Liverpool 3 – 2 AC Milan

1-0 Tomori 9′ (sjálfsmark)

1-1 Rebic 42′

1-2 Diaz 44′

2-2 Salah 49′

3-2 Henderson 69′

Það var undarlegur leikurinn sem átti sér stað á Anfield í kvöld þegar Liverpool vann 3-2 sigur á Milan. Leikurinn hófst með gríðarlegum yfirburðum Liverpool sem pressuðu hátt og áttu Milan menn í miklum erfiðleikum að halda boltanum innan liðsins. Það var Divok Origi sem átti fyrsta tækifæri leiksins þegar hann setti boltann framhjá eftir góða fyrirgjöf frá Robertson, næstu mínútur voru svo algjör einstefna að hálfu Liverpool. Á níundu mínútu spilaði Trent þríhyrningsspil við Salah og reyndi svo fyrirgjöf sem breytti stefnu af Fikayo Tomori og framhjá markmanni Milan og boltinn endaði í netinu 1-0 fyrir Liverpool.

Á fjórtándu mínútu fengu Liverpool svo víti þegar varnarmaður Milan fékk boltann í hendina en aldrei þessu vant lét Salah verja frá sér af vítapuntkinum og í kjölfarið varði Maignan, markmaður Milan, frákastið frá Jota en þá höfðu Liverpool átt 13 marktilraunir á fyrstu 15 mínútum leiksins og stefndi allt í auðvelt kvöld fyrir rauðliða á heimavelli.

Eftir slaka byrjun og mikið stress fóru Milan að drepa leikinn. Öll föst leikatriði tóku óratíma og það tókst hjá þeim því það hægðist mikið á tempóinu í leiknum og Ítalirnir fóru að komast betur inn í leikinn. Næstu tuttugu mínútur yrðu frekar leiðinlegar áður en Rafael Leao náði að finna Ante Rebic aleinan inn fyrir vörn Liverpool, en hann var spilaður réttstæður af Joe Gomez, sem renndi boltanum framhjá Alisson í markinu og jafnaði leikinn á 42. mínútu.

Markið var mikið sjokk enda aðeins önnur marktilraun Milan í leiknum en menn höfðu ekki mikinn tíma til að jafna sig því aðeins níutíu sekúntum síðar var boltinn aftur í netinu. Leao átti þá gott hlaup, lagði boltann á Rebic sem fann Hernandez sem átti skot sem Robertson bjargaði á línu en Díaz fygldi á eftir og kom Milan yfir.

Ótrúlegur hálfleikur þar sem Liverpool var undir þrátt fyrir að hafa spilað hreint út sagt ótrúlega fyrsta korterið og haldið síðan völdunum í leiknum svo komu tvær mínútur af algjöru einbeitingaleysi og Milan stal forustunni.

Martöðin virtist ætla að halda áfram, stöð tvö voru aðeins of seinir að byrja útsendinguna í seinni hálfleik og það fyrsta sem maður sá þegar hún loks hófst var Simon Kjær að skora en sem betur fer var hann rangstæður og markið taldi því ekki.

Mínútu síðar var það svo Divok Origi, sem fékk óvænt að byrja leikinn, sem fann Salah í smá svæði inn í teig þar sem Salah lyfti boltanum yfir Maignan í marki Milan og jafnaði leikinn 2-2.

Það var svo fyrirliðinn sem lokaði leiknum á 69 mínútu eftir hornspyrnu frá Trent sem var skölluð frá beint á Henderson sem tók skotið í fyrsta, hitti boltann svona hrikalega vel og skoraði stórglæsilegt Gerrard-legt mark.

Bestu menn Liverpool

Undarlegur leikur þar sem flestir spiluðu mjög vel en samt eitthvað hægt að setja út á alla. Salah skorar og leggur upp en klúðraði víti, Fabinho og Henderson flottir á miðjunni en miðsvæðið var alltof opið í báðum mörkum Milan. Báðir bakverðirnir áttu mjög góðan leik.

