Er Liverpool að verða næsta Arsenal?

Liverpool keypti loksins miðvörð í staðin fyrir Dejan Lovren einu ári of seint og tók Harvey Elliott inn í aðalliðshópinn í staðin fyrir Gini Wijnaldum og Shaqiri. Hvað kaup og sölur er þessi gluggi nálægt því að koma út á sléttu þó að félagið hafi vissulega fjárfest töluvert í þeim leikmönnum sem eru fyrir hjá félaginu með nýjum samningum. Þetta var það helsta á leikmannamarkaðnum og óhætt að fullyrða að við vörum öll að vonast eftir meiru en þetta.

Frá því að Liverpool vann Meistaradeildina árið 2019 er félagið í 16. sæti yfir nettó eyðslu enskra liða, rétt fyrir ofan Burnley og U18 ára lið Man Utd.

Vissulega jákvætt að félagið sé vel rekið og án þess að kaupa einn leikmann rústaði Liverpool ensku deildinni árið eftir Meistaradeildina. En öllu má nú ofgera og eftir þennan leikmannaglugga er maður kominn með töluverðar áhyggjur af endurnýjun liðsins næstu árin. Síðasta sumar og þar síðasta sumar hefði þurft að taka miklu betur til í hópnum fyrir utan byrjunarliðið og núna í sumar er spurning hvort ekki hefði þurft ein alvöru leikmannakaup sem styrkja liðið og eykur samkeppni til muna? Ekki síst í ljósi þess að þetta er að enda sem einn svakalegur leikmannagluggi og flest öll hin liðin búin að gera risaleikmannakaup sem styrkja þau til muna.

Að því sögðu held ég ennþá að núverandi hópur Liverpool sé töluvert vanmetin eftir áföll síðasta tímabils og sterkari á pappír en liðið sem vann deildina 2020. Með því að bera hóp Liverpool saman við helstu keppinautana finnst mér einnig blasa við að þau yrðu í svipuðum vandræðum ef ekki miklu verri með sömu meiðsli og Liverpool var að glíma við allt síðasta tímabil.

Það er enginn í núverandi leikmannahópi fyrir utan Milner á eftirlaunaaldri ennþá, enginn nálægt því satt að segja en það er helvíti hressileg áhætta að fara aftur inn í tímabil treystandi þetta mikið á Henderson, Keita, Ox, Matip og Gomez, leikmenn sem gætu vel tekið upp á því enn og aftur að meiðast allir á sama tíma.

Hópar liðanna að loknum leikmannaglugga sumarið 2021

Markmaður – Öll liðin sem við erum að spá titilbaráttu eru með gríðarlega góðan markmann, Liverpool líklega þann besta.

Vinstri bakvörður – Tisimikas hefur sýnt það í byrjun tímabilsins að hann er ekkert síðri varaskeifa en þeir sem hin liðin geta leitað til og með honum er auðvitað Milner sem hægt er að leita til í neyð. Ekki myndi maður svo skipta Robertson út fyrir neinn af hinum vinstri bakvörðum deildarinnar.

Miðverðir – Ekkert lið hefur styrkt sig eins mikið milli tímabila í neinni stöðu og Liverpool í miðvarðastöðunni. Liverpool er bókstaflega að skipta út samblöndu af Phillips, Williams, Kabak og Davies út fyrir Van Dijk, Matip, Gomez og Konate. Enginn af þessum fjórum spilaði mínútu árið 2021 á síðasta tímabili, ekki desember 2020 leikina heldur.

Með því hverfa líka Fabinho og Henderson í sínar bestu stöður og styrkja liðið ennfrekar. Þetta er miklu stærri breyting en Lukaku inn fyrir Abraham og Giroud hjá Chelsea, Grealish inn fyrir Aguero hjá City o.s.frv.

Konate snarlagar breiddina hjá Liverpool og ef í harðbakkann slær var að einhverjum ástæðum hent nýjum samningi í Nat Phillips sem verður þá áfram sem fimmti kostur.

Taktu Stones, Dias og Laporte úr þessu City liði rúmlega hálft tímabil og þeir finna vel fyrir því. Hvað þá United ef þú tekur Maguire, Varane og Lindelof út.  Chelsea er ekki með neitt mikið fleiri miðverði en þetta.

