Upphitun fyrir Leeds

Fyrir stuðningsmenn liða í ensku deildinni er ekkert til sem heitir gott landsleikjahlé. En það eru til extra vond landsleikjahlé og þetta fyrsta landsleikjahlé vetrarins er alltaf vont. Liðin og stuðningsmenn eru rétt komin aftur í gang eftir sumarið og allt í einu er tveggja vikna pása, þar sem stuðningsmenn naga neglurnar yfir að einhver gæti meiðst í landsleik eða að Covid komi upp í landsliðshóp.

Það hjálpaði ekki að rétt fyrir lokun gluggans varð ljóst að Liverpool ætlaði ekki að styrkja sig frekar fyrr en í janúar í fyrsta lagi. Stemningin er búin að vægast sagt þung meðal stuðningsmanna. En eins og lagið fræga segir: „Við stormsenda er gylltur himinn.“ Deildin er að byrja aftur og nú fá Liverpool að spila í deildinni fyrir fullum Elland Road í fyrsta sinn síðan 2004. Þið fáið bara eitt gisk hvaða leikmaður Liverpool var í byrjunarliði Leeds í þeim leik.

Andstæðingurinn – Leeds.

Leeds sneru aftur í Úrvalsdeildina í fyrra eftir áratuga fjarveru. Ég er af þeirri kynslóð að ég hef aldrei borið Leeds neina kala. Þeir hafa ekkert getað síðan ég byrjaði að fylgjast með fótbolta og ég tengi þá aðallega við hressa stuðningsmenn á aldri við pabba sem hafa stutt liðið frá gullöld þeirra, í gegnum súrt og sætt (aðallega súrt) í áratugi.

Í fyrra urðu Leeds að uppáhalds liði hlutlausra. Bielsa lætur liðið spila bilaðan adrenalín bolta þar sem fóturinn er á bensíngjöfinni frá fyrstu mínútu og þangað til leik lýkur. Það kæmi manni ekki á óvart ef það fréttist að leikmenn Bielsa væru látnir taka spretti í hálfleik. Stuðningsmenn liðsins elska þenna stíl, þó leikirnir vinnist ekki alltaf eru þeir aldrei leiðinlegir. Í fyrra gerði liðið þrjú bara 0-0 jafntefli: Gegn Arsenal, United og Chelsa. Jómfrúartímabilið í efstu deild enduðu Leeds í níunda sæti, sem telst einfaldlega frábært.

En nú er annað árið og spurning hvort einhver þynnka sé komin í hópinn. Þeir væru svo sem ekki fyrsta liðið sem kemur upp með hvelli og lendir svo í basli (hæ Sheffield, bæ Sheffield). Leeds byrjuðu núverandi tímabil á algjörum martraðaleik, þegar erkifjendur þeirra í United tóku Leedsara í bakaríið. Síðan hafa þeir náð í tvö jafntefli, annað gegn Everton og hitt gegn Burnley. Þannig að þeir eru ekki en komnir með fyrsta sigurinn.

Leikir liðanna í fyrra voru afar mismunandi. Fyrir ári komu nýliðar Leeds á tóman Anfield um opnunarhelgi deildarinnar og töpuðu 3-4 í háspennuleik. Seinna um tímabilið heimsóttum við tóman Elland Road í miðju Super League ruglinu. Leedsarar fóru ekki í felur með skoðun þeirra á því máli, prentuðu boli með merki Meistaradeildarinnar og einföldum skilaboðum undir: „Earn it.“ Leedsurum fannst ekki nóg að vera í bolunum, heldur hengdu þá upp í búningsklefum Liverpool, sem var kannski full mikið af því góða. Leikurinn endaði svo 1-1.

Leeds fóru engum hamförum á leikmannamarkaðnum í sumar en styrktu sig. Jack Harrison var á láni hjá þeim í fyrra og er orðin að fullgildum leikmanni, vinstri bakvörðurinn Junior Firpo kom frá Barcelona. Stærstu kaupin voru kantmaðurinn Daniel James frá United. Hann kvittaði undir korter í landsleikjahlé og maður efar að hann verði í byrjunarliðinu en það væri ekki óvænt ef hann komi inn á undir lokin og fái að spreyta sig.

Okkar menn – Liverpool

Stærstu fréttirnar af Liverpool eru auðvitað að störukeppninni er lokið við FIFA. Fordæmið er þá komið, landslið geta ekki heimtað að leikmenn mæti í leiki sem valda tíu daga sóttkví. Spennan milli landsliða og félagsliða virðist vera að aukast nokkuð hratt eftir Covid og er þetta ekki síðasti slagurinn milli þeirra á næstu misserum.

Nú þegar fyrsta landsleikjahlé er búið byrjar alvaran fyrir þjálfara stórliðin. Handan við hornið bíður gamli risinn AC Milan eftir að heimsækja Anfield í fyrsta sinn. Nú er ekki hægt að velja besta liðið, það þarf að hugsa um leikinn eftir þrjá daga (og svo eftir þrjá-fjóra í viðbót og svo eftir nokkra eftir það).

