Burnley heimsækir Anfield á morgun

Á morgun hefst önnur umferð Úrvalsdeildarinnar þegar Burnley heimsækir Anfield sem verður vonandi fullur af áhorfendum sem þyrstir í að sjá Liverpool á vellinum og hafa þurft að halda í sér ansi lengi.

Liverpool vann góðan sigur í fyrstu umferðinni þegar liðið heimsótti Norwich og vann 3-0 með mörkum frá Jota, Salah og Firmino. Van Dijk spilaði þá fyrsta deildarleikinn sinn í ansi langan tíma við hlið Joel Matip en aðalmennirnir á miðjunni voru á bekknum eða ekki tilbúnir og utan hóps þann daginn.

Burnley byrjaði sína leiktíð á tapi gegn Brighton og það má væntanlega búast við Burnley eins Burnley-legu og það vanalega er þegar leikurinn hefst á morgun. Þeir hafa lítið sem ekkert bætt við sig í sumar fyrir utan Wayne Hennessey sem varamarkvörð og miðvörðinn Nathan Collins sem á víst að vera nokkuð efnilegur en ég veit svo sem ekkert um það hvort hann muni gera eitthvað fyrir þá á næstunni. Hann kostaði þá 15 milljónir punda og var að minnsta kosti ekki með í tapinu gegn Brighton. Jóhann Berg, Sean Dyche, Barnes, Wood, McNeil, Pope, Tarkowski… þið ættuð að vera farin að þekkja þetta. Þetta er lið sem annað hvort stríðir og gerir leikinn virkilega erfiðan eða leyfir þér að rúlla yfir sig, verður áhugavert að sjá hvort liðið mætir á morgun.

Af Liverpool er annars það að frétta að Fabinho verður mögulega ekki með á morgun, faðir hans lést svo það má áætla að hann muni fá frí á morgun. Á móti kemur þá ættu Thiago og Henderson að snúa aftur í hópinn og líklega mun að minnsta kosti annar þeirra byrja á miðjunni. Líklega byrja Matip og Van Dijk aftur í miðverðinum, ég hugsa að Keita byrji á miðjunni en spurning hvort Milner eða Chamberlain haldi sætum sínum eða hvort þeir víki fyrir Henderson og/eða Thiago. Jota skoraði en var kannski ekki rosa áberandi í síðasta leik og kannski helsta spurningin hvort hann eða Firmino, sem átti frábæra innkomu og skoraði, byrji með Mane og Salah. Ég ætla að giska á að Firmino komi inn og þeir skipti hlutverkum í þessum leik. Mögulega gæti Klopp ákveðið að spila þeim öllum fjórum og gefa Anfield auka spennu en ég held hann haldi sig við 4-3-3 og komi með einn þeirra inn af bekknum.

Alisson

Trent – Matip – Van Dijk – Tsimikas

Keita – Henderson – Milner

Salah – Firmino – Mane

Ætla að giska á að þetta verði liðið. Tsimikas verður aftur í bakverðinum en Robertson er byrjaður að æfa aftur og verður vonandi klár fyrir Chelsea leikinn um næstu helgi. Henderson kemur inn á miðjuna og Thiago kemur inn á við mikið lófaklapp frá fullum Anfield, það sama verður með Jota og Harvey Elliott verður þriðja skiptingin. Er það ekki bara?

Vonandi fáum vð þægilegan og öruggan sigur og önnur þrjú stig á töfluna. Jota, Firmino og Salah hafa allir skorað svo það væri flott ef Mane tækist að skora á morgun svo þeir væru allir komnir á blað eftir fyrstu tvo leikina en það er auka atriði svo lengi sem markið eða mörkin og stigin koma.

3 Comments

  1. Ups, upphropunarmerkin urðu að spurningamerkjum, tæknin að striða !!!!!!

    6
  2. Takk fyrir þessa hressilegu upphitun. Burnley eru erfiður andstæðingur sem getur verið erfitt að brjóta á bak aftur. Sóttu þeir ekki sigur á Anfield í fyrra og jafntefli árið á undan? Ég vona svo sannarlega að menn detti í alvöru gír en ég er líka alveg sáttur við 1-0 sigur með skallamarki frá Mane í uppbótartíma. Ef Hendo og Thiago eru eitthvað tæpir ætti Klopp að nota þá lítið sem ekkert og nota tækifærið og keyra Keita almennilega í gang, hann getur þetta allt strákurinn. Síðan verður hann að fara að vinna fyrir kaupverðinu og laununum.

    4

Gullkastið – Alvöru Liverpool

Byrjunarliðið gegn Burnley