Hægri bakvörður – Líkt og í öðrum stöðum er byrjunarliðsmaðurinn hjá Liverpool ekkert vandamál en hér er breiddin ekki nógu góð. Neco Williams hefur a.m.k. ekki fengið tækifæri til að sýna það að hann geti þróast í byrjunarliðsbakvörð hjá Liverpool og fær það aldrei nema á kostnað Trent. Þannig komst Trent note bene í liðið sjálfur. Gomez er (enn sem komið er) einnig option en vonandi reynir aldrei á það.

Breiddin er ekkert mikið merkilegri hjá hinum liðunum sem öll eru með mjög góða byrjunarliðsmenn í þessari stöðu. Varamaður Walker hjá City t.a.m. er að spila vinstri bakvörð og fangelsun Mendy eykur ekkert breiddina hjá þeim.

Varnartengiliður – Við sáum það undir lok síðasta tímabils þar sem Liverpool vann átta leiki og gerði tvö jafntefli að mestu með Phillips og Williams í vörninni að Fabinho er jafnvel ennþá mikilvægari breyting á liðinu í ár m.v. liðið mest allt síðasta tímabil. Hann ætti núna að spila sína stöðu á miðjunni allt mótið. Hér mætti breiddin vera meiri hjá Liverpool en Henderson, Thiago og Milner þekkja það þó allir að spila aftast á miðjunni.

Miðjan – Henderson 31 árs þarf að eiga miklu betra tímabil núna en hann átti síðasta vetur. Thiago þarf sömuleiðis að sleppa miklu betur við meiðsli. Þetta er langmesta áhyggjuefnið fyrir mót. Það reyndi alveg rosalega á breiddina í þessari stöðu á síðasta tímabili og hún hélt alls ekki nógu vel.

Það hefur aldrei verið hægt að treysta neitt á Naby Keita eða Ox-Chamberlain. Ef það breytist eitthvað í vetur gæti það styrkt Liverpool meira en það missti í Gini Wijnaldum.

Stóra spurningamerkið er hinsvegar hversu góður Harvey Elliott verður og sömuleiðis Curtis Jones. Elliott er að klára 90 mínútur núna í fyrstu umferðunum og byrja á kostnað Thiago, Keita og Jones sem er töluvert langt umfram það sem við bjuggumst við og hefur alla burði til að vera kominn á allt annan stað í umræðunni um áramótin en hann er núna í upphafi tímabilsins. Klopp hefur áður gefið ungum leikmönnnum tækifæri og gert þá á mjög skömmum tíma að heimsklassa leikmönnum. Höfum í huga að það eru heil þrjú ár í að hann verði jafn gamall og Phil Foden er núna!

Curtis Jones mun sömuleiðis fá töluvert af mínútum þegar líður á tímabilið, hvað þá ef einhver skakkaföll verða byrjunarliðsmönnunum á miðjunni.

Fabinho og Henderson koma aftur 100% á miðsvæðið, Thiago er búinn að aðlagast og endaði síðasta tímabil frábærlega, Keita og Ox eru heilir og Elliott og Jones eru hugsaðir sem aðalliðsmenn núna. Þarna einhversstaðar eru mínúturnar sem Wijnaldum og Shaqiri spiluðu síðasta vetur.

Miðjan hjá Man City er frábær en þeir mega ekki við miklum áföllum hjá varnartengiliðunum. Fernandiho er alls ekki sama skrímsli og hann var. Grealish er hinsvegar svakaleg viðbót við hópinn sem var þegar mjög góður. Hvað hann breytir miklu hjá þeim er erfitt að segja, aðallega út af því að þeir voru það góðir fyrir.

Hópurinn hjá Chelsea er hinsvegar orðin fáránlegur í þessari stöðu með Saul Niguez í viðbót við það sem var fyrir.

Vængframherjar

Salah og Mané fóru a.m.k. ekkert í sumar og því engin ofurþörf á risakaupum í framlínuna. Mané á töluvert inni frá síðasta tímabili og báðir fengu góða hvíld fyrir þetta tímabil. Harvey Elliott er svo klár sem varaskeifa fyrir Salah og Jota getur leyst Mané af komi til þess.

Hjá Man City geta flestir spilað margar stöður en breiddin hjá þeim er töluvert minni án Harry Kane (eða réttara sagt án Aguero). Fram að áramótum munum við líklega sjá töluvert af Sterling eða Torres frammi.

Sancho snarbreytir sóknarógn Man Utd og koma Ronaldo færir Rashford og Martial líklega endanlega út á vængina. Mögulega Greenwood líka í einhverjum leikjum.

Hjá Chelsea verður Werner líklega mun oftar á vængnum en hann var í fyrra og líklega hentar það honum betur.

