Hvað er í gangi hjá Barcelona?

Messi búinn að kveðja

Fjárhagsvandræði Barcelona voru komin í umræðuna löngu áður en Covid-19 skall á og hugmyndir um Ofurdeild ríku liðanna var formlega lögð til. Það hefur stefnt í vandræðin sem þeir eru í núna í einhvern tíma. Spænsku risarnir hafa í áratugi haft nánast fyrsta valrétt á bestu leikmönnum í heimi, ef að Barcelona eða Real Madríd vilja einhvern leikmann hefur verið látið eins og það sé guðsgefin réttur þeirra að fá hann.

Ekkert lið í heiminum hefur verið ömurlegra en Barcelona í áróðursherferðum sínum í aðdraganda nánast allra sinna stóru leikmannakaupa, þar er grafið undan samningsbundnum leikmanni við annað lið og á nokkrum mánuðum hefur hver einn og einasti tengdur Barcelona tjáð sig um viðkomandi leikmann og afhverju hann bara verði að fá að fara til Barcelona. Ekki eitt svoleiðis viðtal er tilviljun.

Samúðin er því ákaflega takmörkuð með stuðningsmönnum Barcelona núna þegar þeir þurfa að kveðja Leo Messi. Því síður með Leo Messi þó vissulega skilji maður að það sé erfitt fyrir hann að yfirgefa félagið. Hann var engu að síður að heimta sölu frá þeim fyrir ári síðan og fer beint í Olíuauðinn í Katar, eflaust á enn hærri launum en hann hefur verið með.

Best var reyndar núna þegar skíturinn fór að fljóta uppfyrir á síðasta ári að þeir réðu PR fyrirtæki til að sjá um ófrægingarherferð gegn þeirra eigin stjörnum. Bartomeu fyrrum forseti félagsins og hans menn í stjórn félagsins fengu PR fyrirtæki til að stýra áróðursherferð gegn áhrifamönnum innan félagsins eins og Messi, Pique, Xavi, Laporta o.s.frv. Markmiðið var að fegra ímynd Bartomeu á kostnað þeirra. Bartomeu var handtekin í vor og er ásamt öðrum toppum félagsins á þeim tíma undir rannsókn, mál sem er kallað Barcagate. Þetta er samt bara svipuð taktík og þeir hafa notað á leikmannamarkaðnum í mörg ár. Við höfum fengið að kynnast því í aðdraganda kaupa Barca á Mascherano, Suarez og Coutinho.

Vandamál Barca eru í einföldu máli tilkomin vegna innkaupastefnu og launagreiðslna sem rekstur félagsins ræður einfaldlega ekki við. Tómur völlur og gríðarlegt tekjutap vegna Covid virðist hafa verið náðarhöggið þó félagið hafi verið farið að riða löngu fyrir.

Þrír menn bera langmesta ábyrgð á þessari stöðu félagsins nú, síðustu þrír forsetar félagsins, Bartomeu, Sandro Rosell og Juan Laporta. Þeir voru allir saman í stjórn 2003 og samherjar innan félagsins áður en slettist upp á vinskap Laporta og Rosell. Laporta var forseti frá 2003-2010 og fékk m.a. Guardiola til félagsins og var forseti þegar allir La Masia strákarnir komu upp úr akademíunni. Rosell tók við embættinu af honum árið 2010 og var til 2014 er hann sagði af sér í kjölfar handtöku og rannsóknar tengdum kaupunum á Neymar. Bartomeu var hans hægri hönd og tók við af honum þar til honum var nánast bolað burt sl. haust.

Leikmannaviðskipti félagsins

Leikmannakaup Barcelona og rekstur félagsins ætti að vera ágætis víti til varnaðar fyrir þá stuðningsmenn Liverpool sem vilja að Liverpool kaupi bara einhverja á 100m+ og borgi það sem þarf í laun án þess að nenna að spá í því hvort rekstur félagsins standi undir því. Ef að Barcelona getur fallið getur Liverpool það líka, það er satt að segja ekkert svo langt síðan Liverpool var í svipaðri stöðu og Barcelona er núna. Barcelona hefur nota bene alveg verið að vinna La Liga undanfarin ár og er ALLTAF með í Meistaradeildinni og fer jafnan langleiðina í þeirri keppni.

Grunnurinn að vandamálum liðsins er að þeim hefur ekki tekist að endurnýja tiki-taka gullaldarliðið sitt með MSN sóknarlínunni og Xavi, Initesta Busquets miðjunni. Þeir hafa eðlilega verið að kveðja einn af öðrum undanfarin ár og í stað þess að treysta á La Masia sem er ennþá frábær akademía hefur félagið keypt aragrúa af stórstjörnum fyrir himinháar fjárhæðir og á himinháum launum sem eru ekkert endilega með þetta Barcelona DNA sem þeir hreykja sér svo mjög af. Það virðist vanta stórlega upp á markvissa stefnu hjá félaginu öfugt við það þegar tiki-taka liðið var upp á sitt besta og nýr leikmaður kom upp úr La Masia á hverju ári.

