley Hodson inná, og Kiernan var varla búin að snerta boltann þegar hún skoraði með glæsilegu áhlaupi. Liverpool var svo líklegra frekar en Villa til að bæta við marki, en staðan eftir venjulegan leiktíma 1-1. Það þýðir að hvort lið um sig fær eitt stig, en svo er hægt að næla í annað stig með því að vinna vítakeppni. Rylee Foster varði fyrsta vítið glæsilega, en eftir það var skorað úr öllum vítum (Jade Bailey, Ceri Holland, Yana Daniels, Leighanne Robe og Ashley Hodson fyrir okkar konur).

Það neikvæða við leikinn var að Leanne Kiernan þurfti að fara af velli nokkrum mínútum eftir að hafa skorað, og eins þurfti Meikayla Moore að harka af sér síðustu mínúturnar. Vonum að þær komi fljótt til baka. Jákvæðu hlutirnir eru hins vegar fjölmargir. Lucy Parry var mjög öflug í hægri vængbakverði og á örugglega eftir að fá fleiri mínútur í framtíðinni. Liðið var í heild sinni að spila mjög vel og var í reynd betra liðið á vellinum, sem er jákvætt í ljósi þess að Villa eru í dag úrvalsdeildarlið. Þá er einnig mjög jákvætt að liðið er komið á svolítið “run” með 6 leiki sem hafa annaðhvort unnist eða endað með jafntefli.

Nú þarf að bíða til loka október eftir næsta leik hjá liðinu, svo taka við allmargir leikir í röð (þar á meðal mikilvægur útileikur gegn Durham), en svo kemur aftur u.þ.b. mánaðarpása sem er furðuleg leikjaniðurröðun. Við vonum bara að þær sem nú fara í landsliðsverkefni (t.d. bæði Bo Kearns og Taylor Hinds fyrir U23 lið Englands) komi heilar til baka, og liðið haldi sama dampi þegar næsta törn hefst.

Ein athugasemd

 1. Frábært að fá fréttir af kvennaliðinu.
  Verð að koma inná eitt varðandi landsleikinn í upphafi viku.
  Ætlaði að fara í sjoppu í hálfleik sýnarstúkumegin. Þar voru tveir guttar úr Þrótti að sörvera kaffi og hrópa til skiptis ,,næsti” og ,,það eru ekki til pizzur, það eru ekki til pizzur”. Þetta er umgjörðin á leik Íslands, algjörlega ömuleg. Leikdagsupplifunin er glötuð.
  Þau vissu alveg hvað var búið að selja mikið af miðum, nóg pláss að bæta við borðum og setja upp fleiri sjoppur.
  Mikið hlakka ég til að fara á Anfield.
  YNWA

  3

Gullkastið – Klopp í sex ár og nýtt Olíufélag

Upphitun: Liverpool heimsækir Watford