Frammherjar

Það er erfitt að bera saman fremstu sóknarmenn bestu liðanna því þeir hafa afskaplega ólík hlutverk hjá hverju liði fyrir sig. Bobby Firmino hefur komið ferskur inn í þetta tímabil sem er góðs viti (ef hann er ekki meiddur). Jota er svo góður kostur til vara og miðað við æfingaleikina í sumar er óþarfi að afskrifa Minamino alveg strax. Ef að hann fær séns til að sýna það gæti hann alveg komið inn í liðið líkt og Tsimikas hefur verið að gera. Afhverju Origi sótti það hisvegar ekki fastar að fara er hinsvegar erfitt að skilja. Mesta svekkelsið er líklega að fá ekki inn sóknarmann á kostnað Origi (hvort hann færi eða ekki). Einhvern sem setur pressu á núverandi sóknarmenn líkt og Jota er að gera og er svo tilbúinn að taka stöðuna af einhverjum þeirra. Mögulega verður Elliott bara þessi leikmaður fyrr en við erum að búast við núna?

Man City náði ekki að kaupa Kane og er því með Jesus sem eina eiginlega sóknarmanninn í aðalliðinu. Nokkuð magnað miðað við öll þeirra fjárráð og breidd í öðrum stöðum.

Kaupin á Ronaldo gera breiddina hjá United all hressilega en það er spurning hvort hann taki ekki pláss frá einhverjum af Greenwood, Rashford og Martial?

Chelsea er svo miklu sterkara með Lukaku upp á topp, það er samt spurning hvort leikstíllinn þróist of mikið í að treysta á hann við markaskorun?

Niðurstaða

Liverpool getur ekki endalaust framlengt samninga við liðið sem skilaði stóru titlunum og látið liðin sem við viljum vera keppa við um að kaupa bestu leikmennina á markaðnum.

Sumarið 2019 var félagið í sögulega góðri stöðu til að hamra járnið meðan það var heitt en setti púðri frekar í að framlengja við lykilmenn og keyptu engan.

Síðasta sumar var handónýtt heilt yfir leikmannamarkaðinn vegna Covid en Liverpool gerði samt meira á þá en núna í sumar.

Þetta sumar hefði maður haldið að væri aftur tækifæri til að styrkja hópinn fyrir næstu árin en aftur er púðrið sett í að framlengja samninga og hækka laun lykilmanna. Mikið til sömu manna og framlengt var við árið 2019. Það er flott að missa ekki bestu menn liðsins en félagið á að vera komið á hærri stall en svo að það ráði ekki við neinn mínus í nettó eyðslu milli ára, hvað þá þrjú tímabil í röð.

Ef að Arsenal hefur efni á því í sumar að eyða 117m í leikmenn þá hefur Liverpool bolmagn til að kaupa leikmenn fyrir 250m.

Ég er alls ekki jafn ofboðslega pirraður/reiður og margir stuðningsmenn Liverpool virðast vera og treysti áfram Edwards og Klopp mjög vel fyrir þessu. Liverpool liðið er mjög gott, mun betra en margir gefa því kredit fyrir. Ég er ekki viss um að Klopp færi hljólega með það ef hann væri ósáttur við eigendur Liverpool eða yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu. Á meðan hann er sæmilega sáttur er ég sæmilega rólegur. Það hefur engin verið mikilvægari hjá Liverpool en Jurgen Klopp er núna síðan ég fór að fylgjast með félaginu.

Það er samt þreytt hvert einasta ár að Liverpool geri nánast ekkert og reksturinn er farinn að minna full mikið á módelið hjá Arsenal undir Arsene Wenger. Þeir heltust ekkert úr lestinni á einu ári. Það gerðist jafnt og þétt. Jákvæða hjá Liverpool enn sem komið er að við erum ekki að selja lykilmenn eins reglulega og þeir gerðu, það er vanmetið mikilvægt.

Glugganum gef ég svona 5,5 í einkunn, það var settur plástur á versta sárið.

31 Comments

  1. Sælir félagar.
    Þetta alveg skemmtileg samantektarpæling, eins langt og hún nær. En ég næ að láta það pirra mig talsvert hvernig mælistikan er oft færð, til að málflutningurinn líti betur út.