Að því sögðu þá er Alisson sjálfvalinn í markið og eftir Trent og Van Dijk í vörnina. Vitandi hversu meiðslagjarn Matip er væri ekki neitt brjálað óvænt ef hann væri hvíldur fyrir Milan og Konate fái sinn fyrsta leik. Svo er vinstri bakvörðurinn bara orðin alvöru, góður, hausverkur. Tsimikas kom inn í upphafi tímabils og var frábær, en Robbo er miklu reyndari, en Robbo var ekki góður gegn Chelsea og það er styttra síðan Robertson spilaði 90 mínútur með Skotalandi, en þarf að spila Andy í gang fyrir Milan? Eins og ég sagði, hausverkur. Mín ágiskun er að Grikkinn byrji leikinn en verði tekin útaf eftir svona klukkutíma leik.

Miðjan er alltaf jafn erfið. Fabinho hlýtur að vera djúpi miðjumaðurinn en hverjir verða fyrir framan hann. Harvey Elliot hefur komið vel inn í liðið og gæti þess vegna komið inn í sóknina ef Salah á að fara upp á topp vegna meiðsla Firmino. Thiago var ekki valin í landslið þannig að hann er ferskur. Maður spyr sig hvernig Keita er í stemndur eftir „ævintýrið“ sem hann lenti í. Henderson er væntanlega ferskur eftir að hafa verið hvíldur á bekknum í landsleik Englands og Pólands. Miðað við orkuna í Leeds liðinu myndi ég vilja hafa fyrirliðann með. Svo held ég að Thiago verði með honum til að finna glufur á lekri vörn Leeds.

Bobby er því miður meiddur og Minamino líka. Sóknarlínan okkar virkar ansi þunn þessa daga. Ég held að Klopp setji Salah upp á topp og prufi Elliot á kantinum. Hugsunin að geta sett Jota inn til að sprengja upp ef þess þarf. Það gæti líka verið að Chamberlain komi óvænt inn.

Spá

Þetta verður heljarinnar markaleikur, allur í mark Leeds. Ég hef trú á okkar mönnum, þetta fer 4-0. Hendo skorar eitt, Salah tvö og svo er komin tími á eitt Van Dijk skallamark.

10 Comments

  1. Frábært að fá ómeiddu brassana inn, en nú kemur verulega í ljós hvað Liverpool er í raun sorglega þunnskipað fremst. Við verðum því og miður að búa við það, a.m.k. fram í Janúar. Eitthvað sem mér finnst alveg ófyrirgefanlegt.

    7
  2. Sælir félagar

    Takk fyrir flotta upphitun Ingimar. Það er ekki miklu við hana að bæta og úrslitaspáin 0 – 4 er aðlaðandi. Ég tel þó að Jota verði í níunni og Salah á sínum stað en Elliot fari á bekkinn. En er samt alveg á því að þín uppstilling geti verið rétt. Mín spá 1 – 3

    Það er nú þannig

    YNWA

    2
  3. Topp 6 þetta árið yrði frábært og það á að ganga eftir þurfum við að reyna að tapa ekki þessum leik. 1-1.

    2
  4. Það verður opinn og skemmtilegur leikur.

    Ég spái að Andy og Matip verða í varnarlínunni og Jota í liðinu en Elliott á bekknum því Thiago byrjar þennan leik með Hendo/Fab.

    2-3 sigur Liverpool. Salah, Mane og Matip með mörkin

    3
  5. Ég trúi nú ekki öðru en að Jota byrji inná. Hann er í frábæru formi og skorar alltaf eitt mark , með Portugal eða Liverpool.
    Það er strax byrjað að kvarnast úr liðinu hjá okkur og þar sem við máttum síst við því. Enn og aftur er fsg að skíta upp á bak í leikmannaglugganum. Origi er næsti maður inn og Maggi vinur minn er bara í hróplegu ósamræmi við sjálfan sig, vill Origi ekki nálægt hóp en ver samt fsg að kaupa ekki sóknarmann.
    Þunnur hópur hjá okkur og vonandi getum við tekið 3 stig á morgun því shitty,celski og scum líta of vel út fyrir minn smekk.

    5
  6. “Maður spyr sig hvernig Keita er í stemndur eftir „ævintýrið“ sem hann lenti í.”
    Ég er alveg tómur hér, hvað er verið að vísa í?

    • Það var framið valdarán þegar hann átti að spila landsleik heima og það skapaðist hættuástand fyrir liðið og eitthvað bras að ná honum úr landi.

      1
  7. Jæja ætla hvetja mína menn frá Tene sendi góða strauma þaðan skál félagar!

    YNWA

    1
  8. Fínasta upphitun. Eftir úrslit gærdagsins er ennþá mikilvægara að ná í þrjú stig. Þetta fer fljótt að snúast gegn FSG og kaupstefnunni ef og þegar Liverpool fer að tapa stigum.

    Ég held næði lið fari varlega í verkefnið. Mín spá er 0-1 sigur og Salah eða Jota með markið.

    Áfram Liverpool og áfram Klopp!!!

    2

Næsta leikjatörn

Liðið gegn Leeds