Liverpool 3 – 0 Crystal Palace

1-0 Sadio Mane 43′

2-0 Mohamed Salah 67′

3-0 Naby Keita 89′

Það þurfti ekkert að suða í stuðningsfólki Liverpool að fjölmenna á Anfield til að sjá okkar menn taka á móti Crystal Palace. Völlurinn troðfullur af fólki sem fílar fótbolta og stemmningin frábær. Byrjunarliðið var svolítið óhefðbundið hjá Klopp, en vegna veikinda var Trent ekki í hópnum, og Matip fékk hvíld, og Robertson byrjaði ekki á vellinum. Við sáum því menn eins og Tsimikas, Konate og Milner í byrjunarliðinu. Palace hefur verið á fínni siglingu og var með vindur með þeim eftir stórflottan heimasigur gegn Tottenham síðustu helgi, og því var alveg sanngjarnt að hafa smá áhyggjur af því hvort vörnin gæti staðið sig gegn þeim. En hvernig rúllaði þetta allt saman?

Framvinda leiksins

Palace voru mjög ferskir framan af eins og við mátti búast og fengu fyrstu færi leiksins. En eftir fyrstu fimm mínúturnar og allan þann hasar sem fylgdi þeim, þá tók Liverpool völdin. Þrátt fyrir völdin gekk illa að klára sóknirnar. Jota fékk ágætt færi á 9. mínútu eftir harðfylgi Mane og Tsimikas, Henderson fékk frábært færi þegar hann tók viðstöðulaust skot af stuttu færi eftir frábæra sendingu frá Mane á 15. mínútu, en glæsileg markvarsla hélt leiknum markalausum. Leikurinn datt niður í logn nokkrum sinnum, á milli þess sem Liverpool setti í yfirgír og þrýsti óhugnanlega að Crystal Palace. Á 30. til 34. mínútu fengu Thiago, Salah og Jota allir þokkalegustu færi til að skora og manni fannst fyrsta markið liggja í loftinu. Alveg þangað til Jota klúðraði besta færi liðsins á þessu tímabili þar sem hann fékk upplagt færi til að skora. Færið fékk hann eftir frábæran skalla Thiago eftir fyrirgjöf Henderson. Þá fór maður að hugsa hvort þetta væri einn af „þessum“ leikjum. En 5 mínútum síðar fengum við hornspyrnu, Tsimikas sendi frá vinstri á kollinn á Salah sem átti góðan skalla sem Guatia varði, en Mane mætti í frákastið og hamraði boltanum í netið. 1-0 í hálfleik. Seinni hálfleikur fór rólega af stað og fátt var um fína drætti. Á 62. mínútu fór Thiago meiddur út af og inn á völlinn kom Keita. Crystal Palace gerði svo tvöfalda skiptingu á 65. mínútu þegar Benteke fór útaf fyrir Edouard og McArthur fór útaf fyrir Riedewald. Það munaði svo ákaflega litlu að Palace jafnaði leikinn þegar Edouard fékk frábæra sendingu inn fyrir og algjört dauðafæri, en fyrsta snertingin hans sveik hann og Allison tók af honum boltann. Eftir þetta kom dauft tímabil, hálfkæringur hjá okkar mönnum og slappar sendingar, og við gáfum dómaranum auðveldar ákvarðanir til að spjalda okkur. Jota, sem gekk illa að gera sig gagnlegan í sókninni, fór út af á 76. mínútu og Curtis Jones kom inn á og spilaði fyrstu mínúturnar sínar í deildinni á tímabilinu. Kannski var það þessi skipting sem gerði gæfumuninn, en 2 mínútum síðar skoruðum við aftur eftir hornspyrnu Tsimikas, en nú framlengdi Van Dijk sendinguna á Salah sem skoraði auðveldlega á fjærstöngina, og sótti sér gult spjald fyrir erótísk fagnaðarlæti þegar hann klæddi sig úr að ofan. Leikmenn Palace reyndu að koma til baka en voru aldrei mjög líklegir til að setja hann. Að lokum fengum við enn eina hornspyrnuna sem skilaði marki, en að þessu sinni kýldi Guatia boltann út úr teignum þar sem Keita beið og hamraði boltann óverjandi viðstöðulaust hægra megin í markið. Frábært mark, 3-0 á 89. mínútu og þannig endaði leikurinn.

Tölfræðin

Liverpool var með 10 skot á markið gegn 2. Var með 8 gegn 5 í skotum sem ekki voru á rammann. Var 61% tímans með boltann og 10 hornspyrnur gegn 5. Það var því ekki tilviljun að stigin 3 enduðu hjá okkur. Mikilvægasta tölfræðin er samt sennilega sú að þetta var þriðja gula spjald Salah sem leikmaður Liverpool, og alltaf er það vegna þessarar óheppilegu strípihneigðar sem grípur hann einstaka sinnum. Önnur sniðug tölfræði er að við áttum 10 hornspyrnur, og 30% þeirra leiddu til marka. Það er hressandi. Hvað ætli Trent geri í því?