Vondur dagur

Joe Gomez spilaði sinn fyrsta leik í langan tíma og klikkar á rangstöðulínunni í báðum mörkum Milan en þó jákvætt að það braut hann ekki og hann óx inn í leikinn í seinni hálfleik en vill líklega gleyma þessari endurkomu sinni sem fyrst. Sérstaklega núna þar sem hann er með tvö stórkostlega miðverði á undan sér í goggunarröðinni og annan mjög efnilegan rétt á eftir honum með svona frammistöðu verður hann fjótur að verða fjórði kostur í stöðu þar sem er ekki róterað mikið.

Umræðupunktar

  • 3 stig í hús og Porto og Atletico gerðu jafntefli í hinum leiknum í riðlinum svo eins og er erum við á toppnum í dauðariðlinum.
  • James Milner kom inn með mikla reynslu til að drepa leikinn undir lokinn. Ekki við öðru að búast af honum en hann leysti sitt hlutverk mjög vel í kvöld.
  • Færanýtingin okkar í byrjun tímabils hefur verið arfaslök og var nánast búinn að kosta okkur leikinn í kvöld. Þetta verður að lagast getum ekki búist við því að fá 25-30 marktækifæri í hverjum einasta leik.
  • Evrópukvöld á Anfield með stuðningsmenn á vellinum er ótrúlegt fyrirbæri og það var svo ánægulegt að horfa á leikinn í kvöld og hlusta á stemminguna á vellinum. Það fer að verða þreytt að minnast á þetta en guð minn almáttugur hvað þetta er allt annað sport með fólk á vellinum.

Næsta verkefni er svo Crystal Palace á laugardaginn en þeir slátruðu Tottenham um síðustu helgi. Salah og Mané hafa hinsvegar mjög gaman að því að mæta Palace og vonandi skánar færa nýtingin okkar í þeim leik.

 

22 Comments

  1. Frábært að vinna úr því sem komið var, miklir yfirburðir en náðum ekki að nýta þá sem skildi, á meðan fékk Milan tvö færi og skoraði úr þeim báðum.
    Þó svo að ég hafi ekki verið ánægður með Keita og Gomes þá fengu þeir mikilvægar mínútur, sem og Origi. Hann getur alveg átt góða leiki, eins og við vitum öll.
    Við náðum líka að hvíla lykilmenn sem er frábært, enda Klopp sá besti !

    Áfram Liverpool, næsti leikur !

    2
  2. Þetta Ac Milan lið er bara flott lið og engir old boys ?. Liverpool liðið lítur samt hrikalega vel út og ef menn haldast heilir þá höldum við áfram að gera flotta hluti. Fyrir utan þessi mistök í vörninni, þá gerðum við það sem þurfti til að klára þennan leik. Enn og aftur var það Fabinho sem var bestur að mínu mati. YNWA.

    2
  3. Ég er bara orðlaus yfir þessu geggjaða liði okkar? Hafið þið einhvern tímann séð betur þjálfað lið… EVER?
    Ekki ég!!

    5
  4. Í kvöld ætla ég að taka hatt minn ofan fyrir Salah. Og Fabinho. Og Matip. Sjit hvað þeir eru góðir!

    6
      • Ég var semsagt að hugsa um hvar við værum í markaskoruninni núna ef Salah nyti ekki við. Fyrir utan það er hann líka drulluduglegur að verjast aftar á vellinum.

        1
  5. Í kvöld vorum við að sjá hvernig tímabilið 21/22 verður hjá okkur.

    Við vitum alveg hvernig vörn, og hvernig lið, við erum með þegar VVD er í liðinu. En hann mun ekki spila alla leiki, það væri galið að passa ekki upp á hann, og því mun tímabilið velta á því hvernig Matip/Konate/Gomez munu standa sig.

    Ég vill sjá fasta pörun á VVD/Matip, þangað til Matip meiðist næst, en þegar VVD er hvíldur, þá að sjöffla Matip/Konate/Gomez/Phillips til að finna einhvern takt á milli þeirra.