    “ Miðverðir – Ekkert lið hefur styrkt sig eins mikið milli tímabila í neinni stöðu og Liverpool í miðvarðastöðunni. Liverpool er bókstaflega að skipta út samblöndu af Phillips, Williams, Kabak og Davies út fyrir Van Dijk, Matip, Gomez og Konate. Enginn af þessum fjórum spilaði mínútu árið 2021 á síðasta tímabili, ekki desember 2020 leikina heldur.“

    Enginn af þessum fjórum spilaði mínútu árið 2021, á þessu tímabili ? Jú jú fullyrðingin er ekkert röng, en tímabilið er lengra en það og það er ekki hægt að tala í aðra höndina um að Liverpool sé að styrkja hópinn fyrir þennan vetur, en miða svo bara við hluta af vetrinum í fyrra. Sannleikurinn er nefnilega að Liverpool er að leggja upp í þennan vetur með mjög svipaða miðvarðastöðu og var í fyrra ( bættum Konate við sem við vitum enn ekkert hvernig smellur). Það er þú sirka jafn miklar, eða litlar, líkur á að miðverðirnir meiðist og var í upphafi tímabils í fyrra. Vissulega er þetta bæting ef þú miðar við meiðslin sem við urðum svo fyrir, en það er þá heldur ekkert bæting fyrr en við erum komnir meiðslalausir í gegnum þennan tíma. Þetta er kanski óljóst hjá mér Einar, en skilurðu hvert ég er að fara ?

    Það eru nefnilega ekkert minni líkur (tölfræðilega) á meiðslum núna, frekar en á sama tímabili í fyrra, en ef við komumst meiðslalitlir frá megninu af vetrinum, þá má alveg ræða um að þessir leikmenn séu “vibót” í einhverjum skilningi…. Ég ljóma bara með það að samið var í dag við Philips….. mér finnst við í raun ekki ennþá búnir að fylla uppí gatið sem Lovren skildi eftir sig, því þó hann væri oft meiddur, var furðu oft hægt að tjasla honum saman þegar Matip meiddist. Kanski er Konate ætlað að fylla það skarð.

    Annars er ég ekkert ósáttur við þennan glugga svona per se. Það má alltaf gagnrýna eitthvað og til að minnast á eitthvað þá hefði ég viljað halda Shaqiri aðeins lengur, fyrst það fékkst hvort eð er ekki mikið fyrir hann, og ekki kom neinn í staðinn. Fannst hann alltaf stærri kanóna á bekknum en t.d Minamino, eða jafnvel Ox, sem ekki er eins mistækur orðið og Shaqiri, heldur bara alltaf frekar slappur.

    Svo er grátlegt að sjá að okkur tókst ekki að losa Origi og mynda þannig mögulega eitthvað svigrúm fyrir kaupum.

    Hópurinn er sem slíkur alveg firnasterkur. En auðvitað er áhyggjuefni hvað okkur gengur oft illa framávið gegn liðum sem liggja aftarlega.

    Insjallah
    Carl Berg

    6
    • Það er ekkert verið að færa mælistikuna, þetta er bara staðreynd og að fá þá alla inn er gríðarleg styrking miðað við síðasta tímabil. Gott og vel ef við miðum við bara hálft tímabilið, þá má líka taka inn í jöfnuna að þetta Liverpool lið var á toppnum í deildinni um áramótin, löngu eftir meiðsli Van Dijk og Gomez. Að fá þá alla aftur skiptir fáránlega miklu máli þó að þeir séu ekki spennandi ný leikmannakaup.

      Varðandi líkur á meiðslum hjá þeim aftur er það eitthvað sem á við um öll hin liðin líka. Matip og Gomez finnst mér alveg eins og í fyrra allt of tæpir til að treysta á í vetur, kom inná það í færslunni en Konate held ég að styrki breiddina þar rosalega, meira en þegar við vorum með Lovren. Nat Phillips svo sem klár fimmti kostur sem hefur aðeins sannað sig er eins ekkert neikvætt…svo lengi sem hann er fimmti kostur. Frekar hann í vörnina en að færa Fabinho aftur niður.

      6
      • Sæll aftur,

        Mér finnst það nú samt pínu tilfærsla á mælistikunni þegar þú setur þetta svona upp. Við getum kallað þetta að bera saman epli og appelsínur eða leikið okkur að orðalaginu eins og við viljum. Pointið er að þetta er ekkert styrking í þeim skilningi fyrr en við erum komnir í gegnum þennan tíma með þá meiðslalausa.
        Það er skrítið að tala um að fá þá alla inn “aftur” þar sem að þeir voru allir hjá okkur á þessum tímapunkti í fyrra, og við eigum enn eftir að sjá þá komast alla meiðslalausa í gegnum þennan vetur.
        Mér finnst heldur ekkert neikvætt að Phillips sé þarna, þvert á móti.

