Nýtt tímabil framundan hjá kvennaliðinu

Það hefur vissulega verið smá hreyfing hjá kvennaliði Liverpool í sumar. Matt Beard var ráðinn í stöðu knattspyrnustjóra, en hann stýrði einmitt liðinu árin 2013 og 2014 þegar liðið varð síðast meistari. Síðustu verkefni hans voru að stýra West Ham annars vegar, og svo hins vegar að taka við liði Bristol tímabundið á meðan stjóri þeirra fór í barneignarleyfi. Amber Whiteley verður áfram hjá Liverpool eftir að hafa verið stjóri frá í janúar, og fer aftur í stöðu aðstoðarþjálfara. Það er þó jákvætt, hún virtist njóta trausts leikmanna á síðari helmingi tímabilsins.

Samningar við eftirfarandi leikmenn voru ekki endurnýjaðir: Becky Jane, Kirsty Linnett, Jesse Clarke, Amy Rodgers og Amalie Thestrup. Af þessum leikmönnum kemur kannski einna helst á óvart að Amy Rodgers hafi ekki fengið framlengingu enda uppalinn leikmaður sem manni fannst vera aðeins farin að stíga upp. Rinsola Babajide hefur verið á leiðinni út síðan í janúar, og það var ljóst að hún vildi spila í efstu deild. Nákvæmlega hvernig var samið við hana verður að koma í ljós, en hún er a.m.k. ekki farin frá klúbbnum formlega, heldur var hún lánuð til Brighton, og verður þar á þessari leiktíð. Mögulega er samningurinn þannig að ef Liverpool kemst ekki upp í efstu deild, þá megi hún fara annað. Það verður bara að koma í ljós. Nú svo kom endanlega í ljós í vor að Sophie Bradley-Auckland myndi hverfa á braut, en hún hafði jú ekki sést á vellinum frá því fyrir Covid. Þriðji markvörðurinn Eleanor Heeps fór til Tottenham, en var svo lánuð strax þaðan til Blackburn. Mögulega hefur þar eitthvað að segja að Vicky Jepson er núna aðstoðarþjálfari hjá Tottenham, svo kannski hefur Eleanor viljað fylgja henni.

Klúbburinn endurnýjaði samninga við Rhiannon “Razza” Roberts, Ashley Hodson og Missy Bo Kearns, og sú síðastnefnda fékk nýtt skyrtunúmer og verður númer 7 á næstu leiktíð. Alltaf gott að hafa scousera í liðinu. Rachel Furness er komin til baka úr erfiðum meiðslum sem hún varð fyrir í vor, og fær líka nýtt skyrtunúmer, hún verður númer 10.

Nýjir leikmenn

Klúbburinn hefur fengið til liðs við sig nokkra nýja leikmenn (misnýja þó):

Efri röð frá vinstri: Yana Daniels, Jasmine Matthews, Megan Campbell, Leanne Kiearnan.
Neðri röð frá vinstri: Rianna Dean, Carla Humphrey, Katie Startup, Charlotte Wardlaw
 • Yana Daniels er komin aftur til félagsins eftir að samningur við hana var ekki endurnýjaður fyrir tveim árum síðan, en hún spilaði með Bristol í millitíðinni, þar á meðal undir stjórn Matt Beard. Yana fer aftur í sóknarhlutverkið eins og hún gerði fyrir tveim árum.
 • Jasmine Matthews er einnig komin til baka, annar leikmaður sem kom fyrir þrem árum og var aðeins í eitt ár hjá félaginu.
 • Megan Campbell kemur frá Manchester City, hún er 27 ára varnarmaður, og fær númerið 28 aftan á skyrtuna sína.
 • Leanne Kiernan er 22ja ára sóknarmaður sem kemur frá West Ham. Hún verður númer 9.
 • Rianna Dean kemur frá Tottenham. Þetta er 22ja ára framherji sem fær skyrtunúmerið 19.
 • Carla Humphrey er einn þeirra leikmanna sem áður lék undir stjórn Matt hjá Bristol. Þessi 24 ára leikmaður spilar sem framliggjandi miðjumaður, og verður númer 17 á þessari leiktíð.
 • Katie Startup er 22ja ára markvörður sem kemur að láni frá Brighton, og virðist eiga að vera markvörður númer 3 hjá klúbbnum.
 • Charlotte Wardlaw kemur einnig á láni, en hún er á mála hjá Chelsea. Charlotte er aðeins 18 ára og getur spilað í flestum stöðum í vörninni eða sem djúpur miðjumaður. Hún fær skyrtunúmerið 2 sem áður var hjá Becky Jane, svo það er ekki ólíklegt að það eigi að nota hana talsvert. Þetta er merkilegt nokk ekki fyrsti lánsdíllinn milli Chelsea og Liverpool því Bethany England spilaði með Liverpool í a.m.k. eitt ár fyrir einhverjum 4-5 árum síðan.