    2
  6. Skil ekki þessa neikvæðni út í Keita. Mér fannst hann bara spila ágætis Wijnaldum leik í kvöld. Origi átti sömuleiðis allt í lagi leik. Maður býst auðvitað ekki við miklu frá honum en hann hefur oft verið verri.

    Ég hafði smá áhyggjur af fyrirliðanum fyrir leikinn en hann sýndi í kvöld hann er tilbúinn í slaginn. Frábært sigurmark. Og Matip, er hann ekki búinn að spila allar mínútur á þessu tímabili?

    Frábær úrslit í kvöld og áfram sjáum við liðið spila af krafti. Góðir tímar.

    14
    • Keita var frábær fyrstu 25 mínúturnar, en síðan fór að draga af honum en í heildina átti hann sæmilegan leik.

      Þegar liðið lendir undir fara margir að leita að blórabögglum og hvað það varðar hefur Keita tekið við hlutverki Lucas Leiva.

      7
  7. Takk fyrir það. Sigurinn skiptir öllu máli og 3 stig. AC eru ekki neinur bjálfar og eru með hörkulið. Skil ekki þá sem voru að agnúast út í að VVD væri ekki í liðinu, ég segi hjúú eins gott að hann var ekki í liðinu. Hann verður að fá hvíld og óskastaðan væri að hann spilaði ekki meira en 35 leiki á tímabilinu. Ef allir eru heilir, sem virðist aldrei vera, þá eru amk 16-20 leikmenn sem geta skipt á milli sín leikjunum og verður að treysta þeim hóp.

    4
  8. Okkar menn sofnuðu aðeins síðustu 5-10 mín í fyrri enda búnir að vera með boltan í 40 mín þá og Milan komst ekki yfir miðju.

    Hef sjaldan séð svona yfirburði hjá neinu liði þetta var svakalegt og Liverpool áttu að vera búnir að skora fleiri mörk í fyrri. Fyrir utan lélega kaflan þarna í fyrri þá fannst manni Milan aldrei eiga break.

    Mér fannst Henderson frábær í þessum leik og markið það mikilvægasta.
    Þetta var skemmtilegur leikur og spennandi.

    YNWA

    5
    • Sammála með yfirburðina en veistu hvað? Ég beið eftir því að hinir myndu skora því við náðum ekki að slátra með 2-3 mörkum.

      3
      • Ég var líka einmitt með það á hreinu líka að við við fengjum á kjaftinn að hafa ekki nýtt færin okkar, við þekkjum okkar menn. En ég var líka ekki stressaður yfir því að við myndum ekki koma til baka í seinni hálfleik 🙂

        2
      • Já Svavar ég er þér fullkomnlega sammála en til allrar hamingju þá voru okkar menn ekki á þeim nótum.
        Þetta var þannig leikur maður vissi ekki í hvorn fótinn hvor ætti að stíga?

        2
  9. Sæl og blessuð.

    1. Hápressan í upphafi var geggjuð en klínískir framherjar hefðu raðað inn mörkum meðan á því skeiði stóð.
    2. Mílanómenn sáu ekki til sólar en þá urðu einhverjir rauðklæddir kærulausir með rosalegum afleiðingum. Það er pínu vandræðalegt að þeim skyldi verða svo mikið úr verki á þessum skamma tíma og þ.a.a. bæta við marki sem var blessunarlega dæmt af.
    3. Leikmenn okkar komu til baka og gerðu það sem gera þurfti. Það sýnir seigluna í okkar liði og er þáttur fyrirliðans í þeim efnum gríðarstór. Ég er efins um að svona hefði tekist til ef hans hefði ekki notið við.
    4. Hvernig sem á það er litið þá vantar Origi, Keita og Chambo mikið til að geta talist fullgildir liðsmenn. Það er eins og þeir hafi ekki spilað með þessu liði áður – kunna ekki á gangverkið eða hvað eina. Ég er ekki með tölur en mér fannst lítið koma út úr þessu hjá þeim.
    5. Ef við hefðum burstað þá – hefðum við farið inn í næsta leik með minni harðsperrur og eymsli en mögulega hefði það veitt falska öryggiskennd með fyrirsjáanlegum óförum.