        Ég er heldur ekkert að missa mig í neikvæðninni yfir þessum glugga. Mér finnst menn full svartsýnir. Meðan við erum ekki með einhverja sugar daddys, þá verðum við (fyrirtækið), að eiga fyrir því sem við eyðum. Þegar ekkert kemur inn í kassann þá er ekki úr miklu að moða. Það hlýtur að vera krafa allra eigenda fyrirtækja og fótboltaliða, að eigendur þurfi ekki sjálfur að moka sínu einkafé (sem stundum er ekki mikið ) á hverju ári inní klúbbinn til að halda rekstrinum sem næst núllinu. Auðvitað eru þarna nokkrar undantekningar ( city, chelsea, PSG o.s.frv ).
        Fyrir klúbb eins og okkur eru mistök á leikmannamarkaðnum líka dýr og getur tekið langan tíma að ná til baka, því ekki tapast bara peningar við að kaupa leikmenn, heldur taka þeir oft stórt pláss á launaskrá. Miðað við spiltíma þá er t.d Keita bara fjandi dýr… Ox…. Minamino…Origi ??

        Auðvitað er það fengur ef Keita er kominn til baka, og verður heill, en ég hef bara orðið enga trú á því. Svona svipað mikla trú, og að Gomez haldist eitthvað heill. Þess vegna hefði ég viljað sjá Keita skipt út, ef sæmilegur peningur hefði fengist. Ef Gomez væri ekki enskur, hefði það sama átt við um hann. Ég hef bara enga trú á því lengur að þessir menn haldist heilir, en vona svo sannarlega að þeir stingi upp í mig.

        Insjallah
        Carl Berg

        6
  2. Er 5,5 gluggaeinkunn útaf nýjum samningum? Það er bara common sense að framlengja við lykilmenn, annars selja þá ef þeir eiga 1 ár eftir og vilja ekki krota undir. Þessi gluggi fær 1,5. Alveg ömurlegur. Skiptir engu máli þótt Mane hafi fengið hvíld, hans bestu ár eru búin. Hann höffar og pöffar en þetta er ekki sami leikmaðurinn. Það þurfti update í hans stöðu. Enginn striker keyptur!? Wtf! Á ekki til orð. Back-up fyrir Trent…halló! Back-up fyrir Fabinho…halló!

    Ég veit, er rispuð plata en þetta var eh skrýtið þegar það kom enginn fyrir Lovren, talandi nú ekki um janúar gluggann og svo þessi gluggi. Það er eh rotið við FSG, það er alveg klárt. Unnum engan titil síðast og sénsinn að við vinnum eh núna þegar allir helstu keppinautar hafa styrkt sig gríðarlega. Fokking Levy náði í 30m bakvörð til að veita Tanganga samkeppni!! For crying out loud!

    13
    • Sælir félagar

      Ég er algerlega á sama máli og Tigon. Stöður sem öskra á mann eru varamenn sem ná máli fyrir TAA, Fab og einn alvöru sóknarmann. Ef Firmino er meiddur (2-4 mán) þá er framlínan afar þunnskipuð og engar innáskiptingar sem halda styrk framlínunnar það er ljóst. Auðvitað er gott og nauðsynlegt að gera nýja samninga við lykil leikmenn en þá er hægt að gera án þess að nota “gluggan” í það svo þeir koma gæðum “gluggans” sem slíks ekkert við.

      Ef við segjum að það hafi þurft að styrkja 4 stöður á vellinum, þ. e. miðja vörnina, hægri bak, varnartengilið og sóknarmann þá fær glugginn 2,5 sem er þá 1/4 af 10. Að fara inn í heilt tímabil með engan sem nær máli fyrir TAA, engan sem er nálægt Fab í gæðum í hans stöðu og engan sem nær máli ef Firmino er alvarlega meiddur (engar fréttir?) í framlínuna þá er þessi gluggi mjög slappur og þó Klopp þegi þá er ekki þar með sagt að hann sé sáttur.

      Svo tvær spurningar í lokin: Í fyrsta lagi; af hverju vill Edwards fara? Í annan stað af hverju eru endursamningar við leikmenn blásnir svona út í “glugganum”. Er það til að stuðningsmenn sætti sig frekar við aðgerðarleysið i leikmannakaupum sem er á pari við Burnley, félag sem við teljum að eigi að vera í sveppadeildinni. Er þessi leikur gerður til að þyrla upp ryki í augu okkar stuðningsmanna. Það virðist hafa tekist að sáldra ryki í augu Einar Matt. en greinilega ekki í augu okkar hinna. Einkunn gluggans er því 2,5

      PS. Okey spurningarnar eru fleiri en tvær 🙂

      Það er nú þannig

      YNWA

      9
  3. Miðað við metnaðarleysið i þessum glugga er liklega stefnt a fimmta sætið. Eg er mjog osattur og skil ekki hvað Klopp er að hugsa.