Maður leiksins

Þetta er svolítið snúið, en ég held ég útnefni liðsheildina sem mann leiksins. Það var enginn sem bar af, en liðsheildin gerði Palace erfitt fyrir. Það var búist við að við gætum lent í vandræðum varnarlega á einstaka stöðum, en liðsheildin bætti fyrir það og kom í veg fyrir að það gæti orðið skaðlegt fyrir okkur í leiknum. Milner leit ekki illa út þrátt fyrir að eiga erfiðan og sprækan mótherja í Zaha, Konate var stressaður í þessum leik, en liðheildin bakkaði hann alltaf upp. Mörkin dreifðust vel yfir leikmannahópinn, og hættuleg færi litu dagsins ljós eftir fyrirgjafir frá hægri og vinstri.

Ekki svo frábær dagur

Ætli það verði ekki að nefna Jota hér. Honum gekk bölvanlega að gera sig gagnlegan í sókninni, og það var sársaukafullt að sjá hann klikka á dauðafæri dagsins. Honum gekk illa að sinna sínu aðalhlutverki, en var samt sem áður duglegur og vann fyrir liðið af fremsta megni. Fyrir skömmu síðan var Mane sóknarmaðurinn okkar sem gat ekki skorað eða gert neitt af viti, en á andartaki er hann búinn að gera 2 mörk í tveimur deildarleikjum. Jota verður þessi gaur innan skamms. Ég legg til að hann fái frí einn leik eða svo (eins og Robertson og Matip), og fái tækifæri til að mæta ferskur. Það gerðist líka einstaka sinnum, kannski fyrirsjáanlega, að stressið í Konate varð að sóknartækifærum fyrir Palace. En aftur að liðsheildinni, hún skákaði þessum veikleikum dagsins. Mörkin okkar komu þá bara með öðrum leiðum, og liðsfélagar hlupu í skarðið og björguðu málum.

Að lokum

Það eru komnar 5 umferðir, erum með 13 stig af 15. Búnir að skora 12 mörk og fá á okkur 1. Þetta er nokkuð traust. En það truflar mikið að meiðsli skulu helst þyrpast saman á sömu svæðin okkar. Nú er það miðjan sem meiðist og möguleikarnir á að koma á óvart, rótera eða hvíla leikmenn takmarkast. Það er því alveg grábölvað að sjá Thiago fara meiddan útaf, og maður vonar innilega að þetta sé minniháttar marblettur. En yfirleitt er mönnum ekki skipt útaf vegna svoleiðis. Það má samt vona.

Þar til næst. Sem verður á móti Norwich á þriðjudaginn.

YNWA

29 Comments

 1. Nýi maðurinn að standa sig vel.

  Markalaust á Emptyhad.

  Samning á Salah

  Góður dagur.

  17
 2. Frabær leikur og nu er kalt a toppnum eftir skemmtileg urslit i Manchester ???

  11
 3. Dásemdar lið. Greinilega prýðileg breidd. Og Salah, besti leikmaður í heimi. Og Virgil van Dijk, besti leikmaður í heimi líka.

  Fyrst og fremst góð liðsheild hjá Klopp. Besta manager í heimi.

  18
  • Akkúrat. Þjalfunarhæfnin hjá Klopp er einstök og þetta er engin tilviljun.

 4. Sæl og blessuð.

  Þetta var geggjaður sigur gegn frábærum andstæðingi. Þvílíkur munur að sjá cp og Viera er sannarlega á réttri leið.

  Þrjú afrísk mörk og öll eftir hornspyrnur. Dásemd að sjá Keita skora og Origi gæti hafa bjargað marki. Hann var ekki burðugur í skyndisókninni en maður er glaður þegar hann gerir gagn.

  Mané maður leiksins ásamt Salah og Alisson. Þvílíkt að halda hreinu á móti þessu ógnarsterka liði.

  6
 5. Það er kannski extra sætt við þennan sigur að hann var ekki auðveldur, Palace voru góðir allan leikinn og létu okkur virkilega hafa fyrir sigrinum. Alisson með stórleik í markinu.

  8
 6. Vá! Ef þetta er ekki statement um að við eigum stórkostlegt lið þá veit ég ekki hvað!

  Hlakka til að heyra í næsta hlaðvarpi og svo hlakka ég gríðarlega mikið til næstu leikja líka. Við erum frábær og njótum þess.