    En það var gríðarlega gaman að fylgjast með og auðvitað flott að prospektin okkar (sjá #4) fengu að spreyta sig.

    Já og þessi harmkvæli sem koma stundum upp – um að ekki megi gagnrýna leikmenn eða hvað menn eru nú að tuða. Ég átta mig ekki á því. Erum við aðdáendur leikmanna eða liðs?

    2
  10. Gomez áhyggjuefni. Sást í leiknum hvað gerist þegar VVD er ekki til að halda í höndina á honum.

    2
    • þú komst þessari visku þinni að í síðasta umræðuþræði, og þó þú hafir ekkert annað að segja er vissulega er skynsamlegt að gulltryggja það að skilaboðin fari ekki framhjá lesendum.

      2
  11. Kom smá á óvart hvað Origi átti góðan dag. Vonandi hristir hann þessi meiðsli af sér og heldur þessu formi áfram.
    Matip var líka mjög góður og búinn að spila alla leiki liðisins hingað til. Maður sem náði ekki 3 leikjum í röð á síðasta tímabili án þess að meiðast. Sýnist hann líka vera komin með nýtt hlutverk í sóknarspili sem lofar góðu.

    Ég er enn að bíða eftir að Sadio fari að sýna sitt rétta form. Finnst hann ekki alveg með sjálfstraustið í þessum fyrstu leikjum. Það munar alveg um minna.

    Svo er líka ákveðin rómans að vera undir í hálfleik á móti AC Milan og eiga comeback í seinni.

    3
    • Já, óskandi að Matip haldist mikið heill í vetur. Hann er einn af bestu miðvörðum heims þegar hann er heill og upp á sitt besta. Skrýtið að hugsa um að breiddin aftast er hjá Liverpool ein sú besta í öllum liðum deildarinnar. Fyrr á árinu var hún lítil og voru það aðeins gæði þjálfarans sem náðu henni fram. Að ná að peppa þessa ungu og óreyndu stráka svona eins og hann gerði var eins konar kraftaverk. Núna erum við með fjóra stóra og sterka. Ef þeir haldast heilir og miðjan heldur og mögulega komi eitt skrímsli í sóknina í janúar, þá megum við eiga von á titilbaráttu fram í maí. Maður heyrir smá frá fótboltavinum sínum að þetta verð MC og Chelski, og svo kannski Udt, en er ekki þá bara fínt að vera underdogs með miklu betra lið en flestir gera sér grein fyrir? LFC er að minnsta kosti eitt af 6-7 bestu liðum heims í dag, sama hversu hin liðin hafa styrkt sig.

  12. Allir sem voru að gagnrýna Gomez. Hann var að spila sinn fyrsta byrjunarliðs leik í 11 mánuði eftir skelfileg meiðsli og hann fær AC Milan sem aðstæðing í alvöru leik.
    Það er óþarfi að hafa miklar áhyggjur byggðar bara á þessum eina leik en þegar kappinn er í leikæfingu þá er þetta hörku miðvörður eins og hann hefur margoft sýnt.

    Origi kom svo skemmtilega á óvart í gær en maður hélt að hans tími í Liverpool búning væri lokið en hann var að minnstakosti nothæfur sem er virkilega mikilvægt fyrir okkur þar sem Mane, Salah, Jota og Firmino(þegar hann kemur til baka) þurfa leiki í hvíld en Origi er samt á sölulista hjá okkur og gæti hann farið í janúar en vonandi þanngað til heldur hann áfram að vera nothæfur sem hækkar hans verðmiða.

    6

Byrjunarliðið gegn AC Milan

Upphitun: Crystal Palace mætir á Anfield