    6
  4. Nú er pressan á Klopp. Nóg hefur verið talað. Nú er að bakka upp talið og sanna að hópurinn sé nógu stór.

    Sama með FSG. Þeir sögðu einhvern tímann að peningur væri til fyrir rétta leikmenn og þeir myndu eyða þegar þyrfti. Þessi gluggi er 1/10 frá mér.

    Þeir biðu glugga of lengi til að selja Wilson, Grujic, Shaqiri fyrir mun minna verð en þeir gátu fengið áður. Edwards ekki að standa sig eða Klopp að þrjóskast með því að vilja halda þeim. Býttar engu. Falleinkunn!

    Ég á bágt með að trúa að einhver aðdáandi sé sáttur með þennan glugga. Allt þetta ryk sem blásið er í augun á fólki með öllum endurnýjuðu samningunum. Fólk látið halda að við séum að fá nýja leikmenn neð því að sjá helstu stjörnurnar festa sig til 32+ ára aldurs. Eini maðurinn sem virkilega hefur þurft að endursemja við samkvæmt formi er Mo Salah og hann hefur ekkert skrifað undir. Vitið til. Salan á Salah næsta sumar verður peningurinn sem við eyðum næsta sumar.

    9
  5. Sælir félagar. Takk fyrir hlaðvarpið, alltaf gaman að hlusta.
    Ég hef engar áhyggjur af vörninni og miðjunni en hef áhyggjur af framlínunni ef einhverjir meiðast. Ég hef verið að hugsa sem er ekki mín sterkasta hlið að þjálfaraliðið sem er einhver það besta í heimi hér viti eitthvað meira en ég sófaspekingurinn. Það er búið að sameina akademíuna við aðalliðið og það er gert í einhverjum tilgangi. Mér þótti undirbúningstímabilið svolítið sérstakt þar sem allir fengu að spila ungir sem reynslumeiri og leikirnir voru sérstakir að tímalengd. Kloop sagði, “til hvers að hafa unga og efnilega leikmenn og hafa svo ekkert pláss fyrir þá.” tilvitnun lýkur. Mig grunar að síðasta tímabil hafi kennt þeim mikið að gefa ungum leikmönnum tækifæri. Mér finnst ekkert skemmtilegra en þegar ungir leikmenn koma upp úr akademíunni og sýna sig með aðaliðinu. Ég held að þetta sé hugsunun á bak við sumargluggann sem okkur finnst heldur rýr.

    5
  6. Maður þarf að fara alla leið til tímabilsins 2019/20 til að sjá svona slæman glugga hjá Liverpool 😉 .
    Eftir Evrópumeistaratitil og 97 stig í deild þá hélt maður að það myndi vera gefið í en neibb.
    Harvey Elliott 4,3 m punda
    Lonergan frítt
    San Miguel frítt
    og svo Minamino í janúar 7,2 m punda

    Mættu á svæðið. Stuðningsmenn Liverpool voru brjálaðir á meðan að helstu andstæðingar Liverpool voru að styrkja sig mikið.
    Hvað gerðist þetta tímabil?
    Jú, Liverpool urðu Englandsmeistara eftir 30 ára bið.

    Það þýðir samt ekkert að þetta mun virka aftur en stundum er betra að gera ekkert heldur en að kaupa bara til að kaupa. Góður klefaandi með góðum kjarna er gulls í gildi og maður finnst eins og Klopp sé sáttur með það sem hann fær að vinna með eða að minnstakosti virðist hann ekki vera með neinar auka kröfur opinberlega.
    Ég ætla að gefa þessum gluggan 5 í einkunn. Við fengum mjög spennandi miðvörð en það var númer 1,2 og 3 það sem okkur vantaði og við náðum að losa okkur við nokkra leikmenn sem hefðu ekki fengið mikið að spila og aðeins Gini er leikmaður sem maður saknar en svo má líklega líta á þetta sem svo ef Gini væri að spila þá hefði kannski ekki Keita eða Elliott fengið tækið í liðinu sem þeir hafa báðir notað vel í fyrstu leikjunum.

    YNWA – Við erum með geggjað lið og hræðið það mig ekkert viðskipti annara liða.