  YNWA!

  7
 7. Sælir félagar

  Ég spáði rétt fyrir þennan leik og það var gott. Ég var hinsvegar fjallstressaður á meðan leiknum stóð því hann var hunderfiður og Viera að gera góða hluti með liðið sem Hodgeson var langt kominn með að eyðileggja. Liverpool nottla betra liðið en Palace átti sín augnablik og var oft ógnandi. Salah, Alisson, Tsimikas og Mané beztir, vörnin býsna þétt og hafði stundum nóg að gera en Jota olli mér enn og aftur vonbrigðum. Hann virkar þreyttur og kraftlaus og missir einbeitingu. Þarf greinilega hvíld.

  Það er nú þannig

  YNWA

  5
  • Jota vonbrigði enn og aftur? Maðurinn hefur verið frábær þetta tímabil. Hann hefur leikið betur en hann var allt annað en kraftlaus í dag, sívinnandi og góður í pressunni en tók Firmino hlutverk sitt full bókstaflega í dag með að klúðra fyrir opnu marki.

   21
 8. Góður leikur hjá okkar mönnum. Við sáum berlega í þessum leik að breidd liðsins er mikil og gæði eru að finna allsstaðar í liðinu. VIð erum klárlega líklegir í meistarabaráttunni og fjarri því að vera síðri hinum stórliðinum. Enda er þetta nánast sami hópurinn og varð Englandsmeistari og velflestir á hátindi ferlisins.

  Það sem mér finnst visst eðalvandamál er að ég á mjög oft að finna út hver er besti leikmaður liðsins. Kostkas heillaði mig í fyrri hálfleik, innkoma Keita var nokkuð glæsileg og Henderson fór fyrir liðinu með einlægri baráttugleði, Alison ver heimsklassavörlsur jafn auðveldlega og venjulegur maður andar að sér hlýrri golu í sunnudagsgöngutúr og Mane og Salah eru alltaf jafn ógnvekjandi fyrir önnur lið og víkingar á berserkjasveppum. Konatei kom vel út í sínum fyrsta leik og Van Dijk stendur alltaf fyrir sínu.

  En þetta var góður leikur hjá liðinu okkar sem verður klárlega í baráttunni um titilinn í vetur. Það er augljóst.
  YNWA

  10
 9. Þetta var mjög erfiður leikur en þeir sem sáu hann ekki halda líklega að þetta hafi verið algjört formsatriði. Palace var allan tíman líklegir til að skemma þennan dag fyrir okkur og fengu færi og gerðu okkur lífið leitt. Það var engin tilviljun að þeir unnu Tottenham 3-0 í síðasta leik.

  Við vorum lengi vel ekki nógu beitir og varnarlega vorum við í vandræðum með færslur þar sem Palace komst aftur og aftur í stöðuna 1 á 1 og virkuðu hættulegir en við kláruðum þetta án þess að eiga virkilegan góðan leik heldur var þetta bara ágæt framistaða en ekki meira en það.

  Alisson frábær í markinu.
  Tsiminkas var í smá vandræðum varnlega en átti ágætan leik.
  Milner var mjög flottur í dag og tók virkan þátt í sóknarleiknum og virtist vera út um allt á tímabili( hann er engin Trent samt í sendingum en það eru líka fáir)
  Van Dijk eins og kóngur þarna
  Konate virkaði smá stressaður til að byrja með og var smá hikandi en vann sig inn í leikinn og átti solid leik,
  Fabinho átti Fabinho leik = góður
  Thiago var að standa sig áður en hann fór meiddur af velli.
  Henderson var á fullu allan leikinn og átti góðan leik en maður sér að við erum ekki alveg eins hættulegir sóknarlega hægra megin þegar það vantar Elliott (með Salah/Trent).
  Mane átti mjög góðan leik. Skoraði fínt mark og það gaf honum sjálfstraust en hann fór oft illa með varnarmenn gestana.
  Salah var ekki áberandi framan af en svo þegar hann komst meira í boltan þá fór hann í gang. Flott mark hjá honum.
  Jota – Þetta er pínu áhyggju efni en hann var bara ekki góður í dag og þarf hann að gera betur sérstaklega þegar Firmino er ekki til staðar. Hverning hann klúðraði þessu færi í dag er ráðgáta.

  Keita – kom sterkur inn og skoraði geggjað mark.
  Jones – annan leikinn í röð virkar hann sprækur eftir að hafa komið inn á og byrjar líklega í deildarbikarnum á þriðjudaginn.
  Origi – fékk nokkrar mín í restina.

  Andy og Matip fengu góðu hvíld, Elliott lengi frá, Firmino meiddur, Trent veikur, Thiago fór meiddur af velli en samt náum við að halda þessu gangandi og náðum í 3 flott stig.