Þeim var ekkert lítið hampað fyrir La Masia akademíu félagsins þar sem DNA Barcelona var innstimplað í leikmenn frá unga aldri og þeim svo gefið séns í aðalliðinu í stað þess að eyða alltaf ofurfjárhæðum á leikmannamarkaðnum. Það fór reyndar minna fyrir því í umræðunni að La Masia var fullt af bestu unglingum Spánar (og víðar) sem Barcelona keypti meira og minna til félagsins á aldrinum 12-15 ára. Barcelona liðið innihélt einnig stærstu og dýrustu stjörnur fótboltasviðsins þegar Messi, Xavi, Iniesta, Busquets og co voru að koma upp úr La Masia.

Sumarið 2014 keypti Barcelona Luis Suarez frá Liverpool sem voru frábær leikmannakaup fyrir þá. Frá þeim glugga er hálf ótrúlegt að renna yfir leikmannakaup félagsins. Tvö þeirra er hægt að flokka sem frábær kaup, Frenkie de Jong og Pedri sem er reyndar bara 18 ára.

Þetta sumar er sjöundi leikmannaglugginn frá því Barca keypti Suarez og var megnið af núverandi leikmönnum liðsins keyptur á þessum tíma. Kaupverð leikmanna er samtals um €1.1billion og söluverð um €750m Nettó eyðsla félagsins er um €360m eða rúmlega €51m að meðaltali ofan á rosalegar launagreiðslur, þ.á.m. til Leo Messi sem er ekki partur af neinum þessara leikmannakaupa. Þetta eru €1,1b í leikmannakaup til að bæta lið sem var það besta í heimi fyrir. Það lið var m.a.s. eitt það besta í sögunni.

2015/16 og 2016/17 

Barcelona liðið þurfti engar rosalegar viðgerðir 2015 og 2016 en þeir náðu að kaupa leikmenn fyrir €175m sem hafa skilað voðalega litlu inná vellinum. Þeir voru í félagsskiptabanni þegar Turan kom og komst hann aldrei almennilega inn í leikstíl Barca. Endaði á lánsdílum í Tyrklandi þar til himinhár samningurinn rann út á tíma. André Gomez keyptu þeir á €37m, leikmaður sem var lánaður til Everton ekki það löngu seinna. Á móti týndust goðsagnir í burtu eins og Xavi, Dani Alves og Pedro. Leikmenn með DNA félagsins í blóðinu, Alves og Pedro áttu nóg eftir í boltanum.

2017/18 – Neymar sumarið

Blessunarlega fyrir Liverpool keypti PSG Neymar af Barcelona fyrir sturlaða fjárhæð. Salan á ofurstjörnu eins og Neymar setti gríðarlega pressu á forseta félagsins að skila annarri stórstjörnu í staðin og eftir nokkurra mánaða herferð til að grafa undan tengslum Coutinho við Liverpool fengu þeir stærstu stjörnu Liverpool, aftur.

Liverpool vissi vel hvað Barcelona fékk fyrir Neymar og vildi alls ekkert selja Coutinho nema fyrir fjárhæð sem ekki var hægt að hafna. Ekki ósvipað og Newcastle gerði við Liverpool þegar Torres var seldur og Carroll keyptur í staðin á gölnu yfirverði. Við sáum það ekki þá en þetta var líklega eitt mikilvægasta púslið í uppbyggingu Liverpool á meðan þessi gluggi var upphafið á hnignun Barcelona.

Þeir fengu hinn gríðarlega efnilega Dembele á svipuðum kjörum og enduðu með um €142m nettó eyðslu sumarið sem þeir fengu €222m fyrir Neymar. Hvernig er það bara hægt og mistakast svona hrikalega? Mascherano kvaddi líka, enn einn af goðsögnunum.

Dembele og Coutinho hafa skilað litlu sem engu innan vallar og eru á allt of háum launum m.v. framlag. Laun sem Barcelona losnar ekki við sársaukalaust.

Ungir leikmenn sem þóttu gríðarlega efnilegir í La Masia eins og Tello og Deulofeu fengu aldrei nein alvöru tækifæri enda keypt €135m leikmenn í sömu stöður.

€35-40m fyrir Paulinho og Semedo virkar bara eins og klink í þessu glugga en það eru leikmenn sem eru dýrari en Salah, Mané og Firmino voru fyrir Liverpool.

2018/19 – Tiltekt

Sumarið 2018 fóru Barca að lána og selja á lægra verði leikmenn sem þeir keyptu árin á undan. Iniesta kvaddi einnig, enn ein goðsögnin. Þeir náðu að taka Malcom á €41m en hann var nánast búinn að skrifa undir hjá Roma. Eins komu Lenglet og Arthur sem voru báðir ágætis kaup. Nettó eyðsla lítil sem engin sem er mjög óvenjulegt fyrir Barcelona.