    11
  7. Frugal Sports Group vill að klúbburinn sé sjálfbær. Þau leggja ekki til peninga og kaup síðasta sumars voru mikið til á greiðsludreifingu. Það er ekki gefið að það sé hægt. Þar sem búið var að spenna bogann nokkuð hátt var FSG varla að fara að eyða miklum peningum. Plús það að við erum ekki á góðum stað með HG kvóta og yfirleitt er smá premía á slíkum leikmönnnum. Maður hefði auðvitað viljað meira en eigendurnir eru víst ekki olíuríki.

    Það er ekki alfarið sanngjarnt að bera okkur saman við Arsenal. Það varð gríðarlegur tekjusamdráttur hjá öllum sem skýrir eiginlega alfarið hversu litlu er eytt hjá öðrum en olíuklúbbunum. Arsenal hefur vissulega keypt en það er sennilegast allt á lánum og gríðarleg áhætta. En hópurinn þar á bæ var veikur fyrir og ef AFC ætlar að vera í baráttunni var það sennilega nauðsynlegt.

    1
  8. Og það sem var magnað við þennan glugga hjá mörgum liðum var að þau voru að fá mikið af alvöru leikmönnum lánaða með option to buy og borga smá fyrir lánið á þeim, besta dæmið kannski Griezmann aftur til A.Madrid þar sem þeir fá hann lánaðan með option to buy á 40 millur, 2 árum eftir að hafa selt hann á 120 millur (Vel gert Barcelona) þeir kunna svo sannarlega að henda peningum í ruslið.

    3
    • Er ekki ansi líklegt að þetta lán tengist eitthvað eftirstöðvum skulda Barcelona við Atletico? Risakaupin þeirra hafa verið hlæilega afleit undanfarin ár. Dembele, Coutinho og Griezmann sem dæmi.

      Reyndar held ég að stjóri eins og Klopp nái miklu meira út úr þeim öllun en Barcelona hefur verið að ná undanfarin ár.

      3
  9. Já, því miður erum við að fara Arsenal leiðina.
    Ef við ætlum að keppa við þessi stóru á vellinum þá verðum við líka að gera það á leikmannamarkaðinum og við erum ekki að gera það, við erum annarar deildar lið á þeim markaði, ef ekki hreinlega þriðju deildar.
    Það er enginn að tala um að kaupa einhvern bara til að kaupa eitthvað en það öskarar á mann hvað vantar í liðið. Hvernig verður þetta ef Firmino og Mané eiga jafn skelfilegt tímabil og síðasta vetur? Hver á að skora ef Salah dettur í þurrð eða meðist illa?
    Þessi gluggi fær falleinkun hjá mér, er kominn á #FsgOut vagninn.

    7
  10. Þarna vantar líka Saul Niguez sem Chelsea náði víst að krækja í fyrir lok gluggans. Abramovitsch heldur áfram í Championship Manager og kaupir alla sem verið er að tala um að séu góðir og á lausu.

    Hópurinn hjá Liverpool er frábær og mun líklega enda í topp fjórum í Maí. Hvort einhverjir titlar séu raunhæfir fer svo algerlega eftir meiðslum oþh. Ef við lendum illa í því, þá minka líkurnar. Ef ekki, þá eru þær ágætar. Nú er verið að tala um að Firmino sé mögulega frá í einhvern tíma og þá eru Origi/Minamino næstir inn er það ekki?

    3
  11. Pínu vonbryggði að fá ekki inn framherja, en þá eru væntingarnar minni og maður þarf ekki að vera eins stressaður fyrir hvern leik. Það er hægt að minka skammtinn af blóðþrýstings lyfinu. 🙂

    3
  12. Sæl öll.

    Ég er ekki sammála því að Liverpool hefur styrkt sig mest í varnarlínunni. Konate hefur komið inn en annars byrjuðu allir aðrir leikmenn í “línunni” síðasta tímabil. Að mínu viti styrkti manutd sig lang mest með tilkomu Varane.

    Það er síðan hæpin orðaleikur að kalla það styrkingu á hóp að semja við leikmenn sem eru fyrir hjá félaginu, í mínum huga er það einfaldlega að viðhalda hópnum. Ef viljinn var svona lítill til að semja við Wijnaldum, þá einmitt átti að selja hann síðasta sumar og kaupa annan arftaka til að viðhalda fjárfestingu í hópnum. Meðalaldur á fyrstu 11 er orðinn 28,6 ár og það verður að fara endurnýja hópinn. Harvey Elliott er mjög góður og lítur hrikalega vel út en hann er varla búinn að fylla skarð Wijnaldum!