  YNWA – geggjað að sjá Liverpool á toppnum ( ég veit að lokastaðan er sú sem gildir en það er samt aldrei slæmur tími til að vera á toppnum)

  7
 10. Milner hversu góður var hann í dag vá.
  Skiptir ekki máli hvar hann er leysir allt vel!

  YNWA

  13
 11. Ian Wright var nokkuð wright í greiningu sinni á leiknum. Palace byrjuðu hratt og hefðu þeir náð að klína einum, hvað veit maður. Alltaf vissir maður þó að okkar lið myndi þá bara koma þrefalt til baka. Þetta er upplegg nánast allra liða gegn LFC. Klína einum og pakka svo. Bara risaliðin þora á móti okkur og oftast tökum við þau.

  Þetta lítur vel út. Pressan hefur afskrifað okkur af því að við bættum ekki við eins og hin liðin. En þvílíkur mannskapur og þvílíkt hjarta. Held að fólk sé að átta sig. Þetta Liverpool lið er fáránlega gott.

  5
 12. Ali og Salah menn leiksins, en Tsimikas fær verðlaun dagsins fyrir sínar þrusu hornspyrnur. Komu ekki amk. tvö mörk úr þeim? Nú má Robbo vara sig.

  4
 13. Nú eru Hendó og Keïta laglega búnir að gefa tóninn í síðustu tveimur leikjum þannig að ég heimta keppni í vetur um klínur-utanaf-velli mörk!

  12
  • Já, takk! Við megum alveg skora fleiri mörk fyrir utan boxið.

   3
 14. Sigur er sigur og það er fyrir mestu. Samt eru alltaf einhverjar spurningar og vangaveltur sem má velta upp
  …Jota?? formið eða hvað
  …miðjumenn að spila sig í gang
  …kveið ekki neinu við að sjá Milner í bakverði, bara traustvekjandi
  …aukin breidd í hægri bakvarðastöðunni
  …miðvarðavandræðin úr sögunni í bili
  …staðan hjá Phillips. Lykilmaður í endurreisninni sl vetur. Ekki búin að spila eina mínútu í haust. Er sennilega nr 5 í goggunarröðinni. Hlýtur að hugsa sér til hreyfings um áramót
  …vonandi verður enginn meiddur eftir þennan leik
  …Origi já Origi hann er enn til

  6
 15. Góður sigur i dag…held að Klopp sé að nota hópinn mun betur i ár en hann hefur gert með þvi að rótera liðinu á milli leikja….sumir vilja ekki breyta sigurliði á milli leikja en það er ekki hægt í því leikjaálagi sem boðið er uppá….það sem gladdi mig mest í leiknum i dag var mark Naby Keita þessi gæi uppá sitt besta gerir svo mikið fyrir okkur….YNWA

  9
 16. Sá enginn breytinguna á leiknum eftir að curtis Jones kom inná?

  Palace menn dómineruðu svo á ca 10 mín áður en hann kom inná og svo datt allt í dúna lögn.

  5
  • Við gerðum jú að vísu mark tveimur mínútum eftir að hann kom inná. gæði liðsins felast ekki síst í því að þega innáskifting á sér stað þá er hún ekki einungis til að gera skiftingu, halda stöðunni eða til að breyta leiknum og það gerði Jones pg við erum sjálfsagt sammála um það að við vonum að við fáum að sjá meira af honum í næstu leikjum. Takk fyrir öll stigin og þessi leikur var aldrei ódýr stig fyrir okkur.

   1
 17. Að gera 3 breytingar í vön og halda hreinu, segir bara allt um liðið okkar. Liðsheildin skóp þennan sigur, en gefum Milner stórt Læk., Zaha átti mjög bágt.

  8
 18. Fimm umferðir búnar og Liverpool og Chelski með nákvæmlega sömu úrslit í öllum umferðum 🙂 Mér finnst það nokkuð gott! 🙂

  • Hvað með að breyta nafninu í Atletico Liverpool? Þá værum við alltaf á réttum stað á toppnum.

   #stafrófið

   3
 19. Thiago meiddur núna á kálfa hvað er alltaf í gangi með þetta lið og meiðsli.
  Fer allavega styttast í Firmino..en þetta er samt óþolandi að geta aldrei verið með heilan hóp í meira en 1 leik.

  1
 20. Einmitt með meiðslin. Var að vona að menn hefðu sloppið en það gerðist ekki. Einn í hverjum leik frá byrjun tímabils??? Martraðir síðustu ára virðast vera að byrja.

  1

Byrjunarliðið gegn Crystal Palace

Bikarleikur gegn Norwich