2019/20 – Síðasti ofurglugginn í bili?

Barcelona eyddi rúmlega €300m sumarið 2019, stór hluti af því fór í 28 ára Antoine Griezmann frá Atletico Madríd. Leikmaður sem var frábær hjá Simeone en hefur ekki passað nærri því jafnvel hjá Barcelona. Frenkie de Jong og Pedri vinna hinsvegar á móti slíkum kaupum.

Coutinho sem kom tveimur árum áður á €135m var lánaður til liðsins sem slátraði Barcelona í Meistaradeildinni. Malcom fór strax eftir eitt tímabil og slatti af þeim leikmönnum sem þeir keyptu árin á undan. Nettó eyðsla upp á rúmlega €150m. Það væri gaman að sjá Liverpool taka einn og einn svoleiðis glugga!

2020/21 – Covid

Síðasta sumar var Covid sumarið á leikmannamarkaðnum. Barcelona gerði enn ein stórundarlegu leikmannakaupun í Pjanic á €60m, leikmaður sem fer aldrei á slíka fjárhæð. Suarez var bolað í burtu til Atletico Madríd og vann deildina fyrir þá í kjölfarið. Vel gert Barca.

Ansu Fati kom úr akademíunni, Barcelona á ennþá slatta af gríðarlega efnilegum leikmönnum sem hljóta að fá meiri sénsa á næstunni m.v. stöðu félagsins.

2021/22 – Messi

Barcelona er að missa Messi út af því að þeir geta ekki samið við hann. Þeir misstu líka af Gini Wijnaldum vegna þess að hann nennti ekki þessu bulli sem er í gangi hjá félaginu. Þeir fjórir sem eru skráðir sem nýjir leikmenn eru að ég held ekki ennþá komnir formlega af sömu ástæðu og þeir gátu ekki samið við Messi. Reyndar hefur Barca enn sem komið er ekki selt mikið af leikmönnum til að skapa eitthvað svigrúm. Framhaldið hjá þeim á leikmannamarkaðnum verður vægast sagt áhugavert.

Er Aguero t.a.m. búinn að skrifa undir hjá þeim, vill hann fara til þeirra núna þegar Messi er farinn?

+

Væntanlega léttir það að einhverju leiti spennuna að taka Messi af launaskrá, hinsvegar er á móti erfitt að verðmeta hversu mikils virði hann er þegar allt er talið markaðslega. Hann er 34 ára núna og ef allt er eðlilegt mun hægjast á honum með hverju árinu. Það þarf því ekkert að vera heimsendir fyrir Barcelona að hefja núna uppbyggingu á öðru liði, fyrir utan þá staðreynd að samningsvandræði við Messi virðast bara vera toppurinn á ísjakanum.

Það hefur þrengt mjög að spænsku risunum undanfarin ár og hugmyndir þeirra um Super League koma ekkert á óvart, sérstaklega ekki með hliðsjón af stöðu félagsins fjárhagslega. Enska deildin er orðin miklu ríkari en sú spænska og flest risaliðin eru mun betur rekin. Það er ekkert lögmál að Real Madríd og Barcelona drottni yfir öðrum liðum í Evrópu og vonandi er valdatíma þeirra nú að ljúka. Ekki það að það taki betra við í Man City, PSG og Chelsea, ríkisstyrktu Olíufélögunum.

Hvað Messi varðar er glatað að sjá hann fara til PSG og í franska boltann. Það er samt betra en að fá hann í enska boltann til annars liðs en Liverpool. Mest hefði maður virt það við hann að enda ferilinn heima í Argentínu.

4 Comments

  1. Hér mætti að sönnu minnast á launaþak spænsku deildarinnar. Lítið kostnaðaraðhald undanfarinna ára hefur leitt til þess að ekkert svigrúm er til launagreiðslna.

    1
  2. Það má ekki gleyma því að þegar t.d dembele eða coutinho t.a.m voru keypir að þetta voru leikmenn sem voru að standa sig ótrúlega vel með sínum félagsliðum. Verðmiðinn á þeim tíma voru mögulega nokkuð rétt miðað við að þeir myndu halda áfram að þróa sig sem leikmenn.

    Það að Messi sé farinn frá Barcelona er eitt mesta fótboltaklúður sem ég man eftir, leikmaður að hans kaliber hafi verið til í að taka á sig launalækkun til að spila fyrir sitt uppeldisfélag. Þetta er leikmaður sem hefði með réttu átt að hjálpa núverandi kynslóð la masia að taka við Barcelona veldinu en fyrrum forseti þeirra sá til þess að þeir þurfa að horfa á eftir besta leikmanni sögunnar

    Annars:
    Djöfull er ég spenntur fyrir fyrsta leik tímabilsins 😀

Æfingaleikur gegn Athletic á Anfield

Æfingaleikur gegn Osasuna