    Mér finnst það segja mér meira en nokkuð annað, um þessa stefnu klúbbsins, að Michael Edwards hefur fengið nóg af þessum fíflagangi og hefur tilkynnt að hann framlengi ekki samning sinn.

    Ég hef alltaf gert mér fulla grein fyrir því að FSG eru bara fjármálakallar að ávaxta pund sitt. Núna hefur þeim tekist að auka verðgildi klúbbsins líklegast um 200% og því spyr ég, í ljósi þessara svelti stefnu í leikmannakaupum, er kominn tími á að selja klúbbinn?

    8
  13. Hvað segja menn ef sparnaðurinn í þessu glugga var til þess að geta klárað Mbappe?

    Fæ glugginn þá 1/10 í einkunn? Eða 9/10?

    Það hlýtur að vera eitthvað plan…

    3
  14. Kallast það að styrkja sig í vörninni ef leikmenn koma úr meiðslum ? Wtf ! Hvaða rugl er þetta, af hverju keyptum við Konate ? Jú af því við vorum komnir á 5 og 6 miðvörð útaf því við létum Lovren fara. Það var skita, og enn og aftur er það skita í glugganum. Firmino meiddist, en ekkert er gert og við höfum eftir 3 leiki í deild Jota og Origi. Skita ! Ég vill bara losna við þetta USA drasl sem eigendur og fà einhverja inn sem hafa áhuga á íþróttinni, ekki bara business hliðinni.

  15. Þið eruð nú meiri kvíða karlarnir. Ég ætla að njóta að horfa á LFC pakka andstæðingunum saman í vetur, því menn keppa ekki í gluggum. LFC er með mjög góða breidd í dag. Mín kenning er sú að það sé sparað fyrir stóru bitunum á næsta ári og það er bara mjög wise.

    7
  16. Van Dijk lemstraður á hendi eftir Haaland í kvöld. Ballið er byrjað…

    2
  17. Gæti verið að það sé masterplan í gangi og janúarkaupin klár? Stórt nafn?

    Að við treystum á að miðja eða vörn haldi í 4 mánuði án þess að ALLIR meiðist?

  18. Ömurlegur gluggi vægast sagt fær 2 í einkun fyrir sölur. Þessum könum virðist vera andskotans sama um tittla vilj bara græða. Vond vörn á tittlinum skrifast á getuleysi þeirra óttast að við munum taka fleiri skref aftur á bak. Erum ekki einu sinni með 25 manna hóp.

    3
  19. Núna verið að tala mögulega um brottför Origi til Fenerbache eða eh álíka líklegast þvæla en mér væri slétt sama þó hann færi það myndi ekki versna ástandið né breiddin þó hann færi.

    3
  20. Ætli það sé rétt, sem stendur í sumum nýjustu fréttum af Origi, að Liverpool sé búið að taka hann út úr leikmannahópnum fyrir veturinn?

  21. Erfiður gluggi, það eru tvær hliðar á þessu. Önnur er fjármagnslega hliðin, að einhverjum ástæðum hefur Liverpool einfaldlega ekki burði til að keppa á markaðnum í sumar. Ekki gleyma að við borguðum bara slikk fyrir Jota seinasta sumar, ég held að það hafi fallið á Liverpool að mestu í sumar/eða ár, væntanlega vegna þess að það var séð fram á bjartari tíma á seinasta ári. En ég er samt ekki viss. Ég hugsa að önnur lið hafi annað hvort fengið styrkingu í gegnum eigendur, ekki gleyma að Arsenal t.d. eiga forríka eigendur eða þá að þau hafa tekið lán. Eins og hefur komið fram, að taka lán er gríðarlega áhætta á þessum tímum.
    Varðandi Utd. frábær gluggi hjá þeim, Sancho á samt alveg eftir að sanna sig í sterkari deild sama með Varane, en á pappír gríðarlega sterkt. Ronaldo verður örugglega óþolandi frábær, en það er samt skammtímalausn.
    Varðandi Liverpool, aftur, galið að styrkja ekki framlínuna, algjörlega galið, Afríkukeppnin verður í ár nema eitthvað breytist, við missum alltof marga lykilmenn sem gæti haft lykiláhrif á tímabilið. Þetta er rosalega skrýtin ákvörðun.

    1

Henderson skrifar undir á lokadegi gluggans

Besta lið Liverpool í Úrvalsdeildinni?