Kvennaliðið heimsækir Coventry

Það er nóg að gera í dag: stórleikur hjá karlaliðinu síðar í dag, en áður en að honum kemur mæta stelpurnar okkar á heimavöll Coventry og freista þess að krækja í 3 stig.

Það komu fréttir af því í vikunni að það væri búið að ráða yfirmann knattspyrnumála hjá kvennaliði Liverpool, og sá sem varð fyrir valinu heitir Russ Fraser, og kemur þráðbeint úr sambærilegri stöðu hjá Leicester sem náðu einmitt að krækja sér í sæti í efstu deild í vor. Leicester eru reyndar nú þegar búin að útnefna eftirmann hans, og það er enginn annar en Emile Heskey.

En nóg um það, leikurinn (eða leikirnir) á eftir er það sem máli skiptir, og svona ætlar Matt Beard að stilla upp:

Laws

Moore – Robe – Matthews

Wardlaw – Kearns – Holland – Hinds

Kiernan – Hodson – Lawley

Bekkur: Startup, Roberts, Fahey, Bailey, Furness, Humphrey, Walters, Parry, Daniels

Semsagt, sama uppstilling eins og í síðasta leik, enda gekk það ljómandi vel. Rylee Foster er veik og er því ekki á bekk, svo Katie Startup fær sæti á bekk í fyrsta sinn. Meg Campbell er ennþá að ná sér af meiðslum, og mun ekki sjást á næstunni.

Leikurinn er sýndur á The FA Player, og við uppfærum færsluna með úrslitum síðar í dag.


Leik lokið með 0-2 sigri hjá stelpunum okkar. Leikurinn var í járnum framan af, en um miðjan fyrri hálfleik var Kiernan sloppin í gegn og varnarmaður Coventry reif hana niður. Rautt spjald og það sem eftir lifði leiks litaðist eðlilega af þessu spjaldi (sem var mjög verðskuldað BTW). Það var þó ekki fyrr en í síðari hálfleik að okkar konur náðu að brjóta ísinn, en þá náði Rachel Furness að stinga sér inn vinstra megin við vítateig Coventry, gaf lága sendingu inn að markteig þar sem Leanne Kiernan var mætt, henti sér niður og skallaði örugglega framhjá markverði Coventry sem hafði fram að þessu bjargað því sem bjargað varð fyrir sitt lið. Nokkrum mínútum síðar bætti téð Leanne við öðru marki, Leighanne Robe fékk þá að bera boltann úr vörninni óáreitt í áttina að vítateig andstæðinganna, gaf stungusendingu inn á Kiernan sem sneri markvörðinn snyrtilega af sér og renndi boltanum í autt markið. Fleiri urðu mörkin ekki í þetta skiptið.

Næst er það þá stórleikur gegn Sheffield, en þær náðu aðeins 0-0 jafntefli gegn Palace fyrr í dag og þessi tvö lið eru því jöfn með 10 stig fyrir þennan leik. Þar munu okkar konur mæta ansi mörgum kunnuglegum andlitum, en meira um það um næstu helgi.

Upphitun: heimsókn frá Manchester

Byrjunarliðið gegn Man City