Næsta leikjatörn

Fyrsta lota á löngu tímabili fór ágætlega hjá Liverpool, sjö stig af níu er líklega nokkurnvegin það sem búist var við miðað við leikjaprógrammið þó vissulega hafi verið innistaða fyrir þessum tveimur stigum í viðbót.

Næsta lota er fram að næsta landsleikjahléi og nú fer þetta fyrst að byrja fyrir alvöru. Líklega höfum við töluvert betri hugmynd um hvert þetta tímabil stefnir í byrjun október eftir þessa törn. Liverpool er á pari við Chelsea og Man Utd núna og stigi á undan Man City, það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður eftir mánuð. Skoðum aðeins leikjaprógramm liðanna:

Man City

Þræl erfiður mánuður hjá Guardiola og hans mönnum sem byrja um helgina gegn Leicester liði úti sem Man City hefur ekkert alltaf liðið vel með. Leipzig í Meistaradeildinni er alvöru verkefni strax í kjölfarið. Síðasta vikan er svo Chelsea úti, PSG úti og Liverpool úti. Það er líklega bara ekki hægt að smíða mikið erfiðari viku í fótbolta. Ef að City fer frá þessu með fullt hús stiga er ekkert lið að fara stoppa þá í vetur.

Chelsea

Rússneska olíufélagið á ekki alveg jafn þungt prógram og það arabíska en alls ekkert auðvelt heldur. Villa og Zenit heima í þessari viku áður en þeir fara í nágrannaslaginn gegn toppliði Tottenham. Eftir það er svo næsti deildarleikur El Cashico og strax í kjölfarið Gamla konan frá Ítalíu á útivelli. Alvöru prógramm.

Man Utd

Rauðu Djöflarnir eiga langþægilegasta leikjaprógrammið framundan í þessum mánuði. Það er helst að West Ham úti gæti orðið þungur eða þá að Villa liðið hrökkvi í gang. Mjög gott leikjaprógramm fyrir Solskjaer að koma Ronaldo og Sancho í gang. Allt undir fullu húsi stiga í deild og Meistsaradeild yrðu vonbrigði fyrir United.

Liverpool

Núna förum við að sjá fyrir alvöru hvernig okkar menn koma stemmdir inn í þetta tímabil. Eftir þrjá mjög góða sigurleiki í fyrstu þremur umferðunum í fyrra gegn Leeds, Chelsea og Arsenal tapaði Liverpool 7-2 í fjórðu umferð gegn Aston Villa og var svo rænt sigrinum gegn Everton í næsta leik á eftir, leik sem var klárlega upphafið á endalokum tímabilsins. Við skulum vona að slíkt bull verði ekkert upp á teningnum í þessum næstu leikjum gegn Leeds og Palace. Fabinho var farinn að spila í miðverði strax í 2.umferð í fyrra vegna meiðsla Matip og Gomez, áður en þeir meiddust báðir fyrir alvöru. Thiago, Mané, Salah, Tsimikas og Trent fengu allir Covid með tilheyrandi fjarveru á einhverjum tímapunkti á fyrri hluta tímabilsins.

Næsti leikur er gegn Leeds sem skíttapaði fyrsta leiknum í vetur 5-1 en hafa náð í jafntefli eftir það gegn Everton og Burnley. Liverpool bara á að klára þá þó leikurinn sé á útivelli. Leeds náði jafntefli gegn Liverpool á Elland Road í fyrra með óþarfa jöfnunarmarki á 87.mínútu. Aðeins annað jafnteflið af tveimur á lokakafla tímabilsins þar sem Liverpool tapaði ekki leik í síðustu tíu leikjunum.

Þessi leikur féll reyndar nánast í skuggan af Super League fíaskóinu sem var þarna í algleymingi og féll það í skaut Liverpool að svara fyrstir fyrir það í fjölmiðlum eftir leik. Við vorum ekki einu sinni viss á þessum tímapunkti hvort það skipti nokkru einasta máli ef Liverpool næði Meistaradeildarsæti enda liðið þá búið að skrá sig úr þeirri keppni.

Varðandi leikinn sjálfan gegn Leeds er ágætt að taka með inn í jöfnuna að í þeim leik vantaði meðal annarra menn eins og Van Dijk, Matip, Henderson og Salah sem byrjaði á bekknum. Eins vantaði Fabinho inn á miðjuna.

Eftir Leeds leikinn er það svo Liverpool – AC Milan sem er mjög áhugavert einvígi sem Klopp verður að taka mjög alvarlega en á sama tíma hafa annað augað á næsta deildarleik helgina eftir. Jákvætt að báðir þessir leikir eru á heimavelli. Brentford og Porto úti eru bæði áhugaverðar viðureignir en allt saman er þetta bara upphitun fyrir síðasta leikinn fyrir landsleikjahlé.

Liverpool á ferðalag til Porto í vikunni fyrir City leikinn á meðan þeir fara til Paríasar sama dag. Jákvætt a.m.k. að City getur líklega ekkert hvílt af sínum bestu mönnum gegn Messi, Mbappe, Neymar, Wijnaldum og félögum.

12 stig úr þessum leikjum og Liverpool er í blússandi stöðu.

Best væri þó að ná að búa til smá bil milli Liverpool og City, Chelsea og helst líka Man Utd.

2 Comments

  1. Það er bara kominn tími að Thiago stigi upp að fari að sýna eitthvað.
    Keita er lost case og okkur vantar stjörnuna miðjuna

    1

Alisson og Fabinho í banni gegn Leeds?

Upphitun fyrir Leeds