Liðið er enn utangátta þegar kemur að nýja æfingasvæðinu, eins og kemur fram í þessari grein síðan í vor. Manni finnst merkilegt að þær hafi ekki einusinni fengið að nýta æfingasvæðið í Kirkby á meðan karlaliðið var að æfa á meginlandinu! En þetta er víst enn í skoðun, og ekki útséð með að þetta breytist í lok leiktíðar. Samningurinn um afnot af velli Tranmere ku víst renna út þá.

Æfingaleikir í sumar

Liðið lék nokkra æfingaleiki núna í lok júlí og ágúst:

 • Fyrsti “leikurinn” var 3×30 mínútna leikur gegn Leicester. Engar myndir eða upptökur hafa borist af þeim leik (eða leikjum?), en þetta á víst að hafa farið 6-1 fyrir Leicester. Tökum þeim úrslitum bara hæfilega alvarlega.
 • Næsti leikur var gegn Manchester United. Eins og hefur komið fram í fréttum eru United konur í einhverju brasi, Casey Stoney hætti sem framkvæmdastjóri áður en tímabilinu lauk, og þær hafa verið að missa efnilega leikmenn eins og t.d. Lauren James sem fór frá þeim núna í sumar og til Chelsea. Hver veit, kannski misstu eigendur United áhugann, svipað eins og FSG? Þær hafa víst líka verið í vandræðum með æfingasvæði og aðstöðu, og það verður að koma í ljós á komandi tímabili í hvernig ástandi þær eru. Amber Whiteley stýrði liðinu í þeim leik, því Matt Beard náði sér víst í Covid og var því í einangrun á meðan. Þessum leik lauk með 2-2 jafntefli, hægt er að sjá helstu atriði úr þeim leik hér.
 • Næsti leikur var svo 3-2 sigur gegn Celtic.
 • Þá var spilað gegn Blackburn, og sá leikur fór 2-0 fyrir þeim bláröndóttu, þar sem téð Eleanor Heeps spilaði sinn fyrsta leik á láni og hélt auðvitað hreinu.
 • Síðasti leikurinn var svo markalaust jafntefli gegn Birmingham um síðustu helgi.

Fyrsti leikurinn í deildinni verður svo næstkomandi sunnudag, gegn London City Lionesses, en Amy Rodgers fór einmitt þangað eftir að hafa verið leyst undan samningi hjá Liverpool. Við óskum henni að sjálfsögðu góðs gengis, nema gegn Liverpool auðvitað.

Vangaveltur um stöðu liðsins

Við höfum vitað það núna í allnokkurn tíma að kvennalið Liverpool er ekki efst á forgangslista eigenda félagsins, og hefur ekki verið það síðustu ár.

Nýverið kom út áhugavert viðtal við Alex Greenwood, en hún spilaði með Liverpool fyrir nokkrum árum. Grípum niður í viðtalið:

“I saw a tweet the other day listing the players we had at the club when I was there and the talent was frightening. How didn’t we win more? I’ll never know.

“I was probably a little immature, but I used to want to know why we weren’t training at better facilities, why we were playing on 4G pitches. It just wasn’t good enough for the squad we had. Scott Rogers was the manager and he was knocking on doors, but not getting any answers.

“When I was leaving Liverpool, I took a meeting with the chief executive purely to speak about the state of things. Nothing was going to convince me to stay, but I thought about the girls I was leaving behind and they deserved better.

“It’s a club that is very close to my heart. It’s my city. It’s my home. I wanted the best for them but to see how little investment and interest that was put into the team was disappointing and heartbreaking.

“We could have won titles and dominated with the right amount of support but the best players left to lift trophies elsewhere at clubs who took the women’s team more seriously.”

Ætli þetta sé eitthvað að breytast? Kannski. Nú ku víst verið að leita að nýjum framkvæmdastjóra liðsins (þ.e. ekki knattspyrnustjóra heldur framkvæmdastjóra) eftir að Adam Greaves-Smith hætti í því hlutverki. Mögulega er eitthvað að breytast, en hér er að sjálfsögðu best að klúbburinn láti verkin tala, bæði innan vallar og utan.

Við hér á Kop.is höldum að sjálfsögðu áfram að fylgjast með stelpunum okkar, og vonum að þær komist aftur í hóp þeirra bestu!

Ein athugasemd

 1. Sælir félagar

  Það er LFC til skammar hvernig búið er að kvennaboltanum hjá þeim. Minnir dálítið á KSÍ og landslið karla og kvenna. Þó sýnist mér að KSÍ sé skömminni skárra en LFC enda er kvennalandsliðið bæði betra og áhugaverðara en karlalandsliðið sem liggur undir ámæli af kvenfjandsamlegum toga. Ég læt það liggja órætt hér en ljótar sögur eru í gangi sem ég veit ekkert um sannleiksgildi né nánari atvik en sögurnar eru ljótar. En hvað um það FSG ætti að skammast til að hysja upp um sig og sýna stelpunum virðingu og stuðning.

  Það er nú þannig

  YNWA

  10

Gullkastið – Lokavika leikmannagluggans

Dregið í deildarbikar